Setjum fólkið í fyrsta sæti í borginni! Grein birt í Vesturbæjarblaðinu

Hinn 14. maí nk. verður kosið til borgarstjórnar í Reykjavík.  Með mér á lista Flokks fólksins er úrvalsfólk, þau Helga Þórðardóttir, kennari,  Einar Sveinbjörn Guðmundsson, kerfisfræðingur, Natalie Gunnardóttir, háskólanemi og stuðningsfulltrúi, og Rúnar Sigurjónsson, vélfræðingur.

Útrýmum biðlistum

Í Reykjavík á engin að líða skort. Flokkur fólksins  hefur beitt sér af krafti í þágu þeirra sem minnst mega sín: öryrkja, aldraðra og barnafjölskyldna.  Langir biðlistar skólabarna eftir allri þjónustu í Reykjavík eru ótækir en nú bíða um 1900 börn m.a. eftir skólasálfræðingum og talmeinafræðingum. Við viljum eyða þessum biðlistum og tryggja öllum börnum  aðgengi að tómstundastarfi og íþróttum án tillits til efnahags foreldra. Á hverju ári er rennt blint í sjóinn með fjölda leikskólaplássa. Erfitt hefur einnig reynst að fullmanna leikskóla í Reykjavík. Lausn þessa alvarlega vanda verður að vera í forgangi.

Sýnum skynsemi í húsnæðismálum

Flokkur fólksins vill taka á hinum alvarlega skorti á húsnæði af öllum gerðum í Reykjavík fyrir alla aldurshópa. Húsnæðisskorturinn bitnar sífellt harkalegar á almenningi,  sérstaklega efnaminna fólki og veldur aukinni verðbólgu. Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar í grónum hverfum þar sem möguleiki er á stækkun innviða. Ómarkviss þéttingarstefna meirihlutans hefur hins vegar leitt til þess að í mörgum hverfum eru innviðir sprungnir.  Sumir þéttingarreitir eru orðnir að skuggabyggð. Tökum tillit til birtuskilyrða við byggingu nýrra íbúða og vörnum gegn hávaða sem skipta miklu fyrir svefn og líðan í búa.

U.þ.b. 600 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og á annað hundrað eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Útrýma þarf húsnæðisskorti aldraðra. Til þess að aldraðir geti búið eins lengi heima og þeir vilja, þarf að tryggja þeim fullnægjandi heimaþjónustu.

Aukum fjölbreytni í samgöngum

Flokkur fólksins styður uppbyggingu á fjölbreyttum samgönguleiðum og vill að hjólreiðarbrautir verði fullgildur samgöngukostur. Víða þarf að bæta hjólreiðabrautir til að tryggja öryggi vegfarenda. Almenningssamgöngur eiga að vera góður valkostur og enginn ætti að vera útilokaður frá þeirri þjónustu vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Flokkur fólksins vill að frítt sé í strætó fyrir öryrkja og aldraða. Eldri en 67 ára fá nú helmingsafslátt ef þeir kaupa árskort sem nýlega hækkaði um 60%. Nýja greiðslukerfið Klapp, sem er rafræn lausn, hefur reynst þessum hópum erfiður ljár í þúfu.

Verndum lífríkið

Fjörur í Reykjavík hafa verið skemmdar til að þétta byggð. Flokkur fólksins vill standa vörð um græn svæði borgarinnar og varðveita þær fáu fjörur sem eftir eru. Við viljum jafnframt auka skógrækt til að kolefnisjafna höfuðborgarsvæðið. Á kjörtímabilinu hefur Flokkur fólksins í borgarstjórn margoft  minnast á metanið sem framleitt er í stórum stíl hjá SORPU en ekki nýtt heldur brennt á báli. Eðlilegt væri að flestir vagnar Strætó verði metanvagnar enda eru bæði Strætó og SORPA í meirihlutaeigu borgarinnar.

Förum betur með peninga borgarbúa

Síðast en ekki síst þarf aga í rekstri borgarinnar. Margar fjárfestingar eru óhagkvæmar og staðið er í  samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar. Mörg kostnaðarsöm mistök hafa verið gerð í fjárfrekum framkvæmdum og útboðum. Það er grundvallarkrafa að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar – að nota skattfé Reykvíkinga samviskusamlega til að bæta þjónustu í stað þess að bruðla með peninga fólks.

Flokkur fólksins berst fyrir bættri þjónustu við borgarbúa. Verkin tala sínu máli og við vonumst til að vera metin að verðleikum í komandi kosningum.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

Sjá má mál Flokks fólksins i borgarstjórn á vefsíðunni www.kolbrunbaldurs.is