Bókun Flokks fólksins við kynningu á launagreiningu Félagsvísindastofnunnar á kynbundnum launamun:
Ef horft er til þessarar greiningar sem unnin er af Félagsvísindastofnun á launamun starfsmanna Reykjavíkurborgar þá þarf greinilega að horfa til margra hluta, grunnlauna, yfirvinnu og fleira. Niðurstaðan er 0.3% munur körlum í vil. Bilið hefur klárlega farið minnkandi og því ber að fagna. Heildarlaun fólks með erlent ríkisfang er 3% lægri. Þetta er eitthvað sem mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð gæti beitt sér fyrir að lagað verði. Nýlega kom í fréttum (21. janúar) og sem sjá má á vef Eurostat, að óleiðréttur launamunur kynjanna mældist 14% árið 2019 en var 13,6% árið 2018 og hafði þá lækkað um 1,4 prósentustig frá fyrra ári. Mikill munur er á launamun kynja eftir atvinnugreinum. Í þessari greiningu sem hér er kynnt hallar einnig mjög á konur þegar horft er til starfsgreina og fleiri þátta.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á Innleiðingu þjónustustefnu, stöðu mála:
Fulltrúi Flokks fólksins sér mikilvægi í því að uppfæra og endurnýja þjónustustefnu eftir því sem tækninni fleygir fram. Spurningin hér er hvort verið sé að gera það með skynsamlegum hætti. Ekkert er sparað við útlitsvinnu, en innihaldið er loðið. Eru þetta tækniverkefni eða kaup á nýjum kerfum eða bara einhver óskilgreind hugmyndavinna? Það er ekki skýrt hvað það sem hér er kynnt skilar sér nákvæmlega í formi hagræðingar? Gróðurhúsið: Hvað er þarna á ferðinni og hvað mun koma út úr allri þessari teymisvinnu sérstaklega? Teymisvinna er dýr. Eftir hundruð milljóna ráðgjafakaup frá einkaaðilum spyr maður um lausnirnar og virkni þeirra. Þarf að útvista verkefnum og kaupa milljarða ráðgjöf til að borgin geti státað að góðri þjónustustefnu/skráningarferli? Hver á svo að mæla árangurinn? Þjónustu- nýsköpunarsvið gerir það sjálft og veldur það áhyggjum. Upplifun fulltrúa Flokks fólksins er að hér séu einhvern veginn engin takmörk þegar kemur að fjáraustri. Það verður að fá óháðan aðila, sérfræðing í fjármálum og sem hefur eitthvað vit á upplýsingatæknimálum til að skoða og meta hvort öll þessi hugmyndakaup af ráðgjafafyrirtækjum og útvistun verkefna sé eina leiðin að markmiðinu.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á Mælaborði þjónustuvers:
Mikill kostnaður er lagður í þróun þjónustu eins og ekki hafi neitt verið unnið að þróun þjónustu áður? Er verið að finna öll þessi hjól upp í fyrsta sinn? En það getur ekki verið. Gera má því skóna af kynningunni að dæma að ekki sé hægt að nýta neitt fyrri vinnu og að hugmyndavinna haldi áfram án fyrirsjáanlegs enda. Kostnaðurinn er óhemju mikill í þessu verkefni og fer til ýmissa einkaaðila sem hafa þróun borgarmála í upplýsingatækni í höndum sér. Fulltrúi Flokks fólksins fær það á tilfinninguna að hér sé í gangi „tilraunastarfsemi“ sem kostar milljarða. Fyrir þær tugi milljóna sem búið er að setja í ráðgjöf, hefði kannski verið hægt að byggja upp innviði upplýsingaþjónustunnar nú eða ráða sálfræðinga í skóla borgarinnar til að taka á 800 barna biðlista sem bíða eftir sálfræðiaðstoð? Hver getur metið árangurinn af öllu þessu sem hér er verið að kynna? Þjónustu- og nýsköpunarsvið gerir það sjálft núna en trúverðugast væri að fá mat eftirlitsaðila eins og innri endurskoðunar til að fara ofan í saumana á hvort hér sé verið að fara vel og skynsamlega með fjármuni borgarinnar. Rýna þarf í kostnað og bera hann saman við afurðina. Hvað segja borgarbúar með þjónustuna?
Bókun Flokks fólksins við kynningu á verkefninu Start up in Residence, Evrópuumsókn þjónustu- og nýsköpunarsviðs:
Hugmynd um 15 milljóna styrk er reifuð en ekki er að sjá hvað verkefnið muni kosta. Af kynningunni að dæma er þetta allt frekar ómarkvisst, blanda af óljósum hugmyndum og óljósum hugtökum. Hvað er áskorun og hvað er verkefni? Nýskapandi aðferðir í innkaupum? Markaðsbrestur í virðiskeðju sprotafyrirtækja? Þetta er með öllu óskiljanlegt venjulegu fólki. Þetta er sett í háfleygan búning þannig að erfitt er að skilja þetta og erfitt að meta hver sé eðlilegur kostnaður við þetta. Fulltrúi Flokks fólksins vill staldra við hér og láta meta mikilvægi alls þessa og hvort eðlilegt sé að eyða í þetta milljörðum úr borgarsjóði. Verið er að sýsla með útsvarsfé borgarbúa. Ávinningur og notkunargildi er með öllu óljóst og stór spurning hvort það sé í samræmi við kostnaðinn. Það er engu líkara en að þjónustu- og nýsköpunarsvið sé að verða ríki í ríkinu sem er farið að reka sína eigin alþjóðaskrifstofu ásamt því að vera með dýran áskriftarsamning við erlent ráðgjafarfyrirtæki. Það er staðreynd að gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í mörg ár í allskonar hjá þjónustu- og tæknisviðinu sem er alveg óvíst hvar endar og hvort það sé að skila sér í einhverju samræmi við mikinn kostnað.
Fyrirspurnir frá fulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu þjónustustefnu.
Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja þjónustu- og nýsköpunarsvið út í liðinn„Staða verkefna“:
Verið er að vísa í einhver „verkefni“ sem erfitt er að átta sig á. Eru þetta „tækniverkefni“ eða „kaup á nýjum kerfum“ eða bara einhver óskilgreind hugmyndavinna?
Hvað kostar þessi vinna og hverju skilar hún í formi hagræðingar?
Er þessi kostnaðarsömu leiðir einu leiðirnar sem hægt er að fara til að bjóða borgarbúum upp á góða upplýsingatækniþjónustu?
Fulltrúi Flokks fólksins spyr út í „Gróðurhúsið“:
Hvað kostar öll þessi hugmyndavinna og þetta teymi?
Hvað er reiknað með að komi út úr hópvinnunni sérstaklega og er þessi fjöldi tíma í teymisvinnu, nauðsynlegur til að ná markmiðinu?
Spurningar vegna „Stafræn umbreyting“:
Hvaða lausnir eru farnar að virka í reynd af stafrænni umbreytingu sem búið er nú þegar að verja hundruð milljóna í?
Spurningar vegna „Hugmyndavinna og þjónustuhönnun“:
Hvar er hægt að sjá lausnirnar, endapunkt hugmyndavinnunnar? Hvernig er hægt að mæla þessi huglægu fyrirbæri þannig að borgarbúar geti séð og þreifað á því sem kosta þá milljónir, jafnvel milljarða?
Fyrirspurnir fulltrúa Flokks fólksins v. „Mælaborð þjónustuvers“
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé hægt að sameina eitthvað af þessum skrifstofum undir þessu sviði t.d. „Skrifstofa þjónustuhönnunar“ og „Skrifstofa gagnaþjónustunnar“ og „Stafræn Reykjavík“ – á þetta ekki allt heima undir Upplýsingatækniskrifstofu? Ekki er beint séð að það þurfi skrifstofu undir „þjónustuhönnun“? Með sameiningu væri mikill sparnaður og hagræðing.
Spurt er einnig hvort engin hugmyndavinna hafi verið í gangi síðustu árin? En hafi verið hugmyndavinna, skilaði hún þá litlu eða engu?
Loks er spurt hvort verið sé að setja svona mikið fjármagn í svipaða þætti hjá öðrum fyrirtækjum t.d. hjá einkafyrirtækjum?
Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.