Borgarráð 2. september 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 25. ágúst 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Einholts-Þverholts vegna lóðarinnar nr. 13 við Þverholt:

Þverholt 13 – deiliskipulag: Fulltrúi Flokks fólksins hefur samúð með fólki sem telur sig hafa keypt húsnæði með einhverju ákveðnu útsýni en næsta sem gerist er að byggt er þannig við hlið þess að útsýni er ýmist skert eða hverfur alveg. Í sumum þessara mála er um hrein svik að ræða því fólki hefur verið sagt að ekki verði byggt þannig að útsýni þeirra verði skert. Í mörgum tilfellum hefur fólk jafnvel fjárfest í eigninni mikið til vegna útsýnis eða sólarlags nema hvort tveggja sé.

 

Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. september 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. september 2021 á trúnaðarmerktum tillögum að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2021.

Trúnaður er um efni tillagnanna fram að afhendingu viðurkenninganna og er bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins færð  í trúnaðarbók.

 

Bókun Flokks fólksins við túnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 31. ágúst 2021, varðandi áhættuskýrslu A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir 2. ársfjórðung 2021:

Áhættuskýrsla A-hluta: Fulltrúi Flokks fólksins hefur alvarlegar áhyggjur af stöðu fjármála í borginni og þá helst þeim sviðum sem standa undir beinni þjónustu við borgarbúa. Þessi svið þurfa meiri athygli borgaryfirvalda vegna vaxandi umsvifa og óvæntrar neikvæðrar þróunar. Nýlega kom enn ein könnunin út um vaxandi vanlíðan barna og fjölgun er í málum til barnaverndar. Biðlisti barna eftir sálfræðingum skóla er langur og ef fram heldur sem horfir mun ekki sjá högg á vatni því það vantar fleiri fagaðila. Fulltrúi Flokks fólksins vill „stokka upp á nýtt“. Velferðarsvið og skóla- og frístundasvið þurfa meira fjármagn til að mæta þörfum minnihlutahópa og viðkvæmra hópa. Oft hlýtur að mæða mikið á starfsfólki. Þetta má sjá á háu veikindahlutfalli. Reykjavíkurborg á því ekki annan kost en að vinna úr stöðunni sem hér er uppi. Sækja má fé til annarra sviða eins og þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sem ekki hefur fæði, klæði og húsnæði borgarbúa á sínum herðum en hefur sogað til sína gríðarlegt fjármagn á stuttum tíma. Mörg verkefni mega bíða og einnig getur sviðið gengið til samstarfs við Stafrænt Ísland, island.is, sem spara myndi milljónir ef ekki milljarða eins og fram kom á ráðstefnunni Tengjum ríkið.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 26. ágúst 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. ágúst 2021 á tillögu að sameiningu á yfirstjórnum frístundamiðstöðvanna Ársels og Gufunesbæjar:

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans í skóla- og frístundaráði að frístundamiðstöðvarnar Ársel og Gufunesbær verði sameinaðar undir einni yfirstjórn: Ánægja er með frístundastarf en er ánægja með þessa sameiningu? Fram kemur að sameining hefur ekki verið borin undir notendur, foreldrahópinn. Það var ekki talið nauðsynlegt að mati skóla- og frístundasviðs en kannski hefði mátt upplýsa notendur um þessa breytingu. Fulltrúi Flokks fólksins óskar þess að þetta verði farsælt. Gæta þarf vel að þjónustan skerðist ekki, aukist frekar og verði bara enn betri ef eitthvað er. Einnig þarf að huga að því að enginn „týnist“ þegar eining er orðin svo stór sem raun ber vitni.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 26. ágúst 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. ágúst 2021 á tillögu um opnunartíma leikskóla og tillögum stýrihóps um umbætur á skipulagi og umhverfi leikskólastarfs Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum:

Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins mótmælir fyrirhugaðri styttingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar og tekur þar með undir með foreldrum og foreldrafélaginu. Stytting opnunartíma leikskóla og skerðing á þjónustu sem lögð er til mun hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur og oft þær fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæðasamverustundir foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur. Þessi breyting mun minnka þjónustu í nærumhverfi íbúa og leiða til meiri aksturs í andstöðu við markmið borgarinnar í umhverfismálum. Niðurstöður jafnréttismatsins sýna líka ótvírætt að stytting opnunartíma hefur meiri áhrif á mæður en feður. Mikilvægt er að vandað verði til verka þegar mælikvarðar og markmið til þessa að meta áhrif þessa tilraunaverkefnis verða skilgreind og haft verði samráð við fulltrúa foreldra við það.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á starfsemi, fjármagnsskipun, stöðu og framgangi verkefna Betri samgangna:

Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því að að Arnarnesvegur mun hafa mjög neikvæð umhverfisáhrif. Á þetta hefur fulltrúi Flokks fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs margsinnis bent og vonast til að fengið verði nýtt umhverfismat í stað þess að byggja á 18 ára gömlu mati. Það mun gríðarlegt ónæði hljótast af þessum framkvæmdum fyrir íbúa nágrennisins. Möguleiki er á að hús í nálægð við veginn muni skemmast vegna sprenginga og fleira. Hætta er á að verðgildi húsa í nágrenni við veginn muni falla. Framkvæmdir munu taka allt að ár eða lengur og allan þann tíma þurfa íbúar í nágrenni að búa við skert lífsgæði. Þetta verður að skoða betur og því er ekki hægt að byggja svona stórar framkvæmdir á umhverfismati sem er nær tveggja áratuga gamalt. Fulltrúi Flokks fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs eru mjög ósammála úrskurði í umhverfismati, sem var unnið fyrir Vegagerðina árið 2003, um að lagning 3. kafla Arnarnesvegar muni hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Það er vert að hafa í huga að verkfræðistofurnar sem vinna þessar skýrslur fyrir Vegagerðina koma ávallt með niðurstöður sem samræmast væntingum Vegagerðarinnar. Vegagerðin og þessar verkfræðistofur virðast aldrei setja náttúru og lífríki í fyrsta sætið.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrslu  Betri samgangna ohf., dags. júní 2021, um stöðu og framgang verkefna félagsins:

Sagt er frá störfum í stýrihópi milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í þessari skýrslu. Stýrihópurinn á að koma að stefnumótandi ábendingar  um fyrirtækið Betri samgöngur sem koma til meðferðar Alþingis og sveitarfélaganna.  Er þessu eitthvað sinnt af hálfu borgarinnar? spyr fulltrúi Flokks fólksins. Borðleggjandi er að tvöfalda þarf legginn milli Jafnasels og Rauðavatns áður eða ef  gatnamót verða gerð við Arnarnesveg. Á síðasta ári kom fram vel rökstutt gagnrýni á að Vegagerðin stýri framkvæmdum við borgarlínu því sérþekking Vegagerðarinnar liggur frekar í að koma fólki fljótt á milli staða, en borgarlínan á að bæta umhverfið og liðka til við að flytja fólk. Til margra annarra þátta þarf að líta en umferðarhraða sem Vegagerðin leggur áherslu á. Vaknað hafa upp spurningar um hvort Vegagerðin sé rétti aðilinn til að stjórna uppbyggingu borgarlínunnar. Sérþekking hennar liggur ekki í að hanna almenningssamgöngukerfi, heldur í því að hanna umferðarmannvirki svo sem mislæg gatnamót og hraðbrautir.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um áhættustefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um áhættustefnu borgarinnar og hvort ferlið er gegnsætt og ferlið að fullu opið. Óskað var eftir að fá framlagðan gagnsæisferil þessara fyrirhuguðu áhættustefnu. Segir í svari að þann 21. janúar 2021 voru drög að áhættustefnu kynnt í borgarráði. Þann 10. júní sl. voru síðan lögð fram lokadrög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar ásamt bréfi til borgarráðs með áhættustefnu. Vísað er til framlagðra skjala frá 10. júní sl. sem svar við þessari fyrirspurn. Allt er þetta rétt en fulltrúi Flokks fólksins sér hins vegar ekkert skrifað um gegnsæi ferilsáhættu stefnunnar í fyrri gögnum. Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að stefna að þessu tagi, sé hún vel og rétt úr garði gerð, er af hinu góða og gæti aukið traust borgarbúa á meirihluta borgarstjórnar. Hefði svona stefna verið til þegar endurgerð braggans var, hefði bruðl og óráðsía kannski ekki náð að þrífast.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn kostnað vegna uppfærslu á aðbúnaði í Borgartúni 12-14, sbr. 56. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl 2021:

Þessu máli var frestað á þeim forsendum að tölur væru rangar. Einu tölurnar sem leiðréttar hafa verið eru um velferðarsvið og er því þessu máli óviðkomandi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort mikið sé að marka þessar tölur. Vitað er að búið er að uppfæra allt og endurnýja á skrifstofum þjónustu- og nýsköpunarsviðs í Höfðatorgi. Fjármálastjóri er bara milliliður og fær tölur beint frá sviðinu. Einn lykill 5556 er settur á allt en vel gæti verið að um fleiri kostnaðarlykla sé að ræða. Það er löngu ljóst að sú stafræna umbreyting sem boðuð er með græna planinu er orðin grunsamlega umfangsmikil og þarfnast því eftirlits og rannsóknar hvað fjármálaumsýslu þessa sviðs varðar. Einnig þarf að rýna í fortíðina og skoða  ýmislegt eins og óeðlilega mikil erlend ráðgjafarkaup í næstum áratug fyrir tugi milljóna, fyrir utan alla aðra aðkeypta ráðgjöf og tilraunastarfsemi. Innri endurskoðun þarf að leggja fram ítarlega úttektaráætlun fyrir endurskoðunarnefnd undir lok árs, þar sem vonandi verða teknar ákvarðanir um að skoða mál þessa sviðs ofan í kjölinn.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um tillögu um styttingu opnunartíma leikskóla sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2021:

Fyrirspurnin var lögð fram í janúar 2020 sem sagt fyrir 1½ ári. Þá var uppi tillagan að stytta opnunartíma leikskóla um hálftíma með bráðabirgðaákvæðum. Svarið sem nú loks berst á því ekki lengur við. Staðan í dag er sú að skellt verður innan tíðar í lás á leikskólum kl. 16:30. Þurfi foreldrar nauðsynlega á hálftíma lengri vistun fyrir börn sín að halda eða til kl. 17:00 er barnið flutt á annan leikskóla. Almennt séð mótmælir fulltrúi Flokks fólksins skerðingu á þjónustu við foreldra og börn enda mun það hafa neikvæð áhrif á fjölmargar fjölskyldur og oft þær fjölskyldur sem hafa minnst bakland og þurfa mest á leikskólavist að halda. Skert þjónusta leikskóla eykur ekki endilega gæði samverustunda foreldra og barna heldur getur aukið álag á fjölskyldur.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ummæli Einars S. Hálfdánarsonar um endurskoðunarnefnd, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. apríl 2021:

Þessi fyrirspurn Flokks fólksins er eldgömul, hún var lögð fram 16. apríl 2020 og er um ummæli Einars S. Hálfdánarsonar í Fréttablaðinu 14. apríl sama ár að „braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að það hafi ekki verið nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“. Það er athyglisvert að rifja upp þetta mál nú tveimur árum síðar og er fulltrúi Flokks fólksins enn á því að meðvirkni hafi ríkt innan meirihlutans gagnvart braggamálinu og ríki hún enn. Sá endurskoðandi sem hér um ræðir steig fram og sagði hlutina eins og þeir voru, braggaskýrslunni var stungið undir stól og sennilega fékk hann bágt fyrir að hafa tjáð sig um málið. Umsögn endurskoðunarnefndar liggur loks fyrir nú í ágúst 2021 meira en ári síðar. Nefndinni var ekki kunnugt um fyrirspurn Flokks fólksins frá 16. apríl 2020 fyrr en nú nýlega og er beðist velvirðingar á því að hún hafi ekki verið afgreidd fyrr. Fulltrúi Flokks fólksins sér að hér hefur eitthvað misfarist í stjórnsýslunni og er ekki meira við því að segja.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um utanlandsferðir á vegum borgarinnar sem farnar voru vegna annarra ástæðna en fundahalds, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. mars 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins vill byrja á að gagnrýna þann langa tíma sen það tekur að fá svör við fyrirspurnum. Hér er um að ræða fyrirspurn frá miðju ári 2020. Um er að ræða framhaldsfyrirspurn um ferðir erlendis sl. tvö ár á vegum borgarinnar annarra en vegna fundarhalda. Þær voru 517. Ferðirnar voru farnar af alls 34 starfsmönnum, 8 embættismönnum og 10 borgarfulltrúum. Nokkrir fóru fleiri en eina ferð vegna funda.  Flokkur fólksins óskaði eftir að fá sundurliðun á 463 ferðum sem voru farnar vegna annarra ástæðna en fundahalds. Hversu margar ferðir voru námsferðir og í þeim tilfellum og var ekki mögulegt að stunda fjarnám? Í svari segir að ekki séu gerðar kröfum um að tilgreint sé hvort fundur eða ráðstefna hefði getað verið sótt rafrænt. Fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir hversu ónákvæmar skráningar eru. Bak við hverja ferð sem skráð er geta verið margir starfsmenn ef fleiri en einn eru að sækja sama viðburð. Einhver hluti þessara ferða geta verið styrktar af stéttarfélögum. Ráðstefnuferðir voru 182 á tveimur árum og skoðunar- og kynnisferðir til að skoða áhugaverða þætti eru 54. Það er augsýnilegt að eftirlit hefur verið með öllu ófullnægjandi og fyrir þann sem vill misnota þetta kerfi er leiðin greið.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi niðurstöðu greiningar á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun í Reykjavík, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. maí 2021:

Þetta svar og fyrri svör um kynjuð fjármál í niðurstöðu greiningar á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun í Reykjavík í verkefni sem borgin vann í samvinnu við m.a. nemendur í HÍ er með ólíkindum ruglingslegt. Höfundur skýrslunnar hrósar borginni i hástert og segir að vinnubrögð borgarinnar um kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og að óskandi væri að fleiri sveitarfélög tileinki sér þessa aðferðafræði. En þegar spurt er um hvaða aðferðafræði verið sé að vísa í, er fátt um svör. Í svari segir að orð höfundar beri því ekki að túlka sem skoðun starfsfólks, embættisfólks eða kjörinna fulltrúa. Dæmi um ruglingslegan málflutning er þetta:  „Konur lýsa meiri þörfum en karlar“ en samt eru þær metnar með minni þörf en karlar sem vísar mögulega til þess að verið sé mismuna mati á þjónustuþörf eftir kynjum. Segir að vegna „vinnubragða/aðferðarfræði eru kynjuð fjármál að bæta konum upp mismun.“ Fulltrúi Flokks fólksins er að reyna að skilja þetta. Í lokaorðum fjármálasviðs segir svo að ekki sé hægt að sjá að höfundur komist að þeirri niðurstöðu og kynjuð fjármál bæti konum upp mismunun líkt og kemur fram í fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við svari við  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til ráðgjafa- og verkfræðifyrirtækisins VSÓ, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020:

Greiðslur til ráðgjafa- og verkfræðifyrirtækisins VSÓ: Fram kemur að meira en  þrjú hundruð milljónir fara til þessa ráðgjafafyrirtækis árlega. Hvert sem litið er innan kerfisins má sjá ævintýralegar upphæðir sem fara til ráðgjafa- og verkfræðifyrirtækja. Sum eru á spena hjá borginni árum saman. Er þetta ekki eitthvað sem starfsmenn geta unnið að einhverju leyti?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til verkfræðistofa frá 2008-2019, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 23:

Almennt ætti borgin að sýna aðhald og hagsýni þegar samið er við verkfræðistofur um verkefni. T.d. ætti það að hafa vakið spurningu um hagkvæmni þegar verkfræðistofa er fengin til að sjá um talningar á nagladekkjum með tilheyrandi umsjónarkostnaði, verkefni sem borgin keypti þjónustu verkfræðistofu til að annast. Allir sem kunna að telja hefðu getað talið nagladekkin og haldið utan um verkefnið. Utanaðkomandi verkfræðinga þurfti ekki til.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Sjálfstæðisflokksins um að opnunartími leikskóla verði óskertur, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2021:

Liður 4: Lögð fram að nýju beiðni skrifstofu borgarstjórnar um umsögn endurskoðunarnefndar um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. Fyrirspurn sú sem hér er brugðist við er frá apríl 2020 og snýr að ummælum Einars S. Hálfdánarsonar endurskoðanda í endurskoðunarnefnd Reykjavíkur. Þau birtust í Fréttablaðinu 14. apríl sama ár. Þar segir hann „að braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að það hafi ekki verið nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“. Það er athyglisvert að rifja upp þetta mál nú tveimur árum síðar og er fulltrúi Flokks fólksins enn á því að meðvirkni hafi ríkt innan meirihlutans gagnvart braggamálinu og ríki enn. Sá endurskoðandi sem hér um ræðir steig fram og tjáði sig um málið af hreinskilni og hefur sennilega fengið bágt fyrir. Bókun endurskoðunarnefndar liggur loks fyrir nú í ágúst 2021. Segir að nefndinni hafi ekki verið kunnugt um fyrirspurn Flokks fólksins frá 16. apríl 2020 fyrr en nú nýlega og er beðist velvirðingar á því að hún hafi ekki verið afgreidd fyrr. Fulltrúi Flokks fólksins sér að hér hefur eitthvað misfarist í stjórnsýslunni og er ekki meira við því að segja.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 1 í  fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 26. ágúst 2021:

Tillögur stýrihóps um innleiðingu íbúaráða. Sumar tillögur stýrihópsins eru fínar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipta ætti einnig Breiðholtinu sem er stórt hverfi, eiginlega þrjú hverfi, í tvö íbúaráð. Vandi íbúaráðanna er að þau eru ekki nægjanlega aðgengileg borgarbúum. Formenn geta í raun staðið í vegi fyrir að mál séu tekin á dagskrá. Íbúaráðin mega ekki vera eins og smækkuð útgáfa af borgarstjórn að mati fulltrúa Flokks fólksins. Íbúaráðin eiga að tengjast fólkinu og fólkið þeim. Ráðin hafa hingað til verið of pólitísk. Hugsa þarf íbúaráðin sem rödd borgarbúa og þurfa ráðin að hlusta á íbúana og taka mál inn á fundina sem óskað er eftir. Íbúaráðin ættu að fái aukna ábyrgð við mótun nærþjónustu. Íbúaráð ættu að taka afstöðu til flestra stærri mála sem hverfin snerta. Ekki ætti að setja íbúaráðum of stífar skorður eða ítarlegar reglur. Íbúaráðin eru nefnd sem samskiptaleið í drögum um lýðræðisstefnu þannig að það er mikilvægt að þau virki sem slík.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 9 í fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. ágúst 2021:

Tillaga Flokks fólksins að koma upp tennisvelli í nýju íþróttabyggingunni í Úlfarsárdal hlaut ekki hljómgrunn meirihlutans í ráðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá betri rök fyrir höfnun þessarar tillögu. Ekki er séð af hverju ekki megi skoða málið. Fulltrúi Flokks fólksins vill að rætt sé við áhugasama og aðra tengda aðila og að skýrari svör verði lögð fram en aðeins að er sagt að „ekki er grundvöllur að koma fyrir tennisvelli í núverandi íþróttabyggingum í Úlfarsárdal eða á núverandi íþróttasvæði.“ Þetta er með öllu ófullnægjandi afgreiðsla að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn af hverju hefur þjónustu- og nýsköpunarsvið ekki samnýtt afurðir úr þróun Stafræns Íslands? Island.is hjálpar stofnunum og fyrirtækjum að veita betri þjónustu:

Fyrirspurn frá Flokki Fólksins um stafrænt samstarf við Stafræna Ísland, island.is. Fram kom á ráðstefnunni Tengjum ríkið að slíkt samstarf standi sveitarfélögum til boða. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki hefði verið skilvirkara og hagkvæmara ef Reykjavíkurborg hefði leitað samstarfs við island.is líkt og mörg sveitarfélög og stofnanir á Íslandi gera með góðum árangri. Gríðarlegar upphæðir, 10 milljarðar á þremur árum, fara í stafræn verkefni, mest tilraunir, lítið sést af afurðum. Til að átta sig á stærðarhlutföllunum má taka dæmi, þá jafngildir þetta því að setja 330 milljónir í áþekkt verkefni í Borgarbyggð en Reykjavík er um 30 sinnum fjölmennari. Til dæmis hefur komið fram að hægt er að nota island.is fyrir mínar síður. Á island.is eru 74 mínar síður og 240 vefir. Þar er verið að hanna, búa til ímyndir og vörumerki. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: af hverju hefur þjónustu- og nýsköpunarsvið ekki samnýtt afurðir úr þróun Stafræns Íslands? Island.is hjálpar stofnunum og fyrirtækjum að veita betri þjónustu. Þar eru búnar til stofnanasíður til að styðja við sveitarfélög. Island.is á allt til, þar er til sniðmát fyrir allt sem þarf, allur grunnur er til staðar. Miðlæg þjónustugátt er mikilvæg og í henni á Reykjavík að vera. R21090010

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs.