Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 13. júlí 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 7. júlí 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir samgöngutengingar í Gufunesi, ásamt fylgiskjölum:
Nauðsynlegt er að ákvarða fyrst nákvæma legu Sundabrautar áður en farið er að fjárfesta í dýrum framkvæmdum því að ekki er gott að skipuleggja lóðir og götur ef legan er ekki nákvæmlega þekkt. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til það verði gert í stað þess að fara einhverjar bráðabirgðaleiðir sem gætu átt eftir að kosta mikið en verða ekki varanlegur. Reyna þarf að komast hjá tvíverknaði. Vissulega þarf að finna samgöngutengingar. Hér er ekki hægt að hugsa í líkum, hvað mögulega kann að vera.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júlí 2021, varðandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi Dalbrautarreits vegna Leirulækjar 2:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að horfa til lengri tíma þegar verið er að skipuleggja skólalóðir. Ef horft er til lengri tíma dugar ekki til að stilla upp endalausum færanlegum kennslugámum en orðið „kennslugámar“ er notað til að lýsa þessu í gögnum sem dæmi við sambærilegri tillögu við Nauthólsveg 87. Það er óspennandi hugsun að hver skóli í Reykjavík verði sem bútasaumur í stað þess að byggja almennilegar, fallegar skólabyggingar sem falla vel að umhverfi og öðru skipulagi hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Nú á að stilla upp kennslugámum á lóð Laugalækjaskóla. Margir deila þeim áhyggjum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða við íbúa og starfsmenn skólanna í hverfinu vegna framtíð skólamála í ljósi þess að næstu ár verður byggt mikið á svæðinu. Skólarnir eru hins vegar sprungnir og það þarf að gera eitthvað. Fulltrúi Flokks fólksins var að vona að ákveðið yrði að finna varanlega lausn sem færi vel við umhverfið.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júlí 2021, varðandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kennaraháskóla Íslands og Sjómannaskólareits vegna Bólstaðarhlíðar 47:
Í tilfelli þessa hverfis á einnig að stilla upp kennslugámum sem er afar óaðlaðandi þegar horft er til lengri tíma. Hugtakið „kennslugámur“ er notað í gögnum í sambærilegu máli: Nauthólsvegur 87, skóli Hjallastefnunnar. Skammt er þangað til að hver skóli í Reykjavík verður orðinn eins og bútasaumur með kennslugámum í öllum hornum í stað þess að úthluta lóðum og byggja almennilegar, fallegar skólabyggingar sem falla vel að umhverfi og öðru skipulagi hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af framtíð skólamála í þessu hverfi og mörgum öðrum og þeim reddingum sem skipulagsyfirvöld eru að leggja hér til.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júlí 2021, varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir Nauthólsveg 87, ásamt fylgiskjölum:
Hér er verið að sækja um að framlengja leyfi kennslugáma þar til önnur lausn finnst fyrir Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Hjallastefnan hefur óskað eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíð Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og standa þær viðræður yfir eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Beðið er eftir hvað verður um lóðina nr. 81 við Nauthólsveg en skólinn missir aðstöðu sína þar sem hann er nú starfræktur á Nauthólsvegi 87 að næsta skólaári loknu að óbreyttu. Málefni skólans hafa verið í óvissu lengi og óvissa er aldrei góð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að þessi mál verði ákvörðuð í samráði við forsvarsfólk Hjallastefnuskólanna sem allra fyrst.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. júlí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hleðslustæða fyrir rafbíla í borgarlandi og í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar:
Hér er um að ræða að setja upp nýjar hleðslustöðvar. Nú er mikilvægt að vel verði að þessu staðið til að forðast kærur og dómsmál. Skemmst er að minnast úrskurðar sem kostuðu borgina 8 milljónir og 1,5 milljón í málskostnað vegna orkukaupa, og hafði þau áhrif að samningar urðu ógildir. Afleiðingar voru að ekki var hægt að nota rafhleðslustöðvar tímabundið.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. júlí 2021, varðandi úthlutun úr styrktarsjóði fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla:
Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að koma á samræmdum og sanngjörnum reglum um styrkveitingar til að setja upp hleðslustöðvar. Orkuskiptin ganga of hægt. Jafnframt er ástæða til að nefna að aðrar aðgerðir þurfa einnig að ganga hraðar. Heilmikil eldsneytisframleiðsla er á Ísland svo sem metan sem gæti verið nýtt miklu meira. Það eru ekki tæknilegar hindranir í þessu, frekar upplýsingaskortur. Hægt er að gera þetta betur og hraðar ef vilji er fyrir hendi. Þetta kostar vissulega en það styttist í að bannað verður að flytja inn bensín og olíubíla. Tryggja þarf að innlend framleiðsla blómstri, á því græða allir.
Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 20. júlí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki tillögu um tilhögun skólastarfs í Fossvogsskóla skólaárið 2021-2022:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir ályktun skólaráðs Fossvogsskóla að sviðsmyndir 1 og 5 sem kynntar voru á fundi skólaráðs í lok síðasta mánaðar með hagmunaaðilum komi ekki til greina sem úrlausn vegna húsnæðismála skólans á komandi skólaári. Skóla- og frístundaráð leggur til sviðsmynd 2 en að sviðsmynd 1 verði til vara. Gallar þeirrar síðari eru óumdeilanlegir vegna þess að hún krefst skólaaksturs allt árið og sækja börnin kennslu langt frá heimili sínu. Sviðsmynd 1 er ekki boðleg börnunum í svo langan tíma. Tekið er undir að sviðsmyndum 2, 3 og 4 verði haldið áfram opnum Það liggur fyrir að 4.-7. bekkur muni hefja skólaárið í Korpuskóla. Koma þarf nemendum í 1. til 3. bekk í tíu færanlegar kennslustofur á bílastæði við skólalóð skólans samkvæmt sviðsmynd 2 fyrir skólabyrjun mánudaginn 23. ágúst. Hér er um neyðarúrræði að ræða vegna ástand Fossvogsskóla. Nú ríður á að hlusta á foreldra og starfsfólk skólans og gera ekkert nema í fullu samráði við þá. Framundan er mikil vinna, s.s. að halda kynningarfundi með starfsfólki skólans annars vegar og foreldrum nemenda í skólanum hins vegar til að ræða mögulegar leiðir í skólastarfi fyrir fjóra elstu árganga skólans.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um Sundabraut, dags. 29. júní 2021:
Í gögnum segir að Sundabraut verður fjármögnuð með veggjöldum. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir alfarið veggjöldum. Ekki er gert ráð fyrir fjármögnun framkvæmdarinnar úr ríkissjóði. Þetta getur varla talist raunhæft að mati fulltrúa Flokks fólksins. Álagning veggjalda er röng og þess utan kallar slíkt á yfirbyggingu og er því kostnaðarsamt. Óttast er að meirihlutinn nýti sér veggjöld til að hamla notkun fjölskyldubílsins og refsa þeim sem kjósa bíl sem aðalferðamáta. Aðrar leiðir eru til en að setja á veggjöld. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur rökstutt vel að lestur á kílómetrastöðu bíls við árlega skoðun sé ódýr kostur ef leggja þarf gjald á akstur. Það kerfið er svipað og við rafmagnssölu, áætluð er notkun sem er staðfest við árlega skoðun.
Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjórnar, dags. 19. júlí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ferða sviðsstjóra og stjórnenda þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. maí 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað spurt um ferðakostnað æðstu embættismanna þjónustu og nýsköpunarsviðs en fengið í svörum hina og þessa hlekkina og sagt nánast að finna svörin sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að rýna í fundargerðir og hin og þessi svörin í leit að nákvæmum upplýsingum af t.d. ferðum sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs síðustu 4 árin. Að fá nákvæmlega þá tölu í samanburði við aðra sviðsstjóra hefur einfaldlega ekki tekist. Þegar borgarmeirihlutinn vill ekki að upplýsingar verði gagnsæjar þá verða þær ekki gagnsæjar. Í einu svari, sem sent var borgarfulltrúa Flokks fólksins kom hins vegar fram að sviðsstjóra beri ekki skylda til að upplýsa um þessar tölur en vísa til eldri gagna. Samhliða þessum svörum kemur löng runa af ákvæðum í sveitarstjórnarlögum. Í einu yfirliti um ferðir embættismanna t.d. frá 2017 má sjá að þjónustu- og nýsköpunarsvið er með kostnað upp á tæpar 600 milljónir í ferðakostnað og er það langhæsta talan. Lægst er 123 milljónir rúmar hjá skrifstofu borgarlögmanns, innri endurskoðunar og FMS (fjármálageirinn).
Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. júní 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innkaup á skólavörum, sbr. 67. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði af hverju meirihlutinn í borgarstjórn kaupir ekki skólavörur af eindri fyrirspurn falla undir núgildandi rammasamning sem gildir til 2024. Það hefur komið skýrt fram að hlutverk embættismanna sé að kaupa ódýrustu mögulegu vörur hverju sinni, án tillits til þess hver framleiðir þær eða gæða. Það er því fyrirséð að niðurstaða verði eins og áður sú að flytja þetta inn og kaupa ódýrustu mögulegu vörur. Síðan kemur Reykjavíkurborg og biður Múlalund um að taka fleiri starfsmenn af biðlistum Reykjavíkurborgar í störf við að framleiða vörur sem Reykjavíkurborg vill ekki kaupa. Sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur hafa tekið af skarið og sýnt hverju þau eru megnug að versla vörur Múlalundar í stað innfluttra vara Það að fara óhefðbundna leið eins og þá að nýta slagkraft grunnskólanna í Reykjavík sem stærsta notanda skólamappa á Íslandi, til að skapa mikilvæg störf fyrir fólk með skerta starfsorku, er pólitísk ákvörðun. Hér er borgin ekki góð fyrirmynd.
Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu- og nýsköpunarsvið og samninga við verktaka, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl 2021:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins bendir á að þetta svar fjármála- og áhættustýringarsviðs er að því virðist einungis til að taka á ákveðnum skilgreiningaþáttum um starfandi verktaka sem þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hélt fram að fyrirfinnist ekki á sviðinu. Í svarinu kemur fram að samið sé við einmenningsfyrirtæki, lítil fyrirtæki og stór en samningar eru að jafnaði gerðir við fyrirtæki en ekki einstaklinga. Einnig er sagt að mikið af þessum verkum séu verk sem eru viðvarandi. Er þá örugglega ódýrara að ráða fyrirtæki til að sinna verkinu en að hafa fastan starfsmann? Leiða milliliðir – svo sem fyrirtæki- einkahlutafélög – alltaf til þess að verkið verði ódýrara? Nefnt er sem dæmi að ,,ræstiþjónusta, símsvörun eða viðhald viðkvæmra netþjóna sem innihalda upplýsingar sem ekki er metið öruggt að þjóna með fjartengingu m.t.t. upplýsingaöryggis”. Er hér rétt metið? Finnst ekki hæft fólk í borgarkerfinu í slík störf eða hefur því öllu verið sagt upp? Eftir að reynslumiklum starfsmönnum var sagt upp hefur þessi dýra aðkeypta þjónusta margfaldast.
Bókun Flokks fólksins við svari Strætó bs., ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. júní 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar. Svar er sláandi en segir að 2018 hafi kvartanir verið 2778. Alvarlegar kvartanir eru 164. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki af hverju þetta er svona mikið, af hverju Strætó hefur ekki tekist betur upp og náð að virkja þjónustuáætlun sína betur? Taldar eru upp umbótaráætlanir en ekki kemur fram hvenær þær voru virkjaðar. Margt er sannarlega gott í þeim svo sem að marka skýra þjónustustefnu og setja upp myndavélar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst stjórnun vera slöpp. Spurning er hvort auka eigi fræðslu til starfsmanna og þjálfun. Rýna þetta betur og finna lausnir sem virka. Í raun hafa þessi mál ekkert skánað. Fulltrúi Flokks fólksins fékk ámóta svar 2019 og þá höfðu borist tæplega 9 þúsund kvartanir á þremur árum. Svona litu síðustu ár út: Hér að má sjá skiptinguna á fjölda kvartana til Strætó eftir árum. Flestar voru þær árið 2016, en minnkuðu um rúmlega þúsund árið eftir. Þeim fjölgar hinsvegar aftur 2018. 2016 – 3654 ábendingar, 2017 – 2536 ábendingar, 2018 – 2778 ábendingar. Ekki kemur fram fjöldi kvartana 2019 og hefur fulltrúi Flokks fólksins óskað eftir þeim upplýsingum en ekki fengið.
Bókun Flokks fólksins við Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 13. júlí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bruna í Seljaskóla, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um endurbætur eftir brunann í Seljaskóla. Í svari kemur fram að húsgögn og búnaður var uppfærður í Seljaskóla eftir brunann en annað er að mestu óljóst, s.s. varanleg framtíðarlausn húsnæðis smíðastofu. Þar er aðstaðan enn í bráðabirgðahúsnæði sem er ófullnægjandi eins og fram kemur og enn eru sömu húsgögn í smíðastofunni. Fulltrúi Flokks fólksins undrar sig á hversu hægt þetta gengur. Langt er liðið frá brunanum. Starfshópur hefur skilað skýrslu með tillögum svo ekki stendur á því. Hvað veldur því að ekki hefur verið unnið markvisst og hraðar að málum? Nú líður senn að skóli hefst á nýju og er óviðunandi að bjóða börnum og starfsfólki upp á áframhaldandi ófullnægjandi aðstæður. Hér verður borgarmeirihlutinn að taka sig á. Þessi mál eru sífellt látin sitja á hakanum.
Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 13. júlí 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu þeirra barna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020:
Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvar börnin sem bíða eftir plássi í Brúarskóla eru stödd og hver sé staða þeirra. Börnin sem bíða eru 19. Fram kemur í svari að ekki hefur losnað pláss á unglingastigi en þar bíða nú 10 nemendur eftir plássi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst leitt að sjá að ekki er hægt að segja til um hvenær þessir nemendur komast í Brúarskóla en þeir stunda nú nám í heimaskóla sínum þar sem gera má ráð fyrir að ekki sé hægt að mæta öllum þörfum þeirra enda væru þeir annars ekki á biðlista í Brúarskóla. Skortur á sértækum námsúrræðum hefur verið viðvarandi vandi í Reykjavík. Í „skóla án aðgreiningar” eru börn ekki að fá sérþörfum sínum mætt og líður mörgum þeirra illa í almennum bekk þar sem þau stunda ekki nám meðal jafningja. Fleiri sérúrræði þurfa að koma til eða styrkja skóla án aðgreiningar nægjanlega til að hann reynist fullnægjandi úrræði fyrir öll börn í Reykjavík.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð menningar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. júní 2021:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst dans- og fimleikahús góð hugmynd enda þótt eigi eftir að útfæra hlutverk hússins. Það skýtur nokkuð skökku við að Leiknir skuli ekki koma þarna að en þeir hafa aðsetur í götunni sem húsið á að standa. Ef horft er til Leiknis þá hefur ekki komið nægjanlega vel fram við Leikni, félag sem berst í bökkum í hverfi sem er krefjandi vegna þess að þar er hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt. Illa hefur gengið að virkja börnin til þátttöku í íþróttir og tómstundir m.a. vegna tungumálaerfiðleika og kannski einnig vegna strangra skilyrða reglna frístundakortsins. Leiknir hefur lengi viljað víkka út starfsemi sína. Í raun lifir félagið vegna þrautseigju starfsmanna. Með því að hleypa ekki Leikni að þessu verkefni er verið að senda því köld skilaboð eftir allt það frábæra starf sem þar hefur verið frá 1973. Þarna er búið að byggja upp frábæra menningu og starf í þágu innflytjenda og nýbúa í hverfinu. Leiknir er sérlega vel metið í hverfinu og kallar það á að borgaryfirvöld sýni því viðhlítandi virðingu og stuðning. Félagið vantar aðstöðu til að geta boðið uppá fjölbreyttara íþróttastarf til að höfða til breiðari hóps barna í því blómstrandi fjölmenningarsamfélagi sem það starfar í.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 18. júní 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka við þrjá liði í þessari fundargerð. 4. liður. Farið yfir niðurstöður endurskoðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á mönnun forvarna- og aðgerðasviða Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins m.t.t. uppfyllingar laga, reglugerða og leiðbeininga sem um starfsemina gilda í samræmi við ákvæði brunavarnaáætlunar, sbr. 3 grein í reglugerð. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort slökkviliðið (SHS) uppfylli þessar kröfur og nái að skoða þær eignir sem þeir eiga að gera. Ekki getur verið mikill tími til þjálfunar ef mikið er að gera í verktöku á sama tíma. Liður 5. Drög að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á verktaka við sjúkraflutninga er algeng. Eru slökkviliðin að láta ríkið borga stóran hluta verkefna sem sveitarfélögin eiga að gera þ.e.a.s. slökkviliðin? Liður 7. Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Heilbrigðisráðherra ákvað í apríl 2020 að verja einum milljarði í sérstakar álagsgreiðslur fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins áréttaði í bréfi í sama mánuði að sjúkraflutningum væri sinnt af heilbrigðisstarfsfólki hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem sinna sjúkraflutningum enda þeir á forræði ríkisins í verktöku hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þá spyr fulltrúi Flokks fólksins, eru slökkviliðsmenn heilbrigðisstarfsfólk þegar þeir vinna við sjúkraflutninga?
Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar stjórnar Strætó bs. frá 11. júní 2021.
Fram kemur í fundargerð í lið 2 í fundargerð Strætó bs. að sviðsstjóri mannauðs- og gæðamála fór yfir tölfræði úr vinnustaðagreiningu þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi. Ekki kemur fram hverjar niðurstöður voru. Fulltrúi Flokks fólksins finnst að vel hefði mátt segja nokkur orð um hverjar niðurstöður vinnustaðagreiningarinnar voru.
Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar stjórnar SORPU bs. frá 28. maí og 24. júní 2021:
Sorpa hefur ákveðið að leggja 500 króna álagsgjald á hvern ógagnsæjan poka sem viðskiptavinir endurvinnslustöðva skila. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta aðeins vanhugsað því ekki er alveg ljóst hvað sé átt við með ,,gagnsæum“ pokum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að hindra notkun svartra plastpoka, en fólk kemur með sorp kannski í taupokum eða pappírspokum, sem ekki eru gagnsæir. Á að leggja gjald á þá líka?
Bókun Flokks fólksins við 31 lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 7. júlí 2021:
Það vakti undrun að borgin keypti rándýra þjónustu EFLU til að halda utan um talningu nagladekkja. Verkefni af þessu tagi hefðu starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs vel geta annast, nóg fer nú samt af fjármagni borgarinnar til ráðgjafafyrirtækja. Það er ekki hægt að una við að farið sé svo illa með fé borgarbúa. Fjárhæðin sem EFLA fær fyrir verkið er trúnaðarmál. Borgaryfirvöld vilja ekki að borgarbúar viti hvað þetta kostar mikið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki boðlegt að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir borgarbúum í allri umræðu meirihlutans um gagnsæi. Svörin við fyrirspurn Flokks fólksins um þessi mál bera það með sér að engin ástæða er til að fá verkfræðistofu til að sjá um talningarnar. Starfsmenn borgarinnar geta auðveldlega séð um þetta og enga sérfræðimenntun þarf til að telja dekk eða halda utan um slíkt verkefni. Hér er augljóslega verið að sóa fé borgarbúa með óþarfa milliliði. Bent er á að einingarverð verkfræðistofunnar er tæpar 15 þúsund/klst. Hver hálftími sem er skráður á samskipti- sennilega eitt símtal, kostar sitt, eða rúmar sjö þúsund krónur.
Bókun Flokks fólksins við 7 lið embættisafgreiðslna er varðar yfirlýsingu frá Vinum Vatnsendahvarfs:
Vatnsendasvæðið er gróðursælt svæði. Nú á að leggja veg þvert yfir hæðina og skera hana í tvennt og þar með breyta ásýnd hennar og notagildi til frambúðar. Umhverfismat er frá 2003 en þá var talið að vegalagningin myndi hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Framkvæmdin mun hins vegar hafa veruleg áhrif á þessa þætti núna. Verkfræðistofur koma ávallt með niðurstöður sem samræmast væntingum Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna. Náttúra, umhverfi og útivistarmöguleikar eru ekki sett í fyrsta sæti þegar kemur að framkvæmdum. Samkvæmt nýju hverfisskipulagi sést að Arnarnesvegur mun liggja þétt upp við fyrirhugaðan vetrargarð. Sleðabrautin sem yngstu börnin munu nota mest mun liggja næst fjögurra akreina stofnbrautinni og tvöföldu hringtorgi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur að skoða þurfi hvaða áhrif mengunin af veginum muni hafa á viðkvæm lungu barnanna sem leika sér í návígi við veginn. Ekkert umhverfismat um það liggur fyrir því að ekki var gert ráð fyrir vetrargarðinum í fyrra umhverfismati sem er tveggja áratuga gamalt. Það getur varla samræmst lýðheilsu sjónarmiðum borgarinnar að setja leiksvæði barna á horn tveggja stofnbrauta með samtals 10 akreinar. Vegurinn er ógn við lýðheilsu íbúa. Vegalagningunni hefur verið mótmælt á öllum skipulagsstigum undanfarin 40 ár. Kallað er eftir nýju umhverfismati.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki sé tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum þar sem það getur haft áhrif á að Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu:
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé tímabært að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hætti verktöku í sjúkraflutningum þar sem það getur haft áhrif á að Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur lögbundin verkefni sbr. 3. gr. reglugerðar um slökkvilið sem er allt slökkvistarf innan og utanhúss, viðbrögð við mengunarslysum og fjölmargt fleira sbr. reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um starfsemi slökkviliða er heimilt er að fela slökkviliði önnur verkefni en þau sem kveðið er á um í 3. gr. Verktakavinna má þó ekki draga úr getu slökkviliðs til að sinna lögbundnum verkefnum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta tvennt sé ekki ósamrýmanlegt? Ítrekað hefur komið fram að skortur er á mannafla í slökkviliðinu og þegar stórbruni eða mörg útköll bera að höndum, vanti fólk til starfa. Það segir sig sjálft að það hljóta að koma tilfelli þar sem slökkviliðsmaður er ekki til taks til að sinna lögbundnu verki vegna verkefna sem hann hefur fengið leyfi til að taka að sér sem verktaki. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé kominn tími til að leggja af þessa verktöku og að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinni einvörðungu lögbundnu hlutverki sínu og hafi þá rýmri tíma til æfinga og þjálfunar starfsfólks síns?
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ítrekun á fyrirspurnum um starfsánægjukönn sem birt var í nóvember 2020:
Fulltrúi Flokks fólksins sendi inn fyrirspurnir til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 6. maí sl. um frekari upplýsingar úr starfsánægjukönnun slökkviliðsins á á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hafa borist svör og vill fulltrúi Flokks fólksins því ítreka fyrirspurnirnar og að svör berist hið fyrsta. Niðurstöður umræddrar starfsánægjukönnunar komu illa út en þær voru fyrst birtar í nóvember 2020. Þess vegna vildi fulltrúi Flokks fólksins fá nánari upplýsingar um niðurstöðurnar og frekari sundurliðanir.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins blásið verði meira lífi í Árbæjarsafn og svæðið þar í kring:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til blásið verði meira lífi í Árbæjarsafn og svæðið þar í kring. Enda þótt eitt og annað sé þar á döfinni fer lítið fyrir Árbæjarsafni í hugum margra. Fulltrúi Flokks fólksins telur að viðburðir sem þar eru mættu vera fleiri. Sem dæmi er dagskrá fyrir skipulagða viðburði aðeins á sunnudögum og þriðjudögum enda þótt safnið sé opið alla daga yfir sumarið. Lagt er til að þarna verði vikulegur markaður og meira um að vera en nú enda bíður svæðið í heild sinni upp á mikla möguleika. Vel mætti hugsa sér að hafa þarna kaffihús og krá ef því er að skipta og fjölbreyttar uppákomur sem laða fólk að og veita því ánægju. Árbæjarsafnshúsin og svæðið allt í kring er einstakt og ætti það að vera metnaður borgarmeirihlutans og þeirra sem hafa umsjón með safninu og svæðinu að sem flestir komi þangað til að njóta húsakynna og umhverfis. Fegurð og saga staðarins í bland við markaði, veitingasölu, og styttri viðburði og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að og gefur staðnum líf. Fjölga mætti litlum leiktækjum og stilla upp fleiri afþreyingarmöguleikum sem henta þarna. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að gefa þessu gaum enda svæði sem tilheyrir okkur öllum.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fá að sjá þessar niðurstöður, ekki síst í ljósi mikils fjölda kvartana sem Strætó bs. berst árlega:
Í fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 11. júní 2021 er sagt frá því að sviðsstjóri mannauðs- og gæðamála hafi farið yfir tölfræði úr vinnustaðagreiningu þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að sjá þessar niðurstöður, ekki síst í ljósi mikils fjölda kvartana sem Strætó bs. berst árlega. Eins og allir vita hanga þessi tveir þættir iðulega saman, líðan og metnaður í starfi og gæði þjónustu.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hver er ávinningur Reykjavíkurborgar að reka fasta starfsmenn með mikla reynslu og ráða inn verktaka í sömu störf?:
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hver er ávinningur Reykjavíkurborgar að reka fasta starfsmenn með mikla reynslu og ráða inn verktaka í sömu störf? Einnig langar borgarfulltrúann að vita hvernig það má vera að starfsmenn sem sviðið þarf að láta aðra verktaka þjálfa upp sé ódýrara og hagkvæmara en að halda föstum kjarna fastra starfsmanna. Óskað er eftir að fá tölulegar upplýsingar þar sem þessi samanburður er gerður.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort taka eigi einnig gjald fyrir tau- og pappírspoka: hjá Sorpu
Sorpa hefur ákveðið að leggja 500 króna álagsgjald á hvern ógagnsæjan poka sem viðskiptavinir endurvinnslustöðva skila. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað sé átt við með ,,gagnsæjum“ pokum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að hindra notkun svartra plastpoka, en hvað með pappírspoka sem líka eru ógagnsæir? Þarf ekki að hugsa þetta aðeins meira og dýpra?
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað við breytingar á 500 strætóstoppistöðvum sem fá ný nöfn, skipta á út skiltum og uppfæra tölvukerfi:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað við breytingar á 500 strætóstoppistöðvum sem fá ný nöfn, skipta á út skiltum og uppfæra tölvukerfi. Hvað munu þessar breytingar, skiltabreytingar og fleira þessu tengt kosta í heild sinni? Hvað munu þessar uppfærslur í tölvukerfum kosta, hvers eðlis eru þær og mun það fjármagn vera tekið af 10 milljarða króna innspýtingu til þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Eru þessar uppfærslur unnar af launum starfsmönnum eða verktökum?
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á slóðum þannig að hægt verði einnig að fara með þriggja hjóla barnakerrur um þær. Þessir slóðar (brautir) sem verið er að steypa í nýjum hverfum eru hefðbundnir með tveimur steyptum brautum og tröppum á milli og er því útilokað að fara um þær með þriggja hjóla kerru. Frestað.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins endurskoðun á stígum í Úlfarsárdal sem eru með miklum halla og mörgum tröppum:
Í Úlfarsárdal eru tröppur víða og hafa börn sem koma hjólandi í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppur auk þess sem hjólastígar eru víða krappir. Taka þarf hjólastíga á þessu svæði til endurskoðunar og gera þá þannig að þeir séu aflíðandi og ekki með krappar beygjur. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka dæmi frá Nönnubrunni og niður að Dalskóla. Hér er um að ræða tiltölulega nýtt hverfi og er afar óheppilegt að hönnun sé ekki betri en þetta þegar horft er til barna sem fara um hjólandi. Þetta þarf að endurskoða. Tröppur eru auk þess erfiðar fyrir marga aðra t.d. þá sem eru með skerta hreyfigetu, þá sem eru með börn í kerrum og hjólreiðafólk.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að skoðað verði að koma upp tennisvelli í Úlfarsárdal í nýju íþrótta-byggingunni:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að koma upp tennisvelli í Úlfarsárdal í nýju íþrótta-byggingunni. Enginn tennisvöllur er á þessu svæði. Núna eru tennisvellir utanhúss,í Laugardal og Fossvogi. Þá liggja fyrir hugmyndir um tennisvelli við Álfheima og tennishús við hlið íþróttahúsa TBR. Úlfarsárdalur og nágrenni er fjölmennt svæði og því sjálfsagt að hafa sérstaka tennisvallaraðstöðu þar. R21070168
Frestað.
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn ræði og bregðist við vaxandi slysatíðni á rafhlaupahjólum:
Fulltrúi Flokks fólksins telur nauðsynlegt að borgarmeirihlutinn ræði og bregðist við vaxandi slysatíðni á rafhlaupahjólum eða rafskreppum eins og fulltrúi Flokks fólksins finnst þessi hjól ættu frekar að kallast. Fram hefur komið ítrekað að rafhlaupahjól eru stundum notuð af fólki undir áhrifum áfengis- og/eða vímuefna til að koma sér milli staða í miðbænum eða frá miðbænum og heim til sín eftir eftir skemmtun í bænum. Ekki er hægt að horfa fram hjá þessu vandamáli og hafa aðrar borgir brugðist við m.a. með því að takmarka útleigu þeirra eftir ákveðinn tíma að kvöldi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgarmeirihlutinn geti ekki setið hjá . Skoða þarf frekari fræðslu og sérstaklega fræðslu í grunnskólum. Skerpa þarf á reglum. Ef heldur sem horfir gæti þurft að herða enn frekar á reglum og aðgengi að rafhlaupahjólum. Skerpa þarf jafnframt enn frekar á að bannað er að hjóla á þeim undir áhrifum áfengis og verði þær reglur brotnar þurfa að vera einhver viðurlög. Annað vandamál er að fólk, sumt hvert skilur þessi hjól eftir á víð og dreif. Nú má iðulega sjá rafhlaupahjól liggja við og á gangstéttum og skapa víða hættu. Samkvæmt umferðarlögum mega rafhlaupahjól eingöngu vera á gangstéttum og göngustígum, ekki á götum. R21070169
Frestað.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um af hverju Strætó tekur þátt í drónaverkefni og hvað þátttakan kostar?:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um af hverju Strætó bs. samþykkir að taka að verkefni fyrir gagnaöflunarfyrirtæki sem felst í því að leyfa að drónum að lenda á strætó? Hlutverk Strætó er að flytja fólk og farangur þess á milli staða. Það er umhugsunarvert að mati fulltrúa Flokks fólksins að Strætó ákveði að eyða kröftum og fjármunum í að prófa einhverjar framtíðarhugmyndir með einkafyrirtækjum. Þótt verkefni sé styrkt dugar styrkurinn sjaldan fyrir öllum kostnaði. Almennur ávinningur er án efa af slíkum verkefnum en af hverju á Strætó að gera slíkt? Til eru víða um heim fyrirtæki sem geta gert þetta. Minnt er á að fyrir nokkrum árum tók Strætó að sér að prófa vetnisvagna fyrir þýsk fyrirtæki sem var þó vissulega nærtækara fyrir Strætó en drónaflutningar en það ævintýri kostaði Strætó mikið fé. Í þessu tilfelli er Strætó notað til að leysa vandamálin við drónaflug, annars vegar til að hlaða sig og hins vegar til að komast leiðar sinnar. Fulltrúi Flokks fólksins vill meina að Strætó eigi að líta sér nær og byrja sem dæmi á að leysa þjónustuvandann en tæplega 3000 þúsund kvartanir berast árlega vegna slakrar þjónustu.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við niðurstöðum Gallups sem sýnir að notkun einkabílsins er óbreytt í 13 ár:
Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í vikunni ferðast stærsti hluti Íslendinga til vinnu eða skóla á einkabíl. Alls nýta um þrír fjórðu landsmanna sér þennan ferðamáta, en aðrir fara fótgangandi, á reiðhjóli eða með almenningssamgöngum. Niðurstöðurnar eru í takti við það sem mældist í sams konar könnun fyrir þrettán árum sem segir að lítil sem engin breyting hefur átt sér stað í 13 ár. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig borgaryfirvöld ætla að bregðast við þessu? Einnig kom fram í niðurstöðum að íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri til að keyra en landsbyggðarfólkið. Umferðarteppur í Reykjavík eru margar og íþyngjandi og eru nánast allan daginn á sumum stöðum. Hyggst borgarmeirihlutinn gera eitthvað í þessum málum til að bæta ástandið?
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framtíð skólamála í Laugardal en þar eru skólar sprungnir:
Fulltrúi Flokks fólksins telur framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi óljósa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við íbúa og einstaka starfsmenn skólanna í hverfinu um framtíð skólamála í ljósi þess að næstu ár verður byggt mikið á svæðinu. Skólarnir eru hins vegar sprungnir. Til að „redda“ málum á að stilla upp kennslugámum í hvert horn. Ekkert annað er á teikniborðinu eða fast í hendir þegar kemur að uppbyggingu leik- og grunnskóla. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir ítarlegum upplýsingum um hvað til stendur að gera til lengri tíma eða hvort senda eigi börnin þegar fram líða stundir í skóla utan hverfis, eða halda áfram að planta kennslugámum á auða bletti í kringum skólanna? Það er óspennandi hugsun að hver skóli í Reykjavík verði sem bútasaumur í stað þess að byggja almennilegar, fallegar skólabyggingar sem falla vel að umhverfi og öðru skipulagi hverfisins.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ferðakostnað æðstu embættismanna á þjónustu og nýsköpunarsviði:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað spurt um ferðakostnað æðstu embættismanns/manna þjónustu og nýsköpunarsviðs en fengið í svörum hina og þessa hlekkina og sagt nánast að finna svörin sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að rýna í fundargerðir og hin og þessi svörin í leit að nákvæmum upplýsingum af t.d. ferðum sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs síðustu 4 árin. Að fá nákvæmlega þá tölu í samanburði við aðra yfirmenn/sviðsstjóra hefur einfaldlega ekki tekist. Í einu svari, sem sent var borgarfulltrúa Flokks fólksins kom hins vegar fram að sviðsstjóra beri ekki skylda til að upplýsa um þessar tölur en vísa til eldri gagna. Það dugar ekki fulltrúa Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur því fram enn á ný fyrirspurn varðandi ferðakostnað æðstu embættismanna Reykjavíkurborgar. Hver er ferðakostnaður hvers sviðs- og skrifstofustjóra í yfirstjórn Reykjavíkurborgar undanfarin 4 ár? Bent er á að eingöngu er verið að spyrja um kostnað hvers og eins embættismanns skrifstofu eða sviðsstjóra en ekki heildarkostnað hverrar skrifstofu eða sviðs.