Borgarráð 23. júlí 2020

Framlagðar tillögur um Mjódd á fundi borgarráðs 23.7.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd.

Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir.  Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18. Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um Svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingarmiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.

Göngugatan í Mjódd hentar mjög vel fyrir þá sem langar að hitta aðra eða sjá skemmtilega hluti. Verslun í bland við veitingasölu, uppákomur, gjörninga og styttri viðburði svo sem uppistand, stutta leikþætti, tónlistar- og söngatriði, og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að. Skreyta mætti götuna meira með listaverkum, mála hana með glaðlegum litum, setja upp fleiri lítil leiktæki og aðra afþreyingu sem þarna myndi passa inn.
Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að gefa þessu gaum. Það standa til ákveðnar framkvæmdir utandyra í Mjódd og er það mjög gott en þarna bíður göngugatan í Mjódd eftir meira lífi og aukna upplifun fyrir gesti og gangandi.

Tillaga Flokks fólksins um endurgerð bílastæða í Mjódd

Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur er fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Viðræður ganga hægt og endurgerð bílastæðanna á svæðinu er orðið afar brýnt mál. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að gengið verði sem fyrst í að semja aftur með hagsmuni Mjóddar að leiðarljósi bæði með tilliti til aðgengismála og öryggismála gesta og gangandi sem leggja leið sína í Mjódd.

Lagt er til að skipulagsyfirvöld horfi til endurnýjunar á svæðinu umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag.

Lagt er til að endurgera og snyrta grænu svæðin í kringum Mjódd með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun.

 

Fyrirspurnir Flokks fólksins um aðkomu Aðgengis og samráðsnefndar að mikilvægum aðgengismálum fatlaðs fólks

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja formann og fulltrúa aðgengis- og samráðsnefndar með hvaða hætti nefndin hefur beitt sér í eftirfarandi málefnum fatlaðs fólks:

Með hvaða hætti, ef nokkuð, beitti Aðgengis- og samráðsnefndin sér varðandi 10. gr. nýrra umferðarlaga sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði?

Hvernig hefur Aðgengis- og samráðsnefndin, ef eitthvað, beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Hér er átt við skilti sem sýna rétt þeirra sem eru með P merki. Þeir mega bæði keyra og leggja á göngugötum.

Hvernig beitti Aðgengis- og samráðsnefndin sér í að haft yrði samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks í útboðsmálum Sameiginlegrar akstursþjónustu á höfuðborgarsvæðinu?

Hversu oft hafa ofangreind mál verið sett á dagskrá Aðgengis- og samráðsnefndarinnar og hvernig hafa þau verið afgreidd úr nefndinni?

Tillaga Flokks fólksins um að gera ábendingarhnapp Strætó sýnilegri á heimasíðu Strætó bs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ábendingahnappur Strætó bs. verði sýnilegri og aðgengilegri á heimasíðu Strætó bs. Nú er sá hnappur neðarlega undir hnappnum Notendaupplýsingar og er frekar seinfundinn fyrir notendur og þjónustuþega sem vilja senda inn ábendingar. Ábendingahnappurinn þarf að blasa við um leið og vefsíða þjónustufyrirtækis eins og Strætó bs. er opnuð. Öðruvísi gagnast hann aðeins með takmörkuðum hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á umferðarljósum árið 2020 í samstarfi við Vegagerðina:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að endurnýja úrelt umferðarljós og hefði mátt gera það fyrir löngu. Nútímavæðing stýribúnaðar umferðarljósa er eitt af því sem legið hefur í láginni hjá þessum og síðasta meirihluta. Um það bera umferðartafir og öngþveiti í borginni skýrt merki. Formgalli sem þessi kemur við pyngju borgarbúa. Hér var ekki gætt að ákvæðum laga um opinber innkaup við ákvörðun tilboðsfrests. Þetta er sérkennilegt þar sem útboð  er nánast daglegt brauð hjá stóru sveitarfélagi. Nú þarf Reykjavíkurborg og borgarbúar að greiða Smith & Norland bætur vegna þessara mistaka. Bæturnar eiga að nema kostnaði fyrirtækisins við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboðinu. Óumdeilt er að mati kærunefndarinnar  að borgin hafi ekki farið að lögum og hafi af þeim sökum þurft að ógilda útboðið.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 22. júlí 2020, um bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. júní 2020, varðandi skipulag og uppbygging á landi við Skerjafjörð:

Verið er að binda lokahnút á samkomulag á skipulagi og uppbyggingu á landi við Skerjafjörð. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Þetta er sérstakt í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvort flugvöllurinn muni fara úr Vatnsmýrinni eða vera þar til 20 ára eða langrar framtíðar. Lengst af talaði borgarstjóri og Samfylkingin fyrir því að flugvöllurinn færi  úr Vatnsmýrinni einmitt til að skipuleggja þar heildstæða byggð. Nú hefur þeim snúist hugur, hafa samþykkt að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til 15-20 ára eða þar til önnur staðsetning finnst, finnist hún þ.e.a.s. Svo láta á duga að byggja í kringum hann á alla mögulega auða bletti og með fjörulandfyllingu til að hægt sé að setja upp þjónustustofnanir.  Í þessu sambandi má minna á að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Annað atriði er hversu lítið  samtal skipulagsyfirvöld hafa átt við íbúa Skerjafjarðar um nákvæmlega þessa uppbyggingu þar. Síðast en ekki síst þá hafa margir áhyggjur af umferðarmálum. Ekki er séð að það skipulag sem liggur á borðinu í umferðarmálum dugi til að koma fólki í og úr hverfinu með skjótum og tafarlausum hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla, til leigu:

Með þessari aðgerð, að heimila að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla til leigu er verið endanlega að loka fyrir þann möguleika að snúa ákvörðun um skólamálin í norðanverðum Grafarvogi til baka þe. að hafa starfsstöð Kelduskóla í Korpuskóla eins og var. Sameining starfsemi grunnskóla í Grafarvogi þar sem hætt var notkun á húsnæðinu olli  reiði og ólgu meðal margra foreldra og íbúa í Grafarvogi. Ekki er komin reynsla á hvernig hið nýja fyrirkomulag muni koma út ef horft er til hagsmuna barnanna. Enda þótt ekki sé góður kostur að hafa Bakkastaði 2 ónotað húsnæði er spurning hvort ekki ætti að hinkra ögn og sjá hvernig mál þróast í hinu nýja fyrirkomulagi. Til bóta er ef úr verður að húsið verði leigt að uppsagnafrestur leigu verði sem stystur.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025. Einnig lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlana 2021-2024:

Fram kemur í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga að forsendur mannfjöldaspár kunni að vera úreltar.  Hagstofa Íslands hefur endurskoðað mannfjöldaspá sína og tekur hin nýja spá til áranna frá 2019 til 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands og mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli. Fram kemur í minnisblaðinu að frá 2023 verða veruleg vatnaskil í reikningum hagstofu og í stað þess að aðfluttir verði um 3.500 fleiri en brottfluttir reiknar hagstofa með að þetta snúist við og brottfluttir verði um 2.700 fleiri en aðfluttir. Fyrir vikið mun íbúum ekki fjölga frá 2023 til 2024 gangi þessi forsenda Hagstofu eftir.  Þar sem forsendur eru nú taldar úreltar hlýtur að þurfa að endurskoða  kostnaðarsöm  risaverkefni eins og borgarlínu sem meirihluti borgarstjórnar hefur ákveðið að ráðist verði í. Eitt af meginrökum skipulagsyfirvalda fyrir borgarlínu er að spáð hafði verið mikilli fólksfjölgun næstu árin. Vissulega er erfitt að spá nákvæmlega fyrir um mannfjölgun. Gera má ráð fyrir að borgarbúum fjölgi en klárlega ekki í þeim mæli sem talið var.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að styrkja Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Styrkurinn mun nýtast til að kaupa ný eldhústæki fyrir barnaheimilið í Tasiilaq á Grænlandi þar sem alast upp átján börn. Styrkurinn verður fjármagnaður af kostnaðarstaðnum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að styrkja á Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Flokkur fólksins lagði til í október 2018 að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum. Tillagan var felld 11. desember 2018 með fjórum atkvæðum meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Fulltrúar  Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Skák er því miður ekki komin í námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera. Skák er einstök fyrir margar sakir. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Skákin hentar öllum börnum en einstaklega vel í samfélagi eins og á Grænlandi þar sem landfræðilegar aðstæður og mannfæð bjóða börnum almennt ekki upp á mörg tækifæri til tómstundaiðkunar. Með skáklandnámi Hróksins og Kalak á Grænlandi hefur fjöldi Grænlenskra barna fengið tækifæri til að þroska með sér þá færni sem skákíþróttin veitir, sem þau hefðu mögulega annars farið á mis við.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda sem nýtti sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum, sbr. 72. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu margir hefðu nýtt sér heimildina að fresta leigugreiðslum vegna COVID-19 í tengslum við tillögu borgarstjóra að  framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Í svari kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní”. Ljóst er að þetta úrræði er ekki að ná til margra ef aðeins 12 hafa nýtt sér frestinn. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma á móts við fleiri. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis  íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekki neitt. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar  að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Það gæti verið erfitt á þessu stutta tímabili að sýna fram á þriðjungs tekjutap. Hér kallar fulltrúi Flokks fólksins eftir auknum  sveigjanleika og manneskjulegheitum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 2. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið sem greinilega er vandað til. Stafrænar lausnir og stafrænt kerfi er nýjung, eitthvað sem sennilega er að þróast frá degi til dags. Það sem vakir fyrir fulltrúa Flokks  fólksins er að fólk sem nota á kerfið hafi góðan aðgang að því, finni upplýsingar sem það vantar, fái svör við fyrirspurnum sínum og að mál þeirra séu leyst á skjótan og skýran hátt í gegnum upplýsingakerfi borgarinnar.  Ef marka má kvartanir sem berast reglulega að þetta sé ekki svona í reynd. Kvartað er t.d. yfir að ekki séu veittar upplýsingar, að skeytum sé ekki svarað, o.s.frv. Þetta kann að koma skrifstofu stafrænnar Reykjavíkur ekkert við en verið er samt að tala um aðgengi og gagnsæi í báðum tilvikum. Það er ekki nóg að skreyta með smart útliti ef fólk nær „ekki í gegn” ef skilvirkni er ekki til staðar. Þessi stafrænu fínheit kunna að vera gagnleg fyrir starfsfólk en kerfið þarf að virka fyrir borgarbúa. Heildarkostnaður er tæpar 9 milljónir og ekki var farið í útboð eftir því sem næst er komist. Og loks, hvað þýðir að ítra? Í  svari kemur fram eftirfarandi: Kerfið er tilbúið og þegar hægt að sækja efni þangað inn eða bæta við og ítra.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. júlí 2020, við fyrirspurn um innri leigu Klettaskóla, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020:

Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

 

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. júní 2020:

Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi, ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðar velferðarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins finnst nokkrir hlutir eftirtektarverðir þegar kemur að „helstu frávikum í  þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs. Þjónustumiðstöðvar voru 15 m.kr. umfram fjárheimildir sem rekja má til langtímaveikinda. Hér verða að koma betri skýringar. Líður fólki illa í vinnunni, eru þetta veikindi sem rekja má til þess? Þetta er sannarlega ekki léttvægt mál. Varðandi hjúkrunarheimili þá voru Droplaugastaðir 19. m.kr. umfram fjárheimildir eða  tæp 60%.  Seljahlíð fer 68% fram yfir áætlun og er skýrt með því að þetta sé óhagstæð rekstrareining. Það geta ekki verið nýjar fréttir? Af hverju hefur þá ekki verið bætt úr því? Hægt ætti að vera að finna leiðir til að búa til hagstæðustu rekstareininguna sem völ er á. Sama má segja um vistgjöld barnaverndar, hægt er að áætla nákvæmara en gert er nú.  Kerfi sem gengur áfram ár eftir ár ætti að vera auðvelt að spá fyrir um og áætla samkvæmt því. Enn eru frávik vegna heimaþjónustu að þessu sinni 98 m.kr. innan fjárheimilda því ekki hefur tekist að manna stöður. Þetta þýðir að  ekki var hægt að veita fullnægjandi grunnþjónustu sem fólk á rétt á og þarfnast. Sama er um heimahjúkrun sem var 23 m.kr innan fjárheimilda vegna ónógrar mönnunar. Það verður að fara að taka á mannekluvanda í Reykjavík með öllum ráðum og dáðum.