You are currently viewing Hin lamandi áhrif fátæktar

Hin lamandi áhrif fátæktar

 

Hin lamandi áhrif fátæktar

 

Fátækt meðal barna á Íslandi á sér margar birtingamyndir. Þegar hugtakið „fátækt“ ber á góma dettur mörgum í hug svelti og jafnvel að viðkomandi búi á götunni. Hugtakið fátækt hefur hins vegar mun víðtækari merkingu . Í því felst m.a. að foreldrar hafi ekki ráð á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji stendur til eða eru talin almenn, jafnvel nauðsynleg. Börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Foreldrar, sem eru aðþrengdir fjárhagslega, þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða sínum knöppu fjárráðum ef endar ná ekki saman. Efst á lista er húsaskjól og aðrar grunnþarfir. Í mörgum tilvikum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í leigu. Fátækt hefur aukist hér á landi á síðustu misserum sem m.a. tengist efnahagsáhrifum  COVID-19.

Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi!

Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Íslendingar á ekki að líða fátækt. Hún leiðir til misréttis og getur haft mjög neikvæð áhrif á líf og líðan barna. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eða Barnasáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013. Hann hefur ekki verið innleiddur nema að takmörkuðu leyti. Á Íslandi standa fjölmargar barnafjölskyldur standa efnahagslega höllum fæti. Þær geta ekki veit börnum sínum nema brot af því sem börn efnameiri foreldra fá og geta. Sum börn búa við svo bágar aðstæður að þau geta ekki boðið vinum sínum heim. Sum börn fá ekki nóg að borða og fara svöng að sofa. Hér er frásögn stúlku einstæðrar móður sem býr við fátækt:

„Við mamma búum í einu litlu herbergi. Við misstum allt í Hruninu. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hef gengið í þrjá skóla og á því ekki marga vini.“
Auk stækkandi hóps sem býr við fátækt eru biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki. Samkvæmt  nýjum könnunum hefur andleg heilsa barna versnað. Áherslumál Flokks fólksins eru að bæta kjör og líðan allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnahagsþrenginga, barna, öryrkja og eldri borgara. Allir vita eða segjast vita hvaða afleiðingar áhrif skorts og langtímavöntunar hafa á börn og þroska þeirra. Stokka þarf spilin upp á nýtt og setja fólkið sjálft, heilsu þess og hag í forgang. Fólkið fyrst, síðan allt hitt!

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Birt í Fréttablaðinu 14. september 2021