Skipulags- og samgönguráð 27. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu á rannsókn á svifryki á höfuðborgarsvæðinu, tilkynning Vegargerðarinnar:

Hér er verið að tala um heilsu fólks. Svifryk er sannarlega vandamál í borginni og vinna þarf markvisst að því minnka það. Bæta má ástandið með ýmsum aðgerðum. Einfalt atriði er að hafa frítt í Strætó á svifryksdögum – gráum dögum- er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur minnkar. Götuþvottur á afmörkuðu svæði hlýtur að vera til bóta svo og þvottur vörubíla sem eru að aka upp úr byggingarstað. Margar aðrar aðferðir eru mun dýrari svo sem að nota harðara steinefni í malbik en nú er gert en einnig þarf að gera það að einhverju marki. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og ferðir út á land þar sem veður eru iðulega válynd um vetrartímann, aðstæður sem krefjast þess nauðsynlegt að búa bíla nagladekkjum enda þótt oft duga góð vetrardekk. Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð þegar kemur að þessum þætti og hvatt sem dæmi borgarana að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að skjóta upp skoteldum.

Bókun Flokks fólksins við kynningu Kirkjusandur, Íslandsbanki, kynning á samkeppnistillögum:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að þetta svæði verði of kuldalegt ef marka má myndir. Byggingar eru kassalaga og er upplifunin svolítið þannig að þarna vanti karakter og sjarma. Ekki hefur verið kannað hvort eða hvernig vindstrengir slái niður að jörð, eins og gerist á Höfðatorgi. Sama má sjá á Hafnartorgi, en þar er óvenju kuldalegt og hráslagalegt. Línur eru af húsaröðum sem fáar kalla á sérstaka athygli. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um hvort og þá hvernig skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli beita sér til að gera það svæði meira aðlaðandi?

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi:

Ekki er auðvelt að átta sig á öllum breytingum sem verða á aðalskipulaginu og útilokað að koma öllum athugasemdum fyrir í stuttri bókun. Landfyllingaráform við Elliðaárósa eru ekki af hinu góða. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Réttast væri að hætta landfyllingum, sem er greinileg allt of freistandi aðgerð þegar eitthvað nýtt á að gera.

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ábendingar um að þétting byggðar leiðir til dýrari íbúða en ella og samræmist ekki vel stefnu um hagkvæmt húsnæði. Vakin er athygli á húsnæðisþörf fólks á aldri yfir 67 ára. Einnig er bent á mikilvægi þess að búa til mun fleiri kjarna slíkrar byggðar, eins og tekist hefur vel til með við Sléttuveg, þar sem íbúðir njóta nálægðar við ”þjónustusel” sem rekin eru af borginni, almennri félagsaðstöðu, með gott aðgengi að útivistarsvæðum. Síðast en ekki síst er tekið undir athugasemdir vegna Arnarnesvegar og gatnamóta fyrirhugaðrar götu við Breiðholtsbraut og bent á hin neikvæðu umhverfisáhrif sem óttast er að gatnamótin munu hafa. Fulltrúi Flokks fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa fært rök fyrir mikilvægi þess að fá nýtt umhverfismat. Matið sem styðja á við er 18 ára og margt hefur breyst á þeim tíma. Sú útfærsla sem er boðuð lokar fyrir framtíðarmöguleika fyrirhugaðs Vetrargarðs.


Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, borgarlína, breyting á aðalskipulagi 
Reykjavíkur vegna borgarlínu milli Ártúnshöfða og Hamraborg:

Í skýrslunni er gert ráð fyrir að helmingur ferða borgarbúa 2050 verði með almenningssamgöngum. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á harða þróun léttra tækja svo sem rafhjóla- rafhlaupahjóla. Allt eins kann að vera eins hagkvæmt að gera gott brauta- og stígakerfi fyrir slík samgöngutæki. Einnig ætti að samtengja slíkt kerfi við borgarlínukerfið og bjóða upp á að lítil einstaklingsfarartæki megi flytja með borgarlínuvögnum. Nú er gert ráð fyrir því að slík farartæki verði geymt á fyrstu stoppistöð, en það gæti hentað mörgum að geta farið frá borgarlínu á öðrum stað en farið var í hana. Svo má velta því fyrir sér hve mikill kostnaðarauki felst í því að gera hágæðakerfi, eins og sagt er í skýrslunni, miðað við það að vera bara með gæðakerfi? Þar að auki má velta því upp hvort skýrsluhöfundar Verkís viti hvað sé hágæðakerfi og hvað sé kerfi sem er nægjanlega gott fyrir Reykjavík. Við erum varla að byggja upp kerfi sem er t.d. sambærilegt við ,,metro” kerfi í Kaupmannahöfn? Borgarlína er b.s verkefni með öllum göllum þess og Reykjavík þarf að gæta sín í slíku kerfi eins og oft hefur komið fram hjá Flokki fólksins, ástæðan, hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð. Sporin hræða.

 

Bókun Flokks fólksins við Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, kæra 3/2021:

Nú hefur verið lögð fram stjórnsýslukæra til úrskurðarnefndar auðlindis- og umhverfismála. Kærð er samþykkt og auglýsing nýs deiliskipulags fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Ítrekaðar kvartanir íbúa er komið í farveg. Málið hefur ítrekað komið fyrir skipulags- og samgönguráðs og hefur fulltrúi Flokks fólksins bókað um m.a. að lítið tillit hafi verið tekið til sjónarmiða íbúa. Um hefur verið að ræða málamyndasamráðsferli. Forsaga málsins ber þess vott. Minnt er á að eitt meginmarkmið skipulagslaga frá 2010 var að tryggja samráð við íbúa og hagsmunaaðila þeirra að gerð skipulagsáætlana og að tekið sé tillit til sjónarmiða þeirra. Nú er málið jafnvel á byrjunarreit.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að heildarendurskipulagi Mjóddarinnar er tímabær ekki síst með tilliti til umtalsverðrar uppbyggingar í Mjódd og á nálægum svæðum og væntanlegrar tilkomu Borgarlínu.

Umsögn frá skipulagsstjóra við tillögu Sjálfstæðisflokks um heildarskipulag Mjóddar gefur ágætt yfirlit yfir það sem gera mætti en segir samt ekki mikið. Flokkur fólksins tekur undir að mikilvægt er að fara í heildarendurskoðun skipulags í Mjódd og þá sérstaklega svæðis sem afmarkast af Breiðholtsbraut, Álfabakka, við biðstöð Strætó, og Stekkjarbakka. Þarna er starfsemi fjölbreytt: göngugata/ verslunarmiðstöð með ýmissi þjónustu, matsölustöðum, heilsugæslu og læknastofum, kirkja, banki, gróðrarstöð, bílasala, bensínstöðvar og kvikmyndahús. Stór bílastæði eru áberandi og þeim þarf að breyta til batnaðar t.d. með skýrum að- og fráreinum.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í fyrrasumar um að göngugötusvæðið yrði endurlífgað og endurgert til að laða að fólk og að svæðið umhverfis verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Lagt var einnig til að snyrta grænu svæðin í kringum verslunarmiðstöðina. Tillögurnar voru felldar.

Sjálfsagt er að horfa á alla hluta Mjóddar sem eina heild en ekki er ástæða til að breyta svæðinu austan við Mjóddina sem er hluti neðra Breiðholts, 1 – 2 hæða raðhús og einbýlishús.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vetrargarð við Jafnasel, umsögn:

Enginn skilningur er hjá Vegagerðinni á því að Arnarnesvegur í Vatnsendahvarfi geti skaðað umhverfið og ekki heldur fyrirhugaðan Vetrargarð og sérstakt að telja enga hætta á svifryksmengun við svona stór gatnamót og svona nálægt leiksvæði barna. Einnig er ekkert talað um vankantana á því að bæta við enn einum ljósastýrðum gatnamótum á Breiðholtsbraut. Hvers vegna ekki að leysa umferðarvanda við Vatnsendahvarfsveg t.d. með því að setja hringtorg þar? Sú aðgerð væri margfalt ódýrari en þessi framkvæmd og myndi leysa mikið af þeim vandamálum sem verið er að nota sem afsökun og ástæðu fyrir þessum vegi. Vitnað er í að framkvæmdin hafi verið áratugi á skipulagi og því engin þörf til að endurskoða neitt. Það eru engin rök, enda hafa áherslur í samgöngumátum og umhverfisvernd breyst á síðustu áratugum og mikil þörf er á að endurskoða fyrri áætlanir með heildarmyndina í huga. Að halda því fram að framvæmdin muni hafa lítil áhrif á vistkerfi svæðisins og byggja það álit á 18 ára gömlu umhverfismati eru léleg vinnubrögð og sýnir áhugaleysi yfirvalda á að vernda græn svæði á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er skipulagsklúður og algjör vanvirðing á tilgangi umhverfismats framkvæmda. Hvar er hið margrómaða íbúalýðræði og hinar grænu áherslur? Ætla skipulagsyfirvöld í borginni bara að kvitta upp á þetta?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins, um að innri endurskoðun rannsaki eftirlitsaðila vegna brunans á Bræðraborgarstíg:

Í umsögn Innri endurskoðanda við fyrirspurn Sjálfstæðisflokks um að Innri endurskoðun rannsaki eftirlitsaðila vegna bruna á Bræðraborgarstíg segir að rétt sé að fyrsta skrefið sé að borgarráð fela skipulags- og samgönguráði að kalla eftir því að eftirlitsaðilar upplýstu með hvaða hætti þeir greini framgang þessa máls gagnvart sínum skyldum og með hvaða hætti ætlað er að vinna að úrbótum. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til í kjölfar þessa hörmulega atburðar að Reykjavíkurborg færi í átak gegn hættulegu húsnæði.
Tillögunni var hafnað á þeim grunni að eftirlitsaðilar skorti heimildir til að ganga eftir málum. Málið hefur verið í rannsókn af ýmsum aðilum og nýlega voru kynntar niðurstöðu vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Nú ætti Reykjavíkurborg/skipulagsyfirvöld ekkert að vera að vanbúnaði að taka nauðsynleg skref til að fá þær valdheimildir sem þarf til, til að grípa inn ef grunur leikur á um að hollustu og öryggi sé ábótavant og ef grunur er um að brunavörnum séu ábótavant. Byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um aðstæður þarf að fá heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu Flokks um að sinna snjómokstri enn betur, salta gangstéttir og hafa saltkassa aðgengilega:

Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Flokkur fólksins lagði til að skipulags- og umhverfissvið standi sig betur í snjómokstri og söltun gangstétta og stíga og að saltkassar verði aðgengilegir við göngustíga í borginni. Tillögunni er vísað frá á fundi skipulags- og samgönguráðs 27.1. 2021. Borist hafa kvartanir yfir hversu illa er hreinsað t.d. í kringum skóla í Breiðholti og víðar á göngustígum í Breiðholti sem og ýmsum öðrum hverfum. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring. Flokkur fólksins telur að göngu- hjólreiðastígum sé ekki nægilega vel sinnt hvorki almennt né hvað við kemur snjómokstri og söltun. Ef þeir eiga að vera alvöru hluti af samgöngukerfi borgarinnar þarf að sinna þeim sem slíkum svo sem með reglulegu viðhaldi og vetrarþjónustu. Grundvallaratriði er auðvitað að þetta verði nothæfir stígar sem samgönguæð og þá krefst það þess að lega þeirra sé þannig að hvorki séu á þeim krappar beygjur eða tröppur.

 

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að innleiða bifreiðastæðaklukkur í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla:

Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúi Flokks fólksins þykir leitt að tillaga um bifreiðastæðaklukkur við Landspítala skuli felld. Fulltrúi Flokks fólksins hafði samband við Landspítala vegna þessa máls og ræddi þann kost sem felst í að nota bifreiðaklukku t.d. fyrir þá sem finnst stöðumælar og bílastæðaöpp flókin. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsvöld að eiga slíkt samtal við þá sem annast þessi mál á Landspítala. Það samtal gæti leitt til góðra hluta fyrir fjölmarga í borginni sem þurfa að leita þjónustu á Landspítala. Það er ótækt að eldri borgarar treysti sér sumir hverjir ekki til að aka sjálfir á Landspítala af kvíða við að glíma við stöðumæla eða bílastæðaöpp. Þetta vita ráðamenn á Landspítala. Góð borgarstjórn á að huga að öllum borgarbúum og reyna að mæta þörfum þeirra. Önnur leið er fær, leið sem fulltrúi Flokks fólksins hefur oft nefnt áður og komið með tillögur. Það er notkun bifreiðastæðaklukku í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eru víða notaðar í öðrum sveitarfélögum. Bifreiðaklukka gæti einnig komið að gagni í miðbænum og í kringum háskóla eins og Flokkur fólksins hefur áður nefnt. Framrúðuskífa hentar vel fyrir borgir af þessari stærðargráðu. Bifreiðaklukkur henta einnig vel þar sem fólk þarf að skjótast inn í 1-2 tíma.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna sameiningar grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um hver er staðan á þeim framkvæmdum sem lofað var í framhaldi af lokun Korpuskóla sem áttu að auka öryggi gangandi vegfaranda og nemenda sem þurfa að sækja skóla utan hverfisins? Gangbrautir eru enn óupplýstar og umferðarhraði er enn of mikill. Eins vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja um hvort það sé ekki óheimilt að nota húsnæði í annað en því var ætlað nema til komi breyting á aðalskipulagi? Ef húsnæði er skipulagt sem skólahúsnæði að þá sé óheimilt að vera með aðra starfsemi í húsinu en skólastarf? Af sama skapi ef húsnæði er skipulagt sem verslunarhúsnæði þá má ekki nota það sem íbúðir nema til komi breyting á skipulagi. Óskað er staðfestingar á þetta sé rétt skilið hjá fulltrúanum.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Hafnartorg:

Hafnartorgið er í hjarta bæjarins. Nú eru þar miklar byggingar og er svæðið kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur á götum við Hafnartorgi hefur Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra um borgina fái að koma fram. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað? Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum. Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp ( t.d Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tilögu að aðkomuleið að Sorpu í Jafnaseli verði lýst. Sorpa í Jafnaseli er grenndarstöð fyrir íbúa í Breiðholti:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að aðkomuleið að Sorpu í Jafnaseli verði lýst. Sorpa í Jafnaseli er grenndarstöð fyrir íbúa í Breiðholti. Aðkomuleiðin er án lýsingar. Þar er svartamyrkur þegar dagsbirtu nýtur ekki. Opnunartími Sorpu er að hluta til þegar dagsbirtu nýtur ekki.

Frestað.