Skipulags- og samgönguráð 8.12. 2021

Bókun Flokks fólksins við liðinum Elliðarárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, tillaga:

Byggja á allt að 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Fram kemur að ,,Markmið deiliskipulagsins er að sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins” og: ,,Mikilvægt er að varðveita og vernda lífríki og lágmarka sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaráa og strandlengju Elliðarárvogs. Hér er um öfugmæli að ræða. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun hafa mikil áhrif á lífríkið. Rústa á dýrmætasta svæðinu sem eru fjörurnar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaráa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Alltof mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til.

 

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.1 Neðra Breiðholt, tillaga:

Í þessum gagnapakka er að finna bréf frá Vegagerðinni og Kópavogsbæ um Arnarnesveginn. Athugasemdir beggja aðila valda áhyggjum. Vegagerðin bendir á að skv. Vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði stofnvega 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vega en 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega. Framkvæmdir innan veghelgunarsvæða eru háðar leyfi frá Vegagerðinni. Hér er líklega verið að hnýta í fyrirhugaðan Vetrargarð og þetta segir að Arnarnesvegurinn mun skerða þróunarmöguleika hans. Og svo er athyglisvert að Kópavogur vill einnig hafa áhrif á skipulagið við Arnarnesveg og heimtar óbeint að sá vegur eigi að geta stækkað verulega frá núverandi meingölluðu skipulagi. Er það eðlilegt að annað sveitarfélag sé að stýra skipulagi í Reykjavík? Verður Arnarnesvegurinn að umferðarþungri umferðaræð sem hindrar útivist, rústar Vatnsendahverfinu og efsta hluta Elliðarárdals? Kópavogur ætlar sér að stýra hvernig svæðum umhverfis Arnarnesveg verði ráðstafað í skipulagi „svo áframhaldandi afkastageta vegarins verði tryggð“ eins og segir í þeirra umsögn. Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag mun fara yfir mörkin í umferðarspá í umhverfismatinu frá 2003. Verður ekki að gera nýtt umhverfismat? Einnig má spyrja af hverju það hafi aldrei verið skoðað að leggja veginn í göng eða stokk til að vernda umhverfi, náttúru og útivistarmöguleika svæðisins?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um hraðahindranir

Í Reykjavík eru hraðahindranir í nokkrum útgáfum, stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu og stundum koddar/bungur í mismunandi gerðum. Farið er eftir norskum leiðbeiningum í þessu efni.

Verið er að setja tugi af alls konar hraðahindrunum um þessar mundir.

Spurt er um fjölda og gerð þeirra hraðahindrana sem verið er að gera núna (sem eru í vinnslu) og kostnað?

Hvað er fyrirhugað að setja margar hraðahindranir árið 2022?

Hvernig gerðar eru þær?

Hver er fyrirhugaður kostnaður?

Hvað margar af þessum hraðahindrunum eru einskorðaðar við 30 km götur?

Frestað.