Skipulags- og samgönguráð 2. september 2020

Bókun Flokks fólksins liðnum: Fyrsti áfangi borgarlínu, Ártúnsholt – Hamraborg

Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga Borgarlínu, Ártúnsholt – Hamraborg. Það virðist vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu og er hér átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn. Það þarf almennt að huga vel að samgönguháttum með tilliti til breytinga sem þarf á öðrum samgönguleiðum en borgarlínunni. Einnig þarf að koma sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Þetta eru svona þættir sem margir borgarbúar eru að velta fyrir sér. Það liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi eftir því sem fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn verði metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar GAJA verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðaröryggi við Selvogsgrunn

Beiðni er lögð fram frá íbúum í Laugardalnum um að Selvogsgrunni verði lokað við Brúarveg. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta sé af hinu góða svo fremi sem gott rými er í götunni. Ef meirihluti íbúa telja mikilvægt að prófa þetta í tilraunaskyni á hiklaust að samþykkja það. Fulltrúi Flokks fólksins styður þess beiðni.


Lögð er fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvað stöðvun á framkvæmdum fráreinar af Bústaðarvegi inn á Kringlumýrarbraut til suðurs hafi kostað borgina. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. ágúst 2020.

Ekki er gerð bókun í þessu máli en hér kemur svar frá skipulagsyfirvöldum:

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu vegna kynningu á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt um fjölgun viðverudaga,  að komið verði upp sérstökum ábendingarhnappi á vefsíðu Reykjavíkur og símanúmeri  og að haldnir verði íbúaráðsfundir þegar COVID leyfir

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókun:
Tillögum Flokks fólksins um að auka aðgengi Breiðhyltinga að skipulagsyfirvöldum vegna hverfisskipulags Breiðholts hefur verið felld. Skipulagsyfirvöld telja ekki þörf á fjölgun viðveru eða frekari fundum þar sem mikil þátttaka hefur verið í samráðsferli. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að viðverudögum verði fjölgað í Mjódd og Gerðubergi vegna COVID ástandsins. Einnig fannst Flokki fólksins mikilvægt að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari svo hægt er að halda almennilega íbúaráðsfundir í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi af ótta við smit. Sumir eru einnig í sóttkví og einangrun vegna COVID. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri til að kynna sér hugmyndirnar og koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti. Með því að fella þessa tillögu er verið að loka fyrir þann möguleika að það fólk sem er fast heima vegna COVID geti komið til skrafs og ráðagerðar. Fyrir þá sem eru fastir heima þeim þarf að bjóða aðrar leiðir til að fá kynningu og koma ábendingum sínum á framfæri. Vel má hugsa sér að starfsmaður fari í heimsóknir til fólks sem óska eftir að ræða málin.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil þátttaka hefur verið í samráðsferli sem sést bæði á mætingu í Mjódd og Gerðuberg, áhorf á streymisfundi og mætingu í hverfisgöngur. Ekki er talin þörf á að ráðið handstýri því hvaða starfsmaður mæti hvert og hvenær með þeim hætti sem tillagan leggur til.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts

Tillaga Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts hefur verið vísað frá. Það er miður. Hér er ekki verið að biðja um að ráðið taki afstöðu til einstakra hugmynda heldur frekar að skipulagsyfirvöld verði enn meðvitaðri um hvar áhyggjur fólks liggja einna helst. Bílatæðamálin liggja þungt á stórum hópi Breiðhyltinga. Nú þegar er skortur á bílastæðum víða í Breiðholti og eftir því sem best er séð þá leiðir þetta nýja hverfisskipulag til enn meiri vandræða í þessum efni. Þetta vita þeir sem staðið hafa vaktina í Gerðubergi og Mjódd. Spurning er hvort skipulagsyfirvöld munu taka á þessum ábendingum mark, gera eitthvað með þær, reyna að virða óskir hverfisbúa?

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Allar tillögur og uppástungur verða teknar til skoðunar og þeim svarað. Hins vegar er ekki rétt að ráðið að taki afstöðu til einstaka hugmynda meðan hverfisskipulagið er enn í vinnslu.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að fá skóla og stofnanir í hverfið

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að skoðað ákveðnar nýjungar í Breiðholti hefur verið vísað frá. Lagt var til að skoða möguleikann á því að fá fleiri skóla í hverfið t.d. Listaháskólann fluttan í Breiðholtið í stað þess að hrúga öllum háskólum á sama blettinn í Vatnsmýrinni; að skoða nánar hugmyndir um skrúð- eða lystigarði í efra Breiðholti og skoða flutning opinberra stofnana í hverfið. Fulltrúi Flokks fólksins er hissa á þessum viðbrögðum skipulagsyfirvalda. Er ekki verið að biðja um ábendingar og tillögur? Síðan þegar fulltrúi Flokks fólksins og íbúi í Breiðholti kemur með þær er þeim hafnað! Hér eru tillögur sem vert er að skoða. Það er sjálfsagt að dreifa bæði skólum og fyrirtækjum um borgina til að létta á álagi á ákveðnum stöðum ekki síst í umferðinni.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Hverfisskipulagið er í vinnslu. Það væri óeðlilegt ef ráðið myndi á þessu stigi málsins taka upp nokkrar hugmyndir sem fram hafa komið í samráðsferlinu og hampað sem sínum. Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi og göngutúrar um hverfið

Nú er verið að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi og göngutúrar um hverfið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið með skipulagsyfirvöldum. Óskað er einnig upplýsinga um fjölda ábendinga sem hafa borist og að þær verði flokkaðar eftir innihaldi. Loks er spurt um aldursskiptingu þeirra sem komu á viðverufundina og í göngutúrana.

Vísað til umsagnar umhverfis og skipulagssviðs, Skrifstofu skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um viðhald gatna í Þingholtsstræti og nágrenni

Í gangi hafa verið framkvæmdir í Þingholtsstræti og nágrenni. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um verkefnastöðu á málningu gatna/bílastæða í miðbænum t.d. við Þingholtsstræti, og að minnsta kosti hluta Bókhlöðustígs og Skálholtsstígs. Hvenær hófst verkið og hvenær voru áætluð verklok?
Hver er staða viðhalds, vatnsræsingar og viðgerðar í Þingholtsstrætinu og næsta nágrennis?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um afgreiðslu erinda hjá skipulagsyfirvöldum borgarinnar

Það hefur nokkuð borið á því að fólk er ekki að ná sambandi við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborg þegar það vill koma áleiðis sem dæmi ábendingum, er með fyrirspurnir eða önnur erindi. Þá hefur borið á því stundum að hver vísar á annan, skeytum ekki svarað fyrr en seint um síðir og enn síður nær fólk í gegn með símtali. Skipulagskerfi borgarinnar er orðið nokkuð stórt bákn og virkar stundum eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki standi til að gera á þessu bragarbót?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að vinnureglu þess efnis að erindum sé svarað samdægurs

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að auka skilvirkni í afgreiðslu erinda frá borgarbúum hefur verið vísað frá. Lagt var til að starfs- og embættismenn sem og kjörnir fulltrúar meirihlutans í skipulagsráði geri það að vinnureglu sinni að ljúka ekki vinnudegi sínum fyrr en búið er að bregðast með einum eða öðrum hætti við innkomnum skeytum/skilaboðum sem borist hafa hefur verið vísað frá. Hér er ekki átt við að öll erindi fái fullnaðarafgreiðslur strax enda slíkt ekki raunhæft heldur að þeim sem sent hafa skeyti eða skilaboð verði svarað sem dæmi: „erindið er móttekið/málið er í skoðun/ haft verður samband hið fyrsta“, eða eitthvað á þessa leið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram þessa tillögu sökum þess að nokkuð hefur borið á kvörtunum um að illa gangi að ná sambandi við skipulagsyfirvöld. Allt of oft stígur fólk fram og segist ekki ná neinu sambandi við skipulagsyfirvöld. Í meirihlutasáttmála þessarar borgarstjórnar kom skýrt fram að bæta átti þjónustu, auka lýðræði og allt skyldi verða gegnsærra. Hafa þarf sífellt í huga að borgarbúar eiga að koma fyrst. Starfsmenn og kjörnir fulltrúar eru öll í vinnu hjá borgarbúum og eigum að þjónusta hvern og einn sem allra best.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu hefur verið vísað frá. Telur fulltrúi Flokks fólksins það vera á skjön við það sem lofað var í sáttmála þessa meirihluta en þar er margtalað um aðgengi, að borgarbúar hafi gott aðgengi að borgarkerfinu og embættis- og starfsmönnum. Aðgengi er ekki gott og það er ástæðan fyrir þessari tillögu. Eins og staðan er nú er borgarbúum boðið upp á að hringja í eitt miðlægt símanúmer til að ná í starfsmenn. Þetta hefur ekki alltaf gengið vel. Leggja þarf áherslu á að borgarbúar hafi greiðan aðgang að embættis- og starfsmönnum allra sviða borgarinnar. Fyrsta skrefið er að hafa netföng og símanúmer sýnileg og aðgengileg. Hvað er sjálfsagðra en að hafa upplýsingar um netföng og símanúmer starfsmanna og embættismanna aðgengilegt á netinu? Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgarbúar geti sent skeyti og helst hringt beint í viðkomandi starfsmann. Hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn eiga að vera settir í bómull þegar kemur að aðgengi að þeim.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarar eiga rétt að hafa samband við stjórnvöld, það eru margar leiðir til að tryggja þann rétt með skilvirkari hætti en þeim að hver og einn geti öllum stundum hringt í hvaða starfsmann borgarinnar sem er. Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvaða hugmyndir í hverfisskipulagi Breiðholts hafi komið frá  íbúum

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá það sundurliðað hvaða hugmyndir sem birtar eru í vinnutillögum nýs hverfisskipulags Breiðholts komu frá íbúum sjálfum og hvaða tillögur komu frá borgar- og skipulagsyfirvöldum eða öðrum?
Var það t.d. ósk íbúa Breiðholts að svo mikil þétting byggðar yrði?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um reglur um sleppistæði,

Fyrirspurnir framhaldi af svari skipulagsyfirvalda við fyrirspurn Flokks fólksins um stæði- og sleppistæði við leik- og grunnskóla. Í svari var vísað í reglur sem skipulag- og samgönguráð samþykkti 19. desember 2018. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík er fylgt til hins ítrasta. Einnig er spurt hvort það standi til hjá skipulags- og samgönguyfirvöldum að breyta þessum reglum næsta árið í þá átt að fækkað verði enn frekar bílastæðum og sleppistæðum við einhverja leik-, grunnskóla og frístundarheimili? Stendur það til hjá skipulagsyfirvöldum að setja gjaldskyldu á þau stæði önnur en sleppistæði sem nú eru til staðar fyrir framan leik- og grunnskóla og frístundaheimili?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um vistgötu á Norðurstíg

Skipulagsyfirvöld leggja til og hafa hafið framkvæmdir á að gera Norðurstíg og Nýlendugötu austan Ægisgötu að vistgötum sem þýðir að bílar eru aftast í forgangi. Hraði hjóla, hjólaskauta eða hjólabretta miðast við gönguhraða. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaðan þessi hugmynd kemur. Er þetta gert að ósk íbúa og vegfarenda eða er þetta einungis persónulegar ákvarðanir skipulagsfulltrúa? Hvernig var samráði háttað? Hér er enn og aftur spurt um samráð við fólkið í borginni en ekki stafkrókur um slíkt er að finna í framlagningu gagna sem er í formi tilkynningar fremur en tillögu.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi umferð í Ármúla

Þar sem fjöldi verslana og fyrirtækja hefur flutt í Ármúlann undanfarin ár er umferð orðin töluvert mikil um götuna. Umferð hefur aukist vegna t.d. lokana í miðbænum og þrenginga á Grensásveg. Í skipulagslýsingu sem lögð var fram í ágúst 2019 eru fyrirhugaðar breytingar tilgreindar. Í þeim felst að þétta byggð og eiga allt að 450 íbúðir og atvinnuhúsnæði rísi t.d. á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þarna verði mikil þrengsli þar sem umferð af alls kyns tagi mun aukast ekki síst vegna lokana í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvaða áhrif breytingar á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31 muni hafa á umferð og rými vegfarenda? Eftir lokun miðbæjarins hefur umferð aukist mjög á þessu svæði, Ármúla og einnig Hallarmúla. Fulltrúa Flokks fólksins hafa einnig borist upplýsingar um að Reykjavíkurborg áformi breytingar á Ármúlanum ofar í götunni, á milli Vegmúla og Selmúla og að hæðarmælingar og annar undirbúningur hafi farið fram. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvaða breytingar séu fyrirhugaðar á þessum hluta Ármúla af hálfu skipulagsyfirvalda?

Frestað.