Skipulags- og samgönguráð 12. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðu vinnutillögu Hverfisskipulags fyrir Háaleiti-Bústaði hverfi 5.1, Háaleiti Múlar að loknum athugasemdarfresti. Einnig er lögð fram könnun Gallups vegna nýs Hverfisskipulags Háaleitis- Bústaða, dags. í nóvember 2021:

Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst er meirihluti þátttakenda könnunarinnar ekki mjög viss um skoðun sína á hverfisskipulaginu. Hér er um fyrstu drög að ræða og á þessu fyrsta stigi er brýnt að vinna þétt með íbúum. Nú reynir á alvöru samráð. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um nokkrar athugasemdir sem birtar eru. Margar þeirra spegla óöryggi gagnvart skipulagsyfirvöldum. Íbúar eru í varnar- og viðbragðsstöðu og óttast að ekki eigi að hlusta á þá. All margir tjá sig um að byggingarmagn í kynntum tillögum sé mikið og að farið sé of geyst í framkvæmdir. Óttast er að þrengingar og þrengsl verði mikil í þessu gamla, gróna hverfi. Kallað er eftir að farinn sé millivegur. Komið er inn á sorpmálin í tengslum við þéttingu byggðar. Reykjavíkurborg er nú fyrst að fara að safna lífrænu sorpi. Allir þekkja sögu Gaju sorp- og jarðgerðarstöðina sem átti að vera töfralausn en endaði sem stór mistök. Mörg önnur bæjarfélög hafa staðið sig til fyrirmyndar í þessum efnum. Fulltrúi Flokks fólksins skilur þessar áhyggjur íbúanna sem þarna eru reifaðar.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.2 Kringlan-Leiti-Gerði:

Það kennir ýmissa grasa ef athugasemdir eru skoðaðar. Margir eru ánægðir og finnst þetta góðar tillögur. Hér er verið að breyta hverfi í borginni, manngerð framkvæmd. Spurt er engu að síður í athugasemdum af hverju svona framkvæmdir séu ekki settar í umhverfismat? Óskir koma fram um að fjölga frekar grænum svæðum milli húsa en að leggja þau undir íbúðabyggð. Einnig er ekki nægjanleg trú á þessa könnun og efasemdir um að hún sé „alvöru“. Gera þarf fleiri kannanir að mati fulltrúa Flokks fólksins. Fólk óttast miklar þrengingar og kallað er eftir bótum sem taka mið af þörfum allra en ekki bara sumra. Minnt er á að til að tryggja öryggi er hægt að gera undirgöng eða brú.

Í tillögum er gert ráð fyrir að íbúðareigendur fjölbýlishúsa geti byggt við hús sín. Það er að mörgu leyti góð hugmynd en mikilvægt er að kanna sem fyrst hverjir myndu mögulega gera það. Fólkið sem mun búa í þeim íbúðum munu einnig þurfa sitt svigrúm sem gera þarf ráð fyrir. Hér er um vinnutillögur að ræða, fyrstu drög, og gera má ráð fyrir að þær eigi eftir að breytast umtalsvert og vonandi taka breytingar mið af vilja þorra íbúa hverfisins.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.3 Bústaða- og Smáíbúðahverfi:

Í þeim athugasemdum sem lúta að þessum hluta hverfisins er m.a. bent á að byrja þarf á innviðum. Þetta er góður punktur. Almenningssamgöngur eru innviðir og óttast er að þrenging verði of mikil til að gott rými verði fyrir almenningssamgöngur. Sjálfsagt er að þétta hóflega en það má aldrei koma niður á grænum svæðum. Algengar athugasemdir vinnutillagnanna eru að verið sé að þétta of mikið og ekki sé gert ráð fyrir nægjanlegu svigrúmi fyrir fólkið sem þarna býr og á að búa í framtíðinni. Fram kemur í athugasemdum að það sé áberandi áróður gegn bílaumferð. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að umfram allt á fólk að geta ráðið sínum lífstíl í samgöngumálum. Ákveðinn hópur upplifir að verið sé að þrýsta þeim inn í einhvern samgöngumáta sem hentar þeim ekki en sem meirihlutinn vill að sé viðhafður. Sumum finnst að hverfisskipulagið hafi verið of lítið kynnt. Það eru ekki allir sem fara inn á vef borgarinnar. All margir tala um að auka hljóðvarnir meðfram Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Á þessar raddir þarf að hlusta.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Háaleiti-Bústaðir 5.4 Fossvogshverfi-Blesugróf:

Í athugasemdum koma fram bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð. Sumir tala um svart/hvíta niðurstöðu. Tillögur eru um ýmsar leiðir til þéttingar og óttast margir að þétt verði of mikið. Mikil vinna er fram undan og verður hún að vera unnin með íbúunum eins og kostur er. Þó nokkrir tjá sig um áhyggjur sínar að komast heim og að heiman ef fjöldi íbúa eykst í hverfinu. Fulltrúi Flokks fólksins finnst mikilvægt að skoða sem fyrst hverjir myndu nýta sér að hækka- stækka hús sín til að átta sig á mögulegum þrengslum. Almennt er fólk ekki alfarið á móti því að þétta en óttast hið mikla byggingarmagn sem tillögurnar ganga út á. Aðrir vilja að hugað sé að útlitinu enda er hér um gróið hverfi að ræða. Hugmyndir frá íbúum eru margar áhugaverður og ættu skipulagsyfirvöld að leggja sig fram um að hlusta og vinna með íbúum hverfisins að frekari útfærslum. Á íbúana verður að hlusta og taka tillit til sjónarmiða sem margir standa á bak við.

 

Úrdráttur bókanna  vegna Háaleitis – Bústaðahverfis:

Gallup könnun vegna hverfisskipulags Háaleitis-Bústaðar var kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun.
Flokkur fólksins tekur undir fjölmargar athugasemdanna og skilur áhyggjur íbúanna. Hér er megininntak fjögurra bókanna frá Flokki fólksins:
Í þeim athugasemdum sem könnunin sýnir er m.a. bent á að byrja þarf á innviðum. Almenningssamgöngur eru innviðir og óttast er að þrenging verði of mikil til að gott rými verði fyrir almenningssamgöngur. Algengar athugasemdir vinnutillagnanna eru að verið sé að þétta of mikið og ekki sé gert ráð fyrir nægjanlegu svigrúmi fyrir fólkið sem þarna býr og á að búa í framtíðinni.
Sjálfsagt er að þétta hóflega en það má aldrei koma niður á grænum svæðum.
Óskir koma fram um að fjölga frekar grænum svæðum milli húsa en að leggja þau undir íbúðabyggð.
Fram kemur í athugasemdum að það sé áberandi áróður gegn bílaumferð. Flokkur fólksins tekur undir það. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að umfram allt á fólk að geta ráðið sínum lífstíl í samgöngumálum. Ákveðinn hópur upplifir að verið sé að þrýsta þeim inn í einhvern samgöngumáta sem hentar þeim ekki en sem meirihlutinn vill að sé viðhafður.
Sumum finnst að hverfisskipulagið hafi verið of lítið kynnt. Það eru ekki allir sem fara inn á vef borgarinnar.
All margir tala um að auka hljóðvarnir meðfram Kringlumýrarbraut og Miklubraut. Á þessar raddir þarf að hlusta.
Einnig er ekki nægjanleg trú á þessa könnun og efasemdir um að hún sé „alvöru“. Gera þarf fleiri kannanir að mati fulltrúa Flokks fólksins.
Fólk óttast miklar þrengingar og kallað er eftir tillögum sem taka mið af þörfum allra en ekki bara sumra. Minnt er á að til að tryggja öryggi er hægt að gera undirgöng eða brú.
Í tillögum er gert ráð fyrir að íbúðareigendur fjölbýlishúsa geti byggt við hús sín. Það er að mörgu leyti góð hugmynd en mikilvægt er að kanna sem fyrst hverjir myndu mögulega gera það. Fólkið sem mun búa í þeim íbúðum munu einnig þurfa sitt svigrúm sem gera þarf ráð fyrir.
Hér er um vinnutillögur að ræða, fyrstu drög, og gera má ráð fyrir að þær eigi eftir að breytast umtalsvert og vonandi taka breytingar mið af vilja þorra íbúa hverfisins.
Mikil vinna er fram undan og verður hún að vera unnin með íbúunum eins og kostur er. Þó nokkrir tjá sig um áhyggjur sínar að komast heim og að heiman ef fjöldi íbúa eykst í hverfinu.

Almennt óttast fólk að þétta enda byggingarmagn sem tillögurnar ganga út á mikið. Hugmyndir frá íbúum eru margar áhugaverður og ættu skipulagsyfirvöld að leggja sig fram um að hlusta og vinna með íbúum hverfisins að frekari útfærslum. Á íbúana verður að hlusta og taka tillit til sjónarmiða sem margir standa á bak við.

Úr fréttum um málið:

Nú hafa borgaryfirvöld hætt við hugmyndir um þéttingu byggðar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ í Reykjavík vegna þess að nokkur meirihluti var andvígur ýmsum vinnutillögum hverfisskipulags í Háaleiti-Bústöðum sem hafa verið í kynningu frá því í október. Viðhorf til vinnutillagna hverfisskipulags Reykjavíkur fyrir Háaleiti-Bústaði voru kortlögð í Gallup könnun. Þetta er skynsamlegt. Meirihlutinn hefur eitthvað lært á kjörtímabilinu.

Í bókun meirihlutans í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar eftir kynningu á könnuninni í dag er umræðunni sem hafi átt sér stað um vinnutillögur að hverfisskipulagi Háaleitis og Bústaða fagnað.

Tillögurnar að þéttingu byggðar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ hafa mætt andstöðu meðal margra íbúa í hverfinu. Mikilvægt er að hlusta á þessar raddir íbúa og réttast er að leggja þessar hugmyndir um þéttingu við Bústaðaveg til hliðar og leita annarra lausna sem byggja á breiðari sátt og draga úr umferðarhraða, bæta hljóðvist og tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á svæðinu eins og kallað hefur verið eftir,“ segir í bókuninni.

 

Unnið að nýjum tillögum

Lagt er til að unnið verði úr athugasemdum og niðurstöðum Gallup könnunar og netsamráðs með áherslu á að skoða umdeild atriði. Sérstök áhersla verði á afmarkað þróunarsvæði á Bústaðavegi við Grímsbæ. Stefnt er að því að kynna nýjar tillögur sem fyrst.

 

Þegar spurt var um hugmyndir um uppbyggingu meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ var rúmur helmingur svarenda andvígur hugmyndunum, eða 58 prósent, og um þriðjungur hlynntur.

Sama var uppi á teningnum þegar spurt var um tillögur að uppbyggingu meðfram Miklubraut og Háaleitisbraut en rétt um helmingur var andvígur hugmyndunum en 35% hlynnt. Meirihluti sagðist þó hlynntur uppbyggingu við Miklubraut og Háaleitisbraut ef Miklabraut væri sett í stokk undir Háaleitið.

 

Fjölbýlishús – nýbyggingar, aukahæðir og lyftuhús

Í könnuninni var spurt um viðhorf til hugmynda sem kynntar höfðu verið í vinnutillögum hverfisskipulagsins um að heimila nýbyggingar á stórum og lítið nýttum fjölbýlishúsalóðum á nokkrum stöðum í borgarhlutanum. Nánast jafnt hlutfall svarenda var hlynnt hugmyndunum og andvígt, þ.e. 38,5% hlynnt en 39% andvíg. Þá voru 45% hlynnt því að húsfélögum lyftulausra fjölbýlishúsa yrði heimilt að byggja aukahæð ofan á húsin og koma fyrir lyftu til að bæta aðgengi. 30% voru andvíg.

 

Grænar áherslur

Spurt var um viðhorf til grænna áherslna í vinnutillögunum, þ.e. um uppbyggingu grænna dvalarsvæða meðfram hitaveitustokknum og lagfæringu hans sem gönguleiðar. Í vinnutillögum hverfisskipulags er jafnframt lagt til að stokkurinn verði hverfisverndaður sem borgarminjar. Mikill stuðningur var við þessar tillögur, eða um 81% en einungis um 5% andvíg. Svipaða sögu er að segja um stuðning við tillögur um vistlok (gróðurbrú) yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð en 71% sagðist hlynnt hugmyndunum en 11% andvíg. Vistlok á þessum stað myndi búa til græna tengingu á milli hverfanna sitthvoru megin við Kringlumýrarbraut, bæta göngu- og hjólatengingar og draga úr ónæði frá þungri umferð,“ segir í tilkynningu á vef borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við Uppbygging göngu- og hjólastíga í Reykjavík, áætlun, kynning:

Markmiðið er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Það er mikilvægt að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana og hefur verið vel tekið í það. Fulltrúa Flokks fólksins finnst einnig mikilvægt að hjólastígar séu flokkaðir eftir öryggi þeirra og gæðum þannig að hægt sé að skoða á netinu hvaða hjólastígar væru öruggir og hverjir jafnvel hættulegir. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Yfirleitt er ekki vöntun á rými og hægt að breikka stígana og búa til aflíðandi beygjur, en beygjur eru allt of oft of krappar fyrir hjólreiðafólk, og minnka þarf brekkur. Fyrir hjólreiðafólk er betra að fara langa leið á flata en að fara styttri sem er upp og niður brekku. Áhyggjur eru af fjölgun slysa þeirra sem nota minni vélknúin farartæki. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi í fyrri bókunum að fjarlægja þurfi járnslár og nú hefur skipulags- og samgönguráð samþykkt að það verði gert.


Bókun Flokks fólksins við Undirskriftalisti vegna hámarkshraðaáætlunar:

1.564 einstaklinga mótmæla hámarkshraðaáætlun borgarinnar. Þetta kemur ekki á óvart. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hafa 30 km/klst. hámarkshraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Um þetta hefur aldrei verið deilt í borgarstjórn. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Sjá má hversu umdeilt þetta er enda togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma. Annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmengun. Umferðartafir og teppur í borginni er víða vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir margar nothæfar tillögur. Þessi mál hafa lengi verið vanrækt. Vaxandi vandi er sem dæmi á Breiðholtsbrautinni á annatímum. Þar hafa nú myndast langar bílaraðir á morgnana og síðdegis. Þar hefur hraðinn verið lækkaður en öllu jafna er umferða þarna mjög þung. Nú er þar komin eftirlitsmyndavél og þeir sem fara yfir hámarkshraðann fá sekt.

 

Bókun Flokks fólksins við Húsverndarsjóður Reykjavíkur 2022, skipan vinnuhóps 2022:   

Styrkveitingar eru vandasamar og mikilvægt er að hópurinn sé vel skipaður. Þarna eru taldir upp þrír embættismenn og ættu kjörnir fulltrúar að vera allavega fjórir.

 

Bókun Flokks fólksins við Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar til 2030, umsagnarbeiðni:

Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. desember 2021, þar sem skipulags- og samgönguráði er gefinn kostur á að senda inn umsögn eða gera athugasemdir við stefnudrög Atvinnu og nýsköpunarstefnu Reykjavíkur til 2030. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í umsögninni þurfi að ávarpa nokkur mikilvæg atriði. Það er til dæmis mikil tortryggni og vantraust milli atvinnulífs og borgar sem horfa þarf á með lausnir í huga. Fólki finnst ógegnsæ og flókin þjónusta vera í borginni sem tefur framgang mála. Það eru frekar fáar atvinnustoðir í borginni og óljós ímynd borgarinnar þegar kemur að atvinnu. Aðrir þættir sem huga þarf að eru kolefnisspor og ójöfnuður sem fer vaxandi.