Skipulags- og samgönguráð 24. mars 2021

Bókun Flokks fólksins við Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024:

Þróunaráætlun sýnir að þétta á byggð gríðarlega og er gengið allt of mikið á græn svæði og fjörur. Erfitt er að spá fyrir um mannfjölda svo rennt er blint í sjóinn með margt. Segir í skýrslunni að lögð skuli áhersla á að bæta sameiginlega stafræna umgjörð fyrir húsnæðisuppbyggingu sveitarfélaga. Er það aðalmálið? Nauðsynlegt er að útskýra svona hugtök fyrir útsvarsgreiðendum áður en milljörðum er streymt í alls konar stafræn verkefni. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að þróast þannig að hún geti mætt þörfum og væntingum allra. Nóg þarf að vera af hagkvæmu húsnæði, bæði litlu og stóru. Minnstu íbúðirnar eru hins vegar hlutfallslega dýrari. Minna húsnæði ætti að vera ódýrara en stærra húsnæði öllu jafna. Skortur er á húsnæði með rými í kring. Fjölskyldur eru misstórar og sumir vilja nýta rými utan húss til ýmissa hluta, ræktunar eða vinnutengt. Ef horft er til gatnamannvirkja þá eru mestu áhyggjurnar af fyrirhuguðum þriðja áfanga Arnarnesvegar. Ákveðið hefur verið að byggja framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati þrátt fyrir að forsendur hafa breyst verulega frá því mati, ásamt breytingum á landnotkun á áhrifasvæði, og breytinga á löggjöf um umhverfismál og á alþjóðlegum skuldbindingum.

Bókun Flokks fólksins við Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag:

Hér er verið að fara gegn áliti fjölda manna enda má segja að níðst sé á náttúrunni. T.d. er fjaran í Skerjafirði ein af örfáum ósnertu fjörum borgarinnar. Tilslakanir ná skammt. Fermetrum í byggingum hefur jú verið fækkað smávegi og örlítið dregið úr landfyllingu. Engu að síður gætu t.d. framkvæmdir vegna undirbúnings leitt til óafturkræfanlegra mistaka á náttúru og svæðinu öllu svo ekki sé minnst á kostnað. Skemmdar verða náttúrulegar fjörur. Bæta á fyllingu með fram flugvellinum, setja á landfyllingarkant. Fram kemur að endurbyggja á náttúrulega strönd sem verður þá ekki náttúruleg lengur? Hér er valin steypa á kostnað náttúru eins skipulagsyfirvöld hafa gert víða í Reykjavík. Líkur hafa aukist á að Hvassahraun verði ekki kostur fyrir flugvöllinn þar sem Hvassahraun stendur á hættusvæði nú þegar gos er hafið í Geldingadal. Í Skerjafirði er mengun í jörðu og hávaðamengun af flugvélum sem hefur áhrif á svæðið sem íbúðasvæði. Hvoru tveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Þess utan mun viðbót, um 1100 íbúðir væntanlega leiða til mikillar umferðir sem ekki er séð hvernig verður leyst. Kemur ekki til greina að hætta við að byggja í Skerjafirði og bíða eftir því að flugvöllurinn fari ef hann þá fer einhvern tíman?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Teigahverfi, breyting á deiliskipulagi vegna Sigtúns 42:

Breyta á hluta af malarsvæði við Sigtún 42 í grenndarstöð. Þetta hefur mætt andstöðu sumra og ekki gengið að sameinast um staðsetningu. Hér er dæmi um að erfitt er að breyta grónu umhverfi jafnvel þótt íbúar vilji breytingar og aukna þjónustu. Í þessu tilfelli á að setja upp gáma fyrir flokkað sorp. Meginatriðið hlýtur að vera að hægt sé að koma svona gámum í svæði sem er afmarkað af léttum skjólgirðingum eða trjágróðri. Svo þarf að huga að sjónrænum áhrifum slíkra gáma sjáist í þá á annað borð. Sumir er með auglýsingar álímdar sem getur varla talist prýði. Mikilvægt er að vinna mál sem þetta þétt með íbúum. Sé íbúum boðið strax að borðinu eru meiri líkur á að málið vinnist í sátt. Víða í borginni eru grenndargámar mikil óprýði og sjómengun í umhverfinu. Vert væri að gera skurk í að reyna að finna leiðir til að koma þeim meira í var eða í það minnsta fegra ásýnd þeirra.


Bókun Flokks fólksins við Arnarnesvegur, skipulagslýsing

Skýrsla um lokaáfanga Arnarnesvegar er miklum annmörkum háð. Hér er ekki fjallað um valkosti heldur er einum kosti stillt upp. Annar augljós kostur er að leggja veginn í Tónahvarf og tvöfalda veg þaðan að Breiðholtsbraut og gera stórt hringtorg á mótum þeirra vega. Hvers vegna eru mismunandi kostir ekki bornir saman?

Á síðustu 18 árum hefur margt breyst. Umferðarlíkanið sem stuðst var við í upphaflega matinu er úrelt. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu og hefur Vegagerðin þar með ekki heimild til frekari stórframkvæmda. Vegagerðin ætlar samt að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Endurmeta þarf áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar, hljóðvistar og fleiri þátta, í návígi við fjölmenn íbúðahverfi, Salaskóla og þessa vinsæla útivistarsvæðis sem Vatnsendahvarfið er. Ný hverfi í nánd við veginn hafa verið byggð eftir að umhverfismat var gert og gert er ráð fyrir Vetrargarði í Vatnsendahvarfinu. Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur brugðist í þessu máli að berjast ekki fyrir að fá nýtt umhverfismat og ætla að bjóða börnum upp á að leika sér í Vetrargarði og á skíðum í hraðbrautar-mengunarmekki.

 

Bókun Flokks fólksins við Lækkun hámarkshraða á Breiðholtsbraut, tillaga Vegagerðarinnar, umsögn:

Lagt er til á fundi Skipulags- og samgönguráðs að áeggjan Vegagerðarinnar að lækka eigi hámarkshraða á Breiðholtsbraut. Það er sérstakt hvað skipulagsyfirvöld borgarinnar samþykkja allt frá Vegagerðinni gagnrýnislaust. Þessi tillaga er tilgangslaus og hvorki bætir umferðaröryggi né umhverfisástand. Núverandi umferðarhraði er að hámarki 70 km/klst. Hluta dags er það mikil umferð á Breiðholtsbrautinni að hraðinn er langt undir þeim hraðamörkum. En á öðrum tímum er ekki mikil umferð og engin ástæða til að takmarka hraðann.

 

Bókun Flokks fólksins við umsögn við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um Hafnartorg:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli að beita sér fyrir að gera Hafnartorg meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað? Með skreytingum er vissulega hægt að gera Hafnartorg meira aðlaðandi er erfiðara er að leiðrétta form bygginga sem þegar hafa verið byggðar. Hafnartorg er á vindasömum stað og þar eru byggingar byggðar eins og kassar í stað þess að láta þær mjókka upp sem myndi milda áhrif vinda þannig að ekki koma eins stífir vindstrengir við jörð. Flokkur fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum. Spurningu um að notast við vindgöng sem tilraunatæki til að meta vindáhrif var lögð fram í bókun en er ekki svarað beint í þessu annars ágætu svari. Tölvulíkan og skoðanir veðurfræðinga eru ekki það sama og rannsóknir. Almennt er erfitt að meta hvernig loftstraumar leggjast og sveiflast þótt hægt sé að giska á það með rökrænum hætti. En, af hverju eru loftför prófuð í vindgöngum og af hverju eru hafnarmannvirki prófuð í líkani þótt mikil reynsla sé af því að byggja út í sjó? Skýringin er að við slíkar tilraunir fæst miklu nákvæmari niðurstaða en með útreikningum. Þetta mættu skipulagsyfirvöld íhuga og losna þar með við verulegt vandamál, svo sem vindstrengina við Höfðatorg og Hafnartorg.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um landfyllt svæði í Álfsnesi vegna Björgunar:

Í fréttum þann 1. mars kom fram að til viðbótar lóð þeirri sem fyrirtækið Björgun hefur fengið úthlutað megi fyrirtækið bæta við stóru landfylltu svæði. Fulltrúri Flokks fólksins minnist þess ekki að fyrirhuguð landfylling hafi verið til umræðu á fyrri stigum. Þar var oft rætt um áhrif á fornminjar og fleiri mikilvæg atriði. En nú hefur það komið fram í fréttum að fyrir utan að fá lóð sem er 3,4 hektarar megi fyrirtækið Björgun fá að ,,landfylla“ 4,1 hektara. Þetta er yfir 20% stærra svæði en lóðin er.

Fyrirspurn Flokks fólksins eru eftirfarandi:

Hvenær var þessi ákvörðun tekin?. Var þetta í smáa letrinu?

Við Þerneyjarsund eru nú ósnortnar fjörur. Þerneyjarsund er einnig sögufrægt svæði engu síður en fornminjarnar.

Á Álfsnesi er nú lítil byggð. Fulltrúi Flokks fólksins spyr:

Hvers vegna þarf að eyðileggja fjörur til að búa til athafnasæði?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hyggjast fyrirbyggja það að börn sem eru að leika sér í fyrirhuguðum Vetrargarði í Efra Breiðholti og renna sér í skíðabrekkunni í Jafnaseli andi ekki að sér mengandi útblæstri umferðar af hraðbraut Arnarnesvegar sem leggja á þvert yfir Vatnsendahvarf?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvernig skipulagsyfirvöld Reykjavíkur hyggjast fyrirbyggja það að börn sem eru að leika sér í fyrirhuguðum Vetrargarði í Efra Breiðholti og renna sér í skíðabrekkunni í Jafnaseli andi ekki að sér mengandi útblæstri umferðar af hraðbraut Arnarnesvegar sem leggja á þvert yfir Vatnsendahvarf? Vegurinn mun samkvæmt skipulagi liggja alveg við skíðabrekkuna í Jafnaseli og Vetrargarðinn. Á gráum dögum er fyrirliggjandi að mikil mengun verður á þessu svæði, svæði þar sem börn stunda áreynsluíþróttir á sama tíma og þau anda að sér mengun frá umferð sem er á leið inn og út úr Kópavogi.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn af hverju gildar aðrar reglur í skipualags- og samgönguráði um bókanir en í öðrum ráðum?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að spyrja af hverju gildar aðrar reglur í skipualags- og samgönguráði um bókanir en í öðrum ráðum? Fulltrúa Flokks fólksins hefur verið meina að bóka undir lið 22 Aðalskipulag Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því á framfæri undir þessum lið að ákvörðun Skipulagsstofnunar er að ekki skuli eiga að gera nýtt umhverfismat vegna 3. kafla Arnarnesvegar er háalvarlegt mál. Fyrra umhverfismat er frá 2003. Við blasir að sprengja á fyrir hraðbraut sem skera mun Vatnsendahvarf í tvennt og liggja alveg upp við leiksvæði barna, skíðabrekkuna í Jafnaseli og fyrirhugaðan Vetrargarð.

Rökin eru veik, meira einhverjir spádómar um að breytt áform fælu í sér umfangsminni umferðarmannvirki og minna rask en þau áform sem áður voru uppi og ekki yrði aukið ónæði í Fellahverfi og að engin áhrif yrðu á hljóðvist í Seljahverfi og Kórahverfi. Þetta er rangt. Byggðin og umferð hefur margfaldast frá árinu 2003.

Meirihlutinn, að Viðreisn undanskilinni, tóku undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um nýtt umhverfismat sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Vinir Vatnsendahvarfs hafa sagst munu kæra málið.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Sjómannaskólareitinn er varðar gögn sem íbúar hafa beðið um en ekki fengið

Fram hefur komið í miðlum að leggja átti fram gögn á samráðsfundum varðandi breytingar á Sjómannaskólareitnum en eftir því sem næst er komist hefur það ekki verið gert þrátt fyrir að íbúar hafa sent bréf til borgaryfirvalda og margítrekað að fá þessi gögn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um þessi gögn og hvenær eigi að opinbera þau? Ekki er seinna vænna að öll gögn komi upp á borð nú þegar búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Í þessu máli hafa verið mikil átök og því afar mikilvægt að gegnsæi ríki í málinu á öllum stigum þess.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um merkingar við göngugötur vegna heimildar í laga um að p merktir bílar aki þær

Nú er heimild í lögum að P merktir bílar aki göngugötur og lögum þarf að fylgja. Enn vantar viðeigandi merkingar, skilti til að merkja þessa lagaheimild. Það hefur orðið til þess að fólk á P merktum bílum hefur orðið fyrir aðkasti. Eftir því sem næst er komist stendur ekki til að merkja göturnar í samræmi við lagaheimildina t.d. með því að setja upp skilti eða aðrar merkingar sem gefa til kynna að eigendur P merktra bíla hafi þessa heimild. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig ætla skipulagsyfirvöld að tryggja að hreyfhamlað fólk verði ekki fyrir aðkasti aki þeir göngugötu þegar merkingar eru ekki nákvæmari en raun ber vitni?

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um rafbíla og bílastæðakort, að tekinn verði upp háttur Oslóar um að eigendur rafbíla og hreyfihamlaðir fái frí bílastæðakort

Nú vill meirihlutinn að íbúar í miðbænum fái aðgang að bílastæðum gegn gjaldi, sem getur verið mishátt, og á sérvöldum svæðum í stað þess að íbúar eigi sérbílastæði. Í Osló þurfa eigendur rafbílar, vetnisbíla og fólk með hreyfihömlun ekki að kaupa kort. Í Drammen þarf að skrá rafbíla en ekkert að borga.Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sama fyrirkomulag verði í Reykjavík og er í Osló og Drammen þegar kemur að raf-, vetni og metan bíla. Þessi tillaga ætti að falla skipulags- og samgönguyfirvöldum vel í geð enda hafa þau tekið nánast flest allt upp eftir yfirvöldum í Osló þegar kemur að skipulags- og samgöngumálum í Reykjavík.

Miðbærinn er orðið svæði sem er dýrt að búa á og stefnir í að það verði hverfi fyrir efnameira fólks í framtíðinni. Útgjöld munu sannarlega aukast og dýrt verður einnig að koma sem gestur. Öll viljum við flýta orkuskiptum enda munar um hvern bíl sem ekki mengar. Með því að taka upp þann hátt sem Osló og Drammen hafa gætu fleiri viljað skipta yfir í raf, vetni eða metan bíla sem ekki hafa nú þegar gert það.

Frestað.