Mannréttinda-nýsköpunar og lýðræðisráð 28. maí 20202

Bókun Flokks fólksins við Ákvörðun Vinnueftirlits varðandi merkingar salerna í stjórnsýsluhúsum Reykjavíkurborgar:

Áframhaldandi barátta Mannréttindaráðs fyrir merkjalausum salernum er óþörf. Þegar hefur Vinnueftirlitið gefið það út að svo lengi sem lágmarksfjölda aðgreindra salerna fyrir hvort kyn er náð er engin skylda lögð á vinnuveitanda til að merkja önnur baðherbergi. Eins og Vinnueftirlitið greindi frá þá er heimilt að hafa 10 ókyngreind saleni á skrifstofu við Höfðatorg. Hér er því komin lausn á álitaefninu og frekari kærur til ráðuneytisins algjörlega óþarfar.
Þar fyrir utan eru röksemdir fyrir kæru Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu til félagsmálaráðuneytis illa ígrundaðar. Rök eru færð fyrir því að skýra beri reglugerð um húsnæði vinnustaða til samræmis við nýja löggjöf um kynrænt sjálfræði á þá leið að þrátt fyrir skýran texta reglugerðarinnar sé það andstætt markmiði laga um kynrænt sjálfræði að aðgreina salerni.
Reglugerðin er skýr. Það er ekkert sem þarf að túlka. Túlkun felst í því að eyða vafa um merkingu texta. Það er ekki túlkun að hafna skýrum texta vegna þess að markmið sem liggja að baki óskyldum lögum samrýmast ekki texta reglugerðar. Það væri annað mál ef í lögum um kynrænt sjálfræði væri lagt bann við aðgreiningu salerna milli kynja. Þá værum við komin með eitthvað ósamræmi milli reglugerðar og laga. En það er ekki til staðar hér.