Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 20. september 2021, um drög að reglum um samráðsvettvang trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu:
Mannréttindaskrifstofa leggur til að stofnaður verði samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem eru 36 talsins. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki vera verkefni borgarkerfisins. Leiðtogar trú- og lífsskoðunarfélaga geta hist að vild eins og allir aðrir án þess að formlegur vettvangur sé stofnaður. Ekki er séð af hverju Reykjavíkurborg ætti að hafa milligöngu um að skapa formlegan farveg fyrir trúfélög til að hittast frekar en ýmis önnur félög eða hópa? Hvar á að draga mörkin? Af hverju trú- og lífsskoðunarfélög á höfuðborgarsvæðinu? En þótt borgin sem slík skapaði ekki einhvern sérstakan formlegan samráðsvettvang fyrir trú- og lífsskoðunarfélög er ekki þar með sagt að borgin eigi ekki að vera í góðu samstarfi við þessi félög og öll önnur félög sem vilja hafa samskipti við Reykjavíkurborg og vinna með borginni.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, um úttekt á fátækt á Íslandi, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 9. september 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð í samvinnu við velferðarráð, skóla og frístundaráð kanni fátækt í Reykjavík. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að sambærileg tillaga var lögð fram af fulltrúa Flokks fólksins í borgarráði.
Fulltrúi Flokks fólksins telur að mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð eigi að fagna tillögu sem þessari og væri hægt að gera margt við hana til að hreyfa við þessu máli. Áhyggjur eru af mannréttindaþætti hinna fátæku og þær skelfilegur aðstæður sem fátækt fólk býr við. Fólk sem berst í bökkum við að ná endum saman á erfitt með að lifa mannsæmandi lífi. Rannsóknir sýna vaxandi fátækt svo ekki er um að villast að stór hópur getur ekki lifað með reisn. Mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð getur haft mikið að segja bæði með því að viðurkenna að þessi vandi er raunverulegur og með því að kalla eftir sérstakri vinnu sbr. sem gert var 2008 en þá skipaði Reykjavík starfshóp um fátækt. Nú er mest brýnt að gerð verði ný úttekt og skýrsla um stöðu fátæktar í borginni. Hunsun og andvaraleysi gagnvart þessari neikvæðu þróun er ekki hægt að sætta sig við.
Tillögunni er ætlað að skoða stöðu alvarlegra mála á viðkvæmum tímum í kjölfar Covid. Ákall um slíka úttekt ætti að koma frá mannréttindaráði og ætti að kalla á samstarf við velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Frávísun byggðri á tæknihindrunum vegna stjórnsýslulegra málsmeðferðarferla ætti alls ekki að koma frá lýðræðisráði borgarinnar. Sé slík fyrirstaða fyrir hendi innan borgarkerfisins ætti það að vera verkefni lýðræðisráðs að finna leiðir til að koma tillögum sem þessum áfram innan kerfisins, í stað þess að láta kerfið segja sér fyrir verkum. Frávísunin er því mikil vonbrigði, bæði vegna þess að þar er á ferð vel ígrunduð og þörf tillaga, og sömuleiðis að stjórnsýsluleg málsmeðferð sé notuð til að vísa henni frá. Við sitjum í mannréttinda og lýðræðisráði.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á verkefninu Snjöll og jöfn, styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna 2021:
Farið er yfir skýrslu könnunar sem var unnin í júní–ágúst 2021 og var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, Rannís og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Í apríl árið 2018 var haldin hugmyndakeppnin Borgarhakk til að finna framtíðarlausnir fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar. Keppnin var á vegum Snjallborgarinnar, en Snjallborgin var verkefni á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Snjallborgin setti af stað ýmis tilraunaverkefni í Reykjavík en mörg þeirra voru ekki kláruð (Óskar Sandholt, munnleg heimild, 15. júní, 2021). Fulltrúi Flokks fólksins myndi mun vilja fá upplýsingar um þessi ókláruðu verkefni. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að við mótun rannsókna- eða skoðunarverkefna má hafa í huga að við erum ekki ein í heiminum. Þess vegna þarf kannski ekki svo mikið að greina og skilja notendahegðun sem í rauninni er ekki frábrugðin notendahegðun í öðrum sambærilegum borgum. Vel má skoða hvað er að koma út úr svona könnunum í löndum sem við berum okkur saman við.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Fulltrúa Flokks fólksins um ókláruð verkefni Snjallborgarverkefnisins á vegum ÞON:
Farið er yfir skýrslu könnunar sem kallast Snjöll og jöfn, (Tengsl fjölbreyttra þarfa fólks á ferðinni og snjallra ferðamáta), sem var unnin í júní–ágúst 2021 og var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, Rannís og Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. Í henni kemur fram að haldin var hugmyndakeppnin Borgarhakk til að finna framtíðarlausnir fyrir þjónustu Reykjavíkurborgar. Keppnin var á vegum Snjallborgarinnar, en Snjallborgin var verkefni á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Snjallborgin setti af stað ýmis tilraunaverkefni í Reykjavík en mörg þeirra voru ekki kláruð (Óskar Sandholt, munnleg heimild, 15. júní, 2021). Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um þessi ókláruðu tilraunaverkefni. Hvaða verkefni er hér verið að vísa til? Óskað er upplýsinga um hvert og eitt og hvað sett var mikið fé í hvert tilraunaverkefni sem síðan var ekki klárað? Óskað er lýsingar á hverju verkefni fyrir sig, hvert var markmið þess og tilgangur?