Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð 11. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu á tilfærslu Umboðsmanns borgarbúa til Innri endurskoðunar:

Í fyrra 2020 var skrifstofu Umboðsmann borgarbúa og hlutverkið fært undir skrifstofu Innri endurskoðunar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort og í hversu miklu mæli borgarbúar hafi áttað sig á þessari breytingu. Umboðsmaður borgarbúa var orðinn vel þekktur og var afar vel liðinn eftir því sem heyrðist. Einhvern veginn heyrist ekki mikið um sambærilegt hlutverk hjá Innri endurskoðun. Eitthvað þarf að gera í þessu. Það er mjög mikilvægt að borgarbúar ekki aðeins hafi möguleika á að fara með mál sín til óháðs aðila telji þau brotið á sér heldur að þeir viti af breytingunni á úrræðinu þótt umboðsmaður borgarbúa sé ekki lengur til í þeirri mynd sem hann var.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins frá 28. janúar 2021, um úttekt á jafnréttisfræðslu, sbr. 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að  Reykjavíkurborg geri úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi í ljósi þess að  fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn sem lögð er til grundvallar afgreiðslunni er sagt frá verkefnum starfshóps um kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi og sé talið að þau verkefni nái að mestu yfir tillögur Flokks fólksins utan úttektar á hvernig jafnréttisfræðsla hefur þróast undanfarna áratugi. Fulltrúi Flokks fólksins er ekki sammála að í verkefnum þeirra felist beinlínis að gera úttekt á þessum málum í þeim skilningi. Hópurinn ætlar að kortleggja kennsluefni, leggja mat á stöðu fræðslunnar, rýna í námsefni og leggja fram tillögu til að efla þekkingu starfsfólk og auka fræðslu til barna. Í úttekt myndi hins vegar felast að skoða hvernig fræðslunni er háttað á öllum stöðum þar sem hún er við lýði. Fulltrúi Flokks fólksins vill einnig að talað verði við krakkana sjálfa og foreldra þeirra og þau spurð hvað þeim finnst  gagnlegt og hvað mætti bæta og hvað hreinlega vantar? Í verkefnalista stýrihópsins er ekki beint séð að ræða eigi við ungmennin sjálf eða foreldra þeirra hvað þeim finnst vanta, þurfi að breyta eða sé einfaldlega í góðu horfi.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins frá 11. febrúar 2021, um samræmingu á jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði  til að mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð hvetji til þess að kannað verði hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla er samræmd í leik- og grunnskólum. Tillögunni er vísað frá. Í umsögn sem lögð er til grundvallar afgreiðslunni er ekki fjallað um þessa tillögu sem varðar skoðun á hvort jafnréttisfræðsla sé samræmd í leik- og grunnskólum. Bent er á verkefni stýrihóps um  kynja- og hinseginfræðslu og að þau dekki tillögu Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins telur svo ekki vera. Hvergi í erindisbréfi starfshópsins er minnst á að skoða hvort og þá hversu mikið jafnréttisfræðsla er samræmd. Fræðslan getur því vel verið  með afar ólíkum hætti milli skóla. Nú er jafnréttisfræðsla lögbundin og því mikilvægt að hvorki magn, gæði eða innihald sé háð því í hvaða skóla barn gengur. Í þessu sem öðru eiga börn að sitja við sama borð. “Að auka og efla” er allt annað en að hvort fræðslan sé samræmd milli skóla. Eins og með sérkennsluna og sálfræðiaðstoð og annað sem við bjóðum börnunum í borginni þurfum við að geta verið nokkuð örugg um að það sé svipað milli skóla/hverfa. Ella eru börn sem búa í hverfum þar sem fræðsla eða þjónusta er lakari að bera skertan hlut frá borði.

 

Bókun Flokks fólksins við kynning á notendaráði félagsstarfs aldraðra hjá velferðarsviði:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar kynninguna. Í bókun þessari er kannski meira af spurningum en venja er í bókun en það kemur til af því að margt í þessu er frekar ruglingslegt og óskýrt.
Notendaráð eru starfandi á 12 af 17 félagsmiðstöðvum og kallast þau ýmsum nöfnum; notendaráð, íbúaráð, heimilisráð, æðsta ráð, stjórn, „opinn fundur“. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvers vegna eru Notendaráð ekki starfandi í öllum 17 félagsmiðstöðvum?
Eins liggur ekki ljóst fyrir hvað ræður því hvort kosið sé í ráð eða fólk beðið um að starfa þar?
Allt ferlið og framkvæmdir þurfa að vera gegnsæjar. Eins væri ráðlegt að hafa eitt samheiti yfir þessi störf, en ekki sex nöfn eins og hér er talið upp. Það er heldur ekki ljóst hvað ræður fjölda stöðva. Er það fjöldi íbúa eða þátttakenda? Fulltrúi Flokks fólksins mun ekki að sinni leggja  þessar spurningar  fram með formlegum hætti en vonast til að þær verðar skoðaðar með það í huga að gera breytingar til hins betra.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta, frá fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna þann 12. maí 2020, um aukna jafnréttisfræðslu fyrir börn og ungmenni, ásamt umsögn starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu dags. 23. febrúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að ungmenni biðji um aukna jafnréttisfræðslu hvort sem það sé vegna þess að hún sé ekki næg eða að þau vilji einfaldlega meiri og dýpri fræðslu um einstaka þætti. Í umsögn jafnréttis- lýðræðis- og mannréttindateymis kemur fram  það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af sem er að „þrátt fyrir að jafnréttisfræðsla sé lögbundin er enginn ábyrgðaraðili til staðar sem tryggja á að fræðslunni sé sinnt í skólakerfinu og fyrir vikið má teljast afar líklegt að misjafn sé á milli skóla hversu mikla og hversu markvissa jafnréttisfræðslu nemendur fá“. Þetta er ástæða tillagna Flokks fólksins í lið 3 og 4 á sama fundi um að gerð verði sérstök úttekt og könnun á samræmingu á jafnréttisfræðslu í skólum og frístund. Þeim tillögum var vísað frá. Stýrihópur hefur verið settur á laggirnar sem m.a. á að kortleggja jafnréttisfræðslu í skóla- og frístund. Niðurstöður þeirra mun varpa ljósi á margt en eftir stendur áfram sú staðreynd  að það er enginn ábyrgðaraðili til staðar sem tryggja á að fræðslunni sé sinnt í skólakerfinu. Þess vegna er afar brýnt að gerð verði kerfisbundin úttekt á fræðslunni og það skoðað hversu samræmd hún er milli staða.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um kostnað embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs við ferðir erlendis:  ráðstefnur, námskeið, námsferðir eða nám:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins stendur ekki á sama um fjármuni borgarbúa og telur að allt of miklum fjármunum sé varið í allskyns óhlutlæg verkefni eins og gríðarleg ráðgjafarkaup og hugmyndavinnu ýmiss konar sem lítið virðist skilja eftir sig í raunverulegum vörum eða hagræðingu. Borgarfulltrúa finnst eins og á þessu sviði sé einhvers konar  hugmyndasmíð í gangi sem ekki er séð hverju skilar nema  fjárútlátum í stað afurða í formi  lausna fyrir Reykvíkinga. Það eru Reykvíkingar sem eru að greiða fyrir þessi stafrænu verkefni  sem kynnt hafa verið að undanförnu og  undanfarin ár án þess að ávinningur sé beinlínis sýnilegur eða áþreifanlegur. Vegna þessa spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins um kostnað embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs við ferðir erlendis:  ráðstefnur, námskeið, námsferðir eða nám. Spurt er um kostnað síðustu 4 ár.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hversu  mörg ár í viðbót þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið á ráðgjafaþjónustu og hugmyndavinnu að halda áður en sambærileg snjalllausn verður komin í notkun á vef borgarinnar sem væri þá afurð í líkingu við snjallmennið Vinný?

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um snjalllausnir og hvað langan tíma tekur að gera þær áþreifanlegar.  Á  heimasíðu Atvinnuleysistryggingasjóðs er að finna Snjallmennið Vinný sem svarar fyrirspurnum fljótt og vel. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að leita að sambærilegri snjalllausn á vef Reykjavíkurborgar en finnur  ekkert  slíkt þrátt fyrir að keypt hefur verið ráðgjöf frá ýmsum fyrirtækjum eins og frá Capacent og  Gartner Group. Spurt er: Hversu  mörg ár í viðbót þarf þjónustu- og nýsköpunarsvið á ráðgjafaþjónustu og hugmyndavinnu að halda áður en sambærileg snjalllausn verður komin í notkun á vef borgarinnar sem væri þá afurð í líkingu við snjallmennið Vinný?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvort líkur séu á því að borgin geti nýtt sér að einhverju leyti alla þá aðkeyptu ráðgjöf og afrakstur hugmyndavinnustofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem nú þegar er búið að greiða fyrir varðandi áframhaldandi þróun á þessari þjónustugátt Rafræn Reykjavík og öðrum vefjum borgarinnar?

Fyrirspurn um Rafræna Reykjavík umsóknarvef Reykjavíkurborgar: Þrátt fyrir að til sé heil skrifstofa undir þjónustu- og nýsköpunarsviði sem heitir Stafræn Reykjavík sem á að sjá m.a. um vefþróun og stafræna þróun, hefur umsóknarvefur Reykjavíkurborgar Rafræn Reykjavík lítið sem ekkert breyst eða þróast í mörg ár jafnvel þótt keypt hafi verið umtalsverð ráðgjöf og hugmyndavinna innan og utanlands undanfarin ár. Þess vegna er spurt: Eru líkur á því að borgin geti nýtt sér að einhverju leyti alla þá aðkeyptu ráðgjöf og afrakstur hugmyndavinnustofu þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem nú þegar er búið að greiða fyrir varðandi áframhaldandi þróun á þessari þjónustugátt Rafræn Reykjavík og öðrum vefjum borgarinnar?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.