Ræða oddvita Flokks fólksins undir umræðunni um ofbeldistilvik á Menningarnótt, öryggismál og fyrirbyggjandi aðgerðir

Að beiðni Flokks fólksins er umræða um ofbeldistilvik á Menningarnótt, öryggismál og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Ég hef óskað eftir umræða um ofbeldistilvik á Menningarnótt, öryggismál og fyrirbyggjandi aðgerðir í borgarstjórn í dag. Öll erum við miður okkar eftir þá hræðilegu hnífaárásir á Menningarnótt sem leiddi til þess að ung stúlka lést af sárum sínum. Ég vil votta foreldrum og aðstandendum samúð mína. Þetta er ólýsanlegur harmur sem engin orð fá lýst. Ýmsar raddir bentu á þennan faraldur í vopnaburði barna í Reykjavík fyrir um 2-3 árum m.a. lögreglan. Andlát þessarar stúlku verður að verða til þess að við bregðumst við og umfram allt lærum að vinna með fyrirbyggjandi hætti. Á stórviðburðum eins og Menningarnótt hefur lengi verið áberandi að unglingar koma í bæinn mikið til án fylgdar fullorðinna þegar líða tekur á kvöldið. Það sem ég vil ræða í borgarstjórn í dag snýr að hvernig við getum unnið fyrirbyggjandi í stað þess að hrökkva í gang eftir að einhver hræðilegur atburður hefur átt sér stað.
Umræðan um hnífaburð og ofbeldi skýst upp á yfirborðið gjarnan í kjölfar ofbeldistilvika ungmenna þar sem hnífum er beitt. Þess á milli felluumræðan niður eða allt að því. Jafnvel þótt allir gátu séð að þarna var um gangandi tímasprengju að ræða og aðeins tímaspursmál hvenær stórskaði yrði, hafa stjórnvöld ekki mikið gert í málinu, hvorki borgarstjórn né á Alþingi. Nú hins vegar eru lagðar línur og aðgerðir settar af stað. Við sem stjórnmálaafl í borgarstjórn verðum að horfa í eigin barm.
Borgarfulltrúar Flokks fólksins eru sálfræðingur og kennari og höfum við lengi rætt þessi mál okkar á milli og innbyrðis í Flokki fólksins. Í upphafi kjörtímabilsins 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík. Lagt var til að þau þrjú svið sem koma einna mest að þjónustu við börn komi saman og leggðu línur að fyrirbyggjandi aðgerðum. Áhersla var á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að bíða og bregðast við eftir að skaðinn er skeður, þegar allir eru í uppnámi og sorg. Tillaga Flokks fólksins fékk ekki brautargengi.
Sem mótsvar við tillögu Flokks fólksins lagði meirihlutinn í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði fram tillögu um samráðsvettvang stórs hóps hagsmunaaðila og stofnana sem koma að þjónustu við og ungmenni. Tillaga meirihlutans þvældist um í kerfinu og var margoft frestað þar til hún var loks samþykkt. Hvað er síðan að frétta af samráðsvettvanginum? Ekkert hefur komið frá þessum samráðsvettvangi og gott þykir ef hann, með stórum hópi fagfólks og stofnana innanborðs hefur náð að hittast einu sinni eða tvisvar.
Hvað þarf að bæta í þessari borgarstjórn?
Meinið í borgarstjórn er hversu kerfið er svifaseint og óskilvirkt. Mál, jafnvel mál sem eru lífsspursmál taka of langan tíma. Sjálfsagt er í lagi að sumir hlutir sniglist áfram, en hægagangur í málum sem geta kostað líf er óásættanlegur. Borgarstjórn skortir snerpu, hraða og skilvirkni.
Vissulega getur Flokkur eins og Flokkur fólksins gargað meira, ítrekað oftar mál, og bókað meira og sætt sig við að fá skammir fyrir of mikinn málafjölda. Hamagangur Flokks fólksins hefur stundum skilað árangri, en mikið þarf til. Borgarstjórn þarf að sýna meiri fyrirhyggju, lesa aðstæður og samfélagið, túlka og álykta til framtíðar þegar kemur að fólki og atferli þess.  Taka þarf mark á teiknum á lofti, kólguskýjum, og ekki bíða heldur framkvæma strax með skilvirkum hætti. Að einhver einn eða fáir fái umboðið svo mál þurfi ekki að velkjast um í kerfinu frá einu ráði til annars, frá einum fundi til annars. Þeir sem hafa þau völd í höndum sér til að stýra hraða mála, reka á eftir þeim, koma þeim í gegn, fá þau samþykkt hratt og vel. Hér er gríðarmikið í húfi.
Allt sem ég er að segja hér á einnig við um ríkisstjórnina – Alþingi. Barn virðist alltaf þurfa að detta ofan í brunninn áður en stjórnvöld hefur rænu til að byrgja hann.
En skoðum aðeins hvað átt er við með fyrirbyggjandi aðgerðum. Þær aðgerðir sem farnar eru í gang núna eftir þennan hræðilega atburð á Menningarnótt eru einmitt þær aðgerðir sem við hefðum viljað sá komast i gang fyrir að minnsta kosti tveimur árum þegar við blasti hvert stefndi.
Skóla og frístundasvið segir núna, hingað og ekki lengra, og hefur sent póst á alla foreldra í borginni þar sem þeir eru hvattir til þess að ræða við börn sín vegna hnífaburðar barna. Mig langar að gefa sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs prik fyrir hans einlægni þegar hann viðurkennir í viðtali að þetta hræðilega tilvik á Menningarnótt hafi orðið til þess að stígið var fastar til jarðar. Hann segir:

„Við erum búin að verða vör við þróun að auknum hnífaburði barna og ungmenna og þetta hræðilega atvik síðustu helgi það má segja að það hafi orðið til þess að við verðum að stíga fastar til jarðar, við verðum að fjalla um málið beint til foreldra og ná samstöðu með foreldrum og skólum og félagsmiðstöðvum og sporna gegn þessari vá“ (29. ágúst 2024 kl. 21:26, uppfært 31. ágúst 2024)
Auðvitað á að senda reglulega svona bréf til skóla og foreldra grunnskólabarna með hvatningu um að ræða við börnin um alvarleika hnífaburðar og að kynna reglur um vopnaburð fyrir foreldrum og börnum.
Það á ekki að þurfa neitt til
Að lokum, mér finnst eins og ég hafi brugðist sem stjórnmálamaður, sem aðili í borgarstjórn. Það eru okkar mistök að hafa ekki byrjað fyrr að byrgja þennan brunn. Hvað við kemur að teygja sig út til skólanna, barnanna og foreldranna má segja að við höfum sofið á verðinum. Nú er bara spurning hvort við lærum af mistökunum, ætlum við að reyna að fyrirbyggja eða ætlum við að alltaf bara að vakna til lífsins þegar skaðinn er skeður? Það er jú alltaf gott að vera vitur eftir á en nú nagar maður neglur.