Skipulags- og samgönguráð 15. janúar 2020

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu Flokks fólksins um flutning biðstöðvar Strætó bs. frá Hagatorgi til Birkimels
Vísað að frá með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúa sjálfstæðisflokksins sitja hjá

Hringtorg eru hönnuð fyrir umferð í borgum þá aðallega í tvennum tilgangi, til að minnka slysahættu og til að greiða fyrir umferð. Vel hönnuð hringtorg eru oft borgarprýði, það má sjá í mörgum evrópskum borgum, stolt margra borga. Það má með sanni segja að Hagatorg sé borgarprýði og er eitt af glæsilegustu hringtorgum borgarinnar, m.a. standa við torgið merkar og fallegar byggingar. Að staðsetja stoppistöð strætó inn á mitt torgið og hraðahindranir er ótrúlegur misskilningur hjá öllum þeim sem að verkefninu hafa komið. Til viðbótar skapar staðsetning á stoppistöð inni í miðju hringtorgi auka slysahættu og hindrar flæði umferðar um það sem einmitt var tilgangur hönnunar þess, þ.e. hringtogsins.

Bókun Flokks fólksins (lögð fram í borgarráði 16.1) við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar, n.t.t.. frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 00:00 aðfararnótt mánudags:

Meirihlutinn í skipulagsráði hefur fellt tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum um helgar. Rökin eru að tillagan kalli á tekjutap bílastæðasjóðs. Hér má benda á að bærinn hefur tæmst af Íslendingum og þ.m.t. eldri borgurum. Þeim finnst aðgengi flókið, erfitt að fá stæði og eiga erfitt með að átta sig á nýjum stöðumælum. Það er sorglegt að sjá hvernig miðbærinn er orðinn að draugabæ nema á tyllidögum. Kannski fáeinir eldri borgarar hefðu nýtt sér frí stæði í bílastæðahús bæjarins hefði þessi tillaga orðið að veruleika og því enginn ástæða fyrir meirihlutann að óttast að bílastæðasjóður beri stóran skaða af þótt þessi tillaga hefði verið samþykkt.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun vegna málsins í borgarráði:

Miðborgin hefur aldrei verið eins lifandi og nú. Fjöldi verslana og þjónustu hefur aldrei verið eins mikill og viðskipti blómstra sem aldrei fyrr. Áherslur meirihlutans á gott aðgengi gangandi og hjólandi að miðborginni bera árangur en rannsóknir sýna að slíkar aðgerðir draga að meiri verslun og meiri viðskipti. Mikill fjöldi eldri borgara býr í miðborginni og komast þeir leiðar sinnar með ýmsum hætti. Bílastæðahúsin í borginni eru fjölmörg og bílastæðagjöld eru hófleg. Eldri borgarar sem vilja koma í miðborgina geta gert það með því að leggja í bílastæðahúsin, taka strætó eða ganga – allt eftir aðstæðum viðkomandi. Sjálfsagt er að leita leiða til að auka nýtingu í bílastæðahúsum en ekki er hægt að styðja tillögu um að gefa fólki ókeypis aðgang að bílastæðum, óháð staðsetningu stæðanna eða aldri vegfarenda. Hópurinn sem hér um ræðir er þó nokkuð stór og myndi tillagan líklega kalla á umtalsvert tekjutap bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Í þessari bókun meirihlutans gegn bókun Flokks fólksins um að eldri borgurum verði boðið að leggja frítt í fáeina klukkutíma um helgar í ákveðnu bílastæðahúsi í miðbænum er aftur komið inn á meint fjárhagstjón bílastæðasjóðs ef þessi tillaga yrði að veruleika. Áhyggjur meirihlutans ganga allar út á krónu og aura en snúa að engu leiti að eldri borgurum í þessu sambandi. Væri ekki nær ef meirihlutinn er svona upptekinn af miklum skaða bílastæðahúss í þessu sambandi að reyna að minnka yfirbyggingu bílastæðasjóðs, skipuleggja starfsemina þar kannski með öðrum hætti eða reyna að finna leiðir til að hagræða? Þessi tillaga er hugsuð sem hvati til að fá þennan hóp í bæinn, en eldri borgarar hafa mikið til yfirgefið þetta svæði og það ekki af ástæðulausu. Sjá hefði mátt fyrir sér að vel yrði tekið á móti þessum hópi og að hann fengi kannski kynningu á bílastæðahúsinu og þar með greiðslukerfi þess. Það er óþarfa hræðsla hjá meirihlutanum að halda að eldri borgarar kæmu í slíku fjölmenni þessar fáu klukkustundir um helgar að rekstrargrundvöllur bílastæðahússins sem um ræddi væri kannski bara brostinn.

Bókun  Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar úr eigin vasa:

Tillaga um kolefnisjöfnuð úr eigin vasa hefur verið vísað frá af meirihlutanum í skipulags- og samgönguráði á þeim rökum að fagráð setji ekki reglur um hvernig fólk ráðstafi launum sínum. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutanum finnist borgarfulltrúar merkilegri en alþingismenn? Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á þingi af forseta Alþingis. Meirihlutinn ferðast á kostnað borgarbúa á sama tíma og hann kvartar yfir mengun frá bílum. Það er ekki nóg að setjast á hjólið og telja sig þá vera búinn að leggja sitt af mörkun til umhverfismála.

Bókun meirihlutans:
Ekki gengur að borgarstjórn eða fagráð borgarinnar setji reglur um það hvernig fólk eigi að ráðstafa launum sínum, sama hvert fólkið er eða sama hve göfugur tilgangur útgjaldanna kunni að vera.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulagi Tryggvagötu

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni að í nýju skipulagi við Tryggvagötu þar sem öll bílastæði verð þurrkuð út og þannig skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Einnig mun það gera vissri starfsemi Listasafn Reykjavíkur erfiðar um vik, þá sérstaklega þeirra listamanna og annarra sem koma að og sinna starfsemi þeirrar stofnunnar. Smátt og smátt virðist stefna meirihlutans að þurrka út einkabílinn í miðborg Reykjavíkur og stæðum fyrir þá, en felur svo einkaaðilum að starfrækja bílastæðageymslur sem staðsettar eru á svæðinu. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.

Fyrirspurn Flokk fólksins um ný umferðalög um aðgengi um göngugötur þess efnis að veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang sama aðgengi og fötluðum er veitt í nýjum umferðarlögum

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi varðandi aðgengi fatlaðra um göngugötur sb. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní. Þar segir m.a. að borgaryfirvöldum ber að veita fötluðu fólki aðgengi svo það get sótt í þá þjónustu sem veitt er í göngugötum. Flokkur fólksins spyr hvort borgaryfirvöld vilji ganga enn þá lengra en lagasetningin segir til og veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang og hreyfingar sama aðgengi og fötluðum er veitt í þessum lögum. Frestað