You are currently viewing Óundirbúin fyrirspurn á Alþingi 21. febrúar 2022 Börnin á biðlistum

Óundirbúin fyrirspurn á Alþingi 21. febrúar 2022 Börnin á biðlistum

Fyrsta þingverkið sem varaþingmaður,  óundurbúin fyrirspurn:
Virðulegi forseti.
Spurningu minni er beint til hæstvirts mennta- og barnamálaráðherra, sem fulltrúa barnamála í ríkisstjórninni.
Biðlistar barna eftir fagþjónustu hjá stofnunum ríkisins eins og Þroska og hegðunarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð og BUGL eru í sögulegu hámarki.
Meðalbiðtíminn er frá einu og upp í tvö ár eftir þeirri þjónustu sem um ræðir. Þúsundir barna eyða stórum hluta æsku sinnar á biðlistum. Sem dæmi biðu í lok árs 2021 77 börn eftir göngudeildarþjónustu á BUGL, 39 börn eftir Transteymi og 17 börn eftir Átröskunarteyminu. 95 af þessum börnum hafa beðið lengur en 3 mánuði.
Rannsóknir og lærðar skýrslu sýna niðurstöður um vaxandi vanlíðan barna. Það er mikið áhyggjuefni. Vaxandi vanlíðan barna var áhyggjuefni fyrir Covid en hefur nú versnað enn frekar.
Spurningin er þessi:
Hefur hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra látið kanna hvernig börnin á biðlistanum eru stödd tilfinninga- og félagslega, sérstaklega þau sem hafa beðið eftir fagþjónustu í marga mánuði eða jafnvel ár?
Hefur verið rætt við börnin sjálf sem eru á biðlistanum og foreldra þeirra um hvernig þau eru að höndla biðina?
Ef ekki, hefur ráðherra áhuga á að ráðast í slíka úttekt?
Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að vandi barna sem ekki fá viðhlítandi sálfræði- og geðlæknaþjónustu er líklegur til að vaxa. Barn sem þarf að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu vegna andlegrar vanlíðunar er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana. Á meðan á langri bið stendur getur mál sem flokkað er „að þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli þá hefur vandinn átt sér aðdraganda og fengið að krauma á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Bið getur kostað líf og hefur jafnvel gert það