Skipulags- og samgönguráð 26. maí 2021

Bókun sem formaður skipulags- og samgönguráðs neitaði að taka inn í fundargerð og varðar Dunhaga 18-20

Málefni fjölbýlishússins að Dunhaga 18-20 á sér langan aðdraganda. Nú hefur verið fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. Málið er sannarlega komið á byrjunarreit. Skipulagsyfirvöld fengu margar viðvaranir ekki síst frá íbúum en ekki var hlustað. Þess í stað var haldið áfram og nú öllum þessum mánuðum síðar hafa tapast margar vinnustundir. Og þetta allt þrátt fyrir fögur loforð um samráð. Til að gera málið hálfu verra, stóð til að fækka stæðum hreyfihamlaðra. Gert var ráð fyrir tveimur stæðum fyrir hreyfihamlaða en ekki þrem eins og reglur gera ráð fyrir. Í úrskurðinum segir að borgarráð hafi ekki mátt samþykkja fækkun bílastæða fyrir fatlaða. Segir „ í byggingarreglugerð er gerð krafa um að lágmarki þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fjöldi íbúða í íbúðarhúsnæði, öðrum en sérbýlishúsum, er 21. Að þessu leyti uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki lágmarkskröfur um fjölda bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða samkvæmt nefndu ákvæði byggingarreglugerðar.
Skipulagsyfirvöld verða að fylgja lögum, eins og aðrir.
Engin er að segja að ekki þarf að gera eitthvað á þessum reit enda hefur Dunhagi 18-20 mátt muna sinn fífil fegri en nú virðist enn mega bíða þess að lappað verði upp á húsið.

 

Bókun Flokks fólksins við Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, við tillögu meirihlutans

Þetta er metnaðarfull áætlun. Markmiðið er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá megin stofnleiðum borgarinnar. Tekið er undir mikilvægi þess að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana. Forvitnilegt væri að fá flokkun á hjólastígum eftir öryggi þeirra og „gæðum“. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Rýmið er oftast nægilega mikið og hægt er að búa til aflíðandi beygjur og minnka brekkur

Tilefni er til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna fjölgunar á minni vélknúnum farartækjum og hefur slysum fjölgað í kjölfarið. Einnig má nefna að gjarnan gengur, hleypur og hjólar fólk á öllum aldri með tónlist í eyrunum og heyrir því ekki eins vel þegar einhver nálgast það. Úr geta því orðið árekstrar. Fjarlæga þarf jafnframt járnslár þar sem þær eru enda hættulegar hjólreiðafólki. Ef stígar eiga að verða hluti af samgöngukerfi borgarinnar þarf að vera eins lítið af brekkum og hægt er en öryggi er vissulega aðalatriðið.

Fulltrúi Flokks fólksins tekur jafnframt undir bókun skipulags- og samgönguráðs í málinu.

Bókun Flokks fólksins við Gufunes, samgöngutengingar, skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag, kynning á athugasemdum og ábendingum:

Kynntar eru athugasemdir og ábendingar vegna Gufunes, samgöngutengingar, skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag. Fram kemur að af ýmsu er að hyggja s.s. góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Fulltrúi Flokks fólksins vill segja í þessu sambandi að hafa þarf í huga fyrirhugaða legu Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Nákvæm lega hennar hefur ekki verið ákveðin enda þótt búið sé að ákveða vegstæði í grófum dráttum. Það er nauðsynlegt að ákvarða fyrst nákvæma legu Sundabrautar áður en farið er í að ákveða fyrirkomulag stíga og gatna. Það hlýtur að auðvelda skipulagsvinnu við stíga og götur ef búið er að ákveða nákvæma legu brautarinnar, annars er um hugsanlegan tvíverknað að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hinkrað verði með þessa vinnu til að tryggja að ekki sé verið að sóa fjármagni, út í loftið. Að öðru leyti vonar fulltrúi Flokks fólksins að það samráð sem skipulagsyfirvöld tala um sé viðhaft sé alvöru samráð en ekki málamyndasamráð, til að geta „sagt“ að samráð hafi verið haft.

Bókun Flokks fólksins við Hólmsheiði 2. áfangi, deiliskipulag athafnasvæðis, kynning á athugasemdum og ábendingum:

Nokkrir hnökrar eru á undirbúningnum að Hólmsheiði verði byggð. Eðlilegt er að hafa samráð við þá sem þegar eru með starfsemi á svæðinu. Má nefna að ekki eru meðal umsagnaraðila Fjáreigendafélag Reykjavíkur, sem hefur verið með mikla starfsemi í Fjárborg í Hólmsheiði síðan haustið 1970 , skv. samningi við Reykjavíkurborg, Hestamannafélagið Fákur sem hefur verið með starfsemi í Almannadal, nokkru vestar, þó aðeins síðan um aldamót en er hins vegar umsagnaraðili. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ábendingar Ólafar Dýrmundssonar en hann segir m.a. að „Hvergi er minnst á fjárhúsabyggð, aðeins hesthúsabyggð. Staðan er þannig að á 5 ha. landi Fjárborgar er sauðfé í um 20% húsanna. Þetta þarf að leiðrétta. Fjárborg er einkum hesthúsabyggð nú á dögum en jafnframt fjárhúsabyggð, og þar eru einnig hús sem hvorki hýsa fé né hross. Hesthúsa- og fjárhúsabyggðin í Fjárborg er í vesturjaðri Hólmsheiðar, ekki í Almannadal. Neðan hans tekur við Grafarheiði. Þetta er mjög skýrt í örnefna- og fornminjaskrám fyrir Austurheiðar og ætti að leiðréttast í samræmi við þær (sjá bls. 2 og 3 í Skipulags- og matslýsingu). Þarna gætir vanþekkingar, að starfsmenn og aðrir sem koma að málum þekkja ekki nægilega til í Hólmsheiði og mun það vonandi ekki vera endurtekið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokks að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni í Vesturbænum við Ánanaust eða Eiðisgranda:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar og styður þessa tillögu um að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni i Vesturbæ við Ánanaust enda hefur fulltrúi Flokks fólksins marg oft bent á að náttúrulegar fjörur eru gott útivistarsvæði, en því miður er stöðugt gengið á þær. Þar sem möguleiki er á að nýta þær til útivistar á aðgengi að vera gott. Þannig er það í þessu tilfelli. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni eins og kemur fram í tillögunni. Bæta þarf aðgengi til að fólk geti notið þessa fallega útivistastaðar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um merkingar við göngugötur, umsögn

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að nú sé komin niðurstaða í „merkingar við göngugötur“. Umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra og handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða er heimil á göngugötum og er sú heimild komin til að vera. Reykjavíkurborg mun ekki fá því breytt og þarf að bregðast við með því að merkja göturnar rækilega.

Vísað er í nýsamþykktar breytingar á 10. gr. umferðarlaga en þar segir að „almenna heimild skal gefa til kynna með umferðarmerki sem kallar á að gert verði sérstakt skilti“. Fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta svo að hanna þurfi sérstakt skilti í þessum tilgangi. Þetta er mikilvægt því dæmi er um að fólk á P merktum bílum sem ekur göngugötu til að komast á áfangastað hafi orðið fyrir aðkasti. Nokkuð langt er síðan fréttist af fyrsta tilfellinu og hafa fatlaðir og hreyfihamlaðir mátt búa við ákveðinn kvíða í þessu sambandi. Í svari má draga þá ályktun að skipulagsyfirvöld ætli að gera algert lágmark þegar kemur að merkingum. Segir í umsögn að kynna eigi reglur sem gilda. Fulltrúi Flokks fólksins telur að kynning ein og sér dugi ekki til. Beina þarf merkjum (sérstöku skilti) að akandi umferð svo reglurnar séu alveg skýrar.

Bókun Flokks fólksins við Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um fyrirhugaðan Vetrargarð, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig Reykjavíkur hyggst fyrirbyggja að börn sem eru að leika sér í fyrirhuguðum Vetrargarði í Efra Breiðholti andi ekki að sér mengandi útblæstri umferðar af hraðbraut Arnarnesvegar sem leggja á þvert yfir Vatnsendahvarf?

Segir í umsögn að í „umferðarlögum er jafnframt að finna heimild fyrir sveitarfélög og Vegagerðina til að takmarka umferð vélknúinna ökutækja um stundarsakir vegna mengunar, sem kann að vera beitt ef mengun í lofti fer yfir heilsuverndarmörk.“

Fulltrúi Flokks fólksins telur hér komið tilefni til að fá nýtt umhverfismat. Það er klént að þurfa að loka væntanlegum Vetrargarði í tíma og ótíma vegna útblásturs frá hraðbraut. Stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu mælast iðulega yfir lögbundin heilsuverndarmörk svifryks. Á gráum dögum vilja sérfræðingar í loftmengun að börn haldi sig fjarri stofnbrautum og að allir haldi sig frá líkamlegri áreynslu við stofnbrautir. Reykjavíkurborg er með stórar áætlanir fyrir Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli. Varla getur það talist ásættanlegt að leggja allt að 4 akreina stofnbraut, með tvöföldu hringtorgi, alveg upp við leik- og útivistarsvæði barna? Mikil hætta er á því að svifryksmengun fari yfir hættumörk í Vetrargarðinum á gráum dögum, sem myndi breyta Vetrargarðinum í ónothæft hættusvæði og ógn við lýðheilsu barna og fullorðinna.

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hljóðvist Mál nr. US210130

Hversu margir hafa sótt um og hversu margir hafa fengið styrk til glerskipta í eigin húsnæði til að bæta hljóðvist á ári hverju frá árinu 2014?

Hversu mikið hefur verið greitt í styrki til glerskipta á ári hverju frá árinu 2014?

Hvernig dreifast umsóknir og styrkveitingar vegna glerskipta á götur?

Hver er hæsta fjárhæð vegna styrks sem hefur verið veittur vegna glerskipta og hvert er meðaltal fjárhæða styrkja?

Hver er kostnaður Reykjavíkur á ári hverju frá árinu 2014 við að meta hvort umsækjendur uppfylla kröfur til styrkveitingar og við að meta hljóðstyrk og veita ráðgjöf vegna hljóðvistar?

Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að sami einstaklingur hljóti fjölda styrkja vegna þess að viðkomandi á fleiri en eina íbúð?

Er skilyrði að einstaklingur búi í því húsi þar sem sótt er um styrk?

Er eitthvað horft til efnahagsstöðu umsækjanda við mat á styrkhæfni hans?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um nagladekkjatalningu, af hverju Efla er ráðin til að halda utan um talningu:

Mál nr. US210135

Skipulagsyfirvöld fá verkfræðistofuna Eflu til að halda utan um nagladekkjatalningu. Efla fær síðan ungt fólk/námsmenn til að telja hvað margir aka á nagladekkjum.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um kostnað borgarinnar við að ráða verkfræði- og arkitektastofuna Eflu til að halda utan um þetta verk?

Óskað er upplýsingar um kostnað fyrir einstakt skipti og hver kostnaðurinn hefur verið frá upphafi þ.e. frá aldaldamótum þegar talning hófst. Óskað er sundurliðunar á kostnaði og að með svari fylgi afrit af reikningi frá Eflu.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, fjármálastjóra.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skipulagsmál í Úlfarsárdal

Mál nr. US210145:

Nú þegar það liggur fyrir að búið er að úthluta öllum lóðum í Úlfarsárdal óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar hvort það sé komin endanleg mynd á hverfið?

Fulltrúi Flokks fólksins minnist þess að í hverfinu átti að vera blönduð byggð.

Gengið hefur á ýmsum í þessu hverfi. Mikið er um kvartanir og hægt hefur gengið að ganga frá gönguleiðum og frágangi við götur, lýsingu og öryggismál.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Haðarstíg, af hverju fyrirspurnum fólks er ekki svarað?

Mál nr. US210146

Málefni Haðarstígar hafa áður komið til umfjöllunar. Eldsvoði varð á Haðarstíg síðastliðið sumar og vöktu íbúar þar athygli borgaryfirvalda á afleitum brunavörnum en þar bólar ekkert á endurbótum við stíginn sem fyrirhugaðar voru 2018 og 2019. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ábendingum íbúa hefur ekki verið svarað?

Skipulagsyfirvöld státa sig af samráði en það virðist hafa brugðist. Íbúum var sagt fyrir tveimur árum að endurbótum hafði verið frestað án skýringa.

Haðarstígur er göngustígur, ein þrengsta gata Reykjavíkur og illmögulegt að koma stórum slökkviliðsbíll þangað. Þar er enginn brunahani, sem torvaldar slökkvistarf í þessum þéttbýla reit, þar sem húsin standa áföst hvert öðru. Hér er allt of mikið í húfi. Þegar kemur að öryggi sem þessu gengur ekki að borið sé við fjárskorti. Fram hefur komið hjá íbúum að ástand götunnar sé orðið mjög bágborið. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að gyrða sig í brók í þessu máli áður en annað slys verður.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um skutluvagn í miðbæinn

Mál nr. US210147

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld hlutist til um að Reykjavíkurborg reki skutlu sem aki Laugaveginn, Skólavörðustíginn, Lækjartorg og upp Hverfisgötu. Spurning er að reyna þetta í tilraunaskyni, tímabundið. „Skutlan“ taki hring um kjarna miðborgarinnar t.d. 4-5 sinnum á klukkutíma eða eftir því sem þörf kallar. Markmiðið er að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað vegna lokunar gatna. Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli eða eiga erfitt um gang ama. Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði, eiga erindi þangað og fara um það á skömmum tíma. Skutlan er einnig tilvalin til að skutla ferðamönnum milli staða í miðbænum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi útboð sem tengist þörf á endurmenntun og námskeið fyrir embættismenn og starfsfólk í tengslum við brot á útboðsreglum

Mál nr. US210149

Reykjavíkurborg braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki þurfi að vera með virkt endurmenntunarkerfi fyrir helstu stjórnendur borgarinnar þar sem t.d. nýjar reglugerðir og ný lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennd? Það er líklega mun hagstæðara en að þurfa hvað eftir annað að greiða sektir sem skapast við slæma stjórnsýslu og laga- og reglugerðarbrot Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg hefur oft áður verið talin brotleg í málum sem kostað hefur borgarbúa milljónir. Í þessu máli halda engin rök og þau veiku rök sem borgin lagði fram hafa verið hrakin lið fyrir lið. Þegar slíkt gerist þarf að bæta vinnubrögð og tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta stríð borgarinnar gagnvart lögum og reglum ekki bara þreytandi heldur með öllu óásættanlegt af stjórnvaldi sem borgarbúa eiga að geta treyst sérstaklega þegar kemur að því að fylgja lögum og reglum.

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvers vegna borgaryfirvöld brjóta ítrekað lög og reglur um útboð:

Mál nr. US210150

Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa verið ein samfelld hneisa. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á það að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk.

Útboð eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnvöld og leiða gjarnan til sparnaðar fyrir borgina. Engu að síður hefur sitjandi meirihluti ítrekað farið á svig við lög um opinber innkaup og gengið beint til samninga við einkaaðila. Þetta sáum við þegar borgin keypti ljósastýringu án undangengins útboðs og orka er keypt án útboðs.

Við munum vel hversu lítið eftirlit var með endurgerð Braggans í Nauthólsvík. Verkið fór langt umfram kostnaðaráætlanir. Þar voru meira og minna öll verk og öll þjónusta keypt án undangengins útboðs. Sitjandi meirihluti virðist ekki nýta útboð við að leita að hagstæðu verði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvers vegna?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram um að breyta verklagi þegar kemur að svörun og viðbrögðum við ábendingum í aðdraganda skipulagslýsingar:

Mál nr. US210152

Fram hefur komið að skipulagsyfirvöldum er ekki skylt að svara ábendingum og athugasemdum sem berast áður en mál er sent í skipulagslýsingu. Hugsunin að baki er að hafa eigi ábendingar/athugasemdir aðeins til hliðsjónar. Engin trygging er hins vegar fyrir því að hvort þær ábendingar eða athugasemdir sem berast í aðdraganda skipulagslýsingar séu hafðar til hliðsjónar eða yfir höfuð meðteknar.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að þetta verði endurskoðað og athugasemdum svarað enda myndi felast í því auknar líkur á að fá ítarlegri upplýsingar sem tvíhliða samskipti leiða af sér. Því víðtækari upplýsingar því meiri líkur á faglegum vinnubrögðum.

Tvíhliða samskipti eru vísari með að skila þekkingu og innsýn í mál. Þegar viðkomandi sendir inn ábendingar en fær engin viðbrögð verða engin frekari samskipti.

Frestað.