Borgarstjórnarfundur 7. september 2021

Umræður sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur sett á dagskrá:

Umræða um vöntun og  biðlista fatlaðs fólks eftir sértæku húsnæði og húsnæði með stuðningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins).

Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði og húsnæði með stuðningi. Í þessi úrræði hefur alltaf verið biðlisti. Um  135 einstaklinar með fötlun eru á biðlista og hafa 40 beðið í meira en 5 ár. Biðlistatölur hafa lítið breyst. Árið 2019 biðu 145 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í 1. til 3.  flokki.  Árið 2014 voru tölur þær sömu.  Sumir hafa beðið í fjölda mörg ár, fatlað fólk sem er orðið rígfullorðið og býr enn hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum. Flestir hafa þann skilning á „biðlista“ að þar sé einhver kerfisbundin röð í gangi, að þeir sem beðið hafa lengst séu fremstir á lista. Kvartanir hafa borist að umræddur biðlisti sé ekki eiginlegur biðlisti heldur sé frekar um að ræða haug frekar en kerfisbundinn skipulagðan lista. Dæmi eru um að einstaklingi sé sagt að hann sé „næstur“ en síðan komið í ljós að það er ekki rétt, aðrir þá teknir framfyrir. Búið er að dæma í einu máli sem þessu og var þar einstaklingi dæmd milljón í miskabætur.

Þessari umræðu er frestað og verður tekin fyrir á næsta fundi borgarstjórnar.

Umræða um Sorpu rekstur og stöðu byggðasamlagsins í ljósi umfjöllunar í Stundinni (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins).

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu vegna umfjöllunar um Sorpu í Stundinni. Í janúar 2020 var framkvæmdarstjórinn rekinn og í ljós kom að margt var brogað í starfseminni. Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU sorp- og jarðgerðarstöðina 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. Ekki var farið í útboð. Framkvæmdarkostnaður fór langt fram úr áætlun. Innri endurskoðun skoðaði þetta mál og skilaði svartri skýrslu. Fyrrverandi framkvæmdarstjóri var sagður hafa gefið villandi upplýsingar og fjölþætt eftirlitskerfi brást.
GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Stjórn Sorpu hlustaði ekki á varnarorð um að moltan yrði aldrei laus við plast.  Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, mengun langt yfir  viðmiði.
Sorpa hefur hindrað aðgengi að gögnum. Sorpa hefur neitað að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýnir að 1.7% af moltu var plast, 2 mm eða stærra. Viðmiðið á að vera  0.5%.  Moltan er ónothæf.
Ekki hefur tekist að selja metangas sem er nú brennt á báli. Strætó nýtir metanið lítið, aðeins  tveir metanvagnar eru á döfinnin.  GAJU ævintýrið var bara  draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fé.

Bókun Flokks fólksins við liðnum  við umræðu um rekstur og stöðu SORPU bs. í ljósi umfjöllunar í Stundinni:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir umræðu vegna umfjöllunar um SORPU í Stundinni. Málið er alvarlegt og er stjórn ein ábyrg sem og meirihlutinn í borgarstjórn sem hlýtur að hafa vitað af því að þarna á ferðinni voru rangir og óeðlilegir hlutir á ferð. Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU, gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, árið 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. Ekki var farið í útboð. Framkvæmdakostnaður fór langt fram úr áætlun. Innri endurskoðun skoðaði þetta mál og skilaði svartri skýrslu. GAJU var lýst sem töfrabragði, geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plasti frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Stjórn SORPU hlustaði ekki á varnaðarorð um að moltan yrði aldrei laus við plast. Niðurstaðan er plastmenguð molta með þungmálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. SORPA hefur hindrað aðgengi að gögnum og neitaði að afhenda sýni. Ekki hefur tekist að selja metangas sem er nú brennt á báli. Strætó nýtir metanið lítið, aðeins tveir metanvagnar eru á döfinni. GAJU ævintýrið var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fé.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum  umræða um niðurstöður forhönnunar Laugavegar í níu skrefum:

Flestum hugnast göngugötur sem hluti af borgarstemningu þar sem þær eiga við en þær mega þó ekki vera á kostnað aðgengis og umfram allt þarf að skipuleggja þær í sátt og samlyndi við borgarbúa, íbúa í nágrenni og hagaðila. Aðgengi er sagt vera fyrir alla en það er ekki rétt, sbr. misfellur vegna kanta og kantsteina og óslétts yfirborðs sem er að finna í göngugötum. Aðgengi er ekki nógu gott fyrir þá sem nota hjálpartæki, hjólastóla og hækjur. Taka má undir að skreytingar eru fínar, ljós/lýsing, bekkir og blóm, ekkert er yfir þessu að kvarta. Þó eru áhyggjur af því að sjónskertir detti um allt þetta götuskraut. Hvað sem þessu líður þá er göngugötusvæðið orðið mun einsleitara en áður hvað varðar verslun. Tugir verslana hafa flúið af þeim götum sem nú eru göngugötur. Eftir eru helst barir og veitingahús. Verslanir fóru vegna þess að viðskipti snarminnkuðu þegar götum var lokað fyrir umferð. Aðferðafræðin sem notuð var í þessari vegferð hefur skapað leiðindi og reiði sem ekki hefur sjatnað enn. Kannski átti enginn von á að svo sterku orsakasamhengi milli lokunar umferðar og hruns viðskipta verslana. Þegar það blasti við átti að staldra við og eiga alvöru samráð um aðalatriðin.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum  umræða um málefni Fossvogsskóla:

Ekki sér fyrir endann á myglumáli Fossvogsskóla. Það sem fer hvað mest fyrir brjóstið á borgarfulltrúa Flokks fólksins er að ekki var hlustað þótt börn væru að veikjast. Viðbrögð meirihlutans sýndu vanvirðingu meirihlutans í garð foreldra, barna og starfsfólks. Loks þegar gengið var í verkið var verktaki greinilega ekki að vinna fullnægjandi vinnu og komst upp með það. Ef spurt var um málið hjá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur var svarað með hroka og skætingi. Við tók tímabil hunsunar. Það situr í fólki. Í sumar var sagt að samhljómur hafi verið um ákveðna niðurstöðu skoðanakönnunar sem Reykjavík sendi á starfsfólk og foreldra barna í Fossvogsskóla. Næsta sem fréttist var að misbrestur var á framkvæmd könnunarinnar sem sögð var hafa verið keyrð í gegn á sólarhring. Sú sviðsmynd sem samhljómur var um var að koma átti nemendum í 1. til 3. bekk í tíu færanlegar kennslustofur á bílastæði við skólalóð skólans fyrir skólabyrjun mánudaginn 23. ágúst. Nú eru tafir á því vegna COVID-19. Það sem vekur þó furðu er að einingarnar sem voru pantaðar eru hannaðar til nota í heitari löndum en á Íslandi og hefur verið gripið til þess ráðs að þykkja útveggi.

Bókun Flokks fólksins við liðnum umræða um niðurstöður könnunar á ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu:

Það kom kannski ekki á óvart í þessari könnun sem og fyrri könnunum að um 80% eru með bíl sem sitt fyrsta val þegar horft er til ferða til og frá vinnu. Samt eru nú komnir öflugir hjólainnviðir víða í borginni. Ekki er að sjá að ferðabreytingar séu í aðsigi enda þótt fólk vilji fleiri valmöguleika. Þetta er áhugavert í ljósi þess að borgaryfirvöld hafa lagt mikið á sig til að koma hlutdeild bílsins niður undir 50%. Reynt hefur verið að þrýsta fólki til að leggja bíl sínum. Þrýstiaðgerðir eru í formi þess að gera tilveru bílnotenda erfiða s.s. með því að laga ekki þá staði þar sem umferðarteppur og flöskuhálsar myndast og laga ljósastýringar sem eru víða í ólestri. Hjólareiðar hafa aukist bæði sem áhugamál og sem samgöngutæki. Notendum strætó hefur fækkað hlutfallslega, margir farnir að nota rafhjól frekar. Helstu mistök þessa meirihluta er vinna ekki í því að liðka fyrir öllum ferðamöguleikum. Hafa ætti að markmiði að draga úr töfum hvernig svo sem fólk kýs að koma sér milli staða. Enn er langt í borgarlínu, a.m.k. 2-3 ár í 1. áfanga. Vandinn er að það eru ekki fyrir hendi öflugar almenningssamgöngur sem val fyrir þá sem aka bíl.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum  við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Þátttaka og aðkoma barna að mötuneytismálum skóla er afar mikilvæg. Börn njóta sín best í umhverfi þar sem þau fá að skapa, finna hugmyndum sínum farveg og framkvæma sjálf hlutina eftir því sem aldur og þroski leyfa. Þátttaka og aðkoma barna að mötuneytismálum skóla sinna geta verið í mörgum myndum. Ein aðkoma er að þau skammti sér sjálf. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt inn fyrirspurn um í hversu mörgum skólum börnin skömmtuðu sér sjálf (fyrir COVID). Taka börnin þátt í að setja saman fjölbreyttan matseðil? Hvað vilja börnin borða í skólanum? Ein mikilvægasta aðkoma barna í þessu tilliti er hvernig hægt er að draga úr matarsóun. Í sumum skólum vigta nemendur matinn sem þau sjálf leifa og halda yfir það skráningu. Þessi aðgerð eykur meðvitund þeirra og kapp að sporna við matarsóun. Fulltrúi Flokks fólksins vill gjarnan sjá alla skóla grænfána skóla eða grænfána vottaða. Grænfáninn er skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Sjálfsagt er að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður. Markmið borgarinnar á skilyrðislaust að miðast að því að gera öllum leik- og grunnskólum borgarinnar kleift, m.a. fjárhagslega, að taka þátt í verkefninu.

 

Bókun Flokks fólksins borgarfulltrúi Flokks fólksins undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. september:

Meirihlutinn í skóla- og frístundaráði leggur til að opnunartími leikskóla borgarinnar verði 7:30 til 16:30 hjá öllum leikskólum frá 1. nóvember 2021. Þessi ákvörðun er tekin í óþökk flestra foreldra enda er verið að skerða þjónustuna. Skerðing þjónustu hefur slæmar afleiðingar fyrir marga foreldra, þá sem hafa ekki sveigjanlegan vinnutíma og starfa fjarri leikskóla barna sinna. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi en foreldrar vinna sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og sitja jafnvel fastir í umferðarteppu á þessum tíma. Enginn fulltrúi foreldra sat í stýrihópnum sem vann tillöguna og finnst fulltrúa Flokks fólksins það miður. Nú vill meirihlutinn að fólk hjóli í stað þess að nota einkabílinn. Stytting opnunartíma leikskóla kemur illa við þá foreldra sem nota hjól sem samgöngutæki. Fulltrúi Flokks fólksins er tortrygginn út í samráðsferlið og telur að úti í samfélaginu sé stór hópur foreldra sem er ósáttur með skerðingu þjónustunnar. Raddir þeirra hafa ekki náð eyrum meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Fulltrúi Flokks fólksins skilur viðhorf leikskólastarfsfólks sem er undir miklu álagi vegna manneklu. Lausnin er ekki að skerða þjónustu heldur finna leiðir til að fjölga starfsfólki.

 

 Bókun Flokks fólksins borgarfulltrúi Flokks fólksins undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. september og 17. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 16. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins vonar að fjarfundamöguleikinn sé kominn til að vera enda gagnlegt að eiga þess kost að vera á fjarfundi eftir atvikum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að forsætisnefnd samþykki að fundarmenn á fjarfundum skuli ávallt vera í mynd á fjarfundunum en að leyft verði að slökkva á myndavél rétt á meðan snætt er eða farið á salerni. Á því hefur borið alltof oft að borgarfulltrúar í fjarfundi séu með slökkt á myndavélum allan fundinn. Það er óviðunandi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að hundar verði leyfðir í anddyri eða afgreiðslurými borgarþjónustufyrirtækja í stað þess að eigendur þeirra þurfi að festa þá utandyra meðan þeir ganga erinda sinna hjá borginni. Hundar eru óvelkomnir á flesta staði innanhúss í opinberu rými borgarinnar og í borginni. Tillögunni vísað frá með þeim rökum að fylgja þurfi lögum. Að sjálfsögðu á að fylgja lögum en borgin setur sínar eigin reglugerðir. Reykjavík státar sig af því að vera hundavæn borg en gerir of lítið til að sýna það viðhorf. Frá meirihlutanum getur komið hvatning til eininga borgarinnar um fjölmargt sem snýr að málefnum hunda í borginni.