Reykjavíkurborg vill finna upp hjólið

Mér hefur þótt ólíðandi að horfa upp á hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar (ÞON) hefur farið með fjármagn borgarbúa í þessa uppgötvunar og tilraunastarfsemi þegar þess hefur ekki þurft þegar kemur að stafrænni umbreytingu. Stafrænar lausnir eru framtíðin. Um það er ekki deilt og þörf fyrir stafrænar lausnir er brýn fyrir þjónustuþega og starfsfólk til að einfalda ferla og liðka fyrir þjónustu.

Það eru meira en þrjú ár síðan hin stafræna vegferð Reykjavíkurborgar hófst. Í málaflokkinn hafa verið settir 10 milljarðar á þremur árum sem virðast að mestu hafa farið í þenslu á í þjónustu- og nýsköpunarsviðinu sjálfu t.d. margvíslegar innri breytingar, stækkun húsnæðis, húsbúnaðar og ráðningu tuga sérfræðinga.

Þegar farið er yfir verkefnastöðu þjónustu- og nýsköpunarsviðs má glöggt sjá að ekki liggja fyrir skýr verkefnatengd markmið með nákvæmri tíma- og framkvæmdaráætlun. Flest verkefni hafa verið og eru enn í einhvers konar tilrauna- og þróunarfasa eins og verið sé að finna upp hjólið. Þarna hefur verið farið með fé af lausung í stað þess að strax í byrjun að leita að lausnum sem þá þegar voru til og farin að virka. Í stað þess að festa sig í tilrauna- og þróunarfasa á lausnum sem eru allt um kring hefði verið hagkvæmast að eiga  samvinnu við Stafrænt Ísland í upphafi þessarar vegferðar.

Sveitarfélagið Reykjavík hefur enga sérstöðu. Það eru sömu þarfir sem þarf að uppfylla hjá notendum og því mikilvægt að koma sér saman um stafrænar lausnir.

Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn hefur gagnrýnt þetta í bráðum eitt ár, með bókunum, blaðaskrifum og fyrirspurnum og lifir enn í þeirri von að dropinn holi steininn.

Á þriðjudaginn 16. nóvember mun fulltrúi Flokks fólksins leggja fram tillögu  í borgarstjórn um að samþykkt verði að gera breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem miðast að því að leitað verði eftir auknu samstarfi við Stafrænt Ísland og island.is um stafræna þróun borgarinnar, innskráningu notenda í gegnum island.is og sameiginleg innkaup á tækjabúnaði og hugbúnaðarleyfum.

Með þessum breytingum verði lögð enn meiri áhersla á að stafræn umbreyting auðveldi aðgengi borgarbúa að rafrænni þjónustu á vefjum borgarinnar í stað þess að stór hluti fjármagnsins fari í innri umbreytingar á sviðinu sjálfu eða í tilrauna- og þróunarfasa sem engan enda virðist ætla að taka.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík
Birt í Morgunblaðinu 13. nóvember 2021