Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð 28. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu Reykjavíkurborgar og Rauða Krossins um stöðu fólks á flótta og við tillögu fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða um fólk á flótta, sem vísað var til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, af sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 12. maí 2020.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar kynningu um stöðu fólks á flótta og tillögu ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að bjóða nemendum grunnskóla borgarinnar aukna  fræðslu um fólk á flótta og stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Fulltrúi Flokks fólksins þekki vel til málefna þessa fólks eftir áralanga vinnu með umsækjendum um alþjóðlega vernd.  Oft er það eina sem fólk veit um þennan hóp það sem fram kemur í fréttum og þess vegna er fræðsla afar mikilvæg. Þessi hópur er fjölbreyttur og er að koma úr ólíkum aðstæðum sem eiga það þó sammerkt að eru mjög erfiðar, í mörgum tilfellum erfiðari en hægt er að lýsa. Lífsreynsla umsækjenda er oft erfið. Sumir hafa orðið fyrir ofbeldi þ.m.t. kynferðislegu ofbeldi og jafnvel pyntingum. Börnin eiga í flestum tilfellum erfiða reynslu að baki, hafa verið vitni af ofbeldi og sum sætt illri meðferð. Mörg hafa verið í lífshættulegum aðstæðum og glíma við afleiðingar alvarlegra áfalla. Þjónusta borgarinnar gagnvart þessum viðkvæma hóp er góð ef tekið er mið af hversu hratt þessi hópur hefur stækkað. Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu ungmennaráðsins heilshugar.

Bókun Flokks fólksins við kynningu starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar allri fræðslu, fræðsla og upplýsingar eru ávallt af því góða. Hvað varðar hinsegin fræðslu vantar ekki hvað síst meira af hinsegin bókmenntum  fyrir krakka sem er auðvitað hluti af hinsegin fræðslu skólanna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni, sem vísað var til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, af sameiginlegum fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna, sbr. 7. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 12. maí 2020.

Tillaga liggur fyrir frá fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni. Þetta er góð og nauðsynleg tillaga. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Ekki er vel vitað hvort og þá hvernig þessi fræðsla hefur skilað sér til barna og ungmenna eða hvað þeim og foreldrum þeirra finnst um hana. Ef horft er til ólíkra þátta blasir við að jafnrétti hefur vaxið jafnt og þétt en skoða þarf hvaða hluta fræðslunnar þarf mögulega að auka og dýpka.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 19. janúar 2021, vegna tillögu um akstur p – merktra ökutækja. R21020107

Svo virðist sem allir séu sammála um að bæta upplýsingagjöf og merkingar. Krafa er komin frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Hlutir ganga of hægt. Það er ótækt að fólk sem ekur P merktum bílum göngugötur skuli verða fyrir aðkasti. Útbúa þarf merkingar hið snarasta. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld að draga ekki lappirnar lengur í þessum efnum og vill að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti skipulagsyfirvöld þrýstingi í þessum efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að bæta upplýsingagjöf og merkingar. Krafa er komin frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks.

Samþykkt að vísa tillögunni frá, með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata.

Tillaga Flokks fólksins var um úrbætur á merkingum fyrir hreyfihamlaða á göngugötum. Tillögunni er vísað frá. Það er krafa fulltrúa Flokks fólksins fyrir hönd fatlaðs fólks að sett verði upp skilti sem staðfesti rétt hreyfihamlaðra til að keyra á göngugötunum. Borgin hefur borið fyrir sig að  slík umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins aðeins fyrirsláttur. Enn liggur ekki fyrir um hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta.

 

Bókun Flokks fólksins við umsögn mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík til 2030.

Skýrslan um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík er ágætlega unnin. Fulltrúi Flokks fólksins telur þó að það hefði verið nauðsynlegt að taka samhliða inn í vinnu hópsins uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum til að skoða leiðir til að draga úr ójöfnuði. Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sína að rekja aðallega til bágs efnahags foreldra og skorts á eftirspurn. Ávarpa þarf þessa þætti betur í skýrslunni og finna markvissar leiðir til að börn geti setið við sama borð í þessum efnum. Ef horft er til skólahljómsveita sem gæti verið mótvægisaðgerð þá eru þær aðeins 4 í borginni. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 19. 9. 2019, tillögu að skólahljómsveitir verði í öllum 10 hverfum borgarinnar en hún var felld. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og  ekki er á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar gæti þátttaka í skólahljómsveit verið  valmöguleiki. Þá væri í það minnsta aðeins dregið úr ójöfnuði og mismunun á  grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu samþykktar Sameinuðu þjóðanna með tilliti til aðgengis fatlaðra á allri þjónustu sem veitt er í borginni, sbr. 23. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 13. febrúar 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um innleiðingu samþykktar Sameinuðu þjóðanna með tilliti til aðgengis fatlaðra á allri þjónustu. Í svari kemur fram að á þessi mál sé lögð mikil áhersla en ekki sé ávarpað sérstaklega í samningi Sameinuðu þjóðanna aðgengi fatlaðs fólks að göngugötum. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hefur beðið um að sett verði skilti  við göngugötur í miðbænum þannig að fatlað fólk verði síður fyrir aðkasti aki það göngugötur eins og raun ber vitni. Slík skilti eru sögð ekki vera til. Óvíst er og óljóst hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 13. janúar var tillögu Flokks fólksins um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum þeirra sem notast við hjólastóla og göngugrindur felld. Slík úttekt er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig vel í þessum efnum í áraraðir. Nærtækast er að horfa til almenningssamgangna. Á flestum biðstöðvum strætó er aðgengi og yfirborð ófært fólki í hjólastólum. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld til að vinna þéttar með fyrirtækjum og verslunum til að bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg geri úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg geri úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi.  Þær upplýsingar sem liggja fyrir um viðhorf og þróun jafnréttisfræðslunnar eru fremur fullorðinsmiðaðar. Börn og ungmenni eru að biðja um meiri fræðslu. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það myndi vera gagnlegt að kanna nánar hvaða jafnréttisfræðslunni krökkunum og foreldrum þeirra finnst vera gagnleg og góð og hvaða þætti hennar mætti bæta og dýpka og hvaða og hvernig fræðslu hreinlega vantar? Kennarar hafa verið að fá eitthvað efni sem er afar mikilvægt en þeir gætu án efa þegið meira af góðu efni. Það fræðsluefni sem er þó til þarf vissulega að vera í sífelldri endurskoðun og uppfærslu.