Borgarráð 5. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðu mála vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar allar kynningar og færir öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg í baráttunni við vágestinn COVID-19 kærustu þakkir. Neyðarstjórnin, eðli hennar og ekki síst valdheimildir, hafa verið til umræðu á fundinum. Neyðarstjórnin gegnir mikilvægu hlutverki og þar er unnið ómetanlegt starf. Um það er ekki deilt. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins er að kjörnum fulltrúum minnihlutans er haldið utan við allar ákvarðanir og fá stundum upplýsingar fyrst úr fjölmiðlum. Á það er minnt að kjörnir fulltrúar hafa ríka eftirlitsskyldu og bera ábyrgð enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til áhrifa og ábyrgðar en ekki til að vera settir til hliðar og það á neyðartímum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu erindisbréfs neyðarstjórnunar Reykjavíkurborgar:

Á fundi borgarráðs er erindisbréf neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar og valdheimildir neyðarstjórnar lagt fram til afgreiðslu. Í hópnum sitja embættismenn og borgarstjóri. Að skipa neyðarstjórn embættismanna er ein leið en það mætti líka fara þá leið að skipa stjórn sem er skipuð kjörnum fulltrúum. Slík stjórn væri í góðum tengslum við borgarbúa ef hún væri skipuð í samræmi við kjörfylgi. Þá hefðu meirihluti sem og minnihluti aðild að neyðarstjórninni. Fordæmi er fyrir slíku þegar þing mynda þjóðstjórnir, oftast þegar vá er fyrir höndum. Hefur aldrei verið hugað að slíku í Reykjavík?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu viðbragðsáætlun neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar:

Þetta er án efa hin metnaðarfyllsta viðbragðsáætlun. Þegar verið er að setja saman plagg sem þetta er mikilvægt að allir sem kosnir eru hafa verið til ábyrgðar í borginni hafi að því aðkomu. Það hefði verið lag að bjóða oddvitum allra minnihlutaflokkanna að taka þátt í gerð viðbragðsáætlunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu á dögum að svari borgarlögmanns, ódags., til ríkislögmanns vegna kröfu Reykjavíkurborgar um greiðslu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga:

Segja má að Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna sé í raun til þess að flytja fé frá Reykjavík til minni sveitarfélaga. Í bréfi ríkislögmanns er miklu púðri eytt í að það sé m.a. réttlætanlegt vegna þess að í Reykjavík sé fasteignaverð hærra og þar af leiðandi hærri fasteignagjöld en annars staðar. En það eru Reykvíkingar sjálfir sem greiða þessi fasteignagjöld. Fleira er í þeim dúr. Íbúar eru ekki bara auðlind sem sækja má fé til. Þeir eru einnig hluti af samfélaginu og greiða til þess og njóta þess. Þessi fjárflutningur frá Reykjavík til minni sveitarfélaga er pólitísk ákvörðun og þessu þarf að breyta á pólitískum vettvangi. Mætti t.d. ekki kvarta yfir mismunandi vægi atkvæða á milli kjördæma í alþingiskosningum? En slíkt misvægi stuðlar að mismunum í fjárveitingum. Flokkur fólksins styður að sjálfsögðu baráttu Reykjavíkur við ríkisvaldið um málefni Jöfnunarsjóðs en þykir miður að málin þurfi að vinna eingöngu með lagalegum rökum, þar sem Reykjavík hefur reyndar mikið til síns máls. Halda mætti að sanngirni ætti að duga. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í þetta mál þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir deilumál sem þetta.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar vegna Urðarbrunnar:

Málefni vegna götunnar Urðarbrunns eru ítrekað að koma inn á borðið hjá umhverfis- og skipulagssviði vegna deilna sem tengjast deiliskipulagi Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagssvið geti ekki reynt að skoða þau atriði sem íbúar svæðisins eru svo ósáttir við og finna á þeim lendingu áður en málin eru samþykkt í ráðinu.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum:

Tillaga um að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið standi fyrir könnun á hvernig börn sem nú eru skyldug til að nota grímur í skólanum upplifi það og hver áhrif grímunotkunar er á líðan þeirra og félagsleg samskipti. Börn fædd 2011 og fyrr þurfa að bera grímu, samkvæmt breytingu á reglugerð um takmörkun á samkomum sem heilbrigðsráðherra hefur staðfest. Þetta eru gríðarmikil viðbrigði fyrir börn og algjör óvissa ríkir um hversu lengi börnin þurfa að nota grímur, hvort það eru dagar eða vikur, jafnvel mánuðir. Það er mikilvægt að skóla- og frístundasvið fylgist með áhrifum sem þetta hefur á börnin dagsdaglega, til skemmri og til lengri tíma. Með því að gera kannanir/rannsóknir fást upplýsingar um hvort áhrif og afleiðingar grímunotkunar barna kalli á sérstakt inngrip sviðsins, framlagningu mótvægisaðgerða eða annað sem mildað gætu neikvæð áhrif grímunotkunar á andlega líðan og félagsleg samskipti. R20110105

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvernig jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019 var nýtt en hún var gjafakort á sýningar í Borgarleikhúsinu?:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019 var nýtt en hún var gjafakort á sýningar í Borgarleikhúsinu? Hjá Reykjavíkurborg vinna um 10.000 einstaklingar og hefur Reykjavíkurborg gefið starfsmönnum sínum jólagjafir undanfarin þrjú ár. Gjöfin hefur verið gjafakort í Borgarleikhúsið. Ekki liggja fyrir nýtingartölur gjafakortsins og fýsir borgarfulltrúa Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um þær fyrir síðustu tvö ár. R20110109

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju Tjarnarbíó kom ekki til greina sem jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019?:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar einnig eftir að fá að vita af hverju Tjarnarbíó kom ekki til greina sem jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019? Jólagjöfin til starfsmanna borgarinnar síðustu ár hefur verið gjafabréf í Borgarleikhúsið einungis. Þessi tvö leikhús, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó, eru bæði styrkt af borginni. Spurt er hvort ekki hefði þótt viðeigandi og eðlilegt þegar ákveðið var að gefa starfsfólki gjafabréf í Borgarleikhúsið að hafa Tjarnarbíó einnig með t.d. sem valmöguleika? Bjóða hefði mtt starfsmönnum upp á að velja sér sýningu í Borgarleikhúsi eða sýningu í Tjarnarbíó. R20110109

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort nýtt reiknilíkan vegna úthlutunar fjárhagsramma sé komið í notkun:

Í skýrslu innri endurskoðunar frá 2019, úthlutun fjárhagsramma og rekstur í grunnskólum Reykjavíkur, kom fram að við úthlutun fjárheimilda fyrir grunnskóla sé notast við ákveðið úthlutunarlíkan sem sett er fram í Excelvinnuskjali. Þetta líkan hefur verið notað í nær tuttugu ár til að áætla fjármagnsþörf skólanna. Fram kom að líkanið væri orðið mjög „plástrað“ og raunar úrelt því mikið hefur breyst í umhverfi skólanna á þessu tímabili. Í skýrslunni segir einnig að skipaður hafi verið starfshópur til að rýna aðferðafræði og reiknilíkan fyrir úthlutun á fjárheimildum fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar og koma áætlunargerðinni inn í áætlunarkerfi borgarinnar. Starfshópnum var ætlað að ljúka störfum fyrir lok ársins 2019. Nú er árinu 2020 að ljúka og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um hvort þessi vinna sem starfshópnum var ætlað að ljúka fyrir lok ársins 2019 er lokið. Er nýtt reiknilíkan komið í gagnið og ef svo er hvernig reynist það? R20110107