Skipulags- og samgönguráð 10. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Nýi Skerjafjörður. Breytt landnotkun, breyting á aðalskipulagi:

Í athugasemdum kemur fram andstaða við fyrirhugaða landfyllingu. Flokkur fólksins leggur til að hætt verði við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli:

“ Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi”. ”Af hverju ætti þá að vera í lagi fyrir borgaryfirvöld að leggja út í framkvæmd af þessari stærðargráðu án þess að gefa íbúum tækifæri á að hafa um það að segja?” “Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík“. Ef markmið með þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagsmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður. “Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.”

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi formanns íbúaráðs Vesturbæjar til skipulags- og samgönguráðs, dags. 15. janúar 2021, vegna battavallar á Landakotstúni ásamt bréfi skólastjóra Landakotsskóla til borgarstjóra, dags. 16. desember 2017:

Þetta virðist vera góður kostur og bæta umhverfið fyrir börn og unglinga þ.e. ef þetta er í sátt við nærliggjandi íbúa. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst var af íbúum í Skaptahlíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar ef komin er góð lausn í þetta mál.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsagnar vegna fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um EasyPark, dags. 4. febrúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta svar vera óljóst og spyr hvers vegna þarf að gera einfalt mál flókið? Að greiða fyrir bílastæði ætti að vera einfalt. Það kerfi sem nú er við líði er flókið mörgum. Fólk hefur því neyðst til að nota lausnir þriðja aðila sem eykur enn kostnaðinn við að leggja í gjaldskyld svæði.

Að setja upp þessa mæla voru mistök. Á þessu svæði hefði verið tilvalið að notast við bifreiðastæðaklukkur t.d. í miðbænum. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eru víða notaðar í öðrum sveitarfélögum. Bifreiðaklukka gæti einnig komið að gagni kringum háskóla eins og Flokkur fólksins hefur áður nefnt. Framrúðuskífa hentar vel þar sem fólk þarf að skjótast inn í 1-2 tíma. Eldri borgara eiga erfitt með þessa mæla og sumir treysta sér ekki að nota bílastæðaapp. Þetta er vandamál í kringum Landspítala sem dæmi. Tímabært er að skoða hlutverk bílastæðasjóðs. Kanna þarf hvort ekki er hægt að finna aðrar vinsamlegri leiðir til að hvetja fólk til að koma í bæinn. Bílastæðahús ættu að vera aðlaðandi kostur en mörg þeirra standa ansi mikið auð. Hafa mætti í einhverjum þeirra frí stæði sem myndi hvetja fólk til að koma og umfram allt leggja þá frekar í „húsin“ en á götuna.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrslu Gallup um Rafhlaupahjólanotkun Reykvíkinga, dags. nóvember-desember 2020:

Fram kemur að fáir nota rafhlaupahjól og kemur það kannski ekki beint á óvart. Mikill munur er á notkun rafhlaupahjóla eftir hverfum. Notkun er lang minnst í úthverfunum. Þetta endurspeglar m.a. að stígar þar eru víða slæmir, gerðir upphaflega sem göngustígar með kröppum beygjum og blindhornum víða. Þetta þarf að laga ef stígakerfin eiga að nýtast til samgangna. Ójafnt yfirborð og sleipir stígar eru helstu orsakir óhappa. Hjólin eru nú notuð almennt til ferða í örfáar mínútur og notuð meira af yngra fólki en eldra fólki, af körlum frekar en konum eins og fram kemur í þessari könnun. Eitt er að að leiga sér hjól til skemmtunar og annað að nota það sem „aðal“ samgöngutæki sitt. Vert væri að skoða hverjir eru líklegir til þess að nota þau sem aðal samgöngutæki sitt, hvernig er lífstíll þeirra, fjölskylduaðstæður (þeir sem eru með börn eru að fara með þau í skóla og íþróttir) og fleira t.d. er þetta bílaeigendur? Svo má ætla að veðurfar hér spili stórt hlutverk þegar fólk velur sér aðal-samgöngutæki til að fara á milli staða.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um verkferla vegna ósvaraðra erinda:

Flokkur fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagssvið fari með markvissum hætti yfir verkferla sem lúta af því hvenær erindum er svarað og þá hvernig og hvað líður langur tími frá því erindi berst og þar til viðkomandi fær svar/viðbrögð.

Á RÚV í vikunni var rætt við konu sem átti erindi við skipulagsyfirvöld vegna leigu á gömlum skúr sem borgin átti. Konan lýsti því að hún náði aldrei sambandi við meirihlutann/skipulagsyfirvöld þrátt fyrir að hafa marg reynt ýmist með skeytum eða símhringingum. Nú hefur fulltrúi Flokks fólksins áður nefnt þetta við skipulagsráð (USK) og sviðið að það sé því miður of algengt að fólk kvarti yfir að erindi þeirra séu hunsuð. Það er alveg ljóst að bæta þarf viðbrögð við erindum fólks, svörun í síma, svörun skeyta og stytting biðtíma eftir viðtali ef það er það sem óskað er eftir. Fulltrúi Flokks fólksins vill auk þess hvetja skipulags- og samgöngusvið allt að skoða aftur í tímann hvaða erindi hafa með öllu verið hunsuð, hafa samband við aðila, leysa málið ef þess er enn kostur og biðja fólk afsökunar.

Frestað.