Skipulags- og samgönguráð 23. september 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Aukin gjaldskylda á bílastæðum á lóð Landspítalans í Fossvogi:

Skipulagsyfirvöld leggja til, að beiðni Landspítala, að fjölga gjaldskyldum bílastæðum vegna aukins álags á spítalann. Það eru sérkennileg rök að tengja aukið álag við mikilvægi þess að fjölga gjaldskyldum bílastæðum. Er það gert til að draga úr álagi, fæla fólk frá því að koma þegar það þarf af nauðsyn að leita aðstoðar á sjúkrastofnun? Fólk leitar ekki á spítala af gamni sínu og álagið er vegna þess að margir þurfa þjónustu af brýnni nauðsyn. Aðgengi og aðkoma að Landspítala er erfið starfsfólki og sjúklingum bæði við Hringbraut og Fossvog. Í þessu sambandi er vert að minnast á tillögu Flokks fólksins frá 5.3 2019 er varðar bílastæði í kringum Landspítala fyrir þá sem heimsækja spítalann. Það eru ófá dæmin þar sem fólk lendir í stökustu vandræðum með að finna stæði þar í kring. Ekki er ástandið betra við Fossvog. Verst er þegar fólk er kallað til í neyðartilvikum og getur hvergi fundið bílnum sínum stæði. Lagt var til í þessari tillögu Flokks fólksins að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar. Hugmyndin var að borgin myndi leita eftir samstarfi við Landspítalann um innleiðingu bifreiðastæðaklukku í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Sérmerkt bílastæði fyrir sendiráð Kanada á Íslandi:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé ekki barn síns tíma að sendiherra þjóðríkis fái sérmerkt bílastæði í borgarlandi? Reyndar er hér verið að úthluta stæði vegna flutnings. Nýlega var lögð til breyting á reglum um úthlutun slíkra bílastæða af hálfu samgöngustjóra Reykjavíkur. Sú breyting var lögð til frá gildandi reglum, að felld verði á brott heimild sendiráða til að óska eftir fleiri en tveimur sérmerktum bílastæðum í borgarlandi. Auk þess mætti ekki úthluta bílastæðum innan miðborgarinnar. Ekki er betur séð en hér sé verið að úthluta stæði innan miðborgar.

https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/uthlutun_sermerktra_bilastaeda_fyrir_sendirad.pdf.
Spyrja má hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða samninga í þessu sambandi?

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag:

Ekkert af rökum, ábendingum eða tillögum sem hjálpað getur miðbænum að halda lífi hefur náð til skipulagsyfirvalda. Þegar nýr meirihluti tekur við má ætla að flestum þeim aðgerðum sem ekki eru óafturkræfar verði snúið við. En enn eru tvö ár í það. Eins mikið og göngugötur eru skemmtilegar, sér í lagi þær sem aðgengi að er gott og allir geti komist á þær án tillits til hreyfifærni þá eru þessar gerðar í óþökk meirihluta fólks. Sérstakur kafli er um Samráð í meðfylgjandi göngum þar sem segir að víðtækt samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Sagt er: “Víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað. Nú þegar hefur verið rætt við samtök kaupmanna (miðborgin okkar og Miðbæjarfélagið) og Öryrkjabandalið (ÖBÍ) og mun sú vinna halda áfram í gegnum allt hönnunarferlið”. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst kannast ekki allir þeir sem eru nefndir við að það hafi verið talað nokkuð við þá. Þetta eru því merkilegt ekki síst út frá sálfræðilegu sjónarmiði. Skipulagsyfirvöld fullyrða að rætt hafi verið við fólk sem kannast ekki við að rætt hafi verið við það!

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Reitur 1.172.1 Frakkastígsreitur, breyting á deiliskipulagi; Reitur 1.172.0 Brynjureitur, breyting á deiliskipulagi; Reitur 1.172.2, breyting á deiliskipulagi:

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs er að færa lóðarmörk  á þremur reitum við Laugaveg frá miðri götu að lóðarmörkum við Laugaveg. Meðfylgjandi er greinargerð frá Landslagi sem í eru ósannindi. Þar segir m.a. að “Laugavegurinn er helsta verslunargata Reykjavíkur frá fornu fari og hefur vegna sögu og starfsemi mikið aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi bæði innlenda og erlenda.” Þetta er hárrétt. Síðan stendur “ Mikið líf hefur skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði.” Þetta er hins vegar ekki rétt. Nú er lítið líf á Laugavegi og verslanir sem þar eru róa lífróður. Farið var í breytinguna án samtals við fjölmarga rekstraraðila sem vöruðu við lokun á alla umferð. Ótti þeirra reyndist á rökum reistur og hefur verslun hrunið. Með COVID fóru ferðamenn. Þetta er ekki pólitík heldur staðreynd. Hugur fulltrúa Flokks fólksins er hjá þeim sem hrakist hafa í burtu, hjá þeim sem undirbúa brottför og hjá þeim sem vilja reyna áfram í von um „kraftaverk“. Eina von sumra er að með nýjum meirihluta verði breytingar, að hlustað verði meira á fólkið. Í greinargerð Landslags segir réttilega að helstu neikvæðu

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málskots  P ARK teiknistofu dags. 4. september 2020 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 5. júní 2020 um að setja bílastæði á lóð nr. 38 við Tjarnargötu:

Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki að fyrir liggi gild rök fyrir að synja þessari heimild um að staðsetja bílastæði á lóð nr. 38 við Tjarnargötu. Sótt var um að bæta við innkeyrslu og bílastæði á lóðinni sunnan við húsið þar sem koma mætti fyrir hleðslustöð fyrir rafmagnsbíl innst á svæðinu. Engin innkeyrsla er á lóðinni í dag. Þó nokkur dæmi eru um innkeyrslur á nágrannalóðum og nokkur húsana við Tjarnargötu eru einnig með bílskúr á lóðinni svo ekki skortir fordæmi. Rök umsækjanda í málinu er góð og gild og mun þessi framkvæmd minnka bílastæðavandann í borginni.
Ekkert bílastæði fylgir húsinu eins og mörgum húsum við götuna. Engin bílastæði eru á götunni framan við húsið og því ekki verið að fjarlægja bílastæði við þessa framkvæmd. Stæðin hinu megin við götuna eru fyrir almenning. Rök skipulagsyfirvalda í þessu máli eru veik að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi nýtt hverfisskipulag Breiðholts:

Fulltrúi Flokks fólksins bað um upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið í tengslum við kynningu nýs hverfisskipulags Breiðholts. Einnig var óskað upplýsinga um fjölda ábendinga sem hafa borist og að þær verði flokkaðar eftir innihaldi og aldursdreifingu gesta. Í svari koma fram skráningar en ekki náðist að skrá alveg alla sem komu í viðveru. Hlaupa þessar tölur á einhverjum hundruðum en ef allt er talið nær fjöldi kannski að vera um þúsund manns. Í Breiðholti búa yfir 20. þúsund manns. Segja má að þessi viðvera hafi því skilað kynningu/ upplýsingum til lítils brots af íbúum. Hér er um að ræða gríðarlegar breytingar sem gera á í Breiðholti, sumar sannarlega tímabærar en aðrar afar umdeildar og róttækar. Þá ber helst að nefna að fólk sem notar einkabíl mun eiga erfitt um vik að búa í Breiðholti þar sem fjölga á íbúðum um 3000 en ekki bílastæðum í neinu samræmi við það heldur byggja íbúðir á fyrirliggjandi bílastæðum. Það er mat Flokks fólksins að fara þarf hægt hér svo sömu mistökin sem urðu á Laugavegi verði ekki endurtekin. Halda þarf íbúafundi. En það er ekki hægt um þessar mundir. Spurt var um aldursdreifingu þeirra sem mættu til kynningar en ekki er til skráning um það.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi nýtt hverfisskipulag Breiðholts:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá það sundurliðað hvaða hugmyndir sem birtar eru í vinnutillögum nýs hverfisskipulags Breiðholts komu frá íbúum sjálfum og hvaða tillögur komu frá borgar- og skipulagsyfirvöldum eða öðrum? Var það t.d. ósk íbúa Breiðholts að svo mikil þétting byggðar yrði? Í svari segir að vinnutillögur byggi á samráði sem fór fram á árunum 2015-2017. Ítarlega er gerð grein fyrir þessu samráði í skýrslunni Borgarhluti 6, Breiðholt. Það sætir furðu hvað allt þetta „samráð“, boð um samráð hafi farið fram hjá mörgum í Breiðholti. Ótal margir hafa stigið fram og segjast ekkert kannast við að hafa fengið upplýsingar um fundi eða beðnir að bregðast við hugmyndum hvað þá senda inn hugmyndir. Það búa yfir 20 þúsund mans í Breiðholti. Hér er ekki um ræða lítið hverfi. Fólk man sem dæmi ekki eftir að hafa verið sendur neinn póstur um allt þetta samráð. Rýnihópar? Hvað margir af þeim 20 þúsund sem búa í Breiðholti höfðu aðgang að þeim? Segir í svari að mæting hafi verið ágæt eða frá 8 til 11 í hverjum hópi eða um 50 manns. Hverjir voru þessir fulltrúar borgarinnar og ráðgjafar sem setja áttu sig í spor íbúa. Ef hugmynd er óvinsæl hjá mörgum er sagt að hún hafi komið frá íbúa?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi uppbyggingu í Skerjafirði:

Ástæða fyrir spurningu fulltrúa Flokks fólksins var að í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Í svari segir að „við vinnslu deiliskipulagstillögunnar nýju var ákveðið að minnka miðsvæði á þróunarreit nr. 5 á kostnað íbúðarbyggðar og þar með minnka umfang atvinnuhúsnæðis.“ Auk þess má reikna með að byggingarmagn atvinnuhúsnæðis minnki all nokkuð frá gildandi skipulagi en á skilgreindum miðsvæðum meðfram umferðarleiðum er miðað við að íbúðir verði að jafnaði á efri hæðum eins og segir í svari. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort það sé pólitísk ákvörðun að minnka atvinnustarfssemi í Skerjafirði og almennt í hverfum borgarinnar nema þeim sem eru miðsvæðis. Fulltrúi Flokks fólksins hefur haldið að það sé vilji meirihlutans að fólk þurfi sem minnst að hreyfa sig út úr hverfi enda samgönguæðar sprungnar og ekki hægt að stóla á borgarlínu eða Fossvogsbrú næstu árin. Stærstu áhyggjurnar eru hvernig fólk á að komast í og úr hverfi. Skerjafjörður má ekki lokast af, verða einhver afkimi þar sem aðgengi verður erfitt. Slíkt mun rýra gildi fasteigna sem þarna verða.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra vegna Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi:

Mistök hafa leitt til þess að þessi lóð fer nú aftur í auglýsingu. Ferlið hefst að nýju og fær íbúaráðið tækifæri til að fjalla um málið en aðilar ráðsins hafa lýst yfir áhyggjum. Enn og aftur snúast áhyggjur íbúa mest um skort á bílastæðum en á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða. Og enn og aftur er kvartað yfir samráðsleysi og að óskir íbúa séu hundsaðar. Meðal athugasemda frá íbúum var að grunnt væri niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Þröngt er um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Nú er tækifæri til að ljá íbúum eyru og vonar fulltrúi Flokks fólksins til að betur verði hlustað á íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið búi til íslenskar leiðbeiningar um hraðahindranir:

Tillögunni hefur verið hafnað sem er sérstakt. Rökin eru aðeins þau að við gerð hraðahindrana hafa norrænar leiðbeiningar og staðlar um hraðahindranir reynst vel við íslenskar aðstæður.
Fulltrúi Flokks fólksins er að leggja til að gerðar verði íslenskar leiðbeiningar en ekki sé verið að taka „allt“ upp eftir Norðmönnum. Það virðist gleymast stundum að Reykjavík er ekki Osló. Sjálfsagt er að stunda nám í erlendum borgum, sjá hvernig þær haga sínum málum og koma heim til starfa með vissa þekkingu og grunn. Enn það er ekki hægt að flytja allar aðferðir/reglur og leiðbeiningar frá Noregi eða Danmörku og smella því inn í Reykvískar aðstæður. Hraðahindranir eru í of mörgum útfærslum hér og merkingar ábótavant. Það væri til bóta að merkingar um hraðahindrum sýni það sem framundan er, einstefna.. hvernig bunga o.s.frv. Mikilvægt er að halda utan um frávik, öðruvísi er erfitt að læra af reynslu. Allt sem er óreiðukennt skilar oftast litlum eða slökum árangri og skapar fólki erfiðleika.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun fyrirspurna Flokks fólksins um  fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegs:

Fyrirspurnum hefur verið vísað frá. Í bókun segir meirihlutinn að ekki sé hægt að beina fyrirspurnum til fagráða. Hvað er átt við? Lagðar eru fram fjöldi fyrirspurna í hverri viku til allra fagráða borgarinnar. Það er skylda stjórnvalds að svara fyrirspurnum sem kjörinn fulltrúi sendir inn með formlegum hætti. Fyrirspurnir þessar koma frá breiðum hópi sem óttast mjög að hinn græni meirihluti skipulags- og samgöngusviðs ætlar að láta nágrannasveitarfélagið Kópavog þrýsta sér út í að gera stórmistök, skipulagsslys sem eyðilegging Vatnsendahvarfs er þegar sprengja á hraðbraut þvert yfir hæðina. Borgarbúar eiga rétt á svörum.

Spurt er: Hver er pólitísk afstaða Skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði?
Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi? Fyrirspurnirnar verða aftur senda inn meðformlegum hætti og þess er krafist að svör berist

 

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut:

Tillaga Flokks fólksins um að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut hefur verið felld. Rökin eru að ekki standi til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á samgöngusáttmála.
Aðrar vænlegri leiðir eru í boði sem ekki munu eyðileggja verðmæt græn svæði. Fulltrúi Flokks fólksins, Breiðhyltingar og Vinir Vatnsendahvarfs eiga rétt á því að fá rök fyrir af hverju skipulagsyfirvöld sem leggja alla áherslu á vernd grænna svæða, bíllausan lífsstíl og minnka losun ætlar að leggja veg sem sker í sundur hæð sem skartar fjölbreyttum gróðri og fallegu útsýni yfir borgina og þar sem auk þess á að koma Vetrargarður með tilheyrandi afþreyingu fyrir breiðan aldurshóp. Hugmynd um huggulegan Vetrargarð er lítils virði ef hraðbraut á að liggja nálægt honum. Aðrar færar leiðir blasa við. Þess í stað kjósa borgaryfirvöld sem kenna sig við grænar áherslu að notast við 18 ára gamalt umhverfismat þegar kemur að þessari framkvæmd, og hvaða fordæmi eru fyrir því í borginni að svona gamalt umhverfismat hafi verið látið standa? Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að fjöldi fólks nýtir sér hæðina daglega til göngu og hjólaferða, sem og til að njóta útsýnisins.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Ekki stendur til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á umræddum sáttmála.

 

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu Flokks fólksins um að  endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi:

Tillaga um að endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi og að gert verði nýtt umhverfismat hefur verið felld. Einu rökin eru þau að Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Vatnsendahvarf er gróðursælt útivistarsvæði. Af hverju vill meirihluti sem leggur áherslu á græn svæði og minnkun losunar ekki gera nýtt umhverfismat en þess í stað að sprengja fyrir hraðbraut sem byggt er á 18 ára gömlu umhverfismati? Margt hefur breyst á 18 árum. Forsendur eru allt aðrar. Þessi fyrirhugaða vegagerð er ekki nauðsynleg. Bent hefur verið á aðra kosti svo sem að tengja veginn inn á gatnakerfið við Tónahvarf. Hugmynd um huggulegan Vetrargarð er lítils virði ef hraðbraut á að liggja nálægt honum, útivistarsvæði er eyðilagt, komið verður í veg fyrir mögulega útivistaruppbyggingu með t.d. útsýnissvæði ofarlega á hæðinni. Þess vegna er áríðandi að gera nýtt umhverfismat. Þessi aðgerð er ekki einkamál borgar- og skipulagsyfirvalda. Ótrúlegt er að formaður sem talar sífellt um verndun grænna svæða, og hvetur til bíllauss lífsstíls vill taka ábyrgð á slíkri náttúrueyðileggingu í þágu bílaumferðar og þetta á að eiga sér stað á hennar vakt? Þessi eyðilegging mun verða það verk sem henni verði hvað mest minnst.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Ekki stendur til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á umræddum sáttmála.

 

Tillaga Flokks fólksins að að farið verði með markvissum hætti í að einfalda byggingar-regluverkið til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði með markvissum hætti í að einfalda byggingar-regluverkið til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik.

Flokkur fólksins lagði fram sömu tillögu árið 2018 en lítið virðist hafi verið gert hjá Skrifstofu umhverfis og skipulagssviði til að liðka fyrir fólki og létta á regluverkinu sem er þungt og flókið. Það eru margir sem tala um hversu regluverk borgarinnar er stirt og ósveigjanlegt þegar kemur að umsóknum um breytingar, smáar sem stórar á húsum. Talað eru um að oft sé erfitt að eiga við Skrifstofu byggingarfulltrúa og að það taki fleiri mánuði að fá byggingarleyfi. Skortur sé á að veittar séu fullnægjandi leiðbeiningar. Sífellt séu að koma fleiri athugasemdir og óþarfa smámunasemi ríki jafnvel í vinnubrögðum. Fólki finnst jafnvel stundum sem verið sé að reyna að hindra frekar en aðstoða. Verki fólks er sífellt að seinka með tilheyrandi kostnaði og öðrum erfiðleikum. Kröfurnar eru líka sagðar fullmiklar t.d. sé krafist utanhústeikninga þrátt fyrir að aðeins sé verið að gera innanhúsbreytingar. Skrifstofa byggingarfulltrúa virðist ekki átta sig á að tíminn er peningar.
Ferlið þarf að vera skýrara og skilvirkara og leiðbeiningar þurfa að vera betri. Tímamörk verða að vera skýr og skrifstofa byggingarfulltrúa lipur, sanngjörn og hjálpsöm.