Borgarráð 2. desember 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 1, vegna Arnarbakka:

 

Svæðið við Arnarbakka 2 er svæði sem hægt er að gera að góðri íbúðabyggð. Núverandi byggingar eru ekki varðveisluverðar. Hér er því hægt og mikilvægt að vanda til verka og reisa byggingar sem eru fallegar, áhugaverðar og á góðum stað. Hönnun þessa svæðis ætti að setja í samkeppni. Skýra þarf hvernig umferðarmálin munu verða. Eins og er, er ljóst að Arnarbakkinn, framhjá Breiðholtsskóla, ber ekki mikla umferð. Þarna getur stefnt í þrengsli ef ekki er að gætt.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 3, vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells:

Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða, hverfið þarf að bæta. Margar litlar aðgerðir mynda að lokum stóra breytingu. Þarna ætti að fara sér hægt en stefna einbeitt að því að bæta hverfið með mörgum þáttum og fjölga íbúum. Í hverfinu eru ekki friðaðar byggingar og því ekki nauðsynlegt að nýta þær áfram. Breyting felst m.a. í heimild til niðurrifs á leikskólunum Litla Holti og Stóra Holti auk uppbyggingar nýs leikskóla. Fulltrúi Flokks fólksins vill hvetja skipulagsyfirvöld til að hafa gott samráð við alla þá sem tengjast þessari breytingu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. nóvember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 24. nóvember 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar vegna lóðanna nr. 2D, 4 og 6 við Álfabakka:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu vegna lóðanna nr. 2D, 4-6 við Álfabakka. Fram kemur að byggingarmagn minnkar lítillega, Heildarbyggingarmagn verður fyrir A-rými 6.890 m² og minnkar um 110 m² og B-rými verður 520 m² á 1-2 hæðum og minnkar um 180 m². Engu að síður eru áhyggjur margra sem fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt í, að byggingarmagn sé of mikið og eru áhyggjurnar í tengslum við umferð og bílastæði. Með stækkun tjarnarinnar er áætlað hún geti tekið við allt að 9.000 m³. Einnig er lagt til að í samráði við ÍR verði reynt að auka við rúmmálið innan lóðar ÍR og á uppdrætti er brotalína sem sýnir mögulegt svæði. Með stækkun tjarnarinnar verður að minnka lóðir við Álfabakka 2d og 4.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki reglur um bílastæði fyrir visthæfar bifreiðar í Reykjavík, ásamt fylgiskjölum:

Samkvæmt tillögu meirihlutans eiga reglur að vera óbreyttar. Þar sem við erum öll sammála um að vilja flýta orkuskiptum má spyrja hvort ekki ætti að útvíkka ívilnanir sem þessar. Því fyrr sem fólki gefst kostur á að eiga vistvænt farartæki því betra. Rafbílar eru enn dýrari en bensínbílar og hafa ekki allir efni á að eignast slíka bíla. Hvetja þarf þá sem eru efnameiri og sem enn aka um á bensínbílum að skipta yfir í vistvænna ökutæki. Endurmeta þarf hvað eru visthæfar bifreiðar. Eins og er, eru bílar sem ganga fyrir metani visthæfustu bifreiðarnar. Tímabært er því að hvetja til notkunar metans. SORPA ræður ekki við það verkefni þannig að borgarstjórn verður að taka málið að sér. Svo er gjaldlausi tíminn fullstuttur. Eðlilegra væri að hafa hann í tvo tíma. Að sinna erindum í miðbænum tekur oft meira en hálfan annan tíma. Þetta er eitt af því fjölmörgu sem Reykjavíkurborg getur gert í orkuskiptum?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 24. nóvember 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 23. nóvember 2021 um leikskóla með sumaropnun:

Aðeins þrír leikskólar munu hafa það hlutverk að vera opnir í sumar. Þetta er engan veginn fullnægjandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að skóla- og frístundasvið taki fyrirkomulagið sem viðhaft er í Hafnarfirði sér til fyrirmyndar en þeir eru opnir allt árið um kring til að koma til móts við óskir foreldra og auka möguleika á að foreldrar geti verið í sumarleyfi á sama tíma og börn þeirra. Í Reykjavík hins vegar er leikskólum öllum lokað á sama tíma. Foreldrar hafa ekkert um það að segja hvenær barnið fer í frí. Í Hafnarfirði og í fleirum sveitarfélögum eru þessi mál til fyrirmyndar. Starfsemi leikskóla tekur mið af fjölda barna hverju sinni og getur því vissulega verið með breyttu sniði yfir sumartímann þegar flest börn eru í leyfi. Sumarstarfsfólk úr Vinnuskóla bætist við hóp starfsfólks leikskólanna yfir sumartímann. Þarna er tækifæri til að minnka manneklu og einnig hjálpa skólafólki að fá vinnu. Vel mætti skoða að fá fleiri unglinga til starfa úr vinnuskólanum og einnig þá sem eru 18 ára og eldri. Gert yrði að sjálfsögðu ráð fyrir að ungmennin undirgengjust námskeið og störfuðu undir handleiðslu. Jafnréttismat sýnir glöggt hvernig skerðingin kemur verst niður á vinnandi mæðrum, lágtekjufólki, fólki af erlendum uppruna og þeim sem hafa lítinn sveigjanleika í starfi. Útlit er fyrir að skerðingin verði mikil afturför í jafnréttisbaráttunni.

 

Bókun Flokks fólksins við svari velferðarsviðs, dags. 29. nóvember 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þjónustu við fatlað fólk sem ekki getur nýtt rafrænar lausnir, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. nóvember 2021:

Fjölmargir hafa varað við einhliða upptöku rafrænna lausna, til dæmis þeir sem koma að málefnum fatlaðra einstaklinga. Fatlaðir einstaklingar eru ólíkur hópur með ólíkar þarfir. Brotin eru mannréttindi á þeim með því að krefjast rafrænna hlekkja án þess að hlusta á þau varnaðarorð sem fram hafa komið frá Þroskahjálp og fleirum. Fyrir þennan hóp verður að finna aðrar leiðir fremur en að reyna að ná fram skammtíma „hagræðingu“ fyrir þjónustuveitendur. Hinn rafræni faðmur hins opinbera er ekki eins tryggur og ætla mætti og býður upp á margskonar mistök. Nauðsynlegt er að mæta þörfum fatlaðra á mennskan máta og hlusta á raddir þeirra. Nauðsynlegt er að bjóða aðrar auðkennisleiðir og útbúa auðlesið upplýsingaefni á pappírsformi. Það er ekki heillavænlegt að fara aðeins einstefnu stafræna leið! Það verða alltaf fatlaðir einstaklingar í þjóðfélaginu!

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. nóvember 2021, um hugmyndafræði við hönnun leikskóla:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að hönnun nýrra leikskóla byggi á hugmyndafræði um bæði algilda hönnun og hönnun sem hverfist um arkitektúrinn og rýmisgildi þannig að rými tengjast og tryggja sveigjanleika og fjölbreytni í notkun og rekstri. Tillögunni er vísað frá. Einnig var lagt til að skoðað yrði með hvaða hætti væri hægt að breyta eldri leikskólum með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli. Með frávísun má draga þá ályktun að ekki sé áhugi á að horfa sérstaklega til leikskóla í þessum efnum. Til eru leikskólar sem hafa verið hannaðir með þessa þætti í huga og má nefna Múlaborg. Fleiri leikskólar þyrftu að vera eins og hann. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda. Ástandið er sérlega slæmt þar sem er mikil mannekla. Þar sem vel hefur tekist til eru öll starfsmannaklósett inni í kennslustofum nemenda, fatahengi barna eru inni í kennslustofu barna, hver kennslustofa hefur sér útihurð til að komast að leikvellinum og sameign er hönnuð þannig að starfsmenn hafi ávallt yfirsýn yfir börnin.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vinna við stefnu mannvirkja á vegum skóla- og frístundasviðs er á lokametrunum og í umsagnarferli. Algild hönnun er óaðskiljanlegur partur af þeirri stefnu. Tillagan bætir litlu við þá vinnu sem þar hefur farið fram og er henni vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð íbúaráðs Háaleitis og Bústaðahverfis frá 25. nóvember:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að íbúaráðin séu framhandleggur íbúa hverfisins inn í „kerfið“ og borgarstjórn og gæti þess ávallt að rödd fólksins heyrist. Þetta hefur reyndar ekki verið upplifun af íbúaráðum sem eru afar misjöfn. Stundum hefur þurft að berjast fyrir að koma máli sem brennur á íbúum á dagskrá íbúaráðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur stundum lýst íbúaráðum eins og minni útgáfu af borgarstjórn þar sem meirihlutinn ræður umræðunni og afgreiðslu mála. Á þessum vettvangi verður að vera hægt að skiptast á skoðunum, takast á um málefni ef því er að skipta og forðast umfram allt hóplyndi. Íbúðaráðin eru ekki eins og einhver saumaklúbbur. Í þeirri fundargerð sem hér um ræðir mætti koma skýrar fram hvað er til umræðu. Sem dæmi eru liðir 3 og 4 ansi snautlegir í fundargerðinni. Hér mætti vera nánari útlistun t.d. á hvaða nótum þessar umræður voru.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar ofbeldisvarnarnefndar:

Kynning á rannsóknum á körlum sem beita konur ofbeldi, skýringar og reynsla af meðferð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að ræða og fræða um þessi mál og skal fræðsla ávallt verið byggð á nýjum, ritrýndum rannsóknum. Fræðimenn eru sammála um margt en enn er margt sem eftir er að rannsaka. Of fá úrræði hafa verið fyrir þá sem beita ofbeldi og kannski hafa þau úrræði sem staðið hafa til boða verið of einsleit. Ein tegund úrræða hentar ekki öllum. Þeir sem beita ofbeldi vilja upp til hópa fá aðstoð og hana þurfa þeir að fá. Að horfast í augu við eigin ofbeldishegðun er fyrsta skrefið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að þessi kynning sem ber heitið Samræða um ofbeldi hafi átt sér stað í ofbeldisvarnarnefnd.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs 1. desember:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgaryfirvöld beittu sér fyrir að 18 ára aldurstakmark yrði sett til að aka um á rafmagnshlaupahjólum sem náð geta meira en 25 km hraða. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að aldursmörk vegna léttra rafknúinna farartækja þurfi að skoða í samhengi við aldursmörk bílprófs. Það er ábyrgðarhluti að hunsa þessa tillögu nú þegar sprenging hefur orðið í tíðni alvarlegra slysa á rafhlaupahjólum. Reykjavíkurborg getur sent erindi til ríkisins og óskað eftir samvinnu um þessi mál hið snarasta. Reykjavíkurborg verður að gera allt sitt til að draga úr slysum og beita sér fyrir að hjólin séu notuð með ábyrgum og öruggum hætti. Fram undan er hálkutíð og í hálku eru rafhlaupahjólin hættuleg. Það er ekki bara nóg að fagna þessum skemmtilega samgöngumáta heldur þarf að fræða um hvernig nota á þessi hjól rétt svo enginn hljóti skaða af. Reykjavíkurborg getur beitt sér fyrir því að efla vakningu meðal foreldra og fræðslu til barna um notkun hjólanna og um hætturnar í umferðinni. Annað vandamál er að dæmi eru um að hlaupahjól fari hraðar en leyfilegt sé, það er á 25 km hraða og eru þar með ólögleg.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar stjórnar Strætó bs.

Fulltrúi Flokks fólksins bendir á athugasemdir fatlaðs fólk um Klapp, nýtt greiðslukerfi Strætó bs. Einungis er hægt að skrá sig með rafrænum skilríkjum sem veldur því að sökum fötlunar getur fatlað fólk ekki valið lykilorð og má ekki fá aðstoð við það. Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki á hvernig hægt var að hanna og þróa kerfi sem útilokar einn samfélagshóp með svo tillitslausum hætti. Fjölmargir hafa varað við einhliða upptöku rafrænna lausna þegar kemur að fólki með fötlun. Fatlaðir eru mismunandi með mismunandi þarfir. Það verður að finna leið þar sem fatlaðir geta auðkennt sig á annan hátt.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um það hvað Strætó hyggist gera til að bæta úr þessum vanköntum. Af hverju var ekki hugsað út í þarfir þessa hóps þegar verið var að hanna og þróa nýtt greiðslukerfi? Hvernig á að hafa fyrirkomulagið á meðan verið er að leita lausna?:

Nýlega var tekið í notkun nýtt greiðslukerfi hjá Strætó bs. sem kallast Klapp. Kerfið er hamlandi fyrir öryrkja og fólk með þroskaskerðingu. Greiðslukerfið er rafrænt og virkar þannig að farsími eða kort er sett upp við skanna í vagninum þegar greitt er fyrir farið. Öryrkjar fá afslátt af Strætó-fargjaldinu en til að virkja afsláttinn þurfa þeir að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Vandinn er sá að stór hópur fólks með þroskahömlun er ekki með rafræn skilríki. Sökum fötlunar geta þau ekki valið lykilorð og mega þau ekki fá aðstoð við það. Fulltrúi Flokks fólksins vekur athygli á athugasemdum fatlaðs fólk og leggur hér fram fyrirspurnir um það hvað Strætó hyggist gera til að bæta úr þessum vanköntum. Af hverju var ekki hugsað út í þarfir þessa hóps þegar verið var að hanna og þróa nýtt greiðslukerfi? Hvernig á að hafa fyrirkomulagið á meðan verið er að leita lausna? R21120003

Vísað til umsagnar Strætó bs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn tegundum, skipting mála eftir sviðum og skrifstofum, skiptingu mála eftir kynjum og aldursgreiningu, skiptingu mála eftir afgreiðslu þeirra og stöð í málaskrá:

Nú er komið rétt um ár síðan embætti umboðsmanns borgarbúa var lagt niður í þeirri mynd sem það var og sameinað innri endurskoðun. Hlutverkinu er lýst innan innri endurskoðunar þannig að borgarbúum sé veitt ráðgjöf og þeim leiðbeint í þeim samskiptum sínum við borgina og fræðir jafnframt starfsmenn borgarinnar um framkvæmd innra eftirlits, persónuvernd og meginreglur stjórnsýsluréttar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda kvartana, erinda og fyrirspurna frá því sameiningin átti sér stað, skiptingu mála eftir tegundum, skipting mála eftir sviðum og skrifstofum, skiptingu mála eftir kynjum og aldursgreiningu, skiptingu mála eftir afgreiðslu þeirra og stöð í málaskrá. Óskað er samanburðar milli ára. Hver var sami fjöldi 2018, 2019 og 2020? Fulltrúi Flokks fólksins er með þessum fyrirspurnum að kanna hvort málum hafi farið fækkandi eftir flutninginn, fjölgandi eða staðið í stað. R21120004

Vísað til umsagnar innri endurskoðanda og ráðgjafar.