Borgarráð 6. janúar 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. desember 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga:

Arnarnesvegurinn er afleit framkvæmd og eingöngu gerð til að þjónusta Kópavogsbúa. Eina eðlilega framkvæmdin á þessu svæði er að tvöfalda Breiðholtsbrautina frá Jafnaseli að Rauðavatni. Athyglisvert er að sjá að nú á nýr trjágróður að falla að þeirri plöntusamsetningu sem er fyrir í Elliðaárdalnum og val á tegundum skal unnið í samráði við deild náttúru og garða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Það stefnir í, samkvæmt fyrri reynslu, að þessi framkvæmd verði sögð auka líffræðilega fjölbreytni. Svo er enn bent á að ekki á að gera nýtt umhverfismat. Útskýrt með því að framkvæmdir við Arnarnesveg hafi í raun byrjað árið 2004 og ákvæði 12. gr. laganna eigi því ekki við í þessu máli og „þar með þurfi ekki að gera nýtt umhverfismat vegna framkvæmdarinnar“. Það er mjög sérkennilegt. Sérstaklega þar sem núverandi borgarstjórn vísar sífellt í mikilvægi verndunar umhverfis og grænna áherslna. Eiga svona glufur í lögunum virkilega að ráða skipulagsstefnu borgarinnar? Umferðarspáin um Arnarnesveg virðist einnig stórlega vanmetin. Núverandi umferð um Vatnsendaveg er 18.000 bifreiðar, en eingöngu er gert ráð fyrir 13.500 bifreiðum um Arnarnesveg sem verður fjögurra akreina stofnbraut. Getur verið að þetta sé viljandi gert til að komast hjá nýju umhverfismati?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. desember 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Elliðaárdals:

Lögð er fram tillaga meirihlutans að breytingu á deiliskipulagi sem er tilkomin vegna fyrirhugaðra gatnamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar sem verða utan skipulagssvæðis. Arnarnesvegurinn verður til þess að minnka þarf skipulagssvæði Elliðaárdalsins. Með öðrum orðum: Það er verið að ganga á Elliðaárdalinn. Arnarnesvegurinn skiptir ekki aðeins máli fyrir þróunarmöguleika fyrirhugaðs Vetrargarðs, umhverfi og þróunarmöguleika Vatnsendahvarfs heldur líka á efri hluta Elliðaárdals. Samt sem áður má ekki gera nýtt umhverfismat. Hverjir eru hagsmunir borgarinnar?

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 4. janúar 2022, að breytingu á gjaldskrá fyrir gjöld á bílastæðum í Reykjavíkurborg:

Skipulagsyfirvöld leggja til að stækka gjaldsvæði 1 sem er dýrasta gjaldskyldusvæðið. Verið er að þrengja sífellt meira að þeim sem þurfa að nota bíl til að fara ferða sinna og eiginlega þykir fulltrúa Flokks fólksins nóg komið af álögum á borgarbúa sem í þessu tilfelli koma verst niður á þeim sem búa fjarri miðbænum og langar að heimsækja miðbæinn endrum og sinnum. Tekið er undir að gott er að koma bílum sem mest af götum en fram kemur í gögnum að bílastæðahúsin eru lítið nýtt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á að margt má gera til að auka nýtingu bílastæðahúsa t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu, aðlaðandi umhverfi og lækka gjaldið. Eldra fólk forðast bílastæðahús. Óttast er að með þessari aðgerð fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólk sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 4. janúar 2022, að breytingu á gjaldskrá fyrir gjöld í bílahúsum Reykjavíkurborgar:

 

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bent á að margt má gera til að auka nýtingu bílastæðahúsa t.d. með því að hafa þar meiri þjónustu, aðlaðandi umhverfi og lækka gjaldið eða hafa gjaldið það lágt að fólk sæki í bílastæðahúsin í stað þess að leggja á götum. Eldra fólk forðast bílastæðahús. Óttast er að með því að hækka gjöldin fækki enn frekar þeim sem leggja leið sína í miðbæinn, fólk sem býr í úthverfum og velur frekar að sækja þjónustu þar sem aðgengi er betra og frí bílastæði.

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðar stjórnar Strætó bs. frá 3. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir hækkun á verði ungmennakorta. Í þessu sambandi minnir fulltrúi Flokks fólksins á nýlegt bréf umboðsmanns barna til Strætó bs., og fulltrúa sveitarfélaganna í stjórn Strætó, um hækkanir á árskortum fyrir ungmenni.