Skipulags- og samgönguráð 30. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við Kjalarnes, Prestshús, skipulagslýsing:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að almennt ætti ekki að hindra að landbúnaðarland nálægt þéttbýli verði breytt í almennt byggingarsvæði. Fyrst og fremst á að taka tillit til náttúrunnar og að almannréttur verði virtur.

Bókun Flokks fólksins við Arnarnesvegur, skipulagslýsing

Skýrsla frá Eflu er gagn með þessum lið. Þar blasir við að skýrslan er ekki hlutlaus heldur réttlæting á gerðum Vegagerðarinnar. Sagt er að gengið verður frá fláum og fyllingum með staðargróðri til þess að lágmarka ásýndaráhrif rasks. En málið er að gróðurfar í Vatnsendahvarfi er í miklu breytingarskeiði og ekki er hægt að tala um staðargróður. Þarna er aðeins verið að réttlæta slæman gjörning. Einnig er sagt að: „verður markvisst reynt að lágmarka áhrif og inngrip sem hlýst af framkvæmdinni. Sérstaklega á ásýnd svæðanna frá á gróinni íbúðarbyggð og vegna skerðingu á útivistarmöguleika á nærsvæðum. Mótvægisaðgerðum verður markvisst beint að hljóðvist og ásýnd.“ Hér er sagt frá því hvernig þessi vegur mun mjög takmarka útivistargildi svæðisins, svo ekki sé talað um áhrif á Vetrargarðinn. Ekki er séð hvernig bjarga eigi því með því að takmarka hljóðvist og ásýnd. Og á það má minna að Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila samkvæmt 1. mgr. ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, alþjóðlegum skuldbindingum eða tækniþróunar. Á tæpum 20 árum sem liðin er frá umhverfismatinu hefur mest allt ofangreint gerst.


Bókun Flokks fólksins við Borgartún 34-36, breyting á deiliskipulagi:

Um er að ræða gríðarmikla byggingu á litlum reit, að litlum hluta neðanjarðar. Meirihlutinn leggur til að fjölga íbúðum enn meira. Ein hæð er fyrir verslun og þjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort ráðlagt sé að setja svo margar íbúðir í eitt hús en íbúðir verða 102. Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík nema kannski má finna eitt dæmi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þéttingastefna meirihlutans ganga ansi langt hér.


Bókun Flokks fólksins við Kleppsvegur 150-152, ný tengibygging og endurbygging:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að koma eigi þarna nýr leikskóli enda mikil þörf á því. Nokkrar áhyggjur eru þó af því að verið er að gera upp eldra húsnæði sem er að hluta til skemmt. Halda á innra skipulagi á efri hæð að Kleppsvegi 152 að mestu óbreyttu. Fram hefur komið í gögnum að erfitt er að halda í innveggi sökum nauðsynlegra lagfæringa á gólfum. Búið er að staðfesta rakaskemmdir í húsnæði sem ekki er búið að bregðast við að fullu. Sýni hafa staðfest myglu- og örveruvöxt í húsnæðinu. Ekki er mikið um sleppistæði og er gengið út frá því að foreldrar komi með og sæki börn sín gangandi. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ályktun af þessu tagi sé óraunhæf. Foreldrar sem eru að fara beint í vinnu eftir að hafa farið með börn sín á leikskóla koma margir akandi enda er vinnustaður þeirra ekki í göngufæri. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar efasemdir um að þetta sé hagkvæmara (bæði fjárhagslega og umhverfislega) en að rífa og byggja alveg upp á nýtt. Kostnaður vegna óvissuþáttar er sem dæmi mjög hár eða um 129.000.000.

Bókun Flokks fólksins við fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi Strætó í Grafarvogi:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til 4. mars 2020 að breyting verði gerð á leiðakerfis Strætós bs. í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Tillagan gekk út á að leiðakerfið verði þétt og skilvirkt milli hverfanna og til að svo megi verða þarf að endurskoða leiðakerfið Strætó með hliðsjón af ábendingum og athugasemdum íbúa þessara hverfa og með hliðsjón að öryggi barna sem koma úr þremur hverfum. Engin viðbrögð eða svör hafa borist við tillögunni sem er nú meira en ársgömul. Nú leggur meirihlutinn fram tillögur að breytingu á leiðakerfi sem kynntar eru í samgönguráði en engin gögn fylgdu málinu. Eftir því sem næst er komist er verið að bæta tengingar milli skóla. Einnig skilst fulltrúa Flokks fólksins að bæta á þjónustu við Egilshöll með leið 6. Sú tillaga sem hér er lögð fram virðist þó draga úr þjónustu við fólk í Borgum. Grafarholt og Úlfarsárdalur eru ekki að græða neitt stórkostlega á tillögunni eftir því sem næst kemur.


Bókun Flokks fólksins við svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi útboð, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort ekki þurfi að vera með virkt endurmenntunarkerfi fyrir helstu stjórnendur borgarinnar þar sem t.d. nýjar reglugerðir og ný lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennd? Segir í umsögn að slík endurmenntun sé í gangi og að nýgengnir úrskurðir kærunefndar útboðsmála varðandi útboðsskyldu vegna orkukaupa og þjónustusamninga gefi ekki tilefni til viðbragða varðandi stjórnendur af því tagi sem fyrirspurnin lýtur að.

Fulltrúi Flokks fólksins finnst engu að síður sérkennilegt að borgin þurfi ítrekað að greiða sektir í málum af þessu tagi (gölluð útboð) og má því ætla að ekki sé nægilega vel unnið eða eitthvað skorti á þekkingu og reynslu. Hversu flókið er það lögfræðilega að gera útboð rétt úr garði?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu, um tilraunaverkefni um útleigu á rafskutlum:

Nú leggur meirihlutinn til að leigja þeim sem eiga erfitt um gang rafskutlur til að aka Laugaveg niður í Kvos. Tillagan er afar óljós. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að það verður að auðvelda aðgengi allra að miðbænum. Með lokun fyrir bílaumferð treysta borgarbúar sér ekki til að koma í bæinn eins og áður. Þetta hafa kannanir sýnt. Aðgengi er slæmt og ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt um gang, eru í hjólastól eða með önnur hjálpartæki eða eru sjónskertir. Dæmi um hindranir eru þrep, óslétt yfirborð, þrengsli m.a. þröng hurðarop og skortur á römpum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í tvígang lagt fram tillögu um skutluvagn sem æki um göngugötur en tillögurnar hafa verið felldar með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar. Víða erlendis, á sólarströndum sem dæmi má sjá fólk sem á erfitt um gang aka um á litlum rafskutlum, sennilega svipað því og meirihlutinn hefur í huga. Það fólk býr á hótelum á staðnum og rafskutlurnar til taks fyrir utan hótelin. Þegar reynt er að yfirfæra þetta yfir á miðbæ Reykjavíkur er fyrsta hugsunin að fólk sem ekki býr þar þarf að komast þangað sem rafskutlan er? Lagt er til að tillögunni sé vísað frá og að meirihlutinn hugsi hana nánar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breikkun Breiðholtsbrautar:

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

Tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar þrýsti á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni hefur verið felld með þeim rökum „að breytingar séu fyrirhugaðar á þessu svæði í tengslum við fyrirhugaða tengingu Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og ætti því ekki að taka tvöföldun Breiðholtsbrautar út fyrir þá framkvæmd og ráðast í hana óháð öðru“.

Þetta eru rök sem halda engu vatni að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þessi tillaga ætti að fá forgang yfir 3. kafla Arnarnesvegar því sú tenging mun einungis gera ástandið verra með nýjum ljósastýrðum gatnamótum á Breiðholtsbraut. Aðrir kostir hafa ekki verið skoðaðir s.s. hvort hringtorg sé betri kostur heldur en ljósastýrð gatnamót á nokkrum stöðum á Breiðholtsbraut. Það ástand sem nú ríkir á þessum kafla er skelfilegt. Það er eiginlega með ólíkindum að þessi hluti brautarinnar hafi ekki strax verið gerður tvíbreiður. Þetta er úrelt gatnakerfi. Ákall borgarbúa um breikkun er hunsað. Þetta bitnar á öllum þeim sem aka þessa leið, margir á leið út úr bænum. Skipulagsyfirvöld hafa á engum tímapunkti átt umræðu um málið við Vegagerðina svo vitað sé, til að fá þennan hluta brautarinnar breikkaðan en hlýða hins vegar Kópavogsbúum eins og sjá má í máli Arnarnesvegar, 3ja áfanga.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Breytingar eru fyrirhugaðar á þessu svæði í tengslum við fyrirhugaða tengingu Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. Óskynsamlegt er að taka tvöföldun Breiðholtsbrautar út fyrir þá framkvæmd og ráðast í hana óháð öðru, eins og tillagan leggur til. Því er réttast að fella tillöguna.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá yfirlit frá skipulags- og samgöngusviði yfir öll framlögð mál Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu, málum sem er lokið og þeim sem er ólokið. Á fundi borgarráðs 24. júní var lagt fram slíkt yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur Flokks fólksins framlögð í borgarráði. Óskað er eftir sambærilegu yfirliti frá skipulags- og samgönguráði.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skilti á steyptum sökklum í Pósthússtræti:

Í miðbæ Reykjavíkur var nýverið stillt upp upplýsingaskiltum í Pósthússtræti við Austurvöll. Skiltin eru á steinsteyptum stökklum þar sem áður voru bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort þarna eigi að vera skilti til framtíðar?

Hver er kostnaður borgarinnar í tengslum við þessi skilti?

Er það stefna borgarinnar að skipta út bílastæðum í miðbænum fyrir skilti á steyptum sökklum?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um endurbætur á ljósum við gatnamót Breiðholts og Jafnasel:.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær skipulagsyfirvöld hyggjast fara í endurbætur á ljósum við gatnamót Breiðholtsbrautar og Jafnasels. Þau ljós eru í ólestri og má nefna að „græna ljósið“ kemur seint ef nokkurn tímann fyrir gangandi vegfaranda sem ætlar að þvera Breiðholsbrautina jafnvel þótt ýtt sé á hnappinn. Gangandi vegfarendur hafa neyðst til að sæta lagi og fara yfir á rauðu eftir að hafa beðið eftir grænu gönguljósi án árangurs. Ástand sem þetta hefur varað lengi.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um lagfæringar á gangstéttabrúnum við gönguþveranir í Breiðholti:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvenær til standi að lagfæra gangstéttabrúnir sem og aflíðandi halla frá gangstétt út á gönguþveranir í Efra Breiðholti. Þetta er sérstaklega slæmt við gatnamót Breiðholtsbrautar og Jafnasels en einnig víða annars staðar í Breiðholti.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fund varðandi Arnarnesveg:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að haldinn verði sameiginlegur fundur með Vinum Vatnsendahvarfs, Betri samgöngum og Vegagerðinni þar sem rætt verður um fyrirhugaða lagningu 3ja áfanga Arnarnesvegar og þeirra áhrifa sem lagning hraðbrautarinnar hefur á Vatnsendahvarfið, nærliggjandi umhverfi og umferð. Að baki Vinum Vatnsendahvarfs standa mörg hundruð manns. Byggja á framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati. Marg ítrekað hefur verið óskað eftir að nýtt umhverfismat verði gert.

Vatnsendahvarfið er náttúruperla og dýrmætt grænt svæði sem liggur á mótum Reykjavíkur og Kópavogs. Svæðið er mikið nýtt útivistarsvæði og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Einnig er Vatnsendahvarfið varpland fjölmargra fuglategunda, þar á meðal lóu, hrossagauka og spóa. Fyrirhugaður 3. kafli Arnarnesvegar mun koma til með að skera Vatnsendahvarfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi. Umhverfismat sem framkvæmdin á að byggja á er frá 2003. Á þessum tæpum tveimur áratugum hefur mikið breyst á svæðinu auk þess sem ekki liggur fullljóst fyrir hvaða áhrif þessi framkvæmd hefur á umhverfi, útivist, umferð og hljóðvist.

Greinargerð

Samkvæmt nýju hverfisskipulagi Breiðholts sést einnig vel að Arnarnesvegur mun liggja þétt upp við fyrirhugaðan Vetrargarð. Sleðabrautin, sem líklegt er að yngstu börnin muni nota mest, mun liggja næst fjögurra akreina stofnbrautinni og tvöföldu hringtorgi. Það getur varla samræmst lýðheilsusjónarmiðum sveitarfélaganna að setja leiksvæði barna á horn tveggja stofnbrauta með samtals tíu akreinar.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur bent á að þetta sé varhugavert og þurfi að skoða vel hvaða áhrif mengunin frá veginum muni hafa á viðkvæm lungu barnanna sem leika sér í návígi við veginn. Ekkert umhverfismat um það liggur fyrir,  því ekki var gert ráð fyrir Vetrargarðinum í fyrra umhverfismati sem er nær tveggja áratuga gamalt. Umferð um veginn mun einnig fljótt fara yfir efri mörk sem áætluð voru á þessu umhverfismati. Fjölmargir íbúar nágrennisins hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessara vegaframkvæmda. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag er ekkert annað en stórfelld og óafturkræf skipulagsmistök, og ógn við lýðheilsu íbúa. Vegalagningunni hefur verið mótmælt af íbúum á öllum skipulagsstigum undanfarin 40 ár. Umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur og Íbúaráð Breiðholts hafa kallað eftir því að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þessa framkvæmd. Vinir Vatnsendahvarfs taka  undir það og telja  mikla þörf á endurgerð umhverfismatsins. Mörg önnur brýn samgönguverkefni þyrfti að setja framar á forgangslistann en 3. kafla Arnarnesvegar svo sem  breikkun Beiðholtsbrautarinnar að Rauðavatni. Breiðholtsbrautin er þegar sprungin sem umferðaræð, og að bæta öðrum ljósastýrðum gatnamótum á veginn myndi skapa enn fleiri vandamál. Einnig er mikilvægt að skoða vel möguleikann á að grafa 3. kafla Arnarnesvegar í göng eða leggja í stokk, bæði til að vernda umhverfið og einnig lýðheilsu íbúa.  Það þarf algjöra endurskoðun á þessari vegalagningu með heildarmyndina í huga. Áherslur í umhverfismálum og samgöngumátum á þessum áratugum  hafa breyst sem nauðsynlegt er að taka með inn í myndina.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að endurskoða reglur og samþykktir v. spilakassa:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagssvið ráðist í það skipulagsverkefni að endurskoða reglur og samþykktir borgarinnar með það að markmiði að minnka rekstur spilakassa og skaðlegar afleiðingar slíks reksturs. Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Þrátt fyrir það eru reknir spilakassar í Reykjavík. Umræða um rekstur spilakassa og hvort rétt sé að banna slíkan rekstur hefur skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu Lokum.is, en frekari upplýsingar má finna á vefsíðu með sama nafni. Samtökin hafa dregið fram reynslusögur sem sýna svart á hvítu hversu miklum skaða spilafíkn veldur samfélaginu. Reykjavík getur takmarkað rekstur spilakassa. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa af hálfu borgarinnar þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera þar með ítarlegri kröfur til rekstraraðila hyggist þeir reka spilakassa. Þá er hægt að takmarka verulega spilakassarekstur með því að breyta skipulagi borgarinnar. Góð byrjun væri t.d. að gera kröfu um að ekki megi selja áfengi eða veitingar í spilasölum eða að ekki megi reka spilakassa í rými þar sem fari fram veitingasala eða áfengissala. Það má að minnsta kosti hefja skoðun á því hvort slík reglusetning myndi rúmast innan heimilda borgarinnar.

Greinargerð

Spilafíkn veldur miklum samfélagslegum skaða eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á með rannsóknum. Engu að síður er rekstur spilakassa löglegur. Undanþágur voru á sínum tíma veittar til að liðka fyrir fjáröflunartækifærum og fengu Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil (í eigu Rauða Krossins, Landsbjargar og SÁÁ) heimild til reksturs spilakassa. Þrátt fyrir að ágóðinn eigi að renna til góðgerðamála er ljóst að einkaaðilar hagnast einnig á þessum ósóma. Algengt er að rekstrinum sé útvistað til einkaaðila og varla rennur ágóðinn óskipt til HHÍ og Íslandsspila. A.m.k. gefa upplýsingar í fyrirtækjaskrá það til kynna að rekstur spilakassa og spilasala skili þessum einkaaðilum reglulegum og umtalsverðum hagnaði.  Þótt starfsemin sé heimil lögum samkvæmt þarf hún að uppfylla ýmsar kröfur reglna og samþykkta sem settar eru af borgaryfirvöldum. Sækja þarf um leyfi fyrir fyrirhuguðum rekstri hjá skipulagsyfirvöldum, heilbrigðiseftirliti, matvælaeftirliti og lögreglu. Þá þarf lögregla að leita umsagnar velferðasviðs fyrir leyfisveitingu vegna rekstri spilasala. Grípa á til heildstæðrar endurskoðunar þar sem skoðað verði hvaða leiðir séu færar til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa í borginni og draga úr spilafíkn. Nauðsynlegt er að sérfræðingar leggi mat á það hvaða leiðir skili bestum árangri, enda ljóst að svara þarf ýmsum álitamálum þegar ráðist er í breytingar á reglugerðum og samþykktum borgarinnar. Með því að kortleggja hvaða leiðir eru færar er hægt að grípa til aðgerða sem skila markvissum árangri og draga úr skaðlegum áhrifum spilafíknar.

Frestað.