Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð

Bókun Flokks fólksins við Lýðræðisverkefnið Hverfið mitt:

Þetta verkefni er jákvætt en ferlið er býsna flókið, er á mörgum stigum og felur í sér störf fjölda sérfræðinga. Tímaramminn enn of langur. Gott er að vita að ekki er lengur neinn lágmarkskostnaður til að hugmynd komist í kosningu. Áður þurfti verkefni að kosta a.m.k. 1 milljón til þess að fara í kosningu. Viðhaldsverkefni eru ekki lengur „inni“ enn finna þarf skotheldan farveg fyrir þau verkefni. Svo eru allar hugmyndir sem eru ekki tækar. Þær geta  verið mjög áhugaverðar og skemmtilegt að skoða, líka grín hugmyndirnar. Sumir vita ekki að hægt er að sjá allar hugmyndir sem eru ekki tækar á vef borgarinnar. Það svæði er kannski ekki nógu sýnilegt?  Þeir sem eiga ekki tölvur þurfa að fá upplýsingar um að hægt er að senda inn hugmynd með því að hringja.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu mannréttindastjóra dags. 8. janúar 2021:

Mannréttindaskrifstofa leggur til að stofnaður verði samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki vera verkefni borgarkerfisins. Leiðtogar trú- og lífsskoðunarfélaga geta hist að vild eins og allir aðrir. Ekki er séð af hverju Reykjavíkurborg ætti að hafa milligöngu um að skapa farveg fyrir trúfélög til að hittast frekar en ýmsa aðra?Hvar á að draga mörkin? Þótt borgin sem slík sé ekki í því hlutverki að skapa einhvern formlegan samráðsvettvang fyrir trú- og lífsskoðunarfélög þá er ekki þar með sagt að borgin eigi ekki að vera í góðu samtali við alla þá hópa sem vilja vera í samtali við Reykjavíkurborg.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu skýrslu húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1, 101 Reykjavík – 25. júní

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur sem nauðsynlegt er að draga lærdóm af og gera nauðsynlegar breytingar í stjórnkerfinu til að hægt sé að fyrirbyggja að svona gerist aftur og til að stjórnvöld og embættismenn geta gripið inn sé grunur um að öryggi sé ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um  aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til áður að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að fá ríkari heimildir þar með talið til að gera átak gegn hættulegu húsnæði með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið verði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist þá ekki eiga frumkvæði að því að fá auknar lagaheimildir? Ekki hefur fengist nákvæm svör við spurningunni.

 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úrbætur á merkingum fyrir hreyfihamlaða á göngugötum, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. desember:

Mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráð harmar að fatlað fólk hafi orðið fyrir aðkasti gangandi vegfaranda á göngugötum miðborgarinnar er það ekur um á P merktum ökutækjum, sem það hefur fullan rétt til. Ekki má ætla að háttprúðir göngugarpar sem um þessar nýlokuðu göngugötur fara séu það ófyrirleitnir að þeir líði ekki fötluðu fólki að fara um þær. Heldur eru allar líkur á að um upplýsingaskort sé að ræða. Vel útfærð skilti segja til um bann við almennum akstri um göngugötur, en ekkert sést um þá undanþágu sem fatlað fólk á svo sannanlega að njóta. Það mætti ætla að gerð skiltis þar sem vegfarendum er gert ljóst að umferð P merktra ökutækja um göngugöturnar sé heimil sé jafn einföld og kostnaðarlítil og gerð bannskiltisins. Því leggur ráðið til að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar kanni hvers vegna skilti sem bæði upplýsi og heimili akstur P merktra ökutækja um göngugötur miðborgarinnar hafi ekki verið sett upp um leið og bannskiltin. Óskað er eftir flýtimeðferð þar sem greinilegt er að verið er að brjóta á mannréttindum fatlaðra.

Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillagan fái að eiga líf með ákveðinni breytingu enda er það alvarlegt mál ef fólk verður fyrir aðkasti þegar það er að gera hluti sem það hefur heimild til í lögum. Fullvíst má telja að ástæðan sé sú að fólk hreinlega veit ekki um þessa heimild í lögunum. Nýlega sendi Öryrkjabandalag Íslands bréf til aðgengisnefndarinnar og fór þess á leita að bætt verði úr merkingum við göngugötur í miðbænum þannig að skýrt sé að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi rétt til að aka um umræddar götur. Ganga þarf strax í að merkja þetta með fullnægjandi hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 17. desember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þátttöku borgarbúa á fundum íbúaráða, sem vísað var til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða? Í svari kemur fram að fundir íbúaráða hafa verið í fjarfundarformi og þeim streymt á Facebook-síðu og að jafnaði hafa um 20-50 verið inni á streymi funda íbúaráða hverju sinni. Ef þessar tölur eru bornar saman við fjölda íbúa sem mættu þegar íbúaráðin funduðu með hefðbundnum hætti, þá fylgjast töluvert fleiri með streymi. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins  ánægjulegt að vita. Ljóst er að fb og netið er að virka vel í þessu sambandi. Vonandi eru íbúaráðin komin til að vera enda hafa þau mikilvægu hlutverki að gegna.