RÆÐA ODDVITA FLOKKS FÓLKSINS FYRRI UMRÆÐA
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar
Fimm ára áætlun fyrir 2023-2027
Fjármálaráðstefna Reykjavíkur
„Við erum að horfa að mestu á A- hlutann. Þó má ekki gleyma því að A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl allra B-hlutafyrirtækja ef þau verða fyrir fjárhagslegum áföllum eins og dæmi eru um. Ef litið er yfir þessar tölur þá hafa rekstrartekjur A-hluta vaxið um 16% milli áranna 2021 og 2023. Rekstrarútgjöld A-hluta vaxa í sama takti milli þessara tveggja ára (16%) þótt sértæk útgjöld vegna Covid 19 eiga að heyra sögunni til á næsta ári.
Rekstrarafkoma A-hluta er áætluð neikvæð um rétt um sex milljarða króna á árinu 2023. Rekstrarafkoma A-hluta er því neikvæð um -3,6%.
Það verður þá fjórða árið í röð sem rekstrarafkoman er neikvæð sem er algerlega óásættanlegt.
Niðurstaða rekstrarreiknings A-hluta á árunum 2020 – 2023 verður samkvæmt fjárhagsáætlun árið 2023 neikvæð um 31,2 milljarða. Þetta er hallarekstur á daglegum rekstri Reykjavíkurborgar. Þarna er verið að senda næstu kynslóð reikning, rúma þrjátíu milljarða króna sökum halla á daglegum rekstri A-hluta borgarsjóðs á síðustu fjórum árum. Ef horft er á handbært fé A-hluta þá lækkar það um tæplega 1/3 frá árinu 2021 eða úr rúmum 15 milljörðum árið 2021 í 11 milljarða 2023. Það gefur til kynna að fjárhagur A-hluta borgarsjóðs hefur veikst.
Langtímaskuldir og leiguskuldir A-hluta hækka um 45% milli áranna 2021 til 2023. Þær hækka úr 85 milljörðum í 123 milljarða. Langtímaskuldir A-hluta Reykjavíkurborgar hafa þannig hækkað um einn milljarð í hverjum mánuði á þessu þriggja ára tímabili.
Athygli vekur að lífeyrisskuldbindingar A-hluta hækka ekkert á þessu þriggja ára tímabili. Spurning hvað veldur? Það er alla vega ekki í samræmi við breytingar á starfsmannafjölda, hækkun á launakostnaði og hækkun á launatöxtum.
Veltufjárhlutfall ( sem er hlutfall milli lausafjár og skammtímaskulda) verður í fyrsta sinn á fyrrgreindu þriggja ára tímabili lægra en 1. Árið 2021 var það 1,5, árið 2022 var það 1,2 og á árinu 2023 er það ætlað 0,9. Skammtímaskuldir verða hærri en lausafé á næsta ári. Þessi þróun þýðir ósköp einfaldlega að það verður erfiðara á næsta ári en áður að greiða daglega reikninga á réttum tíma. Það þýðir að líkur á greiðslu dráttarvaxta fara vaxandi. Þetta er þróun sem verður að stöðva.
Afborganir langtímaskulda margfaldast á árunum 2021-2023. Á árinu 2021 voru þær 3,5 milljarðar á ári en verða á árinu 2023 11,7 milljarðar. Það er nær fjórföldun á tímabilinu. Miðað við þá þróun langtímaskulda sem hér hefur áður verið farið yfir þá er líklegt að þungi afborgana langtímaskulda fari vaxandi á komandi árum. Nauðsynlegt er því að koma böndum á sívaxandi skuldasöfnun A-hluta Reykjavíkurborgar og stöðva þá óheillavænlegu þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum áður en það verður um seinan.
Ef miða á við það sem almennt telst þá þarf veltufé frá rekstri að vera 9-10% af heildartekjum svo fjárhagur sveitarfélags sé í þokkalegu jafnvægi. Reykjavíkurborg liggur langt undir þeirri viðmiðun. Veltufé frá rekstri á árinu 2023 þyrfti að vera 15-16 milljarðar svo því markmiði verði náð. Gert er ráð fyrir að það sé 3,6 milljarðar á næsta ári sem er einungis ¼ af því sem nauðsynlegt er.
Það er þó framför frá hinni afar slæmu niðurstöðu úr útkomuspá fyrir árið 2022 en þá er ætlað að veltufé frá rekstri sé neikvætt um 4,2 milljarða sem er langt undir því sem ásættanlegt er.
Það þarf að vera forgangsatriði að ná veltufé frá rekstri upp í ásættanlegt horf. Gerist það ekki á komandi árum mun A-hluti Reykjavíkurborgar verða ógjaldfær vegna sívaxandi lántöku og sívaxandi þunga afborgana af langtímalánum.
Aftur er minnt á að A-hluti sveitarfélaga er bakhjarl allra fyrirtækja í eigu borgarinnar en ekki öfugt. Þess vegna verður að líta á skuldastöðu A+B hluta í þessu sambandi með eftirfarandi í huga:
Heildarskuldir A-B hluta verða 340 milljarðar króna á næsta ári.
Heildartekjur A-hlutans verða 165.6 milljarðar á næsta ári.
Rekstrarafgangur A hlutans verður neikvæður um tæpa sex milljarða króna á næsta ári.
Veltufé frá rekstri verður 3,7 milljarðar á næsta ári.
Aftur, það liggur því í augum uppi að A hluti Reykjavíkurborgar hefur því enga möguleika til að leggja fyrirtækjum borgarinnar lið ef þau lenda í fjárhagslegum erfiðleikum.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir enn frekari lántöku að fjárhæð 21 milljarð króna. Það er lántaka yfir einn og hálfan milljarð á mánuði. Þungi fjárfestingahreyfinga hefur nær þrefaldast milli áranna 2021 og 2023 eða úr 7,5 milljörðum í 19,7 milljarða.
Ef horft er til fimm ára áætlunar þá er sérstakt að miðað við umræðu um erfiða stöðu borgarinnar og að það vanti mikið upp á að hún sé í jafnvægi, þá er eins og allt fari á húrrandi góða siglingu strax á árinu 2024 og fjárhagsleg framtíð sé þokkaleg upp frá því. Veltufé frá rekstri sé orðið þokkalegt strax á árinu 2024 og bara allt í lagi upp frá því. Veltufjárhlutfall (hlutfall milli lausafjár og skammtímaskulda) er þó óásættanlegt á tímabilinu. Flokkur fólksins er ekki sammála þessari framtíðarsýn.
Samantekt
Allt byggist á stefnu borgarinnar í hinum og þessum málum. Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem eyða má í fjárfestingar. Þar er forgangurinn án efa réttur, þ.e. húsnæðisuppbygging og viðhaldsmál og verkefni sem klárlega stuðla að vexti borgarinnar. En hver eru þau verkefni helst að finna?
Það segir sig sjálf að meðal slíkra verkefni er hvorki Lækjartorg Geislabaugur né Kirkjustræti. Þessi torg hafa verið svona í mörg ár og þola alveg að vera eins 2-3 ár í viðbót. Það fjármagn sem mögulega er hugsað í verkefni “sem mega bíða” ætti því frekar að vera ráðstafað í endurbætur á mygluhúsnæði eða eða stokka upp útdeilingu fjármagns þannig að meira fari til velferðarsviðs til að bæta þjónustuna eða til og skóla og frístundasviðs en bæði þessi svið fengu t.d. skyndilega risastórt verkefni þegar stríðið í Úkraínu skall á og fólk þaðan fór að streyma hingað til lands. Það má setja þetta upp sem hvort vilja menn eyða biðlistum barna eða byggja enn eitt torgið? Fyrir fjölmarga er það engin spurning. Margsinnis hefur verið bent að að vanlíðan barna hefur aukist og til að hjálpa þeim þarf fjármagn en ekki torg.
Velferð og skóla og frí eru vissulega að taka til sín stóran bita af kökunni. En er það bara ekki eðlilegt? Þetta er jú sveitarfélag. Þessi svið annast fólkið beint og án fólks væri engin borg. Þessi svið eiga vissulega að velta við hverri krónu og fara vel með fjármagn allt frá því að rýna í starfsmannafjölda og hvort fækka megi úr þeirra röðum án þess að það komi niður á þjónustu yfir í að draga úr leigubílakostnaði, þótt einhverjum kunni að þykja þetta smáaurar (35 milljónir á ári).
Ef horft er til annarra sviða og skrifstofa hefur mesta þenslan verið á þjónustu- og nýsköpunrasviði og skrifstofu borgarstjóra sem er með orðið ansi margar silkihúfur
Þensla og óreiða í fyrirkomulagi rekstrar og “vondar ákvarðanir” er ekki að hjálpa í aðstæðum sem litaðar eru sem stendur af hárri verðbólgu. Ákvörðun um víðtækar gjaldskrárhækkanir fara t.d. beint út í verðlagið. Ef litið er til nokkra staða innan kerfisins t.d.
Innkaupaskrifstofa:
Innkaupamál eru dreifstýrðari en ásættanlegt er sem þýðir aðeins eitt, þ.e. að þau soga til sín meira fjármagn og starfskrafta. Samt segir að hlutverk innkaupaskrifstofu sé að annast allar tegundir útboðsmála. Enda þótt þar sé ráðgjafi sem hjálpar sviðunum ef þarf þá eru kærur vegna útboðsmála í sögulegu hámarki, frá 4 í tæp 30. Hvað þýðir þetta?
Innkaup geta alfarið verið á ábyrgð Innkaupaskrifstofu sem starfa myndi þétt með sviðunum að útboðslýsingum. Hér er vel hægt að hagræða t.d. í mannafla.
Þjónustu- og nýsköpunarsvið:
Talað er um að rekstur eigi að vera í jafnvægi. Á móti gjöldum þurfa að koma tekjur. Í umræðunni um þjónustu- og nýsköpunarsvið og stafrænu málin var lengi státað af því að það kæmu tekjur. Það er ekkert svið sem tekið hefur eins stóran bita af kökunni síðustu árin og ÞON og sem skilað hefur hlutfallslega jafn litlu til baka í virkum lausnum. Af öllum þeim tugum lausna sem sviðið hefur reynt við hefur bara brot orðið að veruleika og þær stærstu og mikilvægustu eru enn í fæðingarhríðum eða ekki byrjaðar.
Þar er gert ráð fyrir gjöldum upp á 5.6 milljarða á næsta ári og tekjum upp á 1.8 milljarð. Fækka á um einn starfsmann í hagræðingaskyni.
Er yfir höfuð einhver vilji til þess að kafa ofan í stefnumörkun, rekstur og eftirfylgni með starfsemi ÞON? Hvar er innri endurskoðun í þessu sambandi?
Skrifstofa borgarstjóra og borgarritara:
Þensla er einnig mikil á skrifstofu borgarstjóra sem er orðin ansi stór. Skrifstofa borgarstjóra er með tæp 30 prósent af ársrekstrinum.
Fækka á um einn starfsmann. Undir þessari skrifstofu má bæði sameina og einfalda. Lýðheilsu- og matarstefna er þarna undir.
Kostnaður Lýðheilsustefnu árið 2022 er áætlaður 42,5 m.kr. sem felst í launum verkefnastjórans og lýðheilsusjóði Heilsueflandi hverfa.
Borgarlögmaður/Kærumál:
Annað áhyggjuefni eru fjölgun á kærumálum. Heildarfjöldi dómsmála hefur aukist um 6.5% á milli ára þrátt fyrir að sviðin séu að sinna þessu með ráðgjöf frá innkaupaskrifstofu.
Einnig skaðabótamál v. , stjórnsýsluerinda og samgöngumál og fleira. Að fjölgun skuli vera á kærum vegna stjórnsýsluerinda er eiginlega bara ótrúlegt.
Innri endurskoðun:
Innri endurskoðun og ráðgjöf, er enn nokkuð óræðin breyta alla vega sá hluti sem snýr að hlutverki því sem umboðsmaður borgarbúa hafði. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir um hvort innri endurskoðun sé að svara kalli borgarbúa í takt við það sem Umboðsmaður borgarbúa var að gera. Ég held ég sé ekki að fara með rangt mál þegar ég segi að úrræði innri endurskoðun ná ekki þeim takti, ekki enn alla vega Það voru sennilega mistök að leggja það embætti niður í þeirri mynd sem það var?
Fólk veit ekki enn að hægt er að kvarta yfir málum og hvar eigi þá að gera það. Kynna þarf hið nýja fyrirkomulag mikið betur, munum að það eru ekki allir á netinu eða með tölvur. Málum hefur fækkað
Í svari sem Flokkur fólksins fékk um hvernig yfirfærsla þessa hlutverk hefði komið út voru ýmsar ástæður raktar fyrir fækkun mála m.a. að umboðsmaður borgarbúa aðstoðar einstaklinga ekki lengur við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds.
Svo er þetta allt spurning um traust og trú á kerfið.
AÐ lokum vil ég nefna í sambandi við hagræðingu Jafnlaunastofu. Vegna afar lítilla rekstra- og efnahagsumsvifa Jafnlaunastofu er vandséð af hverju eigi að gera hana upp sérstaklega í stað þess að fella hana undir rekstur félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.