Skipulags- og samgönguráð 16. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi:

Margar athugasemdir eru gerðar við lagningu Arnarnesvegar í deiliskipulagi og hafa Vinir Vatnsendahvarfs sent inn athugasemdir. Þeir eru ósammála úrskurði í umhverfismati, sem var unnið fyrir Vegagerðina árið 2003, um að lagning 3. kafla Arnarnesvegar muni hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Þeir telja að framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi og útivist á svæðinu.

Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag er óafturkræf skipulagsmistök. Þörf er á endurgerð umhverfismatsins, sem er nær tveggja áratuga gamalt. Mikið hefur breyst varðandi áherslur í umhverfismálum og samgöngumálum á þessum áratugum sem nauðsynlegt er að taka með inn í myndina. Bent er á þau neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin hefur í för með sér, m.a. vegna nálægðar við Vetrargarðinn og einnig lýst yfir áhyggjum af áhrifum hinna nýju gatnamóta á umferðarflæði á Breiðholtsbraut. Með framkvæmdinni eru framtíðarmöguleikar Vetrargarðsins settar skorður. Ef Vetrargarðurinn verður vinsæll þarf hann einhverja möguleika á þróun, stækkun, útisvæði, gönguleiðir o.fl.

Vatnsendahvarfið er sérstakt vegna þess að þetta er hæsti punktur borgarinnar. Þarna má setja upp lágan útsýnispall sem hefur afþreyingargildi. Þessi vegagerð hindrar allt annað sem hefði mun meira jákvætt í för með sér , en að fólk úr austurhluta Kópavogs geti ekið hratt frá Kópavoginum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, reitir:

Ein af breytingartillögum sem hér er lögð fram snýr að Arnarbakkanum. Stækka á núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit fyrir íbúðarbyggð. Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur fram hjá skóla og er þröngur. Í því standi sem hann er nú ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum.

Staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum.

Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess.

Bent er á að hjólastígar eiga að fylgja hæðarlínum eins og unnt er. Allt of oft þeir lagðir upp og niður brekku og stundum þannig að kröpp beygja er við enda brekku, sem er afleitt fyrir hjólreiðafólk.


Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hlaupahjólastandar við grunnskóla í Reykjavík:

Fulltrúi Flokks fólksins telur afar mikilvægt að koma upp stöndum fyrir hlaupahjól og hjól af öllu tagi. Hjólastanda vanta víða t.d. fyrir utan leiksvæði barna og verslunarkjarna. Sjá má hjól stundum skilin eftir á óheppilegum stöðum sem skapar slysahættu. Hjólum sem lögð eru á gangstétt eru slysagildra eða hindrun fyrir fatlaðan einstakling t.d. þann sem er í hjólastól eða er sjónskertur/blindur. Það vantar skýrar umgengisreglur um hvernig megi og eigi að skilja við hjólin og þá þarf vissulega að vera aðstæður (hjólastandar) til að leggja hjólunum. Gríðarleg fjölgun hefur orðið á notkun hlaupahjóla sem og rafskútna og rafhlaupahjóla á stuttum tíma. Enn skortir mikið á að innviðir í borgarlandinu geti tekið við þessari miklu fjölgun.


Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu beiðni Landspítala um gjaldskyldu á almennum bílastæðum, á lóð Landspítalans við Eiríksgötu 5:

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu beiðni Landspítala um gjaldskyldu á almennum bílastæðum, á lóð Landspítalans við Eiríksgötu 5:

Á fundinum er lögð fram beiðni Landspítala að setja á gjaldskyldu á merkt bílastæði á Eiríksgötu 5 þar sem nýtt göngudeildarhús opnar eftir áramót. Segir í beiðni að tryggja þurfi að sjúklingar og aðstandendur komist sem næst inngangi. Það er vissulega mikilvægt en fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur vegna erfiðleika fólks að glíma við gjaldmæla. Appið EasyPark er þess utan flókið og treysta ekki allir sér til að nota það. Þeir sem aka rafbílum hafa bílstæðaklukku í 90 mín. en eftir það þarf fara út og setja í mæli eða nota app. Eldra fólk kvartar yfir slæmu aðgengi og treystir æ meira á að finna einhvern til að aka sér á staðinn.

Áhersla er lögð á að koma hjólastöndum upp víða sem er vel. Eldri borgarar ferðast minna um á hjólum og gagnast hjólastandar þeim því ekki svo mjög.
Allt of oft eru teknar ákvarðanir í skipulags- og samgönguráði sem gera ákveðnum hópi í samfélaginu (öryrkjum og eldri borgurum) erfiðara um vik að komast leiðar sinnar í borginni. Til að bæta þetta mætti nota frekar bifreiðaklukku í stað gjaldmæla  en það kerfi er mun einfaldara en stöðumælar eða app, alla vega að mati einhverra. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja til að notaðar verða bifreiðaklukkur t.d. á merkt stæði á Eiríksgötu 5.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins, um innleiðingu LEAN aðferðarfræðinnar, umsögn

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um kostnað við innleiðingu LEAN aðferðarfræðinnar og hvar innleiðingin er stödd? Í svari kemur fram að LEAN hefur ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og ekki hefur verið tekin ákvörðun um slíkt en að verið sé að vinna í því að innleiða LEAN á nokkrum starfsstöðvum. Kostnaður við verkefnið árin 2019 og 2020 var 3,8 m.kr. Áætlaður kostnaður fyrir næstu skref gæti orðið um 2-3 m.kr.

Mikilvægt er að innleiða ekkert af þessu tagi nema það sé fullvíst að það muni nýtast, passi á þá starfsstöð sem um ræðir. Allt of oft er stokkið á innleiðingu á einhverjum nýjungum, tískufyrirbrigðum jafnvel án þess að skoða hvort nálgunin/aðferðarfræðin henti stofnuninni/deildinni.

Aðgerðir/aðferðarfræði sem ekki skapa virði, heldur jafnvel frekar aukið flækjustig eru skilgreind sem sóun og bruðl. LEAN getur verið sóun og bruðl ef það er innleitt þar sem það passar ekki og skilar ekki tilætluðum árangri. En þá er oft búið að kosta miklu til og ekki síst eyða háum fjárhæðum í innleiðinguna og sóa tíma starfsmanna.

 

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar:

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að breyta mætti bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar. Tillagan er felld með þeim rökum að vinna sé í gangi á vegum Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna við uppsetningu rafhleðslustöðva í borginni og stuðning við uppsetningu rafleðslustöðva á lóðum húsfélaga. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að sums staðar er verið að leggja af bílastæði fyrir stóra bíla. Við það gefst tækifæri á að fjölga hleðslustöðvum með ódýrum hætti og hvetja einnig til orkuskipta. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að Orkuveita Reykjavíkur og Veitur gætu vel nýtt sér þegar góðar hugmyndir koma fram og í stað þess að fella þessa tillögu hefði verið nær að senda hana til Veitna og OR til skoðunar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að nota frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að nota ætti frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir. Tillaga er felld og segir að aðstæður séu misjafnar. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sóun er að láta afrennslisvatn renna í skólpkerfin frekar en nýta það í að hita upp gangstéttir í nærumhverfinu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að innleiða bifreiðastæðaklukkur í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla.

Lagt er til að Reykjavíkurborg ræði við Landspítala að notast við bifreiðaklukkur í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eru víða notaðar í öðrum sveitarfélögum. Bifreiðaklukka gæti einnig komið að gagni í miðbænum og í kringum háskóla.

Framrúðuskífa hentar sérlega vel fyrir borgir af þessari stærðargráðu. Misjafnt yrði eftir stæðum hversu lengi má leggja. Leyfilegur tími verður tilgreindur á skiltum. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er, er lagt á stöðugjald. Bifreiðaklukkur henta sér vel þar sem fólk þarf að skjótast inn í 1-2 tíma.

Easy park appið hefur reynst mörgum þyrnir í augum. Greitt er bæði til Bílastæðasjóðs og EasyPark, en EasyPark leggur á aukaþóknun fyrir hverja notkun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond tíðindi og veltir fyrir sér hvort bílaeigendur sem leggja bíl sínum séu meðvitaðir um að þeir eru að greiða gjöld til beggja aðila? Flokkur fólksins mælir með bifreiðastæðaklukkum á sem flestum stöðum þar sem það er hægt.

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurn sem forseti neitaði að taka inn í fundargerð:

Nú liggur fyrir að fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna (ekki Viðreisn)  sameinast í þeirri skoðun að gera eigi nýtt umhverfismat sbr. lið 4 í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 9. desember?  Fram kemur í bókun að þeir taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum svo hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar 3. áfanga Arnarnesvegar sem byggja á á 18 ára gömlu umhverfismati (sjá bókun hér https://reykjavik.is/fundargerdir/fundur-nr-44-3)

Ef ekki verður gert nýtt umhverfismat óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að sett verði fram gild rök annarra í meirihluta borgarstjórnar/umhverfis- og skipulagsráðs hvað réttlæti þessa framkvæmd?

Hið 18 ára gamla umhverfismat er úrelt og nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun beiðni um nýtt mat. Allar forsendur hafa breyst, svo sem gróðurfar og fuglalíf og á skipulagi er Vetrargarður þar sem nú er vinsæl skíðabrekka ofan Jafnasels, notuð bæði af Reykvíkingum og Kópavogsbúum. Fyrirhugaður 3. áfangi Arnarnesvegur mun ógna framtíðarmöguleikum og hindra t.d. þróunarmöguleika fyrirhugaða Vetrargarðs. Þá vekur furðu að sprengja á fyrir fjórum akreinum á 1.3 km. kafla í Vatnsendahvarfi þótt aðeins hafi verið sprengt fyrir tveim akreinum í Hnoðraholti og tvær akreinar eru í 1. og 2. áföngum Arnarnesvegar. Kostnaður er áætlaður miklu hærri en reiknað var með með hliðsjón af hinu 18 ára gamla umhverfismati.