Umhverfis- og skipulagsráð 2. nóvember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa, umsögn:

Fram kemur í umsögn að ,,Reykjavík fagnar því að vinna sé hafin við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni og hefur fullan áhuga á að taka þátt í þeirri vinnu.” Ekki veitir af því þar sem stefna borgarinnar í þessum málum hefur verið sérstök. Allar smá framkvæmdir svo sem að gera blómabeð eru talin styrkja líffræðilega fjölbreytni, en eyðing náttúrulegra fjara hefur ekki verið talin valda minnkun á líffræðilegri fjölbreytni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Keldur, kynning:

Keldur, vel tengt framtíðarhverfi er yfirskrift kynningar um Keldur. Þetta svæði er einstakt og því mikilvægt að vanda sig með. Leggja þarf áherslu á að nýta svæðið fyrir fólk. Atvinnuhúsnæði er rétt hjá t.d. fyrir ofan og norðan Grafarholt. Þetta er grænt svæði og tækifæri til að koma inn með blágrænar ofanvatnslausnir. Móta á staðaranda, byggð í náttúrulegu umhverfi. Hér skiptir máli að fara ekki út í neinar öfgar, þéttingaöfgar en sjálfsagt er að byggja þétt. Taka þarf mið af öðrum hverfum. Flokkur fólksins spyr eins og fjölmargir aðrir, hvenær er reiknað með að borgarlína verði komin þarna? Það er þessi tímaás sem er nokkuð á reiki. Fyrir liggur að uppbygging Keldnalandsins eigi að haldast í hendur við að borgarlína komi í hverfið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Bræðraborgarstígur 1, 3 og 5, skipulagslýsing:

Talsverð andstaða virðist vera gegn því að sameina lóðirnar 1 og 3. Áhyggjur eru af auknu byggingarmagni, reiturinn er þröngur. Athugasemdir nágranna eru margar og margs konar. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld að hlusta á nágrana og gera það með opnum huga. Vissulega er oft andstaða með breytingum og meta þarf athugasemdir af sanngirni. Ná þarf sátt milli aðila sem að málinu koma. Næsta skref er að vinna deiliskipulagslýsingu. Áhugavert verður að fylgjast með framvindu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal:

Fyrirspurn Flokks fólksins gekk út á að fá upplýsingar um óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal. Samkvæmt svari virðist sem svo að innan 6 ára frá úthlutun lóða eigi hús að hafa risið og gengið frá lóð. Þarna hafa lóðir legið auðar í 15-16 ár, nema að á þær hefur ýmislegt ófagurt safnast. En er það bara allt í lagi? Hvar er eftirlitið, hagur hverfisins og eða umsjón borgarinnar? Það á ekki að vera svo að auðar lóðir, sem einhvern tíma verður byggt á, hindri eða seinki myndum eðlilegs byggðahverfis.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að forgangsraða verkefnum í borginni. Tillögunni er vísað frá:

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að forgangsraða verkefnum í borginni, sbr. 31 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 26. október 2022.

Síðasti meirihluti sem er að mestu sá sami og sá sem ríkir nú talaði og talar mikið um samráð og gegnsæi. Sú tillaga sem hér er lögð fram, „Að borgarbúar fái sjálfir tækifæri til að koma að forgangsröðun verkefna í borginni“ er vísað frá. Í raun má segja að borgarbúar hafi lítið um stóru málin í borginni að segja. Þeir fá jú að hafa rödd þegar ákveða á um minni mál, t.d. hvar blómapottur eða bekkur á að standa en þegar kemur að t.d. að leggja torg eða að fá því framgengt að sett sé meira fjármagn til að liðka fyrir þjónustu við börn, ráða þeir litlu. Það fjármagn sem verið er að sýsla með eru peningar (útsvarsfé) borgarbúa. Auka þarf lýðræði í borginni og bjóða borgarbúum að greiða atkvæði um stórar fjárfestingar, í það minnsta að þeirra skoðun hafi alvöru vægi þegar kemur að ákvarðanatöku.

Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarbúar hafa tækifæri á að forgangsraða verkefnum í tengslum við verkefnið Hverfið mitt sem einmitt stendur yfir. Þátttakan í verkefninu hefur aldrei verið meiri og hugmyndir borgararanna aldrei fleiri. Ekki er að sjá hverju þessi tillaga um að setja hin ýmsu mál í skoðanakönnun bæti við þá vönduðu umgjörð sem þegar hefur skapast.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um geymslu hjóla- og fellihýsa (USK22100013)

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um geymslu hjóla- og fellihýsa, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 5. október 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði fyrir rafskútur (USK22100012)

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stæði fyrir rafskútur, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. október 2022.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.