Skipulags- og samgönguráð 7. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins á áhrif hraða á mengun vegna umferðar, kynning

Lögð fram skýrsla Háskóla Íslands til Vegagerðarinnar um niðurstöður rannsókna á áhrifum hraða á mengun vegna umferðar, dags. 2021:

Fram kemur að svifryksmengun frá umferð hverfa ekki með aukinni rafbílavæðingu. Í sjálfu sér hefur kannski engin haldið því fram. En bílar sem knúnir eru á vistvænni orku hljóta nú engu að síður að vera framtíðin þótt það komi ekki mikið fram í þessari skýrslu. Varast skal að tala niður raf- vetni- og metanbíla. Sjálfsagt er að horfa hvað mest til nagladekkjanna en ekki síður til þess að malbik sé gott og götur séu hreinsaðar. Nagladekk hafa bjargað mörgum lífum. Lélegt malbik hefur kostað líf. Söltun og skolun hefur mikil áhrif til bóta. Umferðarteppur eru ekki til að hjálpa, bílar aka í hægagangi í langri röð eða eru sífellt að stoppa á ljósum þar sem jafnvel rautt ljós logar löngu eftir að búið er að þvera gangbraut. Stýring umferðarljósa þ.m.t. gangbrautarljósa er þekkt vandamál víða í borginni. Athyglisvert er hversu ökuhraði hefur mikil áhrif á svifryksmyndun ef marka má niðurstöður. Mestu skiptir að í venjulegum húsagötum sé ökuhraði lítill. Annar áhrifavaldur á svifryksmengun eru skítur og óhreinindi gatna. Götur í Reykjavík eru almennt séð taldar illa þrifnar. Ekki einu orði er minnst á hreinsun gatna í skýrslunni.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Sjómannaskólareitinn

Mál nr. US210077

Fram hefur komið í miðlum að leggja átti fram gögn á samráðsfundum varðandi breytingar á Sjómannaskólareitnum en eftir því sem næst er komist hefur það ekki verið gert þrátt fyrir að íbúar hafa sent bréf til borgaryfirvalda og margítrekað að fá þessi gögn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um þessi gögn og hvenær eigi að opinbera þau? Ekki er seinna vænna að öll gögn komi upp á borð nú þegar búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Í þessu máli hafa verið mikil átök og því afar mikilvægt að gegnsæi ríki í málinu á öllum stigum þess.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um merkingar við göngugötur

Mál nr. US210078

Nú er heimild í lögum að P merktir bílar aki göngugötur og lögum þarf að fylgja. Enn vantar viðeigandi merkingar, skilti til að merkja þessa lagaheimild. Það hefur orðið til þess að fólk á P merktum bílum hefur orðið fyrir aðkasti. Eftir því sem næst er komist stendur ekki til að merkja göturnar í samræmi við lagaheimildina t.d. með því að setja upp skilti eða aðrar merkingar sem gefa til kynna að eigendur P merktra bíla hafi þessa heimild. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig ætla skipulagsyfirvöld að tryggja að hreyfhamlað fólk verði ekki fyrir aðkasti aki þeir göngugötu þegar merkingar eru ekki nákvæmari en raun ber vitni?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um rafbíla og bílastæðakort

Mál nr. US210079

Nú vill meirihlutinn að íbúar í miðbænum fái aðgang að bílastæðum gegn gjaldi, sem getur verið mishátt, og á sérvöldum svæðum í stað þess að íbúar eigi sérbílastæði. Í Osló þurfa eigendur rafbílar, vetnisbíla og fólk með hreyfihömlun ekki að kaupa kort. Í Drammen þarf að skrá rafbíla en ekkert að borga. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sama fyrirkomulag verði í Reykjavík og er í Osló og Drammen þegar kemur að raf-, vetni og metan bíla. Þessi tillaga ætti að falla skipulags- og samgönguyfirvöldum vel í geð enda hafa þau tekið nánast flest allt upp eftir yfirvöldum í Osló þegar kemur að skipulags- og samgöngumálum í Reykjavík.

Miðbærinn er orðið svæði sem er dýrt að búa á og stefnir í að það verði hverfi fyrir efnameira fólks í framtíðinni. Útgjöld munu sannarlega aukast og dýrt verður einnig að koma sem gestur. Öll viljum við flýta orkuskiptum enda munar um hvern bíl sem ekki mengar. Með því að taka upp þann hátt sem Osló og Drammen hafa gætu fleiri viljað skipta yfir í raf, vetni eða metan bíla sem ekki hafa nú þegar gert það.

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu meirihlutans á tillögu um bílastæði við heimili í miðbænum:

Tillagan er felld en hún gekk út á að fylgt yrði fordæmi sem finna má í Osló og Drammen um að íbúar miðbæjarins sem eru eigendur rafbíla og vetnisbíla og fólk með hreyfihömlun séu ekki tilneydd að kaupa bílastæðakort til að leggja í nálægt eða í göngufjarlægð frá heimili sínu. Lengi vel var talið sjálfsagt að a.m.k. eitt stæði fylgdi húsnæði en undir stjórn þessa meirihluta er nú að verða æ algengara að engin bílastæði fylgi íbúð/húsi. Á óvart kemur að skipulagsyfirvöldum hugnist ekki þessa tillaga fulltrúa Flokks fólksins þar sem að öllu jöfnu hafa þau viljað gera allt eins og gert er í Osló þegar kemur að skipulags- og samgöngumálum í Reykjavík.

Miðbærinn er orðið svæði sem verður dýrt að búa á. Ekki allir eigendur fasteigna svæðisins eru ríkt fólk. Útgjöld munu aukast og dýrt verður að koma sem gestur. Öll viljum við flýta orkuskiptum enda munar um hvern bíl sem ekki mengar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skipulagsyfirvöld eigi að endurskoða þessa ákvörðun sína um að fella tillögu Flokks fólksins. Með því að taka upp þennan hátt sem Osló og Drammen hafa, gætu fleiri íbúar miðbæjarins viljað skoða að skipta yfir í raf, vetni eða metan bíla sem ekki hafa nú þegar gert það.