Reykjavík of stór fyrir Jöfnunarsjóð!

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er e.t.v. ekki efst í huga fólks svona almennt séð. Engu að síður skiptir sjóðurinn miklu máli í lífi fólks, án þess að mikið beri á.

Reykjavík hefur allt frá stofnun Jöfnunarsjóðs verið tekin út fyrir sviga að ákveðnu leyti vegna stærðar sinnar. Hún nýtur hvorki framlags til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla né framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál.

Árið 2019 var lögum breytt á þann veg að framlög til jöfnunar vegna kostnaðar við rekstur grunnskóla skyldi ekki greiða til sveitarfélaga með fleiri en 70.000 íbúa. Þar með á Reykjavík eitt sveitarfélaga ekki möguleika á því að hljóta umrædd framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Það er vissulega sérkennilegt að Reykjavík fái ekki framlag til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla vegna þess að íbúar eru fleiri en 70.000. Kraginn myndar samfellda byggð með heildarfjölda vel yfir 70.000 manns en þau sveitarfélög fá engu að síður hátt í 2 milljarða króna í jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla ár hvert. Þau lúta sömu viðmiðum um fjölda nemenda í hverjum bekk og greiða kennurum svipuð laun.

Þá skýtur skökku við að Reykjavík geti ekki fengið framlag vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál í ljósi þess að hvergi eru fleiri nemendur í þessari stöðu. Við hljótum að þurfa að taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið síðustu 20 árin með gríðarlegum tilflutningi erlends fólks til landsins sem að stórum hluta sest að í Reykjavík.

Flokkur fólksins vill tryggja öllum börnum góða menntun. Það er þess vegna nauðsynlegt að skoða hvort jöfnunarkerfi sveitarfélaga hafi þróast í samræmi við lýðfræðilegar breytingar og með tilliti til þróunar í kennslufræðum og menntamálum.

Þessa viku sit ég í fyrsta sinn á þingi sem varaþingmaður Flokks fólksins. Ég mun leggja fram þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti réttlætis, óháð búsetu. Það er ekki hægt að una við að eitt sveitarfélag sé fyrirfram útilokað frá úthlutunum jöfnunarframlaga til rekstrar grunnskóla, einungis vegna stærðar. Jöfnunarframlög á að greiða eftir þörfum, samkvæmt hlutlægum reiknireglum er byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir varaþingmaður og borgarfulltrúi Flokks fólksins
Birt í Fréttablaðinu 22. febrúar 2022