You are currently viewing Kynferðisofbeldi gegn börnum

Kynferðisofbeldi gegn börnum

Leiðir til verndar börnum gegn kynferðisofbeldi

Það er brýnt að leita allra leiða til að kenna börnum að verjast kynferðisofbeldi. Fræðsla af þeim toga breytir því ekki að það er fullorðna fólkið sem ber ábyrgð á börnunum.

Í samfélaginu leynast víða hættur, sumar hverjar fyrirsjáanlegar sem auðvelt er að fræða börnin um hvernig beri að varast en aðrar leyndari og þar af leiðandi hættulegri. Kynferðisafbrotamenn fyrirfinnast í okkar samfélagi eins og öðrum. Staðreyndin er sú að ekki er hægt að fría samfélagið af þessum brotamönnum fremur en öðrum.

Kynferðisofbeldi getur átt sér stað inn á heimilinu, á heimili ættingja, á heimili vina barnanna og á stöðum þar sem fólk kemur saman til tómstunda og skemmtana. Sundlaugar eru t.d. staðir sem sérstaklega eru taldir laða að gerendur kynferðisofbeldis. Í þessum aðstæðum er auðvelt að fela sig bak við nekt og nafnleysi. Einnig getur verið erfitt að átta sig á tengslum fullorðins einstaklings sem gefur sig að barni í sundlaug. Um gæti verið að ræða skyldmenni sem er með barnið í sinni umsjón eða ókunnugan aðila með einbeittan brotavilja sem þykir þekkja til barnsins.

Erfitt getur verið að komast að og upplýsa málið sé gerandinn nákominn barninu og býr jafnvel á heimili þess. Sé um að ræða aðila sem barnið „treystir“ og þykir vænt um er barnið síður líklegt til að vilja segja frá ofbeldinu.

Ákveðinn fjöldi mála af þessu tagi koma fram í dagsljósið á ári hverju. Þess vegna er það á ábyrgð aðstandenda að kenna börnunum að þekkja hættumerkin og upplýsa þau um hvar mörkin liggja þegar kemur að snertisamskiptum. Með viðeigandi leiðbeiningum má hjálpa börnunum að verða hæfari í að leggja mat á aðstæður og atferli sem kann að vera þeim skaðlegt eða ógna öryggi þeirra. Því miður er ekki hægt að fullyrða að með fræðslu einni saman sé barnið óhult gegn þeirri vá sem hér um ræðir. Engin ein leið er í sjálfu sér skotheld. Á þessu vandamáli er engin einföld lausn. Ekkert er dýrmætara en börnin okkar og þess vegna má engin varnaraðferð eða nálgun vera undanskilin.

Þau börn sem teljast helst vera í áhættuhópi eru þau sem hafa farið á mis við að vera upplýst um þessi mál með viðeigandi hætti. Önnur börn í áhættu eru t.d. þau sem eru félagslega einangruð, hafa brotna sjálfsmynd eða eiga við fötlun/röskun að stríða sem veldur því að þau geta síður greint eða varið sig í hættulegum aðstæðum eða lagt mat á einstaklinga sem hafa þann ásetning að skaða þau.

Til að auðvelda fræðsluna þarf að festa ákveðin hugtök og orðaforða í huga barnsins. Hugtakið einkastaðir“ hefur gjarnan verið notað í þessu samhengi. Börnum er bent á hverjir og hvar þeirra einkastaðir eru og að þá má enginn snerta. „Einkastaðaleikir“ eru heldur ekki leyfðir. Ræða þarf um hugtakið „leyndarmál“ og að ekki sé í boði að eiga leyndarmál sem láta manni líða illa. Fræðsla gerir barninu auðveldar að ræða um kynferðismál við þá sem það treystir. Gott er að nota dæmisögur og byrja þegar börnin eru ung og ræða þessi mál með reglubundnum hætti. Best er að nota hversdagslega atburði sem kveikju að umræðum um kynferðisofbeldi.

Skólayfirvöld og foreldrar geta með markvissum hætti sameinast um að byggja upp viðeigandi fræðslukerfi. Með fræðslu og umræðu aukast líkur á því að börn beri kennsl á hættumerkin og varast þannig einstaklinga sem hafa í huga að skaða þau. Umfram allt er mikilvægt að verði barn fyrir kynferðislegu áreiti, láti það einhvern sem það treystir strax vita.

Fræðsla um mál af þessu tagi er vandmeðfarin ef hún á ekki að vekja upp óþarfa áhyggjur hjá barninu. Hyggist skólinn bjóða upp á hana t.d. með því að fá utanaðkomandi aðila er brýnt að foreldrar séu upplýstir svo þeir geti fylgt umræðunni eftir og svarað spurningum sem kunna að vakna í kjölfarið. Hafa skal í huga að ein besta forvörn gegn ytri vá felst í fræðslu sem samræmist aldri og þroska. Með því að viðhafa heilbrigð tjáskipti og tala opinskátt við barnið eru auknar líkur á að það muni segja frá, verði það beitt kynferðisofbeldi. Börn verða að vita að fullorðnir bera ábyrgð á að vernda það.

Hvernig er hægt að efla innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofebldi?
Örnámskeið

Viðtal á Útvarpi Sögu um kynferðisofbeldi gegn börnum
Rætt er m.a. um:
Birtingamyndir kynferðisofbeldis
Hvaða börn eru helst í áhættuhópi?
Hvar getur misnotkun átt sér stað?
Þegar gerandi er nákominn
Forvarnir, fræðsla: fyrirbyggjandi aðgerðir
Viðbrögð fullorðinna þegar barn segir frá

Almennt um birtingarmyndir kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni

Kynferðisleg áreitni er samheiti yfir margs konar atferli sem er móðgandi, særandi og er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru niðurlægjandi. Um getur verið að ræða eitt skipti eða fleiri þar sem áreitninni er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn ósk um að látið sé af hegðuninni. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin, táknræn eða birst eftir rafrænum leiðum og er hegðun sem einkennist af misnotkun á valdi eða stöðu.

Enda þótt flestir séu sammála um hvað telst til almennra umgengnisreglna er upplifun fólks bæði á áreiti (stimulus) umhverfisins á skynfæri og áreitni (eitthvað sem ertir, særir eða móðgar) einstaklingsbundin. Upplifunin byggir á ótal þáttum t.d. persónuleika, uppeldi og reynslu. Það er því ávallt huglægt mat og einstaklingsbundin upplifun hvers og eins sem ræður því  hvar hann setur sín persónulegu mörk í samskiptum og hvenær honum finnst hafa verið farið yfir þau mörk.

Helstu birtingarmyndir
Klúrir og klámfengnir brandarar og kynferðislegar athugasemdir í máli eða myndum.
Skriflegar
athugasemdir um útlit, líkama, klæðnað eða annað sem að öllu jöfnu telst vera persónulegt málefni hvers og eins

Klámfengin skrif, sögur eða kynferðislegar myndir sendar eftir rafrænum leiðum eða óskað eftir að fá sent slíkt efni frá einstaklingi

Klámfengið tal, kynferðisleg hljóð eða hreyfingar

Óviðeigandi spurningar um kynferðisleg málefni 

Augnatillit, svipbrigði, líkamsmál sem gefur í skyn kynferðislega tilburði um kynferðislegt samneyti

Snerting, strokur eða önnur líkamleg nálægð umfram það sem telst venjubundið meðal fólks annarra en ástvina og fjölskyldu

Káf, þukl, klípa, klappa, strjúka, lyfta eða grípa í manneskju

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er ofbeldi og ofbeldi varðar við lög. Í umræðunni í dag er „kynferðisofbeldi eða kynbundið ofbeldi“ notað til að skýra kynferðislega áreitni af ýmsu tagi og kynferðisglæpi, líkamlega valdbeitingu og óviðeigandi kynferðislega hegðun með eða án snertingar. Kynferðisofbeldi á það sameiginlegt að þolendur þess eru beittir ofbeldi sem hefur beina skírskotun til kyns viðkomandi. Kynferðisofbeldi miðar að því að lítillækka, auðmýkja, ráða yfir og skeyta ekki um vilja eða líðan þess sem fyrir því verður Kröfur eða þvinganir til kynferðislegs samneytis og nauðgun er kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi birtist einnig í mismunandi formi. Það getur t. d. verið sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gegn börnum, nauðganir, vændi og klám. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi, meiða og skaða.

Hér er ekki um tæmandi lista að ræða heldur aðeins sýnishorn af birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og kynferðisofbeldis.