Forsætisnefnd 11. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um reglur sem gilda um trúnaðarmál:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu 2020 um að farið yrði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Tillögunni var vísað frá. Tillagan var lögð fram vegna þess að það var og er oft ennþá upplifun fulltrúa Flokks fólksins að reglur séu óljósar. Í svari voru reifuð hin ýmsu lög og reglur um trúnað. Í svari segir að ábyrgðin um hvort sé trúnaður eður ei liggi hjá þeim aðila sem leggur málið fram. Fulltrúa Flokks fólksins sýnist sem svo að borgarfulltrúi í meirihluta geti einfaldlega óskað eftir að mál sem hann leggur fram sé trúnaðarmál. Þetta hentar vissulega vel ef um er að ræða mál sem eru óþægileg fyrir meirihlutann eða mál sem munu varpa ljósi á neikvæða hluti í borginni. Þetta hefur ítrekað komið í ljós, kynningar sem koma illa út fyrir borgina eru stimplaðar trúnaður og sumar koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Trúnaður er settur á jafnvel þótt í gögnum séu hvergi neinar persónugreinanlegar upplýsingar s.s. sem varðar skulda, lána eða viðskiptamál einstaklings eða önnur persónugreinanleg gögn. Oft lítur svo út sem þarna sé á ferðinni hrein geðþóttaákvörðun sem síðan er fundinn staður í lögunum eftir því hvernig Reykjavíkurborg kýs að túlka þau.