Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð 12. janúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fræðsla samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við Samtökin 78:

Fræðsla samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við Samtökin 78. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar Samtökunum ómetanlegt starf þeirra. Samningur við Reykjavíkurborg hefur staðið í stað. Mikilvægt er að styðja vel við bakið á Samtökunum enda treysta margir á þau með fræðslu og stuðningi. Reykjavík er stærst sveitarfélaga og á að vera leiðandi og að vera auðvitað góð fyrirmynd. Hægt er að gera betur enda eru áskoranir margar og má nefna helst hatursorðræðu. Mikilvægt er að vera á vaktinni og gera mælingar til að átta sig á hver þróunin er á hatursorðræðu og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki. Flokkur fólksins hvetur til þess að skoðuð verði meiri miðlægni. Í því sambandi má byrja á að nota meiri hvatningu og tilmæli til skóla og annarra stofnanna borgarinnar að meðtaka fræðslu og í framhaldi að fylgja því eftir. Ekki síður mikilvægt að fræða starfsfólk skóla og íþrótta- og félagsmiðstöðva á vegum Reykjavíkurborgar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um auknar forvarnir: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um auknar forvarnir, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. desember 2022
Tillagan er felld.
Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins


Tillaga er tilkomin vegna alvarlegra ofbeldisatburða innan Breiðholts þar sem börnum er ógnað með hnífum innan og utan skólalóða í hverfinu. Tillagan gengur út á farið verði í sérstakar forvarnir til að vinna með fjölmenningu í Breiðholtinu og árekstra tengda börnum frá mismunandi menningarheimum. Flokkur fólksins telur að almennt verði Reykjavíkurborg að stíga fast til jarðar og hafna öllu ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist. Ástæður ofbeldis eru margar en ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Aðalatriðið er að brugðist verði hratt og vel við þessum rauðu flöggum sem þarna birtast. Það má gera með fjölbreyttum hætti. Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð er í sterkri stöðu til að beita sér og hefur til þess ýmsar leiðir. Mikilvægt er að hafa gott samstarf við Suðurmiðstöðina sem er þjónustumiðstöð borgarinnar í Breiðholti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Svar fjármála- og áhættustýringarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um efnahagslegan ójöfnuð:

Hér er verið að svara fyrirspurn um hvort ráðist hefur verið í greiningu á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík t.d. síðustu tíu árin. Svarið er skýrt, “nei” Fjármála- og áhættustýringarsvið hefur ekki ráðist í greiningar á efnahagslegum ójöfnuði í Reykjavík né greiningu á hvað borgin geti gert til þess að stuðla að jöfnuði. Þetta er sláandi að mati fulltrúa Flokks fólksins. Engar skýrslur eru til með slíkum úttektum og þar með engar upplýsingar hvorki frá miðlægri stjórnsýslu né frá sviðunum. Það liggur fyrir að ójöfnuður hefur aukist í Reykjavík. Hópur þeirra sem skilgreina má sem fátækt hefur stækkað. Hér er vísað til hóps fólks, einstaklinga og fjölskyldna sem mælast undir velferðarviðmiði velferðarráðuneytis. Efnahagslegur ójöfnuður hefur tengsl við margar slæmar félagslegar afleiðingar og viðheldur fátækt að stóru leyti. Það er afar brýnt að mati Flokks fólksins að ráðist verði í að gera úttekt á stöðunni og reynt að kortleggja efnahagslegan ójöfnuð í Reykjavík og hver þróunin hefur verið síðustu árin.

 

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um fundarröð með hagsmunasamtökum 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fari í fundarröð með helstu hagsmunasamtökum minnihlutahópa til að heyra frá fyrstu hendi hvað brennur á þeim. Lagt er til að fundað verði með Öryrkjabandalagi Íslands ÖBI, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni FEB,  Þroskahjálp og Geðhjálp sem og fleiri félögum sem eru aðildarfélög t.d. að ÖBI. MSS23010140
Frestað.

 

Tillaga fulltrúa Flokks Flokks fólksins um viðbrögð við ofbeldi gegn fötluðu fólki:

Í umræðunni upp á síðkastið hefur verið rætt um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð bregðist við þessari umræðu með einhverjum sérstökum hætti og grípi til aðgerða s.s. Fræðslufundar, málþings eða annað í þeim dúr. Orð eru til alls fyrst en að mati Flokks fólksins þarf að huga að aðgerðum í þessum sambandi. Hvað getur Reykjavíkurborg gert, eða hvernig getur borgin beitt sér til að spyrna við að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi? MSS23010141
Frestað