Borgarstjórn 7. desember 2021

Tillögur Flokks fólksins við Síðari umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026

F1 Tillaga um fríar skólamáltíðir.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að foreldrar þeirra verst settu fái fríar skólamáltíðir fyrir börn sín í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Í því felst að einstæðir foreldrar með tekjur undir 442.324 kr. á mánuði (þ.e. 5.307.888 kr. á ári) fái fríar skólamáltíðir í skólum borgarinnar fyrir börn sín. Miðað verði við frítekjumörk einstæðra foreldra sem njóta stuðnings og eru með tekjur undir kr. 5.307.888 á ári. Heildarkostnaður við tillöguna nemur 27,5 m.kr. Fjárhæðin komi til hækkunar á fjárheimildum skóla- og frístundasviðs og verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum þjónustu- og nýsköpunarsviðs sbr. tillaga 2.

Greinargerð:

Talið er að einstæðir foreldrar, þ.e. öryrkjar, atvinnulausir og annað lágtekjufólk (ein fyrirvinna), búi við- og í hættu að falla í fátækt. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru börn einstæðra foreldra í Reykjavík 7.251 undir 18 ára (2021). Þar af er talið að 2.465 börn (34% barna) einstæðra foreldra búi við- og séu í hættu á að falla í fátækt. Það eru 811 börn í leikskólum og 1.654 börn í grunnskólum borgarinnar.

Samkvæmt gjaldskrá Reykjavíkurborgar kostar máltíðir fyrir barn í leikskóla 12.107 kr. á mánuði og skólamáltíð í grunnskóla 10.711 kr. á mánuði. Tillagan felur í sér að börn einstæðra foreldra í leikskólum: þ.e. 811 börn fái frían morgunverð, hádegisverð, síðdegishressingu, þ.e. 12.107 kr. pr. barn á mánuði. Ennfremur fái börn einstæðra foreldra Í grunnskólum: 1.654 börn, fría skólamáltíð, þ.e. 10.711 kr. pr. barn á mánuði.

Frítekjumörk einstæðra foreldra, byggja á „framfærsluviðmiði“ Umboðsmanns skuldara (UBS). Þar er miðað við að fólk geti aðeins veitt sér lágmarksframfærslu um takmarkaðan tíma, meðan verið er að hjálpa fólki úr skuldavanda. Þegar talað er um lágmarks framfærsluviðmið er jafnframt miðað við að fólk hefði tekjur sem duga til lágmarks­ framfærslukostnaðar. Lágmarks framfærsluviðmið (UBS) fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framæri er kr. 230.693. Það er fyrir utan fæðiskostnað í skóla 11.631 og húsnæðiskostnað: Húsnæði er  170.000 kr. rafmagn, hiti, hússjóður og trygging 30.000 kr. Samtals: 442.324 kr. á mánuði. Árstekjur þurfa að vera 5.307.888 kr.

Í skýrslu um Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 (Skýrsla unnin fyrir Velferðarvaktina), segir, m.a.: Brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir látekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Allur þorri einstæðra foreldra er í neðri helming tekjudreifingar (Kolbeinn H. Stefánsson, 2019: 88). Það er samhljóða niðurstöðum rannsóknar um: Lífsskilyrði barnafjölskyldna á Íslandi: Hvað getur skýrt bága stöðu einstæðra mæðra með börn á framfæri (Harpa Njáls, 2009: Rannsóknir í félagsvísindum X, 153-167).

Smánarblettur á okkar auðuga samfélagi er hversu margir búa hér við sára fátækt. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þau langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum.

Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt kemur fram að um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Í skýrslunni er bent á að  auka þurfi hér jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi svo dæmi séu nefnd.

Þá þurfi að móta opinbera áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Slík stefna er ekki til þó að ótrúlegt megi virðast. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar  aðstæður.

Ójöfnuður hefur aukist vegna atvinnuleysis foreldra í COVID og framtíðarhorfur eru óljósar. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna. Tilkynningar um vanrækslu,  ofbeldi og áhættuhegðun barna hafa aukist um 20% – 23%. Húsnæðisaðstæður margar barna eru ótryggar. Húsaleiga er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar eða um 70% af ráðstöfunartekjum. Þetta leiðir til þess að fátækir foreldrar leita skjóls í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel hættulegt.

 

F2 Tillaga vegna áskrifta, innlendrar og erlendrar ráðgjafar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjárheimildir þjónustu- og nýsköpunarsvið verði lækkaðar um 27,5 m.kr., þar af verði áskriftargjöld lækkuð um 12,5 m.kr., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar lækkuð um 7 m.kr. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar lækkuð um 8 m.kr. Fjárhæðinni verði varið til að mæta tekjutapi vegna frírra skólamáltíða barna einstæðra foreldra í leik- og grunnskólum, sbr. tillaga 1.

Greinargerð:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið áætlar í ofangreind útgjöld 54 m.kr. á næsta ári, þar af í áskriftargjöld 25 m.kr., útgjöld vegna innlendrar ráðgjafar 15 m.kr. og útgjöld vegna erlendrar ráðgjafar 14 m.kr. Tillagan gerir ráð fyrir að hagræðing í ofangreindum útgjöldum nemi um 50%. Tillagan felur í sér að þjónustu- og nýsköpunarsvið segi upp erlendum áskriftum að hluta til og samningum við erlend ráðgjafarfyrirtæki auk innlendra áskrifta og ráðgjafar.

F3 Tillaga um fjölgun sálfræðinga og fagaðila
Lagt er til að hækka fjárheimildir til velferðarsviðs til að ráða á næsta ári nægilega marga sálfræðinga og annað fagfólk til að vinna á biðlistum vegna mikillar fjölgunar tilvísana í leik- og grunnskólum m.a. vegna afleiddra áhrifa Covid-19 faraldursins. Áætlaður heildarkostnaður við þessa tillögu er 200 m.kr. Fjárhæðin komi til hækkunar á fjárheimildum velferðarsviðs og verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum þjónustu- og nýsköpunarsviðs til fjárfestinga tækja- og hugbúnaðar.

Greinargerð:

Á biðlista fyrir þjónustu sálfræðinga eru núna 1680 börn samkvæmt upplýsingavef Reykjavíkurborgar https://velstat.reykjavik.is/PxWeb/pxweb/is/.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til hækkun á fjárheimild til velferðarsviðs verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum þjónustu- og nýsköpunarsviðs til að ráða nægjanlega margt fagfólk til að eyða biðlistum barna eftir nauðsynlegri þjónustu eins og sálfræðiþjónustu og talmeinaþjónustu.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fulltrúi Flokks fólksins hefur þótt ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar)  nota það gríðarmikla fjármagn sem sviðið hefur fengið til stafrænna verkefna illa og af lausung.

Stafræn umbreyting er nauðsynleg, um það er ekki deilt. Ráðist hefur verið  í hugbúnaðarframleiðslu með tilheyrandi tilraunastarfsemi og þenslu á mörgum verkefnum sem ýmist eru til annars staðar eða mættu í það minnsta bíða betri tíma.

Dæmi um slík verkefni eru ýmis „mælaborð“; Kosningakort; Sorphirðudagatal (sem var til fyrir); Samþættingar og ferlakerfi einhvers konar; Gæðastýring; Hugmyndasmiðjur um borgaraleg réttindi; Innovation Team, enn einn hugmyndaleikvangurinn sem tengist Bloomberg; Þekkingarbrunnur; Ferlateikningakerfi; Þróunarlínu og innviðir (uppfærslur á miðlægum tækjabúnaði sem hefði mátt bíða); Gagnvirk framsetning á skipuriti borgarinnar; Hvirfill,  viðburðardagatal (sem var til fyrir); Miðlægt fræðslukerfi og eflaust mætti telja fleiri.

Á meðan er beðið sárlega eftir öðrum nauðsynlegum stafrænum lausnum. Að fullklára Mínar síður, að fullklára innleiðingu Hlöðunnar sem er nýtt upplýsingastjórnunarkerfi

og Gagnsjánna sem er upplýsingamiðlunarkerfi en beðið hefur verið eftir báðum þessum lausnum í þrjú ár. Setja hefði átt sviðin velferðarsvið og skóla- og frístundasvið í forgang til að fullklára nauðsynlegar tæknilausnir á þar til að létta á starfsfólki við alls kyns skráningarhandavinnu og liðka fyrir þjónustuþegum.

Í stað þess að hefja strax samvinnu við Stafræna Íslands og gerast þátttakandi í þeim kerfum sem voru þá þegar tilbúin og komin í notkun annars staðar fór  ÞON í að finna upp hjólið. ÞON hefur þanist út, ráðið tugi sérfræðinga, sumum nappað úr einkageiranum, aukið við sig húsnæði og sett ómælt fjármagn í lúxus uppfærslur á húsbúnaði og annarri aðstöðu.  Þetta hefur fulltrúa Flokks fólksins þó sérkennilegt. Ef horft er til Stafræna Íslands þá eru það 8 manns sem halda uppi öllum þeim fjölda stafrænum lausnum sem finna má á island.is. Stafræna Íslands hefur það hlutverk að þjónusta notendur fyrst og fremst í stað þess að nota fjármagnið í að uppfæra sjálft sig.

Stafræna Íslandi hefur náð frábærum árangri að þjónusta sveitarfélög á meðan borgin þarf tugi sérfræðinga til að reyna að fullklára fjölda verkefni sem engin er að spyrja um.

Fulltrúi Flokks fólksins vonar að með gagnrýnni sinni hafi dropinn holað steininn og farið sé í vaxandi mæli að kaupa það sem hægt er að kaup „út í búð“.

 

F4 Tillaga um niðurfellingu á hagræðingarkröfu hjá SFS og VEL.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að afnema 1,0%

hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasvið og velferðarsvið árið 2022 vegna slæmrar

afkomu þessara sviða á tímum COVID-19.  Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 410.135 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 215.852 þ.kr. Samanlagt felur tillagan í sér aukin útgjöld sem nema 625.987 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostnaðarstað 09205. Sviðin geta að sjálfsögðu og eiga að hagræða eins og þeim er framast unnt án þess að það þurfi að gera körfu  komi krafa um það frá miðlægri stjórnsýslu.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillagna Flokks fólksins en allar tillögur hafa verið felldar.

Liður 1

Bókun Flokks fólksins við Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 ásamt greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs, síðari umræða, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október:

Fjármálastjórn innan Reykjavíkurborgar veldur áhyggjum í heild sinni. Veltufé frá rekstri í A-hluta er óásættanleg. Það er neikvætt á árinu 2021 og einungis er gert ráð fyrir að það verði um 1.9% af heildartekjum á árinu 2022. Til að rekstur Reykjavíkurborgar geti kallast sjálfbær þarf veltufé frá rekstri  að vera hærra en 9% af heildartekjum. Lántaka vex úr 9.4 milljörðum á árinu 2020 í 25 milljarða á árinu 2021. Á árinu 2022 er áfram gert ráð fyrir nýrri lántöku upp á 25 milljarða.  Afborganir langtímalána tvöfaldast milli áranna 2020 og 2022. Þær hækka úr 1.8 milljörðum í 3.6 milljarða. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur farið með skattpeninga af lausung og þanist út. Samtals eru 10 milljarðar lagðir til sviðsins á þremur árum. Á árinu 2022 eru útgjöld ÞON ætluð 4.5 milljarðar króna. Tekjur eru áætlaðar 1.5 milljarðar. Ekki verður séð að einstök verkefni hafi verið kostnaðarmetin né mat verið lagt á ávinning af hverju og einu þeirra. Ekki verður heldur séð að einstökum stafrænum lausnum hafi verið forgangsraðað eftir nauðsyn. Ekki hafa borist svör við ítrekuðum fyrirspurnum hvort lagt hafi verið mat á fjárhagslegan ávinning hvers og eins verkefnis og þeim forgangsraðað í framhaldi af því


Liður 2

Bókun Flokks fólksins við Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026, síðari umræða, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október:

Í fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022-2026 kemur fram sýn meirihluta borgarstjórnar á hvernig fjármál A-hluta borgarsjóðs þróast á komandi árum. Þar kemur fram að reksturinn muni fara batnandi á komandi árum. Í því sambandi er eðlilegt að velta fyrir sér hvort kostnaður við kaup á vörum og þjónustu sé vanmetinn þar sem hann hækkar mun minna en bæði launakostnaður og tekjuhliðin.
Á þessu tímabili mun skuldsetning A-hluta borgarsjóðs hækka verulega. Reiknað með að taka 92 milljarða kr. að láni á tímabilinu. Langtímaskuldir A-hlutans hækka úr 97 milljörðum  í 132 milljarða. Það gerir um eina milljón á hvern íbúa borgarinnar, einungis í A-hlutanum. Fyrirhugaðar fjárfestingar eru 142 milljarðar. Árlegar afborganir langtímalána hækka um 129%. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum er öll árin undir því sem metið er ásættanlegt. Það vekur einnig sérstaka athygli að veltufjárhlutfall lækkar úr 1.0 niður í 0,7. Það hefur í för með sér hækkun dráttarvaxta. Einnig er handbært fé í árslok undir lok tímabilsins einungis 58% af því sem það er í upphafi. Lausafjárstaða borgarinnar versnar þannig verulega vegna mikillar skuldaaukningar samtímis því að rekstrarniðurstaðan er lakari en en nauðsynlegt er. Flokkur fólksins varar við að halda óbreyttri stefnu í fjármálastjórn borgarinnar.

Liður 5
Bókun Flokks fólksins við tillögur meirihlutans:

Hluti breytingartillagna meirihlutans eru sjálfsagðar og mun fulltrúi Flokks fólksins styðja þær.
Aðrar eru þess eðlis að þær hækka álögur á fólk, seilst er í vasa þeirra verst settu og enn aðrar leiða til frekari þenslu báknsins, fleiri skrifstofustjóra og stærri yfirbyggingu. Ekki er amast út í verkefnin en skipuleggja þarf innviði sviða betur með hagræðingu í huga í stað þess að fara í þenslu á sviðum sem nú þegar eru ofþanin. Sem dæmi þá virkar tillaga um nýtt stöðugildi skrifstofustjóra þjónustu og samskipta frekar eins og búa eigi til áróðursmaskínu í aðdraganda kosninga.
Fulltrúi Flokks fólksins styður heldur ekki gjaldskrárhækkanir Sorpu eins og þær eru lagðar upp.
Nær væri að laga stjórnunin s.s. að reyna að ná tökum á stjórnun framkvæmda. Gert er ráð fyrir töluverðri lántöku hjá Sorpu eða upp á 230 milljónir. Á sama tíma á að fjárfesta fyrir 559 milljónir.  Það stingur í augu hvað  lausafjárstaðan er slæm.
Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir einnig gjaldskrárhækkunum bílastæðasjóðs. Álögur á borgarbúa eru miklar og nú eru allar gjaldskrár að hækka. Ekki fer mikið fyrir þjónustu fyrir allar þessar hækkanir. Gæta þarf hófs í gjaldskrárhækkunum og hafa í huga að þær koma verulega illa við pyngju margra.

Liður 6
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillagna Flokks fólksins en allar tillögur hafa verið felldar.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að börn foreldrar með tekjur undir kr. 5.307.888 á ári fái fríar skólamáltíðir. Um 2500 börn er að ræða. Heildarkostnaður við tillöguna nemur 27,5 m.kr. Til að fjármagna tillöguna verða fjárheimildir  ÞON ( þjónustu- og nýsköpunarsviðs) til  ýmis konar áskriftargjalda og útgjalda vegna erlendrar ráðgjafar  lækkaðar um sömu upphæð.
Tillaga Flokks fólksins um fjölgun fagaðila til að eyða biðlistum barna eftir m.a. sálfræðiþjónustu var einnig felld.
Á biðlista eru nú 1680 börn samkvæmt vef borgarinnar.  Áætlaður heildarkostnaður tillögunnar er 200 m. kr og verði hækkunin til velferðarsviðs fjármögnuð með lækkun  á fjárheimildum til fjárfestinga tækja- og hugbúnaðar hjá ÞON. Með öðrum orðum þá er fjármagnið í tillögurnar sótt til ÞON og er það rökstutt ítarlega í greinargerðum. Stafræn umbreytingarverkefni eru nauðsynleg en skort hefur á eðlilega forgangsröðun, skýrum markmiðum og rökstuddum tímasetningum verkefna. Miklu hefur verið eytt í óþarfa tilraunir á hugbúnaði sem nú þegar fyrirfinnast annars staðar.   Í stað þess að hefja strax samvinnu við þá sem eru lengra komnir hefur ÞON  þanist út, ráðið tugi sérfræðinga og hagar sér nú eins og hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði. Hluta fjárheimildar til ÞON er því betur varið til að gefa fátækum börnum frítt að borða og til að eyða biðlistum

 

FYRIRVARINN

Fulltrúi Flokks fólksins telur vísbendingar vera um óábyrga fjármálastjórn Þjónustu- og nýsköpunarsvið á því mikla fjármagni sem sviðið hefur fengið til stafrænna verkefna.

 Það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa, endurskoðenda og innri endurskoðunar að gera viðvart ef grunur vaknar um að:

  1. Verkefnum sé ekki forgangsraðað með brýnar þarfir borgarbúa að leiðarljósi
  2. Verkefni séu ekki skilgreind af fagmennsku með skýrri markmiðssetningu
  3. Lausatök séu í fjármálastjórn 
  4. Hagkvæmni sé ekki höfð að leiðarljósi s.s. með því að hafna samstarfi við Stafrænt Íslands.