Borgarráð 28. október 2021

Bókun Flokks fólksins við 5 lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að bæta aðgengi allra að Ylströndinni. Eins og fram kemur í fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða þá er í yfirlitinu ósvarað þeirri ítrekuðu beiðni að keyptur verði sérstakur hjólastóll sem kæmist um svæðið og væri hægt að fara í úr klefum og alla leið að/ofan í sjó. Þetta stóð til í lok sumars en ekkert bólar á þessu. Ráðið óskar eftir að haft verði samráð við þá sem hafa mest not fyrir þessar lagfæringar sem standa fyrir dyrum í Nauthólsvík. Eins er ítrekað það sem ráðið kallar einnig eftir og það er að fá upplýsingar um skýrsluna sem gerð var og lokatillögur uppdráttar.

Bókun Flokks fólksins við lið 1 í fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins vill lýsa ánægju sinni með námskeiðið Tungumálatöfrar. Um er að ræða áhugafélag um íslenskukennslu og fjöltyngi. Markmiðið er að þróa nýjar aðferðir, bæði til að auka aðgang íslenskra barna sem búa í útlöndum að íslenskukennslu og ekki síður að skoða hvernig styrkja má íslenskugetu barna af erlendum uppruna sem búa á Íslandi. Þetta er gríðarmikilvægt að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nú hefur verið ákveðið að breyta aðalnámskrá einmitt í þessa átt, þannig að miðað verði að því að mæta hverju og einu barni út frá menningarbakgrunni þeirra og að námsumhverfi skóla henti öllum börnum sem þar stunda leik og nám. Í leikskólum skal leggja grunn að íslenskunámi barna og veita þeim ríkuleg tækifæri til að efla tungumálafærni sína í daglegu starfi og leik.

 

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 14. október 2021:

Í aðalskipulaginu er alvarlegt að sjá að búið er að bæta við Álfsnes, iðnaðarsvæði 12, skilgreiningu svæðisins, sbr. bls. 99 í gögnum. Þetta er grundvallarbreyting á aðalskipulagi Álfsness sem er gerð án auglýsingar og fór því hvorki fram kynning á breytingunni né umhverfismat. Svæðið sem um er rætt hefur verið mjög umdeilt að minnsta kosti sl. 16 ár og því er óskiljanlegt að „lauma“ því nú inn í aðalskipulagið. Þess er krafist að þessi breyting fari í venjulegt ferli sem tilheyrir breytingu/nýju aðalskipulagi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram eftirfarandi breytingatillögu á fundi borgarstjórnar: Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að samþykkt verði breyting á framlagðri tillögu á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 á þann hátt að fallið verði frá síðustu breytingum sem gerðar voru á „Álfsnes iðnaðarsvæði 12“, bls. 99, og hverfa aftur að þeim heimildum sem fram komu við fyrri umræðu um tillögurnar. Tillagan var felld með öllum atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við 6 lið fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um skólamál í Laugardal og Laugarneshverfi og fengið þau svör að starfshópur er að rýna í stöðuna með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla- og frístundastarfs. Starfshópurinn skilaði tillögum af sér síðastliðið vor en ekki hefur frést meira. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í þessa vinnu þurfi að setja meiri kraft. Tíminn líður og nemendum fjölgar hratt í hverfinu. Sé horft til yngstu barnanna er staðan einnig hvað verst í Laugardal og Laugarneshverfi. Það er ekki fyrr en árið 2022 sem verður búið að bæta við Ævintýraborg við Vörðuskóla og þá er áætlað að bæta við 100 plássum við Laugardal. En er það nóg? Gert er ráð fyrir að yngstu börnin verði 15 mánaða í þessu hverfi en í Hlíðum 14 mánaða. Eitthvað hefur misfarist að reikna út þörf sem ætti ekki að vera flókið fyrir sérfræðinga í slíkum útreikningum. Ef á allt er litið munu þessar viðbætur aðeins taka kúfinn og ekki bólar neitt á sviðsmyndum um framtíð skólamála í Laugardal og Laugarneshverfi. Þetta mál þarf að vinnast miklu hraðar og markvissar.

Bókun Flokks fólksins við 5. lið yfirlits embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Íbúafundur vegna hverfaskipulags Háaleitis og Bústaða var nýverið og skapaðist umræða um hugmyndirnar. Eins og gengur er fólk ekki á eitt sátt en vill hafa áhrif á þróun hverfis síns. Þeir sem eru áhyggjufullir sjá ekki að gott sé að þétta byggð svo mikið sem stendur til. Innviðir þurfa að þola uppbygginguna, sumir innviðir gera það en hvað með umferðina? Nauðsynlegt er að þétta byggð en fulltrúi Flokks fólksins vill að það sé gert með hóflegum hætti og samhliða sé fólki gefið færi á að fá lóðir sem víðast. Fulltrúi Flokks fólksins hefur líkt þéttingarstefnu við spennitreyju því aðferðafræðin er nokkuð stíf og ósveigjanleg. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hver sé áætluð fjölgun íbúa í þessum hverfum. Heimild er fyrir að fólk byggi við hús sín og á lóðum sínum en rennt er blint í sjóinn með hver sú fjölgun geti orðið. Hvað með atvinnutækifæri í hverfi? Talað er um deilibílastæði en engin önnur bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr um skólamálin, hvernig eigi að stækka leikskóla og skóla, en engin svör eru við því á þessu stigi og heldur engar hugmyndir.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 25. október 2021:

Endurskoðaðar reglur um réttindi og skyldur stjórnenda sem heyra undir borgarstjóra og reglur um ráðningu borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg eru til bóta að mati fulltrúa Flokks fólksins. Það er mikilvægt að reglurnar endurspegli skýrt að val á æðstu stjórnendum ráðist af hæfni umsækjenda. Í reglum á hæfnisnefnd að halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það hefði verið öruggara að utanaðkomandi aðilar hefðu verið fleiri en einn. Tryggja þarf jafnframt að gegnsæi ríki í öllu ferlinu en reynslan er að of mikil leynd hefur hvílt yfir því gagnvart t.d. borgarfulltrúum nema á síðari stigum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 25. október 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið talsmaður þess að vinnulok skuli vera sveigjanleg í stað þess að skikka alla, líka þá sem ekki vilja og hafa ennþá mikið fram að færa í starfi, orku og áhuga til að taka poka sinn. Fulltrúi Flokks fólksins finnst að sjálfsögðu að þetta eigi að eiga við um alla án tillits til stöðu. Inn í þessar reglur vantar betra ákvæði um þetta.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 19. október 2021, varðandi yfirlit yfir innleiðingu húsnæðisáætlunar græna plansins á þriðja ársfjórðungi ársins 2021:

Í húsnæðisáætlun kemur fram að stefnt er að byggingu 1000 íbúða í Reykjavík árlega, af þeim eru 250 íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna félaga. Þetta er gott eins langt og það nær en er ekki nóg. Það mun taka langan tíma að vinna upp þau ár sem of lítið var byggt. Úthluta þarf mörgum lóðum fyrir ólíkar tegundir af húsnæði. Sárlega vantar sérbýli og raðhús ef halda á eðlilegum húsnæðismarkaði. Þétting byggðar hefur leitt til þess að það sem er byggt er einsleitt, mest litlar og meðalstórar blokkaríbúðir á rándýrum þéttingarsvæðum. Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um 30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu er eitthvað um 200 eignir en þær þyrftu að vera allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Mæta þarf ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun. Þetta eru staðreyndir en ekki eitthvað mjálm eða suð eins og formaður Viðreisnar orðaði það á Útvarpi Sögu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 25. október 2021, að borgarráð samþykki eftirfarandi áætlun um lóðaúthlutun fyrir árið 2022:

Lagt er til að úthluta lóðum undir 294 íbúðir á árinu sem er ekki nægjanlegt og talað um að fylgja eftir ákvæðum aðalskipulags um uppbyggingu óhagnaðardrifinna félaga. Fyrst í vor lét borgin verða af því að auglýsa eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á óhagnaðardrifnu húsnæði til næstu tíu ára. Til að efna kosningaloforð sitt á þessu tímabili hefði átt að auglýsa eftir samstarfsaðilum strax vorið 2019. Segir í gögnum að Reykjavíkurborg auki lóðaúthlutanir fyrir almennan markað umtalsvert á næstu árum. Hversu mikið er hér verið að tala um og hvað þýðir „á næstu árum“? Þetta er hægagangur og er það áhyggjuefni. Einnig kemur fram að á næstu tveimur árum verður lokið við að uppfylla viljayfirlýsingu við Bjarg frá 12. mars 2016 um 1000 íbúðir í Reykjavík og miðast áætlanir félagsins við að byggja um 100 íbúðir í Reykjavík árlega eftir það. Það er sár vandi nú þegar, ungt fólk og fyrstu kaupendur hafa engum fasteignum úr að velja. Fyrir þá sem vilja minnka við sig er úr engu að velja. Það er meirihlutanum að kenna hvernig komið er. Þeir eru allmargir sem hafa flutt úr borginni vegna húsnæðisskorts og fundið sér eignir t.d. á Selfossi og í Vogum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 25. október 2021, þar sem uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð fram til kynningar:

Uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð fram til kynningar. Talað er um af meirihlutanum að mætt hafi verið áskorunum á húsnæðismarkaði. Það er ekki rétt. Skýrslan styður ekki það að húsnæðisskortur sé á höfuðborgarsvæðinu og sagt er að með húsnæðisáætlun sé sýnt að með aðgerðum sé mætt áskorunum á húsnæðismarkaði og markmiðum verði náð. Þetta er heldur ekki rétt. Það sárvantar húsnæði. Skortur á lóðaframboði kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og hagkvæmt húsnæði verður ekki byggt á þéttingarreitum. Eitt leiðir af öðru, skortur á húsnæði hefur áhrif á vexti og verðbólgu sem bæði hafa hækkað. Þeir efnameiri vinna baráttuna um þær fáu íbúðir sem eru á markaði. Námsmenn og ungt fólk er fast heima hjá foreldrum. Efnaminna og fátækt fólk eru á vergangi, þurfa sífellt að vera að færa sig um set. Öryrkjar eru á annað hundrað að bíða eftir sértæku húsnæði og mikil vöntun er á húsnæði fyrir eldra fólk, þ.m.t. þjónustuíbúðir. Verði Flokkur fólksins í næsta meirihluta borgarstjórnar mun hann vilja tryggja stöðugt framboð á lóðum og auka lóðaframboð á reitum sem ekki eru þegar byggðir.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 19. október 2021, varðandi þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024:

Ekki kemur á óvart að áætlanir sýni að nægilegt framboð verði á lóðum og húsnæði á næstu árum. Samt sem áður er mikil spenna á húsnæðismarkaði. Líklega má skýra þetta með því að framboð er ekki í samræmi við eftirspurn. Á þéttingarreitum er aðeins um íbúðir í fjölbýli að ræða en rað- eða einbýlishús vantar. Þéttingarreitir geta verið gott mótvægi þegar íbúum í einstökum hverfum fækkar vegna breyttrar aldurssamsetningar. Við þær aðstæður nýtast sumir innviðir vel. En það væri mikið til bóta ef á sama tíma og verið er að þétta væru einnig til lóðir handa þeim sem

vilja byggja sjálfir. Slíkt myndi minnka þá spennu sem myndast þegar hentugar eignir vantar. Þeir tímar voru að ný hverfi voru byggð af einstaklingum sem voru á ólíku stigi efnahagslega. Þeir kynntust, mynduðu félagsleg tengsl og tóku þátt í að búa til hverfismenningu. Stóru verktakarnir mynda nefnilega ekki hverfismenningu en það gerir fólkið sem byggir sjálft hús sín og býr í þeim.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihutans að borgarráð samþykki að yfirfærsla fjárheimilda vegna ársins 2020 yfir á árið 2021 verði felld niður:

Um er að ræða tillögu um að þeir stjórnendur sem standa sig vel í stjórnum fái umbun með því að heimilt sé að flytja rekstrarafgang á sviði/stofnun á milli ára ef hann má rekja með skýrum hætti til góðrar fjármálastjórnunar. Með sama hætti er í reglunum gert ráð fyrir að rekstrarhalli á sviði/stofnun færist milli ára ef hann verður ekki beinlínis rakinn til óhagstæðra ytri áhrifa. Þessi ákvæði eru til bóta því þau kunna að leiða til þess að stjórnendur vandi sig. Þó er það þannig að tvö svið eru vanfjármögnuð, svið sem bera ábyrgð á að veita grunnþjónustu, lögbundna sem og aðra þjónustu eins og sálfræðiaðstoð fyrir grunnskólabörn. Þessi svið eiga því litla möguleika á að skila afgangi. Önnur svið, allavega það sem annast á upplýsingaþjónustu og stafrænar lausnir, veður hins vegar í peningum þannig að hægt er að eyða þeim í ýmiss konar tilraunastarfsemi. Engu að síður er það svið yfir áætlun í vissum rekstrarflokkum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hlut borgarinnar í lóðasölu RÚV, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. nóvember 2021. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 19. október 2021:

Líklegt er að borgin hafi samið af sér í þessu máli þar sem RÚV fær verulegan hagnað af sölu lóða sem RÚV fékk fyrir lítið frá borginni á sínum tíma en til stóð að hluta af lóðinni yrði skilað til borgarinnar þegar ljóst var að RÚV hefði ekki þörf fyrir hana. Af því varð aldrei. Fulltrúi Flokks fólksins styður þá tillögu að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á samningum Reykjavíkurborgar við Ríkisútvarpið um lóðarréttindi og byggingarrétt við Efstaleiti.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fenginn verði óháður aðili, sem ekki hefur áður komið að fyrirtækinu, til að vinna stjórnsýsluúttekt á Strætó bs. þar sem farið verður yfir ferla og vinnulag síðustu 5 ára, til að skoða hvort stjórnsýsla, vinnubrögð stjórnenda og vinnsluaðilar hafi verið yfir gagnrýni hafin:

Flokkur fólksins leggur til að fenginn verði óháður aðili, sem ekki hefur áður komið að fyrirtækinu, til að vinna stjórnsýsluúttekt á Strætó bs. þar sem farið verður yfir ferla og vinnulag síðustu 5 ára, til að skoða hvort stjórnsýsla, vinnubrögð stjórnenda og vinnsluaðilar hafi verið yfir gagnrýni hafin. Leggja þarf mat á hvort vinnubrögð og ferlar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi Strætó bs. Lagt er til að unnið verði faglegt mat á núverandi skipulagi Strætó bs., starfsmannamálum, starfsumhverfi, verkaskiptingu á sviðum og vinnuferlum. Lagt er til að auk greiningar á stjórnsýslu, rekstri og starfsmannamálum verði lagðar fram tillögur að úrbótum að því leyti sem hægt er og gerð framkvæmdaáætlun um úrbætur ef þörf er á. Tillagan er lögð fram vegna þess að undanfarið hafa komið fram kvartanir á hendur stjórnenda Strætó bs. Það eru aðallega einelti, mismunun og starfslokasamningar sem hafa verið dæmdir ólöglegir samkvæmt Jafnréttisstofu. Traust verður að ríkja hjá stjórnendum þess og lykilstarfsmönnum og því er nauðsynlegt að skoða og ígrunda alla þætti vinnubragða og ákvarðana.

Greinargerð

Enn eru að berast frásagnir um vanlíðan starfsfólks hjá Strætó og getur fulltrúi Flokks fólksins ekki hunsað það. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram á fundi  fyrir skemmstu tillögu um að gerð verði starfsánægjukönnun hjá Strætó bs. af utanaðkomandi aðilum. Formaður borgarráðs neitaði að taka tillöguna inn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur þó fengið að leggja inn nokkrar fyrirspurnir til Strætó í gegnum borgarráð.

Það er greinilega mikil vanlíðan hjá mörgum í þessu fyrirtæki og hefur vanlíðan kraumað í mörg ár eftir fréttum að dæma. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það verði að koma utanaðkomandi óháð teymi, helst þverfaglegt, fagfólk sem ekki hefur komið áður að málum fyrirtækisins til að gera stjórnsýsluúttket. Taka þarf út hæfni stjórnenda og þ.m.t. samskiptahæfni í öllum deildum Strætó bs. og það verður að vera hafið yfir allan vafa að þeir sem greina, meta og veita ráðgjöf séu óháðir.

Fulltrúi Flokks fólksins spurðist fyrir um hjá Strætó hvort ekki væri virk stefna um viðbrögð við ofbeldi og aðgerðaáætlun hjá Strætó bs. og var sagt að svo væri og væru slík gögn aðgengileg öllum starfsmönnum á innri vef. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þótt allt sé til reiðu til að sinna góðum forvörnum og taka á ofbeldistilkynningum hefur ekki tekist að leysa mál farsællega þrátt fyrir að miklu fjármagni hafi verið varið í það. Einhverjir hafa hætt sökum þessa. Þegar mein er svo þrálátt er oft svo komið að meðvirkni ríkir með meintum geranda og meðvirkni ríkir e.t.v. innan yfirmannahópsins. Enda þótt yfirmenn séu ekki endilega gerendur er litlu skárra ef þeir eru meðvirkir eða sýna afskiptaleysi gagnvart meintu einelti og ofbeldi milli starfsmanna. Ef þetta er raunin getur það reynst þrautinni þyngri að leysa úr málum nema farið sé í róttækar aðgerðir, sumar hverjar sársaukafullar.

Fulltrúi Flokks fólksins veit að hvorki forstjóri né stjórn líður ofbeldi af hvers lags tagi hjá Strætó en ljóst er að skoða þarf málið nánar. Skoða þarf samskipti á öllum stigum og milli aðila, skoða stjórnun (yfir- og millistjórnendur) og starfsmannamál.

Einnig þarf skoða vaktakerfið, hvort það sé streituvaldandi, skoða þarf tímasetningu leiða og hvort knappur aksturstími eða eitthvað annað í starfinu valdi mögulega íþyngjandi álagi til lengri tíma.

Athuga þarf hvort þær nefndir innan fyrirtækisins sem eiga að fylgjast með að hlutir séu í lagi séu virkar og skili tilætluðum árangri.

Skoða þarf hvort starfsmenn líti á yfirmenn og stjórnendur sem stuðningsmenn, sem umbuni og hrósi en taki að sama skapi faglega á málum berist kvörtun um starfsmenn frá t.d. notendum þjónustunnar. Umfram allt þarf að skoða hvernig starfsmenn og stjórnendur koma fram við hvert annað. Er kurteisi og virðing, umburðarlyndi og umhyggja hluti af samskiptamenningu hjá Strætó?  Ef könnun leiðir í ljós að slíku er ábótavant þarf að grípa til úrræða og ekki hætt fyrr en sýnt þykir að úrræði hafa skilað tilætluðum árangri. Ef eineltismenning hefur gengið lengi er hún stundum orðin hluti af menningu fyrirtækisins.

Hvort samskipti séu góð eða slæm veltur á mörgu. Áhættuþættir eru margir,  svo sem lág laun og mikið álag og ef viðbætist upplifun að standa einn og hafa ekki skilning og trúnað millistjórnenda og yfirmanns er ekki von á góðu.

Strætó er þjónustufyrirtæki sem veitir mikilvæga þjónustu. Strætó hefur átt við ímyndarkreppu að stríða sem þarf að bæta. Kraumi vanlíðan, vegna vinnustaða ofbeldis/eineltis er fyrirséð að ímyndin mun ekki skána. Til að geta veit fulla og faglega þjónustu þarf starfsfólkinu að líða vel, vera sátt og geta hlakkað til að koma í vinnuna.

Skoða þarf einnig hvernig farið er með fjármuni fyrirtækisins, vert er að rýna í reikninga og skoða hvort hverri krónu sé ekki örugglega vel varið. Sé sóun og bruðl sýnilegt starfsmönnum eykur það vansæld, reiði og pirring enn frekar. Búið er að reyna að fá fyrirtæki út í bæ til að leysa málin en án árangurs.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skólamál í Laugardal:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um skólamál í Laugardal og Laugarneshverfi og fengið þau svör að starfshópur sé að rýna í stöðuna með tilliti til úrbóta í húsnæðismálum grunnskóla- og frístundastarfs. Starfshópurinn skilaði tillögum af sér síðastliðið vor en ekki hefur frést neitt frekar um málið. Fulltrúa Flokks fólksins og fleiri er farið að lengja eftir þarfagreiningu og sviðsmyndum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að vita hvar þessi mál eru stödd og hvenær megi vænta þess að sviðsmyndir verði birtar.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins: Reykjavíkurborg samþykkir að útvega Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt, húsnæði sem hentar þörfum þeirra.

Húsnæðið sem það hefur verið starfrækt frá hefur verið sett á sölu og eigandi óvænt samið við leigusala um nýjan samning með mun skemmri uppsagnarfresti en eldri leigusamningur kvað á um. Slíkt kemur starfsemi Peppsins í mjög slæma stöðu. Því er lagt til að unnið verði að því að finna Pepp hentugt húsnæði sem það geti leigt sem allra fyrst. Líkt og samhæfingarstjóri starfsins bendir á hentar fyrrum staðsetning, Álfabakki 12, starfinu fullkomlega varðandi staðsetningu og aðgengi og húsnæðið mætir þeim þörfum sem þurfa að vera til staðar. Nánar er fjallað um starfsemi Peppsins í greinargerð og mikilvægi þess fyrir fólk sem býr við fátækt og upplifir félagslega einangrun.

Greinargerð:

EAPN eru evrópsk samtök og afrakstur samstarfs nokkurra frjálsra félagasamtaka í baráttunni gegn fátækt en þau voru formlega stofnuð árið 1990 í Belgíu. Markmið samtakanna er að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun, vekja athygli á málefnum fátækra og stuðla að valdeflingu einstaklinga sem hafa glímt við fátækt. Stór þáttur í starfi félagsins er hagsmunagæsla (lobbíismi) t.d gagnvart stefnum stjórnvalda í hverju landi fyrir sig og veita stjórnvöldum þannig visst aðhald. EAPN starfar nú í 32 Evrópulöndum, er ekki hluti af Evrópusambandinu en nýtur stuðnings framkvæmdastjórnar þess (sjá nánar á eapn.eu og eapn.is).

EAPN á Íslandi, samtök gegn fátækt og Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt hefur verið starfrækt frá leiguhúsnæði í Álfabakka 12 í Mjódd. Hjálpræðisherinn á Íslandi var leigusali þar sem leiguverð á mánuði var 300.000.- Faxar ehf. er eigandi húsins sem umræðir. Húsnæðisvandi Peppsins felst í því að húsnæðið hefur verið sett á sölu og eigandi óvænt samið við leigusala um nýjan samning með 1 mánaðar uppsagnarfresti en eldri samningur var festur fram á árið 2022.

Fram til þessa hefur starfsemin farið fram í Álfabakka 12. Síðasta sumar eða frá 26. júní til 31. ágúst 2020 fór fram Sumarsamvera (verkefni sem var styrkt af Reykjavíkurborg). Frá og með 1. september hefur Pepp leigt húsnæðið af Hjálpræðishernum undir verkefninu Samfélagshús en þeim hefur þótt Fjölskyldu og fjölmenningasetur raunsærri nafngift. Líkt og samhæfingarstjóri Peppsins og aðrir hafa bent á, hentar Álfabakkinn í Mjódd fullkomlega upp á staðsetningu, aðgengi og húsnæðið sjálft mætir þeim þörfum sem óskað er eftir. Það er því mjög erfitt fyrir Peppara (meðlimi Peppsins) að missa óvænt það öryggt sem húsnæðið hefur veitt. Óöryggið fer mjög illa með viðkvæmustu skjólstæðinga Peppsins, sérstaklega þá sem glíma við mikla erfiðleika í sínu lífi og hafa litið á Fjölskyldu og fjölmenningarsetur sem öruggan fasta í sínu lífi.

Í Álfabakkanum hafa þau boðið upp á kaffihús fyrir fólk í fátækt og félagslegri einangrun og á þann hátt hafa þau skapað miðstöð fólks í fátækt sem er ekki bara er með notalega viðveru og frítt að borða heldur býður slíkt einnig upp á barnahorn, gefins horn með fatnaði, aðgang að tölvu og prentara, aðstoð við umsóknir ofl. Ennfremur er boðið upp á stuðningsviðtöl, jafningjafræðslu og upplýsingar eru veittar um hvert fólk getur leitað ef ekki er hægt að aðstoða á staðnum.

Fjölskyldu og fjölmenningarsetur, er hugsað sem tvíþætt verkefni, annars vegar til að rjúfa félagslega einangrun og gefa jaðarsettum hópum samastað sem þeim líður vel á og hins vegar sem valdeflandi og uppbyggilegt virkniúrræði fyrir fólk í fátækt og/eða félagslegri einangrun þar sem það fær valdeflandi hlutverk og starf sem sjálfboðaliði.

Tölulegur árangur af starfseminni frá sumrinu 2020 er eftirfarandi:

Sumarsamvera 2020: 2.499 manns með skráða komu í kaffi í þessu 8 vikna verkefni.

Sumarsamvera 2021: 5.361 manns (opið alla virka daga frá 1. júní til 20. ágúst)

Árið 2021 í heild: 9.034 manns þrátt fyrir covid lokanir og snemmbæra lokun 8. október.

Húsnæðisþörf fyrir óbreytt starf er eftirfarandi:

Salur fyrir kaffihús, fundi og viðburði. Eldhús til að baka og elda fyrir starfið. Rými fyrir Iðjuna (föndurstöð sem byggir á því hlutverki að gefa tækifæri til sköpunar sem hluta af markvissri sjálfsstyrkingu.) Skrifstofurými fyrir EAPN og Pepp. Viðtalsherbergi fyrir Pepp. Búr og/eða pláss til að geyma matvöru, kæla og frysti. 2 til 3 snyrtingar amk. 1 með hjólastólaaðgengi. Aðgengi þarf að vera gott og góðar samgöngur. Húsnæðið þarf allra helst að vera í Mjódd, því þar í kring er þörfin mest.