Velferðarráð 17. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við liðnum kynningar um stöðu geðheilbrigðsmála í Reykjavík vegna kórónuveiru:

Farið er yfir rannsóknaniðurstöður. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að skoða geðheilbrigðismál vegna kórónuveirufaraldursins. Rannsóknir sýna að líðan grunnskólabarna hefur farið versnandi eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Fleiri eru einmana og áhyggjufull. Nú er mikilvægt að tryggja að þau fái tækifæri til að ræða sína vanlíðan. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig  börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í  vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála.  Skólakerfinu hefur sem betur fer tekist að halda sjó að mestu á þessu krefjandi tímabili.  Þess vegna er mikilvægt að hlúð sé að skólum, starfsfólki og innviðum skólanna. Svarti bletturinn eru biðlistar til fagaðila skólanna. Úr þeim málum verður að fara að leysa. Reykjavík getur ekki verið þekkt fyrir að hunsa vanlíðan barna og láta þau dúsa á biðlista mánuðum saman. Annar viðkvæmur hópur eru eldri borgarar. Margt er gert fyrir þennan hóp en langt er í land að þjónusta sé heildstæð. Umfram allt er nú að sýna hvernig gögnin eru notuð og hvaða árangur hlýst þar af.

Bókun Flokks fólksins við svörum við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um leiðir til að mæta þörfum eldri borgara fyrir hár- og hand/fótsnyrtingar:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um leiðir til að mæta þörfum eldri borgara og öryrkja fyrir hár,  hand- og fótsnyrtingu. Fram kom í svari að rekstraraðilar eiga að sjá um að þessi þjónusta standi til boða.  Þeim spurningum sem er ekki svarað hins vegar eru hvernig er valið á þjónustuveitendum háttað, fyrir utan að fram kemur að horft sé til reynslu. Hvernig er umsóknarferlið og hver ber ábyrgð á þjónustunni og annast eftirlit með henni? Kemur velferðarsvið eitthvað þar að og ef svo er, að hvað miklu leyti?

Þetta eru veigamiklar spurningar og svörin gætu varpað ljósi á hvort misræmi sé milli þjónustunnar eftir stöðum. Nauðsynlegt er að hafa eftirlit með þjónustunni og einhver þarf að bera skýra ábyrgð á henni. Þjónustuþegar þurfa að vita hver ber ábyrgðina.  Huga þarf að fagmennsku enda hér um lýðheilsumál að ræða. Regluleg þjónusta sem þessi getur hindrað að vandamál vindi upp á sig því hand- og  fótsnyrting er ekki aðeins að klippa neglur. Hafa ber í huga að það eiga ekki allir heimangengt til að sækja sér þessa þjónustu út í bæ t.d. vegna slappleika eða fötlunar.

 

Fulltrúi flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um þjónustueiningu sem lýtur að  ábyrgð velferðaryfirvalda að mæta þörfum eldri borgara og öryrkja fyrir hár,  hand- og fótsnyrtingu í heimahúsi og í þjónustukjörnum fyrir alraða:

Huga þarf að samræmingu, gæðum og góðu samstarfi á milli þeirra sem sjá um málaflokkinn. Það þarf að vera skýrt hverjir bera ábyrgð á þessari þjónustu þannig að ef upp koma vandamál henni tengdri, hvert á þjónustuþeginn að leita.

  1. Í framhaldi af svari við fyrirspurnum um hár,- hand- og fótsnyrtingu fyrir eldri borgara sem búa heima og í þjónustu- og félagslegu húsnæði Reykjavíkurborgar sem ætlað er eldri borgurum og öryrkjum óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hver innan þjónustueininganna hefur yfirumsjón með þessum þjónustuþáttum, ber aðalábyrgðina.

    2. Hvert eiga þeir að leita/snúa sér sem hafa áhuga á að bjóða fram þjónustu sína og gera leigusamning við Reykjavíkurborg?

    3. Ber velferðarsvið einhverja ábyrgð á þessum þjónustuþætti þ.e. hvort hún sé t.d.  byggð á faglegum grunni? 4. Ef upp koma einhverjir misbrestir með þjónustuna, hvert eiga þjónustuþegar þá að leita? 5. Einnig er spurt, stendur eitthvað húsnæði, undir slíka þjónustu sem hér um ræðir, autt? Ef svo er hvað eru þau mörg og hver er ástæða þess að þau standa auð?