Skipulagsráð 13. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi

Farið er yfir viðbrögð við athugasemdir á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna Úlfarsárdal, tillöguna M 22. Fulltrúi Flokks fólksins setur sig alfarið upp á móti því að umræddur reitur verði aðeins atvinnuhúsnæði. Þarna er mikilvægt að byggð verði blönduð. Aðalskipulag á að gilda og er þess vænst að horfið verði frá frekari hugmyndum um að hafa einungis verkstæðisstarfsemi á umræddum reit.

Fulltrúi Flokks fólksins vill hér nefna Arnarnesveginn og ítreka mikilvægi þess að fengið verði nýtt umhverfismat í stað þess að byggt verði á 18 ára gömlu mati. Eðlilegast væri að staða umhverfismats hefði áhrif á tillöguna um 3. áfangann. Meirihlutinn er ekki sammála í þessu máli. Fyrir utan Viðreisn taka fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir, utan fulltrúa Viðreisnar, eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat.

Athugasemdir hafa borist vegna hæð húsa. Þétting byggðar gengur of langt þegar byggt er svo hátt að lokað er fyrir víðsýni víða yfir borgina bæði fyrir vegfarendur og íbúa húsa sem fyrir eru. Kvartanir um þetta eru víða i borginni. Í Mjódd, Glæsibæ og í Úlfarsárdal.

Bókun Flokks fólksins við Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að kvartanir sem hér eru birtar eiga rétt á sér. Þétting byggðar hefur leitt til mikilla þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn talsvert. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Málið er ekki nýtt og hefur áður komið fyrir skipulagsráð. Nú þegar er skortur á bílastæðum. Reynt hefur verið að ná eyrum skipulagsyfirvalda og snúast áhyggjur fólks einnig að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Almenn er þröngt um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Það eru ekki allir sem geta nýtt sér bíllausan lífstíl og verða skipulagsyfirvöld að fara að sætta sig við það. Gengið er of langt í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda að vilja stýra með hvaða hætti fólk fer milli staða í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins við Brekkustígur 9, Stækkun húss og breyting lóðar og Öldugata 44, Stækkun húss – mhl.1 og mhl.2:

Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel óánægju og áhyggjur íbúanna og styður sjónarmið þeirra að hafna skuli því að breyta lóðarmörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9 til að byggja viðbyggingu og nýbyggingu. Fjölmargar athugasemdir hafa borist. Þessu mun fylgja mikil bílaaukningi. Fyrst má nefna að nú eru þarna talsverð þrengsl fyrir. Vandinn er ekki nýr. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Eins og myndir sýna eru göturnar fullar af bílum. Þess utan fellur þetta nýja hús illa að götumyndinni. Þau hús sem fyrir eru, eru lágreist enda um að ræða gamla byggð. Mikilvægt er að hlusta á sjónarmið íbúa.

Bókun Flokks fólksins við Úlfarsbraut 6-8, kæra 139/2020:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem borist hafa úr Úlfarsárdal. Kvartað er yfir að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina sem tengjast þessu svæði finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Fólk sem fjárfest hefur í fasteignum í hverfinu hefur ekki rennt í grun að eiga eftir að upplifa það að skipulagi muni verða breytt eftir á. Í sakleysi sínu flytur fólk inn og því verið sagt að ef byggt verði við hliðina á eða fyrir framan þá verði hús ekki hærra en X. En það næsta sem skeður er að hús er byggt sem er hærra en ákveðið hafði verið í skipulagi.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um reglur varðandi rafskutlur, umsögn – USK2020110095

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Sviðið vinnur þegar með aðilunum að því að stuðla að góðri umgengni í kringum tækin. Ákvæði um þetta er að finna í samningum við leigurnar og margar vinna að þessu t.d. með því að láta notendur taka myndir þegar þeir skila þeim. Samstarfið gengur vel og er ekki talin þörf á að gera breytingar á því.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagssvið borgarinnar útfærði leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Tillögunni er vísað frá og segir að ákvæði um þetta se að finna í samningum við leigurnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að breyta þurfi reglum á þann hátt að skýrt verði hvar megi setja rafskutlur eftir notkun. Bæta þarf einnig innviðina. Víða vantar standa t.d. fyrir utan verslunarmiðstöðvar og skóla. Með bættum innviðum má ætla að umgengni verði betri. Tillagan á því fullt erindi og hefði átt að vera samþykkt. Málið á sér margar hliðar, hjólum fer fjölgandi og líklegt að fleiri verði skilin eftir á víðavangi. Hér þarf að sýna fyrirhyggju. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að gott samstarf við leigurnar er afar mikilvægt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um mön við Reykjanesbraut/Blesugróf, umsögn –

Fulltrú Flokks fólksins spurði fyrir íbúa eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig mál standa. Íbúum fannst þeir ekki hafa náð til skipulagsyfirvalda. Í svari segir að forhönnun á umræddri hljóðmön sé nú lokið og kostnaðaráætlun vegna framkvæmda liggi fyrir en ekki liggi fyrir hvenær hægt verði að ráðast í framkvæmdir. Mörgu er því enn ósvarað svo sem hvenær hægt verður að ráðast í framkvæmdir og hver sé ábyrgur fyrir því að koma verkinu af stað.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastólar og göngugrindur:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrindna. Tillagan hefur verið felld. Segir í bókun að hún sé ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.

Þetta þykir fulltrúi Flokks fólksins vera fyrirsláttur. Úttekt af þessu tagi er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Þeir sem þurfa að styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla og göngugrindur komast sums staðar ekki leiðar sinnar. Betrumbætur ganga of hægt. Segja má sem dæmi að almenningssamgöngur hafa ekki staðið þeim til boða sem notast við hjólastóla. Á biðstöðvum strætó er staðan slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki.

Nýjasta hindrunin er að rafskutlur liggja stundum á miðri gangstétt og er útilokað fyrir fólk með göngugrind eða í hjólastól að komast fram hjá. Það hefði gagnast öllum ef gerð hefði verið úttekt á þessum málum svo hægt væri að sjá hver heildarstaðan er.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um EasyPark

Mál nr. US200439

Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur?

Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun?

Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og Bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ráðningu sérfræðinga hjá borginni:

Mál nr. US200440

Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

Spurt er:

Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað?

Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga- magnafslætti?

Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna sameiningar grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi

Mál nr. US210006

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um hver er staðan á þeim framkvæmdum sem lofað var í framhaldi af lokun Korpuskóla sem áttu að auka öryggi gangandi vegfaranda og nemenda sem þurfa að sækja skóla utan hverfisins?
Gangbrautir eru enn óupplýstar og umferðarhraði er enn of mikill.

Eins vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja um hvort það sé ekki óheimilt að nota húsnæði í annað en því var ætlað nema til komi breyting á aðalskipulagi? Ef húsnæði er skipulagt sem skólahúsnæði að þá sé óheimilt að vera með aðra starfsemi í húsinu en skólastarf? Af sama skapi ef húsnæði er skipulagt sem verslunarhúsnæði þá má ekki nota það sem íbúðir nema til komi breyting á skipulagi. Óskað er staðfestingar á þetta sé rétt skilið hjá fulltrúanum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Hafnartorg

Mál nr. US210007

Hafnartorgið er í hjarta bæjarins. Nú eru þar miklar byggingar og er svæðið kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur á götum við Hafnartorgi hefur Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra um borgina fái að koma fram.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað?

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum.

Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp ( t.d Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að lækka hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg

Mál nr. US210008

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að lækkaður verði hámarkshraði við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og þarna er stærsti hópurinn af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háanna tíma og þegar umferðin er sem mest og birtan sem minnst. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerða milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir.

Skoða þarf þessi mál betur og endurtaka mælingar sem og mæla á fleiri stöðum. Skoða þarf eðli umferðarinnar þegar strætó og eða skólarúta stoppar þarna. Framúrakstur er algengur þrátt fyrir litla „eyju“ milli akreina sem eykur enn hættuna.

Frestað.