Skipulags- og samgönguráð 12. maí 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hvassaleitisskóli, breyting á deiliskipulagi

Fulltrúi Flokks fólksins telur að best hefði farið á því að fresta þessu máli enda hér farið gegn vilja íbúa sem hafa verið samstíga í málinu. Þetta er m.a. spurning um öryggi og öll viljum við að öryggi barna sem er að koma í og úr skóla sé sem allra mest. Vinna á þetta með íbúum ekki síst þeim sem breytingarnar snerta mest. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram tillögu og hvatt skipulagsyfirvöld til að hlustað verði á íbúana í hverfinu, unnið með þeim í málinu. Sú tillaga Flokks fólksins er lögð fram á þessum sama fundi og verður væntanlega vísað frá. Aðgerðir þessar eru að ósk skólans en finna þarf lausn sem allir geta sætt sig við.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 22. mars 2021, að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla:

Búið er að skemma flesta Rauðhóla. Heilu hólunum var mokað í burtu, grafið í þá og þeir tættir og nú stendur eftir alls konar form af „hólum“, allt skemmdir af mannanna völdum. Skemmdir vegna efnistöku eru skerandi og ættu að minna alla á að ganga vel um náttúruna. Hægt er að nota Rauðhólana sem efni í fræðslu um hvernig á EKKI að ganga um náttúruna. Til stendur að gera nýtt göngustígakerfi og er það af hinu góða. Nú er spurning hvort og hvernig hægt að gera það besta úr þessum skemmdum. Rauðhólar eru vannýtt svæði með tilliti til útivistar og mun bætt göngustígakerfi vonandi verða til bóta.

Bókun Flokks fólksns við liðnum: Nagladekkjatalningar í Reykjavík veturinn 2020-2021, kynning:

Skýrsla Eflu um talningu nagladekkja er kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs. Verkfræði- og arkitektastofan Efla er ráðin til að halda utan um verkið en sem fær síðan aðra, ungt fólk/námsmenn til að „telja“ hverjir eru á nagladekkjum. Sjálfsagt er að fá þessar upplýsingar og búið er að gera talningu sem þessa frá aldamótum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þó afar sérstakt að ekki sé fenginn einhver borgarstarfsmaður til að halda utan um þetta verkefni heldur ráðin rándýr verkfræði- og arkitektastofa til þess. Hér mætti hagræða og spara. Utanumhald af þessu tagi krefst hvorki verkfræði- né arkitektamenntunar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að fela skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar að móta tillögu að fyrsta áfanga innleiðingar hámarkshraðaáætlunar sem komi til framkvæmda á árinu:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að hafa 30 km/klst. hámarkshraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Um þetta hefur aldrei verið deilt í borgarstjórn. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Hins vegar er annað í tillögu meirihlutans/skipulagsyfirvald um innleiðingu hámarkshraðaáætlunar og hraðahindrana sem eru verulega umdeilt enda togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma. Annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmyndun. Umferðartafir og teppur í borginni er víða vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir margar nothæfar tillögur. Þessi mál hafa lengi verið vanrækt. Vaxandi vandi er sem dæmi á Breiðholtsbrautinni á annatímum. Þar hafa nú myndast langar bílaraðir á morgnana og síðdegis. Þar stendur til að lækka hraðan sem er auðvitað algjörlega tilgangslaust á braut þar sem umferð er orðin svo þung að útilokað era ð aka þar ,,hratt”.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Framtíð kænustarfs Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar í Nauthólsvík, framtíðarsýn og siglingaraðstaða:

Lagt er fram bréf Brokey, siglingafélags Reykjavíkur þar sem óskað er eftir leiðbeiningu varðandi framtíðasýn um siglingaaðstöðu. Í umsögn Heilbrigðiseftirlitsins er mælt gegn því að siglingaaðstaða verði við Nauthólsvík. Ásamt því að þarna á einnig að ganga á náttúrulega fjöru. Það væri best ef hægt væri að finna aðstöðunni hentugri stað þar sem ekki er gengið svo mikið á náttúru. Nú er þetta í Nauthólsvík og vissulega er þetta gott siglingasvæði. En vegna ábendinga frá Heilbrigðiseftirliti þarf að halda áfram að finna þessari starfsemi annað svæði í góðu samráði og samvinnu við Brokey enda afar mikilvæg íþrótt.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hvort ekki væri rétt að skoða að tengja hverfisvernd Húsverndurarsjóði?

Þetta ár bárust 39 umsóknir og engin frá úthverfum, flestar í miðbæ og vesturbæ enda þar flest gömul hús, friðuð hús. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja fram fyrirspurn um hvort ekki væri rétt að skoða að tengja hverfisvernd Húsverndurarsjóði?
Nú eru mörg úthverfi að komast á það stig að þau spegla tíðaranda þess tíma þegar þau voru byggð. Það ber að varðveita. Nú söknum við t.d bensínstöðva,-Nesti- sem aldrei urðu 100 ára. Með því að tengja hugmyndina um hverfisvernd við húsverndun (Húsverndunarsjóðs) opnast möguleikar á að vernda ákveðin stíl eða tíðaranda þess tíma þegar hverfið var byggt.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokk sem leggja það til að að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni í Vesturbænum við Ánanaust. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að koma með tillögu að útfærslu fyrir 15. júní næstkomandi:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar og styður þessa tillögu um að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni i Vesturbæ við Ánanaust enda hefur fulltrúi Flokks fólksins marg oft bent á að náttúrulegar fjörur eru gott útivistarsvæði, en því miður er stöðugt gengið á þær. Þar sem möguleiki er á að nýta þær til útivistar á aðgengi að vera gott. Þannig er það í þessu tilfelli. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni eins og kemur fram í tillögunni. Bæta þarf aðgengi til að fólk geti notið þessa fallega útivistastaðar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um samráð við íbúa Brekkugerði og Stóragerði:

Tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld hlusti á íbúa við Brekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni hefur verið felld með þeim rökum vegna þess að skipulagsyfirvöld hafa nú þegar afgreitt málið. Það væri þessum meirihluta að meinalausu að hlusta nú á samstíga ákall íbúa sem benda á atriði um öryggi barna þeirra. Skipulagsyfirvöld eru í þjónustu borgarbúa en ekki öfugt. Skipulagsmál er ekki einkamál fárra aðila í meirihluta borgarstjórnar eða embættismanna. Enginn veit betur um hættur í hverfum en íbúarnir sjálfir.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

Nýtt deiliskipulag fyrir Hvassaleitisskóla var samþykkt fyrr á fundinum. Því er eðlilegast að fella umrædda tillögu. Deiliskipulagið byggir á hugmyndum innan úr skólasamfélaginu. Hugmyndir um heildarfækkun stæða í hverfinu eru athyglisverðar en mögulegt er að skoða þær í framtíðinni, til dæmis í tengslum við gerð nýs hverfisskipulags.

 

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um styrki til glerskipta í gluggum vegna hljóðvistar

Hversu margir hafa sótt um og hversu margir hafa fengið styrk til glerskipta í eigin húsnæði til að bæta hljóðvist á ári hverju frá árinu 2014?

Hversu mikið hefur verið greitt í styrki til glerskipta á ári hverju frá árinu 2014?

Hvernig dreifast umsóknir og styrkveitingar vegna glerskipta á götur?

Hver er hæsta fjárhæð vegna styrks sem hefur verið veittur vegna glerskipta og hvert er meðaltal fjárhæða styrkja?

Hver er kostnaður Reykjavíkur á ári hverju frá árinu 2014 við að meta hvort umsækjendur uppfylla kröfur til styrkveitingar og við að meta hljóðstyrk og veita ráðgjöf vegna hljóðvistar?

Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að sami einstaklingur hljóti fjölda styrkja vegna þess að viðkomandi á fleiri en eina íbúð?

Er skilyrði að einstaklingur búi í því húsi þar sem sótt er um styrk?

Er eitthvað horft til efnahagsstöðu umsækjanda við mat á styrkhæfni hans?

Frestað.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað borgarinnar við að ráða verkfræði- og arkitektastofuna Eflu til að halda utan um þetta verk?

Skipulagsyfirvöld fá verkfræðistofuna Eflu til að halda utan um nagladekkjatalningu. Efla fær síðan ungt fólk/námsmenn til að telja hvað margir aka á nagladekkjum.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um kostnað borgarinnar við að ráða verkfræði- og arkitektastofuna Eflu til að halda utan um þetta verk?

Óskað er upplýsingar um kostnað fyrir einstakt skipti og hver kostnaðurinn hefur verið frá upphafi þ.e. frá aldaldamótum þegar talning hófst. Óskað er sundurliðunar á kostnaði og að með svari fylgi afrit af reikningi frá Eflu.

Frestað.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð skipulagsyfirvalda við aukinni umferð á Breiðholtsbraut

Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af þróun umferðarmála á Breiðholtsbraut. Þar er umferð oft mikil, einkum á Breiðholtsbrautinni á annatímum. Þar hafa nú myndast langar bílaraðir á morgnana, síðdegis og við upphaf frídaga og enda þeirra. Það er orðið afar brýnt að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni. .

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvað skipulagsyfirvöld hyggjast gera í þessu, hvernig á að bregðast við þessu og hvenær. Málið er brýnt og þarfnast tafarlausra aðgerðar.

Frestað.