Skipulags- og samgönguráð 23. mars. 2022

Bókun Flokks fólksins við fundargerð embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 11. og 18. mars 2022:

Athugasemdir vegna tillögu að deiliskipulagi Arnarnesvegar eru ekki birtar í fundargerð. Harðorð mótmæli hafa borist frá stórum hópi sem ekki er hlustað á. Fyrirhugaðri framkvæmdum 3. áfanga Arnarnesvegar hefur verið mótmælt vegna þess að hann mun eyðileggja eitt dýrmætasta svæði höfuðborgarsvæðisins. Framkvæmdin byggir á umhverfismati frá 2003 og hefur verið mótmælt kröftuglega á öllum skipulagsstigum af íbúum nágrennisins síðastliðin 40 ár. Nýleg niðurstaða Skipulagsstofnunar um að ekki væri tæknilega þörf á nýju umhverfismat, því að talið er að byrjað hafi verið á framkvæmdinni 2004, er engan veginn í samræmi við umhverfissjónarmið og almennt siðferði. Á síðustu 18 árum hefur höfuðborgarsvæðið breyst mikið og áherslur í umferðarmenningu hafa breyst verulega. Því er ljóst að umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega umhverfismatinu er úrelt og þarfnast ítarlegrar endurskoðunar. Það er vert að hafa í huga að verkfræðistofurnar sem vinna þessar skýrslur fyrir Vegagerðina koma ávallt með niðurstöður sem samræmast væntingum Vegagerðarinnar, enda ólíklegt að þessar verkfræðistofur fari að bíta höndina sem fæðir þær. Það er alveg ljóst að Vegagerðin og þessar verkfræðistofur virðast aldrei setja umhverfi og lífríki í fyrsta sætið. Svo snertir þessi vegur einnig Elliðaárdalinn og gengið er þar einnig á útivistarsvæði og öllu þessu er vísað til verkefnisstjóra.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Nýji Skerjafjörður,  breyting á deiliskipulagi:

Lagt er fram stórt skjal sem ber nafnið Nýi Skerjafjörður og að breytt deiliskipulag fari í auglýsingu. Útilokað er að ná utan um allar þessar upplýsingar á stuttum tíma þótt umræðan sé nú ekki ný af nálinni. Málið hefur verð mjög umdeilt, og hreinlega mörgu mótmælt af íbúum svæðisins. Flestar þessar breytingar eru óafturkræfar. Það þarf sannarlega að byggja af krafti enda mikill húsnæðisskortur er í Reykjavík. Um það eru allir sammála enda barist um hverja íbúð. Í Reykjavík hefur ekki verið byggt nóg. Skortur hefur verið á húsnæði af öllum gerðum. Þétta á byggð þarna svo um munar. Hængur á þessu deiliskipulagi er að verið er að hanna hverfi þar sem sífellt þarf að taka mið af flugvelli sem á að fara. Af hverju má ekki bíða eftir því að það gerist og þá mun hönnun e.t.v. verða allt öðruvísi? Þá verður hægt að hanna og byggja af myndarskap. Nú þarf t.d. að ,,HANNA” nýja strönd með fram landfyllingu. Hönnuð strönd er líklega miklu betri en náttúruleg strönd að mati núverandi skipulagsyfirvalda. Þessi framkvæmd eru sögð ein mestu skipulagsmistök sem hafa verið gerð á síðustu árum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Fornhagi 1, nýtt deiliskipulag:

Því er fagnað að lögð er fram tillaga skipulagsyfirvalda/umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir Hagaskóla að Fornhaga 1. Í tillögunni felst að gerðir eru byggingarreitir fyrir uppsetningu tímabundna færanlegra eininga fyrir kennslu og starfsmannahald á lóð. Árum saman hafa skólayfirvöld kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprunginn og mygla og raki víða í eldri byggingu. Hagaskóli var eins og Fossvogsskóli hafa verið í langan tíma heilsuspillandi húsnæði en yfirvöld vildu ekki ljá málinu eyra. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin stór og komið er að skuldadögum. Hvað varðar Hagaskóla er óhætt segja að þar hefur staðan verið sérlega alvarleg. Loksins er eitthvað að gerast. Börn og starfsfólk hafa iðulega verið veik og jafnvel alvarlega veik.

 

Bókun Flokks fólksins við yfirliti yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið október – desember 2021:

Árið 2021 fóru rúmlega 11 milljónir í ferðakostnað hjá Umhverfis- og skipulagssviði þrátt fyrir að Covid væri enn í gangi. Því er velt upp hvort þessar ferðir voru allar bráðnauðsynlegar og hvort fjarfundir hefðu ekki verið jafn gagnlegir. Í það minnst hefðu þeir ekkert kostað og sparað nokkur kolefnisspor. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að nú þegar Covid verður víkjandi fari allt í sama horf og fyrir Covid. Gríðarlegum fjármunum verði eytt í ferðalög m.a. embættismanna um allan heim með tilheyrandi fjölda af kolefnissporum

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness, um fjölgun stöðvunarskýla Strætó á Kjalarnesi og betri samrýmingu á strætóleiðum:

Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um fjölgun strætóskýla á Kjalarnesi til að auðvelda samgöngur til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur auk þess sem nauðsynlegt er að samræma ferðir leiðar 29 við aðrar leiðir Strætó bs. Þetta er brýnt mál. Eins og staðan er núna eiga börn og unglingar í Klébergsskóla erfitt með að taka strætó til Mosfellsbæjar og Reykjavíkur þar sem mörg þeirra stunda íþróttaæfingar og annað frístundastarf. Rök ungmennaráðs fulltrúans eru rök. Þrátt fyrir að Kjósin sjálf tilheyri ekki Reykjavíkurborg þá tilheyrir sveitin í Hvalfirði samt sem áður borginni og þarf gott aðgengi að samgöngum til Reykjavíkur sem auka möguleika ungmenna töluvert á að iðka íþróttir og annað félagslíf. Eins og segir í greinargerð þá tilheyra ungmenni á Kjalarnesi Reykjavík en fá í raun og veru ekki þau strætó fríðindi sem önnur ungmenni í Reykjavík fá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sorpflokkun. Mál nr. US220055

Sveitarfélög eru ekki komin langt í að endurvinna gler þó að það eigi að fara að safna því núna. Samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart ESB eigum við að endurvinna gler en það er ekki gert enn. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvenær endurvinnsla glers hefjist í Reykjavík?

Einnig er spurt um hvaða aðgerðir á að grípa til, til þess að flokka plast í flokka til þess að sem mest af því verður endurunnið?

Verður það gert hér á landi eða sent til úrvinnslu erlendis þar sem lögð er áhersla á að endurvinna sem mest.

Eða verður þessu brennt?

Núverandi hugmyndir eru um hátæknibrennslustöð, en slík stöð endurvinnur ekki, hún brennir oft endurvinnanlegu efni. Hátæknibrennslustöð er því ekkert annað en milliskref en ekki endanlegt ferli.

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um yfirlit fyrirspurna og tillaga á kjörtímabilinu. Mál nr. US220075

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir yfirlit yfir öll mál, tillögur og fyrirspurnir sem Flokkur fólksins hefur lagt fram í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu. Gott er að fá upplýsingar um hvað ef þessum málum eru afgreidd og þá hvenær og hvað mörg mála eru enn í ferli eða frestun.