Skipulags- og samgönguráð 9. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við svari áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um fundarsköp:

Í svarinu er ekki betur séð en að skipulags- og samgönguráð tekur sé leyfi til að gera hluti með öðrum hætti en önnur ráð. Segir að ef það sé vafi uppi um bókanir eða hvort fulltrúi hafi leyfi til að bóka skeri formaður úr hvort bókun uppfylli skilyrði. Fulltrú Flokks fólksins finnst þetta ansi langt gengið í geðþóttaákvörðunarvaldi meirihlutans/embættismanna í skipulagsráði. Í engu ráði hefur tjáningarfrelsi hvað varðar bókanir verið lamið eins niður og í skipulags- og samgönguráði. Í fyrstu var þetta leyfilegt en nú skyndilega er búið að banna þetta. Það er miður því slíkt skapar bara leiðindi og upplifir fulltrúi Flokks fólksins þetta sem valdníðslu. Bókanir eru eina tjáningarform minnihutafulltrúa til að koma sinni afstöðu út af lokuðum fundum. Það er afar ólýðræðislegt að banna bókanir við liði sem eru til upplýsinga enda engin ástæða til þess. Það er hægt að hafa skoðun og taka afstöðu til „gagna sem lögð eru fram til upplýsingar“. Það er mikið vald að geta ákveðið hvenær bókun minnihlutafulltrúa er metið að „uppfylli ekki skilyrði“ eins og það er orðað í svari. Skjalakerfið- Erindreki er notað í skipulagsráði, en ekki í öðrum ráðum. Hér er þörf á skýringu og finna þarf síðan á þessu lausn.

Samantekið:
Samkvæmt svari þessu eiga sveitastjórnarfulltrúar ekki rétt á því að leggja fram bókanir við bréfum  borgarstjóra vegna þess að réttur þeirra nær aðeins til þeirra mála sem eru til umræðu eða afgreiðslu. Það er miður að verklag nefndarinnar skuli takmarkast svo mjög við hið lögbundna lágmark og sérstaklega í ljósi þess að öðruvísi verklag tíðkast í öðrum nefndum á vegum borgarinnar. Þá er það alveg dæmigert að borgin skuli halda úti sérstöku skjalakerfi á þessu tiltekna sviði. Erfitt er að sjá hagkvæmnina í slíku fyrirkomulagi. Þá er það engin skýring að segja að kerfin bjóði ekki upp á að draga út skjal þar sem kemur fram heiti fundarliða. Er þá ekki hægt að afrita upplýsingar úr kerfinu yfir í önnur forrit og miðla þeim þannig áfram? Það hlýtur að vera hægt að taka saman dagskránna fyrirfram.
Varla er hún gripin úr lausu lofti þegar fundur hefst.

Bókun Flokks fólksins við tillögu skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 4. júní 2021:

Lagt er til að samþykkt verði bílastæði við Skólavörðustíg og Laugaveg sem verður sérmerkt fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju einasta stæði sem samþykkt er fyrir hreyfihamlaða og vonar fulltrúi Flokks fólksins að ákvörðun um þessi stæði hafi verið tekin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðra. Þessi málflokkur hefur orðið undir hjá meirihlutanum í borginni og við ákvörðun að loka fyrir umferð bíla og gera göngugötur þá má segja að fatlaðir og þeir sem eiga erfitt um gang hafa verið skildir eftir úti í kuldanum. Almennt er aðgengismál fatlaðra í miðbænum erfiðleikum háð og er í raun kapituli út af fyrir sig. Því miður er það þannig að margir fatlaðir finna sigi ekki lengur velkomin í bæinn og fara ekki þangað nema tilneyddir.


Bókun Flokks fólksins við Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, kynning og Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 2, deiliskipulag, kynning. Einnig við tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 2. – Sævarhöfði á Ártúnshöfða.

Fulltrúi Flokks fólksins upplifir sig eins og gömul grammófónplata en ætlar enn og aftur að endurtaka mótmæli vegna væntanlegra landfyllinga á þessu svæði. Allt undirlag er á landfyllingu. Byggja á allt að 3500 íbúðir í 1. og 2 áfanga og 8000 íbúðum þegar allt er komið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga. Hætta ætti því við landfyllingar á svæði 1 og 2.

Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert orðið, búin til gerviveröld sem sumum þykir smart. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar með fram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Varðandi iðnaðarsvæðið þá felst breytingin í því að minnkar skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Um bílastæðin: Fækkun og 70% samnýting bílastæða er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp. Samráð þarf að vera við borgarbúa um þetta.

Bókun Flokks fólksins við tillögu skipulags- og samgönguráðs, um að fjarlægja þverslár á hjólaleiðum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari tillögu um að fjarlægja járnslár á hjólreiðastígum. Ekki er liðinn nema einn fundur síðar Fulltrúi flokks fólksins nefndi í bókun að járnslár á göngu- og hjólastígum þurfi að fjarlægja enda skapa þær hættur. Nú er þetta orðið að tillögu meirihlutaflokkana. Hér er reyndar talað um þverslár en þverslá er ekki þverslá fyrir þá sem koma hjólandi samsíða “þverslám”. Um er að ræða járnslár, stuttar og langar sem mæta hjólreiðamönnum stundum að framan og stundum frá hlið og kemur í veg fyrir að þeir geti hjólað hindrunarlaust. Þær eru því bæði hættulegar ef rekist er á þær á ferð og einnig sannarlega óþarfar. Sama á við alla þá sem koma á öðrum farartækjum eða styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla, sem mega vera á þessum stígum. Hvað sem þessu líður þá er ánægjulegt að vel var tekið í að hafa þessa tillögu sameiginlega tillögu skipulags- og samgönguráðs.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu varðandi endurskoðun verklags í aðdraganda skipulagslýsingar:

Tillögu Flokks fólksins um að endurskoða vinnubrögð í aðdraganda þess að mál eru send í skipulagslýsingar hefur verið felld. Það er miður. Staðan í dag er þannig að skipulagsyfirvöldum er ekki skylt að svara ábendingum og athugasemdum sem berast áður en mál er sent í skipulagslýsingu. Þessu þarf að breyta enda er það virðing við fólk sem sendir inn ábendingar að þeim sé svarað. Það græða allir á því að eiga samskipti. Athugasemdir frá fólki, á hvað stigi sem málið er, getur aldrei verið annað en gagnlegt. Sá sem hefur haft fyrir því að senda inn ábendingu hefur lagt það á sig að koma hugsun/hugmyndum sínum frá sér til valdhafa og á það skilið að honum sé svarað með einum eða öðrum hætti. Það ætti að vera skipulags- og samgöngusviði að meinalausu að endurskoða þetta verklag enda myndi felast í því auknar líkur á að fá ítarlegri upplýsingar sem tvíhliða samskipti leiða af sér. Því víðtækari upplýsingar því meiri líkur á faglegum vinnubrögðum. Tvíhliða samskipti eru vísari með að skila þekkingu og innsýn í mál . Þegar viðkomandi sendir inn ábendingar en fær engin viðbrögð verða engin frekari samskipti.

.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Laugarásveg
Mál nr. US210156

Nýlega var ákveðið að lækka hraðann á Laugarársvegi og fleiri íbúagötum og götum þar sem börn fara um niður í 30. Hins vegar vantar enn hraðamerkingar t.d. á Laugarásvegi. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær eigi að setja um þessi skilti? Hvenær á að klára verkið? Ekki dugar að hætta við verk þegar hálfnað er.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Haðarstíg
Mál nr. US210146

Málefni Haðarstígar hafa áður komið til umfjöllunar. Eldsvoði varð á Haðarstíg síðastliðið sumar og vöktu íbúar þar athygli borgaryfirvalda á afleitum brunavörnum en þar bólar ekkert á endurbótum við stíginn sem fyrirhugaðar voru 2018 og 2019. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ábendingum íbúa hefur ekki verið svarað?
Skipulagsyfirvöld státa sig af samráði en það virðist hafa brugðist. Íbúum var sagt fyrir tveimur árum að endurbótum hafði verið frestað án skýringa.
Haðarstígur er göngustígur, ein þrengsta gata Reykjavíkur og illmögulegt að koma stórum slökkviliðsbíll þangað. Þar er enginn brunahani, sem torvaldar slökkvistarf í þessum þéttbýla reit, þar sem húsin standa áföst hvert öðru. Hér er allt of mikið í húfi. Þegar kemur að öryggi sem þessu gengur ekki að borið sé við fjárskorti. Fram hefur komið hjá íbúum að ástand götunnar sé orðið mjög bágborið. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að gyrða sig í brók í þessu máli áður en annað slys verður.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, byggingarfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi útboð
Mál nr. US210149

Reykjavíkurborg braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki þurfi að vera með virkt endurmenntunarkerfi fyrir helstu stjórnendur borgarinnar þar sem t.d. nýjar reglugerðir og ný lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennd? Það er líklega mun hagstæðara en að þurfa hvað eftir annað að greiða sektir sem skapast við slæma stjórnsýslu og laga- og reglugerðarbrot Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg hefur oft áður verið talin brotleg í málum sem kostað hefur borgarbúa milljónir. Í þessu máli halda engin rök og þau veiku rök sem borgin lagði fram hafa verið hrakin lið fyrir lið. Þegar slíkt gerist þarf að bæta vinnubrögð og tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta stríð borgarinnar gagnvart lögum og reglum ekki bara þreytandi heldur með öllu óásættanlegt af stjórnvaldi sem borgarbúa eiga að geta treyst sérstaklega þegar kemur að því að fylgja lögum og reglum.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Borgarlínu
Mál nr. US210164

Nýlega voru birtar niðurstöður könnunar MMR þar sem fram kom að 44% svarenda töldu að til væru hagkvæmari leiðir til að ná góðum eða betri árangri við að bæta almenningss samgöngur en uppbygging Borgarlínu. Svarendur voru 611.Tæpur þriðjungur sagðist aldrei myndi nota hana. Meirihlutinn í borginni hefur iðulega tekið mikið mark á niðurstöðum kannanna sem þessara t.d. og stutt sig við þær í ákvarðanatökum sínum sbr. göngugötur. Þegar spurt hefur verið um vinsældir flokka í borginni hafa meirihlutaflokkarnir tekið þær niðurstöður háalvarlega. Því vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja nú hvort skipulagsyfirvöld í borginni ætli að taka til greina þessar niðurstöður sem sumar eru býsna afgerandi.

Spurt var um andstöðu við fækkun akreina fyrir bíla og sögðu 65% svarenda vera mjög eða frekar andvíg fækkun akreina á Suðurlandsbraut fyrir bíla úr fjórum í tvær til að rýmka fyrir uppbyggingu Borgarlínu. Þá var ríflegur meirihluti andvígur lækkun hámarkshraða á borgargötum en fjórðungur var hlynntur þeim. Meirihluti svarenda var einnig andvígur fjölgun hraðahindrana til að draga úr hraða á götum. Þetta eru býsna afgerandi niðurstöður.

Frestað.