Forsætisnefnd 15. október 2020

Flokkur fólksins leggur til að  sama fyrirkomulag verði haft á fundi borgarstjórnar 20. október nk. er varðar sóttvarnir og fjöldatakmarkanir og búið var að leggja upp með fyrir fund borgarstjórnar 6. október áður en ákveðið var að hafa þann fund aðeins fjarfund

Tillaga Flokks fólksins um fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að forsætisnefnd samþykki að sama fyrirkomulag verði haft á fundi borgarstjórnar 20. október nk. er varðar sóttvarnir og fjöldatakmarkanir og búið var að leggja upp með fyrir fund borgarstjórnar 6. október áður en ákveðið var að hafa þann fund aðeins fjarfund. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar taki sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Oddvitar borgarstjórnarflokka, fulltrúar í forsætisnefnd og tillöguflytjendur skulu hafa forgang. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020: „Tillaga um fyrirkomulag á fundi borgarstjórnar 6. október vegna takmarkana í samkomubanni“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta. R20010186

Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hafnar tillögu forseta um að fundur borgarstjórnar verði fjarfundur heldur skuli fordæmi Alþingis frekar fylgt. Þó verði mæting í sal ávallt persónulegt val hvers og eins. Fjarfundur er engan veginn tryggur fundur og tæknilegir örðugleikar oft miklir. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir verði með sama fyrirkomulagi og til stóð að hafa fundinn 6. október áður en ákveðið var að gera þann fund að fjarfundi. Búið var að leggja mikla vinnu í það skipulag. Tillagan var felld af meirihluta forsætisnefndar. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar tækju sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 8. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skrifstofustjóra hjá Reykjavíkurborg:

Báknið hefur þanist út síðustu ár. Skrifstofustjórar eru 35. Það er sannarlega tímabært að fara að taka á þessu, minnka báknið til muna. Hér má sameina hlutverk og verkefni og með því hagræða stórlega.