Bókun Flokks fólksins við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði, ásamt fylgiskjölum:
Mat fulltrúa Flokks fólksins er að kvartanir sem hér eru birtar eigi rétt á sér. Þétting byggðar hefur leitt til mikilla þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn talsvert. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Málið er ekki nýtt og hefur áður komið fyrir skipulagsráð. Nú þegar er skortur á bílastæðum. Reynt hefur verið að ná eyrum skipulagsyfirvalda og snúast áhyggjur fólks einnig um að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Almennt er þröngt um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Ekki allir geta nýtt sér bíllausan lífstíl og verða skipulagsyfirvöld að fara að sætta sig við það. Gengið er of langt í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda að vilja stýra með hvaða hætti fólk fer milli staða í borginni.
Bókun Flokks fólksins við boð Eurocities um stuðning við yfirlýsingu um loftslagsmál sem kennd er við París og birt var 11. desember 2020 á 5 ára afmæli Parísarsamkomulagsins.
Fulltrúi Flokks fólksins styður og fagnar öllum samskiptum Reykjavíkur í tengslum við Parísarsamkomulagið en vill hnykkja á mikilvægi þess að samskipti fari fam í gegnum fjarfundarbúnað. Árum saman hefur ríkt ákveðið bruðl og hefur almannafé verið sóað m.a. í ferðir erlendis. Það er einlæg von fulltrúa Flokks fólksins að borgarstjóri og borgarmeirihlutinn fari ekki aftur á þann stað sem var fyrir COVID í þeim efnum. Nú má vænta þess að með reynslu af fjarfundatækni þá sé ekki lengur nauðsynlegt fyrir borgarstjóra, borgarafulltrúa eða embættismenn að ferðast erlendis. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning enda hægt að eiga öll samskipti í gegnum fjarfundarbúnað.
Bókun Flokks fólksins við drögum að áhættustefnu Reykjavíkurborgar eru send borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum:
Lögð eru fram drög að áhættustefnu. Í gögnin vantar nánari skilgreiningu og framsetning þarf að vera á mannamáli. Taka ætti skýrara dæmi um út á hvað þetta gengur og hvernig þetta er frábrugðið hlutverki eftirlitsaðila eins og innri endurskoðunar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að borgarbúar skilji út á hvað þetta gengur þegar lesið er um málið í fundargerð. Hugmyndin er góð. Allt sem lýtur að fyrirhyggju þegar kemur að „áhættu“ hlýtur að gagnast. Ekki er ósennilegt að svona stefna/stjórnkerfi hefði nýst við fyrri ákvarðanir sem fóru úr böndunum, svo sem fjárhagslega – bragginn o.fl., en þá sofnuðu allir á verðinum og bruðl og óráðsía fékk að þrífast. Aukin áhættuvitund er því aldeilis vel þegin í borginni. Í gögnum má lesa að í kringum „áhættustefnuna“ verður „kerfi“. Setja á nefnd á laggirnar og setja upp sérstaka skrifstofu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér kostnaði. Borgarstjórn á að koma að áhættuákvörðunum samkvæmt því sem kemur fram í gögnum. Spurningar vakna um gagnsæi og hvort ferlið verði opið – gagnsætt. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram formlegar spurningar til að fá formleg svör til að skerpa á hugmyndinni og upplýsa borgarbúa um hvort og þá hvað mikið af útsvarsfé þeirra fari í þetta verkefni.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. janúar 2021, um stöðu styttingar vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg:
Minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs er lagt fram. Tillaga að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu. Flestir starfsstaðir fara í 36 stunda vinnuviku og fara á í að gera umbætur á starfsemi til að ná fram betri nýtingu á vinnutímanum. Starfsfólk afsalar sér jafnframt forræði á hléum. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ámælisvert að ekki hafi fylgt fjármagn í verkefnið þannig að hægt sé að tryggja starfsfólki hvíld í vinnunni og að það fái hlé.Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að áhrifin verði ekki neikvæð. Hlúa þarf að starfsfólkinu. Allt byggist á vellíðan þeirra í starfi. Svo virðist sem kreista eigi hverja mínútu og talað er eins og nýting tímans hafi ekki verið nógu góð áður. Eðlilega er mikil ánægja með að stytta vinnuvikuna sem gefur starfsmönnum færi á að vera meira með fjölskyldum sínum. Vel kann að vera að einhverjir þori ekki að kvarta eða andmæla neinu af ótta við að þessi kjarabót verði tekin af. Sú ógn er því miður yfirvofandi ef sýnt þykir að styttingin komi niður á þjónustu. Það er óaðlaðandi að hugsa til þess að einhverjir starfsmenn hafi mögulega áhyggjur af þessu.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 19. janúar 2021, til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna bókunar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um kröfu Reykjavíkurborgar um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá 11. desember 2020, ásamt fylgiskjölum:
Auðvitað mátti búast við andstöðu af hálfu einhverra annarra sveitarfélaga við málarekstur Reykjavíkur gagnvart Jöfnunarsjóði að sjóðurinn veiti eðlilegum upphæðum til Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn veltir fyrir sér hver upphaflegur tilgangur Jöfnunarsjóðs hafi verið þegar á allt er litið og hvort undir hafi kannski legið frá upphafi að flytja átti fé frá Reykjavík til annarra sveitarfélaga, þar á meðal til vel stæðra sveitarfélaga. Í svona máli vakna einfaldlega alls konar spurningar og vangaveltur. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að málið fái þann endi sem flestir geta verið sáttir við.
Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, ásamt fylgiskjölum, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu ráðningarmála í leik- og grunnskólum í september 2020, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. september 2020:
Þessi fyrirspurn var lögð fram í september 2020 og nú er loks að berast svar við henni. Í svari eru upplýsingar um stöðu mála frá í október og einnig nú í janúar 2021. Eftir því er tekið hvað mörg stöðugildi eru enn ómönnuð nú í janúar eða 17,2% í leikskólum, 11,9% í grunnskólum og 20,9% í frístundinni. Ef tekið er dæmi um leikskólann, þá var í október 2020 búið að ráða í 98,4% í leikskóla en nú í janúar 98,8%. Ekki er nú munurinn mikill. Af þessu má draga þá ályktun að jafnvel þótt atvinnuleysi sé mikið og vaxandi tekst samt ekki að manna allar stöður. Ef horft er til stöðu mála á frístundaheimilum nú í janúar á eftir að ráða í 20,9 stöðugildi eða um 46 starfsmenn samanborið við 5,9 stöðugildi og 10 starfsmenn þann 8. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins spyr yfirvöld hvernig á þessu standi. Hvaða skýringar liggja þarna að baki?
Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun um áhrif styttingar vinnuvikunnar á leikskóla, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna frávísunar tillögunnar:
Tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun um áhrif styttingar vinnuvikunnar á leikskóla hefur verið vísað frá. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót sem beðið hefur verið eftir og því mikilvægt að fylgjast með áhrifunum á börnin, starfsemi og starfsfólkið nú þegar þetta er orðið að veruleika og í ljósi þess að þetta má ekki kosta krónu. Með þessu verkefni átti auðvitað að fylgja fullnægjandi fjármagn þar sem líklegt er að álag verði eitthvað meira á starfsfólk jafnvel þótt reyna eigi að kreista meira úr hverri mínútu. Nú er talað eins og nýting vinnutímans hafi ekki áður verið góð. Mikið álag hefur ávallt verið á starfsfólkinu. Þessi meirihluti hefur oft talað um að vilja ekki ofgera starfsfólki en með því að setja ekki fjármagn í verkefnið þá er verið að leggja meira á starfsfólkið. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Það er ekki hægt að stóla á og vonast til að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana. Yfir hvílir nú sú ógn að ef þetta gengur ekki verður þetta bara tekið af.
Bókun fulltrúa Flokks fólksins við frávísunartillögu meirihlutans á tillögu Flokks fólksins um að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum í kringum menningarstarfsemi sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. janúar 2021:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum í kringum menningarstarfsemi. Þetta er lagt til í ljósi þess m.a. hversu meirihlutinn í borgarstjórn er hrifinn af bs.-stjórnkerfi, þ.e. byggðasamlögum. Þar sem þau eru hins vegar við lýði eins og við sorpúrvinnslu og almenningssamgöngur hafa þau virkað illa sem stjórnkerfi. Ástæðan er sú að hlutur Reykjavíkur er rýr í stjórnun en ríkur í fjárhagslegri ábyrgð. Reykjavík gæti hins vegar hagnast á slíku kerfi í kringum menningarstofnanir sem borgin er rík af. Ekki er þor og kjarkur þessa meirihluta að hugsa út fyrir boxið í þessu sambandi. Þarna væri færi á að semja við nágrannasveitarfélög um þátttöku í verkefnum sem Reykjavík rekur að flestu eða öllu leyti. Íbúar í næstu sveitarfélögum njóta þess að sækja menningarviðburði til Reykjavíkur enda eru þeir fyrir alla, en af hverju má ekki deila kostnaði við slíka viðburði?
Bókun Flokks fólksins við við fundargerð öldungaráðs frá 11. janúar 2021 við lið sem varðar tillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa:
Fyrirspurn Viðars Eggertssonar, fulltrúa félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er svarað af öldungaráðinu. Hann spyr hvenær umsögn öldungaráðs við tillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðra dags. 31. maí 2019 var samþykkt af öldungaráði. Í svari kemur fram að 17. desember 2018 barst öldungaráði beiðni velferðarráðs um að veita tillögunni um skipan hagsmunafulltrúa aldraðra umsögn sína. Fulltrúi Flokks fólksins vill nota þetta tækifæri til að minna á þessa góðu tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram í júní 2018. Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun og dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt. Meirihlutanum hugnaðist ekki þessi tillaga með þeim rökum að þeim störfum, sem hagsmunafulltrúa skal fengið skv. ofangreindri tillögu, sé nú þegar sinnt af starfsmönnum velferðarsviðs og að eftirfylgni og samráð fari nú þegar fram af hálfu þeirra hagsmunafélaga og ráða sem hafa verið sett á laggirnar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skýringar af hverju ekki hefur tekist að manna allar stöður nú þegar atvinnuleysi er mikið:
Ekki hefur ekki tekist að manna fjölda stöðugilda á sviði skóla þrátt fyrir mikið og vaxandi atvinnuleysi. Sem dæmi á eftir að ráða í 20,9 stöðugildi eða um 46 starfsmenn samanborið við 5,9 stöðugildi og 10 starfsmenn þann 8. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvaða skýringar eru fyrir því að ekki tekst að manna allar stöður í því atvinnuleysi sem nú ríkir? R21010227
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fyrirhugaðan kostnað við yfirbyggingu nýrrar áhættustefnu:
Fyrir liggja drög að áhættustefnu, setja á saman „allar áhættur“ svo hægt sé að skoða þær. Margar spurningar vakna og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að setja fram nokkrar með formlegum hætti: Um er að ræða stjórnkerfi í kringum áhættustefnuna sem kallar á skrifstofu, nefnd og aðra yfirbyggingu. Eitthvað hlýtur það að kosta og ef svo er þá óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá framlagða áætlun um kostnað. Ef um sparnað verður að ræða, hver verður sparnaðurinn? Borgarstjórn á að koma að áhættuákvörðunum samkvæmt því sem kemur fram í gögnum. Spurningar vakna um gagnsæi og hvort ferlið verði að fullu opið – gagnsætt. Óskað er eftir að fá framlagðan gagnsæisferil þessara fyrirhuguðu áhættustefnu.
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um í hverju breytingarnar felast í nýjum reglum um inntökuskilyrði í Arnarskóla.
Lögð er fram í borgarráði tillaga meirihluta skóla- og frístundasviðs um að samþykkt verði verklag og ákvörðun um greiðslu framlags til sjálfstætt rekna sérskólans Arnarskóla. Fyrir voru til eldri reglur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá þær reglur og að dregið sé fram hverju nákvæmlega er verið að breyta. Á hverju er verið að skerpa?
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.