Skipulags- og samgönguráð 29. september 2021

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, breyting, íbúðarbyggð og blönduð byggð, kynning á athugasemdum og drög að svörum við þeim:

Fjölmargar athugasemdir bárust og tekið er tillit til fæstra. Frá efra Breiðholti er mótmælt stefnu um hæðir húsa á reit nr. 81, Norður Mjódd en skorað er á að færa reitinn í flokkinn 5 hæðir eða minna enda fyrir því reifuð ágæt rök.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögum íbúaráðs Miðborgar og Hlíða að banna spilasali almennt í miðborginni og við Hlemm. Tekið er undir áhyggjur íbúaráðs Vesturbæjar af umferð um Miklubraut á meðan framkvæmd Miklubrautar í stokk stendur yfir. Það er miður að sjá hvað byggingar við strandlengju skyggja á heilu hverfin. Áhyggjur eru af þéttingu byggðar í vesturbæ og að borgarlína muni ekki þjóna hverfinu vel. Ef horft er á hverfi í Laugarnesi þá liggur ekki fyrir þarfagreining vegna skólamála sem skoða átti í sumar. Tryggja þarf hvernig skólum getur fjölgað eða þeir sem fyrir eru stækkað. Ekki er heldur tryggt hvernig blöndun verður í hverfum þannig að léttur iðnaður geti þrifist innan íbúðahverfa. Til að ekki myndist farvegir fyrir verðhækkanir íbúða þarf að vinna hratt og örugglega að því að ávallt sé framboð á byggingarreitum- stórum sem smáum lóðum. Setja þarf kröfur um meðalstærð íbúða á sérhverjum reiti til þess að þeir sem þar byggja geta valið um hvernig stærðardreifing verður.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag – leiðbeiningar, breytingar kynntar:

Rýmri heimildir til stærðar aukaíbúða í einbýlishúsum ber að fagna. Heimilt verður að gera aukaíbúð í einbýlishúsi sem reyndar hefur sennilega alltaf verið leyfilegt svo það er ekkert nýtt.
Þetta er framhald af heimild um að gera viðbyggingar við hús og ofanábyggingar en ekki má þó byggja nýtt hús á lóð. Þetta er án efa allt gott mál utan bílastæðamálin. Fyrir aukaíbúðir sem tilheyra sama matshluta og aðalíbúð eru viðbótar bílastæði ekki heimiluð. Þetta þykir mörgum mikill galli. Þegar um er að ræða séríbúðir í fjölbýlishúsum fylgir aðeins eitt bílastæði. Fjöldi bílastæða á lóð má þó aldrei verða meiri en sem nemur einu stæði fyrir hverja íbúð og skulu ný bílastæði vera í beinum tengslum við stæði sem fyrir eru. Ekki er heimilt að fjölga innkeyrslum að lóðinni. Þetta eru flókið og stíf skilyrði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki þurfi einnig að horfa til hjólastíga og gatna í þessu sambandi? Hjólastígar eru víða ekki þess legir að hægt sé að nota þá sem alvöru samgönguæðar. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar t.d. í Breiðholti sem virka sem göngustígar en engan veginn sem hjólastígar.


Bókun Flokks fólksins við liðnum Rafstöðvarvegur 4, (fsp) uppbygging, kynning:

Flokkur fólksins er sammála að þarna verður góð aðstaða fyrir jaðaríþróttir. Áhyggjur er frekar að byggingarmálum. Hér er sennilega lagt upp í ferð sem verður kostnaðarsöm og bragginn mun blikna í samanburðinum. Nú er áríðandi að vanda til verka. Hér ætti að stilla upp fleiri möguleikum svo sem að rífa núverandi byggingu og byggja nýja sem hægt væri að klæðskerasauma að framtíðarverkefnum. Toppstöðin hefur ekki verið talin vera merkileg bygging og lengst af staðið til að rífa hana. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess asbest. Hér er lag til að reisa fallega byggingu á einstaklega góðum stað þar sem aðstaða yrði fyrir jaðaríþróttir.

Bókun Flokks fólksins Laugardalur – austurhluti, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt þetta úrræði enda þurfa allir að eiga þak yfir höfuð. Það er þó afar mikilvægt að vandað sé til þessa úrræðis með þeim hætti að eitt af húsunum á hverjum stað verði frátekið fyrir starfsmann sem verði alltaf á staðnum til að styðja við einstaklingana og vera til taks eftir þörfum. Því miður hefur gengið á ýmsu hjá meirihlutanum með þessari framkvæmd sem rýrt hefur traust á að þetta úrræði og sem þarf ekki að lýsa frekar hér. Það er miður því um er að ræða einstaklinga með fjölþættan vanda, sumir að eignast heimili eftir að hafa verið heimilislausir árum saman og þurfa bæði mikla þjónustu og stuðning. Þessum viðkvæma hópi er ekki bara hægt að fleygja út í borgina og þeim sagt að bjarga sér að mestu sjálfir. Á staðnum verður að vera umsjón og eftirlit 24 tíma á sólarhring, einstaklingur og fagteymi sem er tilbúið að stíga inn og aðstoða eftir þörfum og án biðar. Hér er mikilvægt að velferðarsvið bregðist ekki skyldum sínum ella er hætta á að þetta úrræði sem búið er að leggja mikið í mistakist


Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um könnun um ferðavenjur :

Í svari kemur fram að Reykjavíkurborg óskaði ekki sérstaklega eftir að Maskína gerði könnun á ferðavenjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, heldur hefur fyrirtækið gert þær að eigin frumkvæði undanfarin ár. Í ár bauð Maskína borginni að kaupa niðurstöður könnunarinnar eins og segir í gögnum, sérstaklega flokkaðar m.a. m.t.t. hverfaskiptingar Reykjavíkur. Kostnaður var 290.000 kr.

Spurning er hér hvort borgin keypti þessa könnun fyrir eða eftir að niðurstöður lágu fyrir? Það sem könnunin sýndi niðurstöður sem ekki hentar stefnu og væntingum meirihlutans má ætla að gengið hafi verið frá kaupunum áður en niðurstöður lágu fyrir. Um þetta mun fulltrúi Flokks fólksins vilja senda inn sérstaka fyrirspurn.

Það er ljóst að mati Flokks fólksins að skipulagráðs freistar einskis til að fá “staðfestingar” á að notkun einkabílsins sé að dala. Það lítur út fyrir að vera óskhyggja samkvæmt þessari könnun sem sýnir að notkun einkabílsins er að aukast.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um endurbætur á ljósum við gatnamót Breiðholts og Jafnasel :

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn um hvenær skipulagsyfirvöld hyggjast fara í endurbætur á ljósum við gatnamót Breiðholtsbrautar og Jafnasels en ljósin þar eru í ólestri. Nefna má að „græna ljósið“ kemur seint eða aldrei fyrir gangandi vegfaranda sem ætlar að þvera Breiðholtsbrautina þótt ýtt sé á hnappinn. Gangandi vegfarendur hafa neyðst til að sæta lagi og fara yfir á rauðu ljósi eftir að hafa beðið eftir grænu gönguljósi án árangurs.

Í svari kemur fram að ekki eru fyrirhugaðar breytingar á umræddum gatnamótum að svo stöddu. Hér er um gamlan búnað að ræða frá 2014. Í svari kemur fram að biðtími yfir Breiðholtsbraut, væntanlega á þessum sama stað og spurt var um hafi verið skoðaður milli kl. 06-23 á hverjum degi i heila viku og hafi biðtíminn verið minnstur 9 sekúndur og mestur 105 sekúndur. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þetta ótrúlegt ef verið er að tala um sömu gönguljós ekki nema að hnappurinn eigi það til að bila eða er ekki nægilega næmur? Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi benda á tillögu meirihlutans sem er á dagskrá á þessum sama fundi en hún er sú að gerð sé úttekt á aðgengi á gönguþverunum í borginni. Gera má vonandi ráð fyrir að í kjölfarið verði gamall búnaður endurnýjaður.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðkomu hjólandi vegfarenda þar sem eru tröppur á göngustígum:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um um aðkomu hjólandi vegfarenda þar sem eru tröppur á göngustígum og þar sem fólk fer með kerrur í Úlfarsárdal. Í hverfinu eru tröppur víða og hafa börn sem koma hjólandi í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppur auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur og ekki aflíðandi. Sem dæmi, efsti hluti stígsins frá Skyggnisbraut og að Sifjarbrunni er malbikaður hallandi stígur án trappa með hita og hægt að hjóla niður hann án vandræða. Frá Sifjarbrunni og niður að Dalskóla með svipuðum halla eru eintómar tröppur. Hægt er að sjá bōrn á hjólum og hlaupahjólum reyna að fara þessa leið. Þau þurfa allavega að leiða hjólin og ef þau reyna að fara brautina fyrir hjól þá eru þau að detta mjög oft. Þau geta vissulega hjólað lengri leið í skólann á götunni með tilheyrandi hættum. Þessi stígur hefði átt að þjóna betur bōrnum á hjólum og hlaupahjólum sem og fólki með vagna og kerrur. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir endurskoðun á þessu. Ekki dugir að nefna eitt dæmi eins og skipulagsyfirvöld gera sem er mögulega í lagi þ.e. leiðin um Urðarbrunn.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut Mál nr. US210225

Verið er að gera breytingar á aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg m.a. er verið að lengja rampa, gera göngustíga, hjólastíga við hlið akreinar. Verkið skal að fullu lokið 1. október 2021. Áætlaður verktakakostnaður er 91.000.000

Vakin hefur verið athygli fulltrúa Flokks fólksins að þarna stefni í þrengsli, að jafnvel að óeðlilega þröngt verði milli bíla og hjóla.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort lögum og reglugerðum sem og stöðlum sé fylgt þegar svona framkvæmd er skipulögð. Hver er breidd hjóla- og göngustíga og akreinar og eru öllum reglum fylgt í þessu ákveðna tilfelli?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Úlfarsársdal  Mál nr. US210226

Enn berast kvartanir frá íbúum í Úlfarsárdal og nú ekki síst vegna seinkunar á byggingarframkvæmdum og kvartanir vegna verkstýringar.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um nokkur verklok.

Sem dæmi átti að ljúka við verk í kringum Dalskóla fyrir mörgum árum. Enn átti að reyna í vor að ljúka verkum í kringum skólann sem nú fyrst er verið að byrja á þegar skólinn er byrjaður. Þeir sem hafa fengið lóðir draga að byggja á þeim eftir því sem næst er komið. Þetta er látið óáreitt af skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Hvenær á að ljúka við þau verk sem hér eru nefnd?

Af myndum sem okkur hafa verið sendar er ástandið í Úlfarsárdal víða skelfilegt. Um 15 ár er síðan skipulagið var kynnt og átti hverfið að vera sjálfbært. Margt er þarna óklárað. Engin þjónusta hefur orðið til í hverfinu þaðan af síður sjálfbærni, engin atvinnustarfsemi. Finna má tunnur, staura, vírnet við Úlfarsbraut ofan við kennslustofur í kjallara Dalskóla. Þarna má einnig sjá óbyggðar lóðir, ókláraða gangstíga, moldarhauga og drasl á götum.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.


Bókun Flokks fólksins við liðnum Battavöllur á Landakotstúni, umsögn:

Til stendur að byggja battavöll á Landarkotstúni og var það góð hugmynd. Nú er ekki aðeins um að ræða battavöll heldur ALMENNINGSSKRÚÐGARÐ. Fulltrúi Flokks fólksins er hugsi yfir hvað hugmyndin um byggingu battavallar hefur blásist út með tilheyrandi kostnaði. Fulltrúi Flokks fólksins vill allt gera fyrir börnin en kannski fyrst að þau hafi fæði, klæði og húsnæði og fái nauðsynlega þjónustu. Á meðan langt er í land með að mæta grunnþörfum þúsunda barna og fjölskyldna þeirra hefði kannski góður battavöllur dugað í þessu tilfelli. Nú hefur bæst við allt mögulegt annað, alls kyns skraut sem kostar sitt þegar allt er talið. Heildarkostnaður er 88 milljónir. Á biðlista eftir m.a. sálfræðiþjónustu og talmeinafræðingum bíða nú 1474 börn. Skraut er ekki það sem börn sækja sérstaklega í þegar þau velja sér stað til að leika sér á. Horfa má á torgið, nýgerða í Mjódd, með fínum túlípanasætum. Þar situr aldrei neitt en vissulega gleðja litir og skraut augað.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata, um úttekt á aðgengi á gönguþverunum í borginni:

Það er vissulega tímabært að taka úr aðgengi við gönguþveranir í borginni og meta út frá því hve vel þær henti öllum vegfarendum, t.d. hvort kantar hindri för, hvort hnappar á ljósastýrðum gangbrautum séu aðgengilegir öllum, hvort merkingar og ljós séu sýnileg og hvernig gönguþveranirnar henti jafnt blindum sem heyrnarskertum notendum. Til dæmis þarf að lagfæra gangstéttabrúnir sem og aflíðandi halla frá gangstétt út á gönguþveranir í Efra Breiðholti og í Úlfarsárdal. Þetta er sérstaklega slæmt við gatnamót Breiðholtsbrautar og Jafnasels en einnig víða annars staðar í Breiðholti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur minnst á þetta og sent inn fyrirspurnir og tillögur í því sambandi en ekki fengið mikil viðbrögð.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um hlaupavísa í Laugardal:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst tillaga Sjálfstæðisflokksins um hlaupavísa í Laugardag athyglisverð og veltir fyrir sér hvort ekki mætti einnig setja upp vísa sem sýna 10 metra fyrir þá sem hægar og styttra fara?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2021, tilnefningar. Bókun er í trúnaðarbók:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að byggð verði önnur sundlaug í Breiðholti sem dæmi í Seljahverfi eða við íþróttasvæði ÍR?

Nýtt hverfisskipulag fyrir öll hverfi Breiðholts hefur verið í umræðunni í vetur og hefur verið kynnt Breiðhyltingum. Í Breiðholti er ein sundlaug, Sundlaug Breiðholts. Í hverfinu öllu búa 22 – 24 þúsund manns. Það segir sig sjálft að ein sundlaug dugar varla til að annast þjónustu við hverfisbúa. Áætlað er að byggja mikið í Breiðholti næstu misserin sbr. nýtt hverfisskipulag. Um er að ræða allt að 2000 íbúðir þegar allt er tiltekið þar af nýjar íbúðir í Mjódd gætu orðið ca. 600 og aukaíbúðir í sérbýli mögulega ca. 500-700.

Sjá má hvernig nýtingatölur í Sundlaug Breiðholts hafa hækkað jafnt og þétt frá 2009. World Class opnaði líkamsræktarstöð við hlið laugarinnar 2017 og fjölgað gestum laugarinnar þá umtalsvert. Árið 2009 var aðsókn 204.047 en árið 2019 432.219. Til samanburðar eru 3 sundlaugar í Hafnarfirði en þar búa ca. um 28 þúsund manns.

Greinargerð

Í Breiðholtslaug koma ekki einungis Breiðhyltingar heldur einnig fólk úr Norðlingaholti

Nú er staðan þannig að erfitt ef ekki ógerlegt er að fara í sund milli 8-16. Vissulega er skólasund í forgangi en það er ekki ásættanlegt að almenningur eigi þess ekki kost að fara í sund nema á kvöldin til að synda. Breiðhyltingar eru jafnvel farnir að aka í önnur sveitarfélög til þess að fara í sund. Fulltrúi Flokks fólksins vill að skoðað verði fyrir alvöru að bæta við annarri sundlaug í Breiðholtinu. Þetta er góð líkamsrækt og gott fyrir heilsuna. Ekki hafa allir efni á líkamsræktarkorti.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um líffræðilegan fjölbreytileika og skilgreiningu á honum.

Fyrirspurn frá Fulltrúa Flokks fólksins um líffræðilegan fjölbreytileika og skilgreiningu á honum. Víða í gögnum um skipulagsmál borgarinnar ekki síst frá verkfræðistofum sem vinna ýmis konar vinnu fyrir borgaryfirvöld er talað um að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá skilgreiningu á líffræðilegum fjölbreytileika.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um hreinsun í Úlfarsárdal

Tillaga Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld gerir skurk með öllum ráðum og dáðum að tekið verði til í Úlfarsárdal n.t.t. við og í kringum Úlfarsársbraut þar sem finna má byggingarefni liggja eins og hráviði.

Enn berast borgarfulltrúum myndir af óreiðu og drasli einna helst byggingarefni við Úlfarsárbraut. Af þessu er mikil sjónmengun og hætta stafar af sumum efnum og aðstæðum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagssvið láti fara fram allsherjar tiltekt í hverfinu. Reykjavíkurborg/skipulagssvið getur varla verið að sinna skyldum sínum í skilmálaeftirliti og eftirfylgni víst ástandið er svo slæmt þarna sem raun ber vitni. Skoða þarf það sérstaklega.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um sjálfbærni í Úlfarsárdal. Mál nr. US210275

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir því með ákveðnari hætti að gera Úlfarsárdal sjálfbært hverfi eins og til stóð að það yrði og lofað var.

Óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal nú í september 2021 eru um 40 en hverfið er 15 ára. Í hverfinu eru engar verslanir og hverfið engan vegin sjálfbært. Íbúar verða að aka í Grafarholt eftir allri þjónustu og vistum, nema þá vanti byggingarefni sem hægt er að sækja í Bauhaus.

Lofað var að hverfið yrði sjálfbært. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér í þessum efnum. Í hverfinu er ekki einu sinni að finna bakarí, ísbúð, kaffihús eða hvað þá veitingastað.

Frestað.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um úttekt á aðgengi gönguþverunum hjá Hörpu.

Fyrirspurn í tengslum við tillögu meirihlutans að gera úttekt á aðgengi á gönguþverunum í borginni. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja hvort búið sé að stilla gönguljósin móts við Hörpu sem loguðu án tilltis til hvort einhver hafði ýtt á gönguljósahnappinn?

Flokkur fólksins lagði til árið 2020 að slökkt verði á gönguljósum móts við Hörpu sem loga reglulega þótt enginn ýti á gönguljósahnappinn. Ekki er vitað um afdrif þeirrar tillögu.

Í greinargerði með tillögunni kom fram sú ábendinga að þessi ljós ættu að vera í samhengi við ljósin á undan, ásamt gönguljósunum, en það virtist ekki vera og þess vegna myndast raðir að óþörfu. Um 40 metrum eftir gatnamótin frá Hörpu eru tvær gönguþveranir norðan megin götunnar, sem sameinast í eina við Seðlabankann. Önnur er án ljósa en hin með gönguljósum, þar sem er rofabox fyrir gangandi til að kalla fram skiptingu.

Síðari gönguþverunin með ljósastýringunni var lokuð með steinagirðingu og gönguljósin stillt á tíma þannig að rautt ljós kemur á umferðina með reglulegu þéttu millibili án þess að nokkur gangandi maður ýti á takkann, auk þess að þverunin er lokuð. Á þessum ljósum hlýtur að þurfa að slökkva og kannski er búið að því?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um hvenær könnun Maskínu var keypt

Í svari kemur fram að Reykjavíkurborg óskaði ekki sérstaklega eftir að Maskína gerði könnun á ferðavenjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, heldur hefur fyrirtækið gert þær að eigin frumkvæði undanfarin ár. Í ár bauð Maskína borginni að kaupa niðurstöður könnunarinnar eins og segir í gögnum, sérstaklega flokkaðar m.a. m.t.t. hverfaskiptingar Reykjavíkur. Kostnaður var 290.000 kr.

Spurning er hér hvort borgin keypti þessa könnun fyrir eða eftir að niðurstöður lágu fyrir? Það sem könnunin sýndi niðurstöður sem ekki hentar stefnu og væntingum meirihlutans má ætla að gengið hafi verið frá kaupunum áður en niðurstöður lágu fyrir. Um þetta mun fulltrúi Flokks fólksins vilja senda inn sérstaka fyrirspurn.

Það er ljóst að mati Flokks fólksins að skipulagráðs freistar einskis til að fá „staðfestingar“ á að notkun einkabílsins sé að dala. Það lítur út fyrir að vera óskhyggja samkvæmt þessari könnun sem sýnir að notkun einkabílsins er að aukast.

Frestað.