Skipulags- og samgönguráð 2. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, breyting á aðalskipulagi:

Ekki er hægt að koma öllum athugasemdum fyrir í stuttri bókun við viðamikla skýrslu. Sársaukafyllst er hve mikið er gengið á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. með landfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til að þétta en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni. Hreinsistöð Veitna við Klettagarða krefst t.d. landfyllinga nú og meira í framtíðinni. Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmt sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. Ábendingar hafa komið um að þétting byggðar leiði til dýrari íbúða en ella og samræmist það ekki stefnu um hagkvæmt húsnæði. Vakin er athygli á húsnæðisþörf fólks á aldri yfir 67 ára. Búa þarf til fleiri kjarna byggðar, sbr. Sléttuvegur, þar sem íbúðir njóta nálægðar við ”þjónustusel”. Gengið er út frá því sem vísu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og yfir á Hólmsheiði. Er það ekki frekar bratt að ganga út frá því á þessum tímapunkti? Hér er ekki hægt að tala um nein tímamót enda rennt með margt blint í sjóinn og margt er mjög umdeilt.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.1 Neðra Breiðholt, tillaga

Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um m.a. hverfiskjarnann í Arnarbakka. Til að styðja við hverfiskjarnann við Arnarbakka er mikilvægt að finna honum víðtækara hlutverk en honum er ætlað í dag. Þetta getur haft mikil áhrif á hvernig til tekst við endurlífgun hverfisins. Gatan á að verða borgargata en að gera Arnarbakkann að borgargötu fram hjá Breiðholtsskóla krefst mikilla breytinga á núverandi vegi. Það vantar í áætlunina. Samhliða hverfisskipulagi er unnið deiliskipulag fyrir verslunarlóðina í Arnarbakka 2–6 sem gerir ráð fyrir að núverandi hús séu fjarlægð og ný uppbygging heimiluð með verslunarrýmum á jarðhæðum að hluta og íbúðum á efri hæðum. Gert er ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða. Heilmikil gagnrýni hefur komið fram um mikið aukið byggingarmagn á kostnað rýmis og grænna svæða. Heimilt er að reisa allt að 3 íbúðahæðir ofan á húsin. Gert er sem sé ráð fyrir lágum byggingum, en er það rétt stefna?. Einmitt þetta svæði getur kannski tekið við hárri byggingu, svo sem áberandi turnbyggingu sem setja myndi mark á hverfið. Svæði sunnan við Arnarbakka, þar sem nú er opið svæði til sérstakra nota mætti t.d. koma á mörgum ólíkum íbúðabyggingum til að tryggja betur að um blandaða byggð verði að ræða en ekki einsleita.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.2 Seljahverfi, tillaga

Þegar horft er til Seljahverfisins er fókus Flokks fólksins á þeim skaða sem þar stendur fyrir dyrum að valda sem er að sprengja fyrir hraðbraut. Hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf mun íþyngja Reykvíkingum mjög vegna aukinnar umferða sem það skapar á Breiðholtsbraut. Umhverfismatið er fjörgamalt. Margt hefur breyst. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu en samt á að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Í gögnum er reynt að skreyta málið, sagt fullum fetum að þessi framkvæmd muni ekki hafa neikvæð áhrif. Um þetta er efast. Það er ekki hægt að segja að hraðbraut sem liggur við fyrirhugaðan Vetrargarð muni ekki hafa áhrif? Hvað með þróunarmöguleika svæðisins, mengun og umferðarhávaða? Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru ekki að gæta hagsmuna borgarbúa í þessu máli heldur þjóna hagsmunum Kópavogsbúa. Skipulagsyfirvöld hefðu átt að berjast fyrir borgarbúa í þessu máli og krefjast nýs umhverfismats.

Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur brugðist í þessu máli að berjast ekki fyrir að fá nýtt umhverfismat og ætla að bjóða börnum upp á að leika sér í Vetrargarði og á skíðum í hraðbrautar-mengunarmekki.

Bókun Flokks fólksins Hverfisskipulag, Breiðholt 6.3 Efra Breiðholt, tillaga

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að víða megi gera breytingar og lagfæringar í Efra Breiðholti en hér er á að auka byggingarmagn gríðarlega og þá sem blokkir. Ekki verður mikið um blandaða byggð. Fækka á bílastæðum til muna í óþökk margra. Athugasemdir bárust torgið við Gerðuberg verði eflt. Gæta þarf að því að heimildir um aukið byggingarmagn valdi því ekki að afrennslisstuðull lóðar hækki heldur sé unnið á móti auknu byggingamagni með blágrænum ofanvatnslausnum innan lóðar sem því nemur. Víða í Breiðholti á að byggja hús með flötum þökum. Það á ekki að leyfa flöt þök þar sem ekki eru fyrir í skipulaginu. Með þessu er verið að ná einni viðbótarhæð, en nú einkennist byggðin af húsum með hallandi þaki. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar í Breiðholti að virka sem göngustígar en ekki sem hjólastígar og núverandi kerfi á ekki að festa í sessi. Það verður að fara að miða við að hjól- hlaupahjól verði kostur í samgöngum í Efra Breiðholti. Þær fáu breytingar sem hafa verið gerðar á stígum eru ekki til bóta fyrir hjólreiðar. Kallað hefur eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og er það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki sem skráð var á íbúafundi í hverfinu.

 

Bókun Flokks fólksins Hverfisskipulag – leiðbeiningar.

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um leiðbeiningar fyrir hverfisskipulag. Um framfarir er að ræða þegar stuðlað er að því að búa til fleiri íbúðir í grónum íbúðarhverfum, þar sem ekki þarf að raska innviðum. Um margar aðrar breytingar er ekki það sama að segja. Iðnaðarhúsnæði á ekki að breyta í íbúðir, nema þegar það svæði eigi að verða að íbúðarsvæði. Kvaðir ættu að vera í verslunar – og iðnaðarhúsnæði um að ekki megi vera þar með aðra starfsemi en sú sem upprunaleg er nema í undantekningartilfellum. Það er jákvætt að brugðist hafi verið við ýmsum athugasemdum íbúa og að kynning sé ítarleg. Einnig er tekið undir að mikilvægt er að unnið verði heildarskipulag fyrir Mjódd sem lykilsvæði til framtíðar.


Bókun Flokks fólksins Hringbraut 116/Sólvallagata 77 – Steindórsreitur:

Auka á byggingarmagn á efri hæðum sem hefur áhrif á skuggavarp. Með auknu byggingarmagni mun umferð aukast. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Hringbraut er og verður alltaf mikil umferðargata.


Bókun Flokks fólksins við Káratorg forhönnun, kynning

Kynnt er forhönnun Káratorgs sem er torg á mótum Frakkastígs Njálsgötu og Kárastígs. Fulltrúa Flokks fólksins finnst vont að hafa ekki fengið kynninguna fyrir fundinn til að kynna sér innihald hennar, út á hvað þetta gengur? Hver er áætlaður kostnaður við þetta torg? Hver er ástæða þess að talið er mikilvægt að fara í þetta verk núna þegar samfélagið er að koma úr afar erfiðu ástandi? Engar upplýsingar um þetta fylgir með í kynningunni. Fulltrúi Flokks fólksins er nú orðinn all brenndur á gerð torga á vakt þessa meirihluta, framkvæmdir sem virðist vera í miklum forgangi hjá valdhöfum. Þegar víða kreppir skóginn í grunnþjónustu og margir eiga um sárt að binda þá skýtur svona framkvæmd skökku við nú. Nota má þetta fjármagn frekar til að ná niður biðlistum.

Bókun Flokks fólksins Heilsuborgin Reykjavík, Lýðheilsustefna Reykjavíkurborgar til 2030 –

Lögð er fram umsagnarbeiðn borgarráðs v. drög að lýðheilsustefnu. Fulltrúi Flokks fólks varð fyrir miklum vonbrigðum með þessi drög. Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Farið er vítt og breitt í stefnunni með fögur fyrirheit. Ekki orð er um biðlista sem er rótgróið mein í Reykjavíkurborg. Hvergi er minnst á 1033 börn sem bíða eftir að fá nauðsynlega aðstoð til að bæta líðan sína og hjálpa þeim með sértæk vandamál sín. Börn sem fá ekki nauðsynlega sálfræðiaðstoð eiga á hættu að hraka. Með biðinni er heilsu þeirra ógnað jafnvel til frambúðar. Hvergi er minnst á biðlista eldri borgara eftir þjónustu eða fatlaðs fólks eftir húsnæði.

Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík hefur heldur ekki fangað höfunda stefnunnar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er stærsti lýðheilsuvandi þessarar borgar. Í stefnunni segir að reyna á að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þeim þremur árum. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um skutlu í miðbæinn

Góð tillaga Flokks fólksins um skutluvagn í miðbæinn hefur verið felld með þeim rökum að ekki megi fjölga bílum á göngugötum og að á Hverfisgötu séu frábærar strætótengingar. Skutla eins og lýst er í tillögunni myndi einmitt geta dregið úr að fólk sem glímir við skerta hreyfifærni finnist það knúið að aka bíl sínum á göngugötur. Nú er aðgengi að þessu svæði mjög slæmt. Markmiðið með þessari tillögu var að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað vegna lokunar gatna. Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli eða eiga erfitt um gang ama. Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði, eiga erindi þangað og fara um það á skömmum tíma. Skutlan er einnig tilvalin til að skutla ferðamönnum milli staða í miðbænum.

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Laugavegurinn er orðin göngugata og við viljum ekki fjölga þeim bílum sem þar aka, stórum sem smáum. Á Hverfisgötu eru þegar frábærar strætótengingar sem þjóna Laugaveginum og munu batna enn frekar með tilkomu Borgarlínu. Tillagan er felld.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Breiðholtsbraut og vaxandi umferðarþunga þar

Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af þróun umferðarmála á Breiðholtsbraut. Þar er umferð oft mikil, einkum á Breiðholtsbrautinni á annatímum. Þar hafa nú myndast langar bílaraðir á morgnana, síðdegis og við upphaf frídaga og enda þeirra. Það er orðið afar brýnt að tvöfalda legginn frá Jafnaseli að Rauðavatni.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvað skipulagsyfirvöld hyggjast gera í þessu, hvernig á að bregðast við þessu og hvenær. Málið er brýnt og þarfnast tafarlausra aðgerðar.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skipulagsmál í Úlfarsárdal um hvort komin sé endamynd á hverfið:

Nú þegar það liggur fyrir að búið er að úthluta öllum lóðum í Úlfarsárdal óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar hvort það sé komin endanleg mynd á hverfið?

Fulltrúi Flokks fólksins minnist þess að í hverfinu átti að vera blönduð byggð.

Gengið hefur á ýmsum í þessu hverfi. Mikið er um kvartanir og hægt hefur gengið að ganga frá gönguleiðum og frágangi við götur, lýsingu og öryggismál.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um að drifið verði í að setja upp hraðamerkingar þar sem búið er að

Nýlega var ákveðið að lækka hraðann á Laugarársvegi og fleiri íbúagötum og götum þar sem börn fara um niður í 30. Hins vegar vantar enn hraðamerkingar t.d. á Laugarásvegi. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær eigi að setja um þessi skilti? Hvenær á að klára verkið? Ekki dugar að hætta við verk þegar hálfnað er.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hverfisskipulag neðra Breiðholt er snýr að Arnarbakka og borgargötu

Að gera Arnarbakkann að borgargötu framhjá skólanum krefst mikilla breytinga. Fulltrúi Flokks fólksins spyr:

Mun bílaumferð ekki aukast mikið þegar innsti hluti Arnarbakka verður efndurgerður með auknu byggingarmagni og starfsemi?

Verður fært að fara framhjá Breiðholtsskólanum þegar umferð vex verulega?

Verður ekki að hugsa vegtengingar alveg upp á nýtt?

Þarf ekki að skilgreina hvernig samgöngur við hverfiskjarnann eiga að vera?

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hraðahindrun og hraðamyndavélar í Mjódd

Fyrirspurn um hraðahindrun í Mjódd. Nú á að malbika í Mjóddinni. Búið að fjarlægja kodda sem eru til að hægja á umferð. Í staðinn fyrir að setja þá aftur niður spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort ekki er hægt að setja upp hraðamyndavélar?

Hvað kostar að setja koddana aftur niður?

Það skal tekið fram að koddarnir eru að skemma hjólabúnaðinn að framan á bílum, veldur óvenjulegu sliti.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Káratorg sem snýr að kostnaði

Óskað er svara við spurningunum um áætlaðan kostnað við Káratorg og af hverju er þetta verkefni nú í forgangi nú í stað þess að bíða betri tíma.

Frestað.