Skipulags- og samgönguráð 7. júlí 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum Gufunes, samgöngutengingar, nýtt deiliskipulag:

Lega Sundabrautar er ekki klár, það er aðalvandinn í þessu máli. Nú á að fara einhverjar bráðabirgðarleiðir sem gætu átt eftir að kosta mikið en verður ekki varanlegt. Vissulega þarf að finna samgöngutengingar. Hér er ekki hægt að hugsa í líkum, hvað mögulega kann að vera. Það er nauðsynlegt að ákvarða fyrst nákvæma legu Sundabrautar áður en farið er að fjárfesta í dýrum framkvæmdum annars gæti orðið um tvíverknað að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hinkrað verði með þessa vinnu til að tryggja að ekki sé verið að sóa fjármagni, út í loftið.


Bókun Flokks fólksins við liðnum Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, stýrihópur um innleiðingu:

Stýrihópurinn er skipaður tveimur frá meirihluta og einum frá minnihluta. Þetta er þröngur hópur og finnst fulltrúa Flokks fólksins rík ástæða til að stækka hann, fá fleiri um borð. Hér er verið að fjalla um fimm milljarða fjárfestingu að lágmarki. Eins og í flestum málum hjá borgarmeirihlutanum er sífellt lögð áhersla á að kaupa ráðgjafarþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju talið er nauðsynlegt að taka það fram á þessu stigi? Sumt af því sem verið er að kaupa ráðgjafarþjónustu fyrir gæti borgarkerfið mögulega vel ráðið við með sína fjölmörgu fagmenntuðu starfsmenn. Aðkeypt vinna kostar mikið.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Héðinsreitur/Vesturgata 64 og Ánanaust, (fsp) uppbygging:

Málið var rætt og kynnt í borgarráði 2019. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hafði þá og hefur enn efasemdir um þessa inngarða sem þarna eru sýndir í kynningu Umhverfis og skipulagsráðs. Sumir svona inngarðar hafa verið algerlega mislukkaðir sbr. garðurinn bak við t.d. Ásvallagötu/Ljósvallagötu. Þar er ekkert birtumagn og ekkert þrífst þar.

Ætla má að skuggahornin og skuggasvæðin í slíkum görðum sem hér er lýst verði mörg og spurt er hvernig plöntur og gróður eigi þar að þrífast en fram kemur að hver garður eigi að hafa mismunandi plöntuþema. Minnumst þess að íslensk sumur eru stutt og svöl og flestum plöntum og gróðri veitir ekki af þeirri sól sem þau geta fengið. Aðrar áhyggjur eru að þessar íbúðir muni seljast dýrt eins og gjarnan er raunin á þessu svæði. Hér er um mikinn fjölda íbúða 330 íbúðir og hótel með 230 hótelherbergi. Borgarfulltrúi hefur einnig áhyggjur af umferðinni á þessu svæði sem nú þegar er mikil.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Lækkun hámarkshraða í samræmi við hámarkshraðaáætlun, Fyrsti áfangi:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að lækka hraða í íbúðagötum og í götum sem skólar eru og börn á ferð. Þær götur sem engir skólar eða íbúðahús standa beint við er hins vegar engin nauðsyn að lækka hraðann niður í 30 eða 40 km/klst.

Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og svifryksmyndun. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Gjald fyrir bílastæðakort íbúa í Reykjavík, tillaga:

Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki nýja gjaldskrá fyrir gjöld á bílastæðum í Reykjavík. Íbúar sem búa í Miðborginni eiga að sjálfsögðu að eiga kost á bílastæðum í nágrenni við heimili sín en þróunin er sú hjá þessum meirihluta að draga úr einkabílastæðum við hús fólks. Ársgjald er 1250 fyrir „hreina“ rafmagnsbíla en 2500 fyrir aðra. Um er að ræða hækkun gjalds upp á meira en 200%.

Fulltrúi Flokks fólksins finnst að svokallaðir tvinnbílar eigi að vera í flokki vistvænna bíla enda ekki hægt að álykta sem svo að þeir séu að aka á bensíni frekar en rafmagni. Fulltrúa Flokks fólksins hefur áður bókað um bílastæðahúsin í þessu sambandi. Breyta mætti fyrirkomulagi bílastæðahúsa enda eru þau langt því frá að vera fullnýtt. Þau ættu að vera opin allan sólarhringinn og skoða mætti að lækka gjöldin í þeim til muna. Þá myndu bílum fækka á götum.


Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins, um gangbraut við Freyjubrunn/Lofnarbrunn.

Tillaga um gangbraut við Freyjubrunn/Lofnarbrunn. Ekki er talin þörf á gangbraut á þessum stað að mati skrifstofu samgöngustjóra. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að á þessum stað er engin göngutenging og hlýtur það að stangast á við öryggisstaðla. Í svari er nokkur mótsögn, annars vegar að það komi til greina að merkja gangbraut nærri biðstöð Strætó en hins vegar að samkvæmt forgangsröðun umferðaröryggisaðgerða, þá verði það hvorki gert á þessum stað eða þetta ár. Hver ræður þessu í raun og veru? Er ekki rétt að hlusta á það sem fólk segir, vegfarendur sem telja öryggi ábótavant við biðstöð Strætó á þessum stað?


Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, um Hagkvæmt húsnæði, umsögn:

Spurt er um hagkvæmt húsnæði og fleira því tengt. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um þann alvarlega skort sem er á hagkvæmu húsnæði í borginni þrátt fyrir loforð um annað. Í sölu eru nú um 200 íbúðir en þyrftu að vera 900 til að tryggja eðlilegt flæði. Þetta stendur til bóta en ekki strax. Það sem gerist í framtíðinni er ekki að hjálpa þeim sem vantar hagkvæmt húsnæði í dag. Einnig er skortur á stærra húsnæði fyrir þá sem þess óska. Sagt er að húsnæðisstefna snúist um að tryggja öllum húsnæði en það er bara ekki raunin, allavega ekki í dag.

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgin eigi að þróast þannig að hún geti mætt þörfum og væntingum allra þótt það þýðir meiri dreifingu hennar en þéttingarstefna meirihlutans segir til um. Minnstu íbúðirnar sem sumir héldu að myndu verða hagkvæmari fyrir vikið eru hins vegar hlutfallslega dýrari en þær stærri, sérstaklega á ákveðnum svæðum. Minna húsnæði ætti að vera ódýrara en stærra húsnæði öllu jafna. Fjölskyldur eru misstórar og sumir vilja nýta rými utan húss til ýmissa hluta, ræktunar eða vinnutengdra verkefna.


Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um auglýsingakostnað vegna nagladekkjanotkun:

Það vakti undrun að borgin keypti rándýra þjónustu Eflu til að halda utan um talningu nagladekkja. Verkefni af þessu tagi hefðu starfsmenn skipulagssvið vel geta annast, nóg fer nú samt af fjármagni borgarinnar til ráðgjafafyrirtækja. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort ekki er annars tímabært að kanna af hverju notkun nagladekkja minnkar ekki? Er ekki hluti af ástæðunni að þörf er á þeim?

Í efri byggðum er t.d. ekki snjó rutt af vegum fyrir venjulegan vinnutíma, götur er oft mjög hálar, smávægilegar brekkur verða að vetri til óviðráðanlegar bílum á naglalausum dekkjum. Spara mætti auglýsingakostnað og nota féið í staðinn til að sinna vetrarþjónustu betur en nú er gert. Hitt er svo annað mál hvort hægt sé að samþykkja að borgin skuli ráða Eflu í svo einfalt verkefni sem er utanumhald við talningu nagladekkja. Fjárhæðin er trúnaðarmál. Borgaryfirvöld vilja ekki að borgarbúar viti hvað þetta kostar mikið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki boðlegt að upplýsingum sé haldið leyndum fyrir borgarbúum í allri umræðu meirihlutans um gegnsæi.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um kostnað vegna nagladekkjatalningar:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um kostnað vegna nagladekkjatalningar og af hverju rándýr verkfræðistofa væri fengin til að halda utan um slíkt verkefni. Svörin bera það með sér að engin ástæða er til að fá verkfræðistofu til að sjá um talningarnar. Starfsmenn borgarinnar geta auðveldlega séð um þetta og enga sérfræðimenntun þarf til að telja dekk eða halda utan um slíkt verkefni. Langflestir kunna að telja upp í hundrað og jafnvel upp í þúsund eða meira. Hér er augljóslega verið að sóa féi borgarbúa með óþarfa milliliði. Bent er á að einingarverð verkfræðistofunnar er tæpar 15 þúsund/klst. Hver hálftími sem er skráður á samskipti- sennilega eitt símtal, kostar sitt, eða rúmar sjö þúsund krónur. Fulltrúi Flokks fólksins spurði um þóknun til Eflu fyrir að telja nagladekk og er svarið trúnaðarmerkt. Af hverju? Engin rök fylgja svo álykta má að sú tala sem birt er þyki skipulagsyfirvöldum þessleg að best er að hún komi ekki fyrir almenningssjónir.

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, fyrir hönd íbúa í Úlfarsárdal:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram ýmsar spurningar sem íbúar í Úlfarsárdal höfðu ítrekað reynt að fá svör við en ekki fengið. Um var að ræða spurningar sem lutu að umhverfinu og öryggismálum m.a. Fram kemur í svari að öllum þessum spurningum hefur verið svarað en tekið hafi tíma að fá svör frá mismunandi skrifstofum. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að íbúum sem hafa verið að spyrja um mikilvæg atriði í Úlfarsárdal finnist svörin fullnægjandi og að samskipti þeirra og skipulagsyfirvalda verði betri í framtíðinni.

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um skipulagsmál í Úlfarsárdal:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Nú liggur fyrir að hverfið er komið í sína endanlegu mynd og er sú mynd nokkuð einsleit að mati fulltrúa Flokks fólksins, mest blokkir og eitthvað um par- og raðhús. Þarna hefði mátt hafa meiri fjölbreytni í stærð eigna og ólík verðbil. Ekki skortir landrými. Nú er bæði skortur á hagkvæmu húsnæði og stærri eignum með meira rými umhverfis og er barist um hverja einustu eign sem kemur á sölu. Vonandi líður ekki á löngu áður en ábendingum um að gönguleiðir séu ófullgerðar og frágangi á götum ljúki. Uppbygging þessa hverfis hefur tekið langan tíma og þess vegna er ekki skrýtið að fólk sé farið að lengja eftir að verkefnum s.s. sem snyrtingu á umhverfi og að umferðaröryggismál fari að taka á sig fullnægjandi mynd.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um Sjómannaskólareitinn, umsögn:

Óskað var eftir upplýsingum um gögn sem lofað var að leggja fram á samráðsfundum varðandi breytingar á Sjómannaskólareitnum en eftir því sem næst er komist hefur það ekki verið gert þrátt fyrir að íbúar hafa sent bréf til borgaryfirvalda og margítrekað að fá þessi gögn.

Nú segir í svari frá skipulagsyfirvöldum að öll gögn sem lögð voru fyrir skipulags- og samgönguráð í undirbúningi og á skipulagstíma verkefnisins voru opinber og afhent hverjum þeim sem þess óskaði.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að einmitt svona orð gegn orði, orð borgarbúa gegn orðum skipulagsyfirvalda sé ekki óalgengt þegar um skipulags- og samgöngumál er að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins vonar vissulega að allir hafi sömu upplýsingar. Málefni Sjómannaskólareitsins hefur verið erfitt. Svæði hefur tilfinningagildi fyrir marga og mikilvægt að fullkomið gegnsæi gildi í þessu máli eins og öllum öðrum.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna landfyllinga í Álfsnesi, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins minnist þess ekki að fyrirhuguð landfylling í Álfsnesi hafi verið til umræðu á fyrri stigum og er að spyrja um þetta þess vegna. Upplýsingar um landfyllingu þarna voru í fréttum þann 1. mars og fram kom að til viðbótar lóð þeirri sem fyrirtækið Björgun hefur fengið úthlutað megi fyrirtækið bæta við stóru landfylltu svæði. Í svari við fyrirspurn segir hins vegar “að allar upplýsingar um umrædda landfyllingu lágu fyrir í umfjöllun um málið í skipulags- og samgönguráði.” Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta hafi verið í smá letrinu? En hvað sem öðru líður liggur enn í loftinu sú spurning hvort nauðsynlegt sé að landfylla? Fyrir utan að fá lóð sem er 3,4 hektarar megi fyrirtækið Björgun fá að ,,landfylla“ 4,1 hektara. Þetta er yfir 20% stærra svæði en lóðin er.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um skilti á steyptum sökklum í Pósthússtræti

Í miðbæ Reykjavíkur var nýverið stillt upp upplýsingaskiltum í Pósthússtræti við Austurvöll. Skiltin eru á steinsteyptum stökklum þar sem áður voru bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort þarna eigi að vera skilti til framtíðar?

Hver er kostnaður borgarinnar í tengslum við þessi skilti?

Er það stefna borgarinnar að skipta út bílastæðum í miðbænum fyrir skilti á steyptum sökklum?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um að fá yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur Flokks fólksins sem lagðar hafa verið fram í skipulags- og samgönguráði:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá yfirlit frá skipulags- og samgöngusviði yfir öll framlögð mál Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði á kjörtímabilinu, málum sem er lokið og þeim sem er ólokið. Á fundi borgarráðs 24. júní var lagt fram slíkt yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur Flokks fólksins framlögð í borgarráði. Óskað er eftir sambærilegu yfirliti frá skipulags- og samgönguráði.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um fund varðandi Arnarnesveg að skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að haldinn verði sameiginlegur fundur með Vinum Vatnsendahvarfs, Betri samgöngum og Vegagerðinni þar sem rætt verður um fyrirhugaða lagningu 3ja. áfanga Arnarnesvegar.

Á fundinum skal ræða áhrif sem lagning hraðbrautarinnar hefur á Vatnsendahvarfið, nærliggjandi umhverfi og umferð. Að baki Vinum Vatnsendahvarfs standa mörg hundruð manns. Byggja á framkvæmdina á 18 ára gömlu umhverfismati. Marg ítrekað hefur verið óskað eftir að nýtt umhverfismat verði gert.

Vatnsendahvarfið er náttúruperla og dýrmætt grænt svæði sem liggur á mótum Reykjavíkur og Kópavogs. Svæðið er mikið nýtt útivistarsvæði og útsýnissvæði íbúa nágrennisins. Einnig er Vatnsendahvarfið varpland fjölmargra fuglategunda, þar á meðal lóu, hrossagauka og spóa. Fyrirhugaður 3. kafli Arnarnesvegar mun koma til með að skera Vatnsendahvarfið í tvennt og breyta ásýnd þess og notagildi. Umhverfismat sem framkvæmdin á að byggja á er frá 2003. Á þessum tæpum tveimur áratugum hefur mikið breyst á svæðinu auk þess sem ekki liggur fullljóst fyrir hvaða áhrif þessi framkvæmd hefur á umhverfi, útivist, umferð og hljóðvist.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld haldi fund með Vinum Vatnsendahvarfs, Vegagerðinni og Betri Samgöngum hefur verið felld með þeim rökum að ekki er hefð fyrir því að haldnir séu sameiginlegir fundi með hagaðilum. Fram til þessa hefur ekki virðst vera mikill vilji til samtals um þetta mál hvað þá samráðs. Ekki er verið að biðja um annað en að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð, að fengið verði nýtt umhverfsimat í stað þess að notast við mat frá 2003. Þess utan er um að ræða lýðheilsumál því við hlið hraðbrautarinnar verður leiksvæði barna, vetrargarður.

Ekki hefur verið tekið mark á umsögnum Vina Vatnsendahvarfs, Íbúaráðs Breiðholts, og Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur sem öll mæltu með því að nýtt umhverfismat yrði gert fyrir framkvæmdina. Með því að bjóða fólki að senda umsagnir var aðeins sýndarlýðræði.

Sextíu metra breið gjá verður sprengd inn í Vatnsendahvarfið í byrjun næsta árs til að leggja þessa stofnbraut sem mun eyðileggja þetta dýrmæta útivistarsvæði til frambúðar. Þessi stofnbraut, sem tengist við Beiðholtsbrautina sem er nú þegar er sprungin, mun skapa mun fleiri vandamál en hún er hönnuð til að leysa. Þegar framkvæmd af þessari stærðargráðu er fyrirhuguð er betra að fara hægt en að æða áfram í vanhugsun.