Ræða borgarfulltrúa Flokks fólksins við seinni umræðu um Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 6. desember 2022

Ræða borgarfulltrúa Flokks fólksins við seinni umræðu um Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 6. desember 2022

Í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun rakti minnihlutinn vel og ítarlega fjárhagslega stöðu Reykjavíkurborgar sem er “svört” og er þá vægt til orða tekið. Í ræðum meirihlutafulltrúa var reynt að draga upp skárri mynd en raun ber vitni. En þannig er það alltaf, meirihlutinn reynir að fegra svarta stöðu borgarinnar í fjármálum, til að halda andliti gagnvart borgarbúum. Sams konar leikrit var haldið í fyrra, þá reyndar gengið enn lengra og reynt að segja fólki að þetta væri í lagi því borgin ætti svo mikið af eignum. Það lá nánast í orðum formanns borgarráðs að ef í harðbakka slær þá væri bara hægt að selja skóla eða sundlaug. Vitaskuld standa eignir á móti skuldum í efnahagsreikningi en í raunveruleikanum þá er það tekjuafgangurinn sem stendur á móti skuldum. 

Það sem skiptir máli er  hversu auðvelt rekstraraðilinn – borgarsjóður- á  með að greiða af skuldunum. Sama hvað borgin ætti mikið af skólum og íþróttamannvirkjum þá er jafnlítið eftir til að greiða skuldir  því  eignir eru ekki söluvara ef það verður einhvern tímann erfiðleikum háð að greiða afborganir lána?“

Ef tap er á rekstri safnast upp skuldir og þá  þarf að taka lán fyrir rekstrarhalla. Og það þarf einnig lán fyrir afborgunum skulda og líka taka lán fyrir öllum nýframkvæmdum og viðhaldsframkvæmdum. 

Veltufé frá rekstri nú er einungis um ¼ þess sem það þyrfti að vera til að reksturinn sé í þokkalegu jafnvægi. Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta. Á tímabilinu 2021 – 2023 virðist sem aukning langtímaskulda sé að jafnaði um einn milljarður á mánuði. Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega.

Næstu fimm árin

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar kemur fram sýn meirihlutans og er látið eins og fjármálin færist hratt til betri vegar jafnvel strax eftir tvö ár verði hægt að sjá til sólar. Auðvitað vex borgin úr vandanum svo fremi að haldið verði vel á spilunum. Í fyrra var það fullyrt að A- hlutinn myndi skila afgangi 2023 og rekstrarhagnaður myndast. Er það raunhæf sýn. Flokkur fólksins spyr á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar forsendur eru á fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs. Þetta sjá ekki allir í hendi sér því lausafjárstaða A-hluta versnar og afborganir langtímaskulda tvöfaldast. 

Fram undan eru stór og fjárfrek fjárfestingarverkefni. Í nýlegri kynningu samstarfshóps  um málefni miðborgar  kemur fram að forhönnun er hafin á Kirkjustræti, Vallarstræti, Veltusundi og Tjarnargötu. Á dagskrá í sumar er forhönnun Lækjartorgs. Á ekki að setja þessi verkefni á bið, þau sem t.d. eru ekki hafin? Þeir sem annast forgangsröðun verkefna þurfa að taka tillit til slakrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Nú er staðan þannig að borgin getur ekki sinnt lögbundinni þjónustu sómasamlega.Eitthvað verður undan að láta.

Velta má einnig upp hvort verið er að fara offari í fínheitum og má nefna í því sambandi  byggingu leikskólana á Njálsgötu. Það væri hægt að byggja e.t.v. 2-3 staðlaða leikskóla fyrir þetta verð. Þetta er dýr skrautteikning sem er kannski óraunhæf. Flókið byggingarlag sem erfitt getur reynst að fá verktaka til að byggja.

Eins þarf að skoða að það er alls konar kostnaður tengdur borgarlínuverkefninu sem að ekki mun bókast sem kostnaður við borgarlínuna. Það eru minni verkefni eins og það að færa siglingaklúbbinn Siglunes í Nauthólsvík vegna framkvæmda við brúnna yfir sundið. (Bátar komast ekki undir brúnna). Það kostar að byggja nýtt klúbbshús.

Víst ég minnist á Siglunes vil ég einnig tala um skeyti sem okkur borgarfulltrúum hefur verið sent frá fyrrum verkefnastjórum í Siglunesi. Þau lýsa áhyggjum sínum yfir að nú stendur til að loka Siglunesi í Nauthólsvík og færa starfsemina í hendur íþróttafélags. Ég ætla að fá að lesa úr þessu skeyti hér því þetta er gott dæmi um hvernig hagræðingar og sparnaðaraðgerðir meirihlutans heggur í starfsemi tómstundamála barna:

Starfsemi Siglunes er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá hinsvegar öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum viðnám til að eflast og þroskast á jafningja grundvelli. 

Skorað er á meirihlutann að taka mál Siglunes til skoðunar áður en ákveðið verður að loka 55 ára farsælli starfseminni endanlega. Má þar meðal annars skoða stofnun hollvinasamtaka sem létt gætu róðurinn til að afstýra því slysi sem fylgdi því að leggja starfsemina af fyrir þau þúsundir barna sem Siglunes þjónar. 

Undirskriftalistar liggja fyrir og er spurt hvernig ætlar meirihlutinn að taka á þessu máli?

En áfram með stóru verkefnin sem ekki hafa verið full reiknuð. Það má ætla að það fari  tugmilljarða í stokka við Sæbraut og Miklubraut sem tekið verður sem samgönguverkefni. Hluti af því er til að mynda rými fyrir borgarlínuna. Nú er Reykjavíkurborg að biðja um að stokkar verði sérstyrktir til að halda hugsanlegum byggingum við stokkinn. Hvaðan kemur fjármagnið í það?

Umferðartafir vegna þessa stokkaframkvæmda mun verða gríðarlegur. Hvert er þjóðhagslegt tjón af þeim töfum og hefur það verið reiknað út? Þá veit engin hver rekstrarkostnaður borgarlínunnar verður. Margir spá því að það verði tap á þeim rekstri. Margur kostnaður sem ekki er svo mikið rætt um mun því gera þetta verkefni dýrara en lagt er upp með. Hvaðan eiga þeir peningar að koma? 

En fyrst þarf að fylla í 15 milljarða tap Reykjavíkurborgar. Sennilega veitir ekki af óháðum aðila til að meta þetta allt saman en það er ekki í kortinum að fá óháða úttekt.

 

Börnin, nokkur orð

Flokki  fólksins hefur verið tíðrætt um börnin á síðasta og núverandi kjörtímabili Til að öll börn hafi það gott eins og þau eiga að hafa þarf að auka jöfnuð á nánast öllum sviðum meira að segja í skóla- og frístundamálum.

Þá þarf  að móta opinbera áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Slík stefna er ekki til  Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar  aðstæður.

Tilkynningar um vanrækslu, ofbeldi og áhættuhegðun hafa aukist og yfir 20 % foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Ef fólk fær ekki grunnþörfum sínum mætt er líklegt að það komi niður á andlegri heilsu og vanlíðan eykst sem hefur áhrif á alla aðra í fjölskyldunni.

Í Reykjavík hafa það margir gott, mjög margir þurfa því hvorki hækkanir né styrki. Flokkur fólksins vill að gripið verði til sértækra og  markvissra aðgerða í þágu barna bágstaddra foreldra. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett og félagslega útskúfuð. Til að ná þessu þarf að setja fram skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Reykjavíkurborg stærst sveitarfélaga er ekki búin að innleiða barnasáttmálann og er ekki einu sinni nærri því. Flokkur hefur lagt fram tillögu um að undirbúningur undir innleiðingu fari á fullt með því að setja hóp fólks í vinnu við að skoða hverju þarf að breyta.

 

Langir biðlistar rótgróið mein í Reykjavík

Hinn langi biðlisti barna til fagaðila skólaþjónustu er ólíðandi. Samkvæmt nýjum vef sem sýna lykiltölur eru 2049 (í fyrra 1600 og 2018 voru þau 400) á bið eftir fagfólki skólaþjónustu, um helmingur eftir fyrstu þjónustu. Langflest börn bíða eftir að komast til sálfræðings og talmeinafræðings. Umtalsverður munur er á biðlistum eftir hverfum. Börn sitja því ekki við sama borð, jafnræðis er ekki gætt.

Það hlýtur að liggja í augum uppi að áhersla þessa og síðasta meirihluta hefur verið á aðra hluti en grunnþarfirnar. Fjármagni hefur verið eytt í óþarfa, eitthvað sem mætti bíða betri tíma ef því er að skipta. Ótrúlegur fjöldi nýráðninga hefur verið í  borginni hjá ÞON og í miðlægri stjórnsýslu. Fyrir sum svið virðist alltaf vera til nægt fjármagn. Nú hafa fleiri tekið undir gagnrýni Flokks fólksins á ÞON, VG vilja leggja niður stafrænt ráð. Það eru vonbrigði að nýir borgarfulltrúar skuli hafa fallið í sömu meðvirknina og fyrri meirihluti.

Á sama tíma í fyrra lá  einmitt fyrir ein tillaga frá meirihlutanum að ráða skuli í nýtt starf skrifstofustjóra þjónustu- og samskipta til að efla upplýsingagjöf í tengslum við framkvæmdir. Sjálfsagt er að hafa upplýsingagjöf um framkvæmdir góða. En er nauðsynlegt að búa sífellt til ný störf, nýjar skrifstofur/deildir/stofur (Jafnlaunastofa) og það á tímum sem þessum?

 

Samráð þarf að vera miklu meira og þá alvörusamráð. 

Íbúar eiga að geta haft áhrif á umhverfi sitt og vera boðið að ákvörðunarborðinu frá byrjun og síðan er það borgarinnar að útfæra áherslur fólksins. Borgarstjórn er fyrir fólkið en ekki öfugt.

Ekkert samráð var haft við Vini Vatnsendahvarfs vegna 3. áfanga Arnarnesvegar og óskir þeirra um nýtt umhverfismat með öllu hafnað. Notast á við um 20 ára gamalt mat.  Setja á hraðbraut þvert ofan í hugmyndafræði Græna plansins. Hversu græn getur sú framkvæmd verið? Hraðbraut sem klýfur Vatnsendahvarf, eitt fallegasta útsýnissvæði borgarinnar sem er auk þess stútfullt af lífi dýra og plantna. Enginn tók þátt í að mótmæla eða gagnrýna þettta með Flokki fólksins á síðasta kjörtímabili. Ekki einu sinni þeir flokkar sem gefa sig út fyrir að vera grænir.

Umferðarmálin eru ekki í lagi  og sýna kannanir að bílum fjölgar og engin furða því almenningssamgöngur eru eins og þær eru sem allir vita hvernig eru. Sömu umferðarteppurnar eru í Reykjavík, ár eftir ár.

Sífellt berast kvartanir af umferðaröryggi.  Nefna má Laugardalinn þar sem ekið var á barn um daginn og það ekki í fyrsta sinn á sama stað, og Vogabyggð og Úlfarsárdalinn

 

Samantekt

Fjárhagur A hluta hefur veikst. Rýna þarf allan rekstur borgarinnar og forgangsraða sem aldrei fyrr í þágu lögbundinnar þjónustu og annarra þjónustu við fólkið. Það er ábyrgðarleysi að skella skuldinni alfarið á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Raunsæi verður að ráða ferðinni við mótun stefnu til framtíðar. Vandann verður að viðurkenna til að geta brugðist við honum af fagmennsku og læra af mistökum. Grípa verður til skilvirkra aðgerða sem skila árangri en forðast innihaldslausar yfirlýsingar sem engu skila.

Flokkur fólksins leggur áherslu á að leiðarljós við endurreisn fjárhagsstöðu A-hluta borgarsjóðs verði raunsæi og fagmennska. Aðeins á þann hátt næst ásættanlegur árangur, vonandi innan nokkurra ára.

Við í Flokki fólksins viljum að pólitíkin hugsi allt út frá fólkinu og þörfum þess. Fólkið er nr. 1-10, Fólkið fyrst og svo allt hitt. 

Það er ekki hægt að eiga neitt gæða líf ef þú veist ekki hvar þú leggur höfuð þitt næstu nótt. Hvernig á að grynnka á biðlistum og bæta þjónustuna þegar ekki króna er eftir til ráðstöfunar því það er búið að eyða svo miklu undanfarin ár. 

Hópur hinna lakast settu er oft falinn og um hann ríkir jafnvel þöggun. Nýlegar upplýsingar um afar bága stöðu öryrkja á leigumarkaði hljóta að vera okkur öllum ferskar í minni. Fatlað fólk er mun líklegra til að vera á leigumarkaði og borga stærri hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað en aðrir á Íslandi. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í könnun sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir ÖBÍ réttindasamtök.

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi.

Reykjavíkurborg á að einbeita sér að grunnþjónustu og efla hana eins og hægt er. Efla skóla, félagsþjónustu, vinna gegn fátækt og vinna í ýmsum félagslegum úrbótum. Borgin á ekki að leggja fé til að fá að montast út í heimi eins og sjá má hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði með sín stafrænu mál. Þar hafa verið gert stórmistök og algert klúður að borgin skyldi ekki frá byrjun vinna meira með öðrum sveitarfélögum og Stafræna Íslandi.

Það var áfall að sjá hvað margar af þeim 92 tillögum sem meirihlutinn leggur fram nú heggur í fólk og viðkvæma þjónustu á meðan hagræðing er í lágmarki hjá skrifstofu borgarstjóra og þjónustu- og nýsköpunarsviði sem aðeins láta af einum starfsmanni hvor. Það vilja allir halda fast í sitt. ÞON vill halda áfram að eyða fjármagni í tilraunir og umhverfis- og skipulagsráð vill setja baug á Lækjartorg. Í þess­um aðgerðum er alltof mikið höggvið í skólana og leikskólana og tómstundir barna í stað þess að taka virki­lega á þeim mála­flokk­um þar sem þensl­an hef­ur verið mest. Einhverjar kunna að vera skynsamlegar en það er langt í frá að staðið sé vörð um framlínuþjónustu.

Hér eru tillögur meirihlutans sem skerða þjónustu við börn og eldra fólk

SBPC-35 Tillaga vegna unglingasmiðja

Meirihlutinn leggur til að starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar leggist af og markhópi úrræðanna verði sinnt í samstarfi fagfólks félagsmiðstöðva og Keðjunnar sem hluti af Betri borg fyrir börn. Unglingasmiðjurnar eru úrræði sem eiga rætur á tíma þegar mun færra fagfólk var í frítímaþjónustu borgarinnar og eru nú hluti Keðjunnar sem veitir fjölskyldum fjölþættan stuðning. Þjónusta við markhóp úrræðanna verður endurskipulögð. Heildarfjárveitingar til þeirra eru 63 mkr á á

SBPC-49 Tillaga vegna breytingar á opnunartímum félagsmiðstöðva

Meirihlutinn leggur til að breyting verði á opnunartíma í félagsmiðstöðvum unglinga innan borgarinnar. Opnunartími yfir vetrartímann verði styttur í 21:45 í stað 22:00 til að gæta betra samræmis við útivistatíma unglinga. Fjárheimildir Skóla- og frístundasviðs verði lækkaðar um 9.859 þ.kr. Fjárheimild verður flutt á kost.st. 09610 á ÖNN 

Þessu er mótmælt af Samfés:
Hér er skorið niður faglegt starf félagsmiðstöðva sem kemur niður á forvarnarstarfi. Þetta er ein tillaga sem hnífur heggur í mikilvæga þjónustu við börn og unglinga á sama tíma og allar viðvörunarbjöllur eru í gangi og rauð viðvörun sýnilega þegar kemur að aukinni áhættuhegðun, ofbeldisdýrkun og hópamyndun barna og ungmenn úti eftir lokun. Minnst er á aukinn vopnaburð ungmenna eggvopna og barefla sem er áhyggjuefni okkar allra.

Skerðingar á þjónustu við eldra fólks

Meirihlutinn leggur til að  viðræður verði hafnar um að segja upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27 í hagræðingarskyni ásamt leigusamningi um þjónustumiðstöð DAS við Sléttuveg í Reykjavík. Árlegur kostnaður vegna reksturs á Sléttuvegi er alls 136,5 mkr.

Og svo er það lokun á Siglunesi í Nauthólsvík sem áður hefur verið vikið að. Vísa á þeirri tillögu til ÍTR, þar sem hún verður klárlega felld.

Sá meirihluti sem nú ríkir en aðallega sá síðasti sveik fjölmörg loforð því hann lofaði upp í ermina á sér, færðist of mikið í fang með alls kyns verkefni sem sumir vilja kalla gælu- eða montverkefni og var of upptekin ásýndinni út á við, vilja vera flott og best sem sveitarfélag. Þetta viðhorf er vissulega bara mjög barnalegt og passar illa valdhöfum hvort heldur sveitarfélags eða ríkis.

Flokkur fólksins leggur hér fram á annan tug tillagna sem eru ýmist sparnaðartillögur eða tillögur þar sem lagt er til að fé verði sótt á svið sem sinnir ekki beinni þjónustu við fólk, maður á mann þjónustu og loks tillögur sem kalla á fjárheimildir sem tekið yrði af liðnum ófyrirséð. Það kostar að reka sveitarfélag. Sjá tillögur og greinargerðir á kolbrunbaldurs.is sem og bókanir við 5 liði.