Skipulagsráð 14. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Arnarnesvegur, undirbúningur, kynning

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa skipulagsvaldið og geta farið fram á aðra útfærslu með lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Flokkur fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að tengja má veg frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf. Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi. Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs. Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Fulltrúi Flokks fólksins vill varðandi fyrirhugaða eyðileggingu Vatnsendahvarfs með hraðbraut höfða til betri vitundar og minna formann skipulagsráð á stefnu Pírata í umhverfismálum. Það er ekki langt síðan birtar voru yfirlýsingar Pírata sem hljóðuðu svona:„Við erum með bestu loftslagsstefnuna. Við höfum lagt fram öflugan Grænan sáttmála. Við höfum unnið mikla vinnu í átt að sjálfbærni í Reykjavíkurborg.“

Hvernig samræmist fyrirhuguð lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið, sem leiða mun til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru, hugmyndafræði Pírata og formanns skipulags- og samgönguráðs? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum að ætla að leggja hraðbraut nánast ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð og spengja fyrir hraðbraut þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Vetrargarður í Breiðholti, kynning:

Hugmynd um Vetrargarð er í uppnámi vegna fyrirhugaðrar lagningar hraðbrautar þvert yfir Vatnsendahvarf. Byggt er á úreltu umhverfismati. Er það siðferðislega verjandi fyrir svona „græna“ borgarstjórn að fara ekki fram á nýtt umhverfismat, sérstaklega í ljósi þessara nýju áætlana með Vetrargarðinn? Það eru engin rök að segja að ekki sé „venja“ að fá nýtt umhverfismat þegar verk er hafið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld varpa allri ábyrgð ýmist á Vegagerðina, bæjarstjórn Kópavogs eða Samgöngusáttmála Allar forsendur hafa breyst. Þarna á að fórna dýrmætu grænu svæði, sem er varplendi ýmissa farfuglategunda fyrir úreltar áætlanir og allar áhyggjur íbúa hafa hingað til verið hunsaðar. Íbúar í Fellahverfinu hafa t.d. miklar áhyggjur af því að fá mislæg gatnamót ofan í garðana hjá sér og að þessar aðgerðir muni koma til með að lækka húsnæðisverð á svæðinu. Komi þessu vegur þar sem honum er ætlað mun það verða stórfellt umhverfisslys sem mun auka umferð og mengun í nálægð við íbúahverfi og eyðileggja dýrmætt grænt svæði.

Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að fá í hendur öll gögn um þetta mál, nýjustu uppdrætti svo sem varðandi tengingar við Breiðholtsbraut, nábýli við Vetrargarð, breidd geilarinnar sem sprengt er fyrir (40-50 m?), afvötnun upp af Jóruseli og göngu/reiðhjólabrú.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Kjalarnes, Nesvík, deiliskipulag:

Nú á að afgreiða tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, sem felst í uppbyggingu á ferðaþjónustu á jörðinni. Fram hafa komið athugasemdir og kvartanir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þetta mál þar sem lögð er áhersla á að vinna með íbúum. Það var ekki gert á fyrstu stigum. Segja má að komið hafi verið aftan að íbúunum. Þau rök sem skipulagsyfirvöld setja fram “að aðalskipulagið gerði ráð fyrir byggingum” halda ekki. Ekkert aðalskipulag er heilagt og stundum koma upp aðstæður sem krefjast breytinga.

Það sættir sig enginn við að fá aðeins tilkynningu um hvað skuli gert á svæði eða reit. Með samtali þar sem íbúar eru þátttakendur frá byrjun hefði mátt draga úr að óánægja skapist síðar. Enn og aftur hafa skipulagsyfirvöld gengið of langt í yfirgangi. Hvað þetta svæði varðar vill fulltrúi Flokks fólksins benda á að þarna er verið að nema nýtt land og spyrja á hvort það sé vilji íbúa og annarra hagsmunaaðila hvort það sé vilji til að fórna þessu svæði undir hótel. Svona svæði eru takmörkuð auðlind. Sjávarlóðir sem snúa móti suðvestri eru ekki óendanlegar. Á öllum slíkum svæðum hefur einhvern tíma verið byggð og iðulega má þar rekja mannvistarþróun.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Erindi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, reglur Bílastæðasjóðs:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur en ábendingar hafa borist vegna stífra reglna Bílastæðasjóðs um úthlutun Íbúakorta. Kvartað er yfir því að ekki sé hægt að fá íbúakort nema eiga bifreið og þeir sem eru með bílaleigubíla á langtímaleigu eða um stundarsakir t.d. vegna sérstakra aðstæðna eða viðgerða á eigin bifreið fái neitun við slíkum erindum. Nú reynir á að sýna lipurð og leysa mál af þessu tagi. Bærinn er gjörbreyttur og gera þarf nauðsynlegar aðlaganir. Það er bráðnauðsynlegt að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri og horfa á þær út frá sjónarhorni þjónustuþegans og þörfum hans fyrst og fremst.

Bókun Flokks fólksins við við frávísun fyrirspurnar Flokks fólksins, er varðar Arnarnesveg

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar fyrirhugaðan Arnarnesveg og hvernig sú framkvæmd samræmist grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda hefur verið vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitíska afstöðu ráðsmanna til málsins. Spurningin varðar skipulagsmál borgarinna og er mikið í húfi. Fyrirhuguð hraðbraut sem verður klesst ofan í Vetrargarðinn mun gjörbreyta þessu umhverfi enda örstutt á milli fyrirhugaðs Vetrargarðs og hraðbrautarinnar. Skipulagsyfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á fjöldann allan, bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins.

Vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur mun ekki skerða uppbyggingu Vetrargarðsins í Breiðholti. Formlegar fyrirspurnir eru til af afla gagna fyrir kjörna fulltrúa en ekki til að krefja aðra kjörna fulltrúa um pólitíska afstöðu til einstakra mála. Fyrirspurninni er því vísað frá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu aðferðarfræðinnar LEAN:

Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN.
Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum.
Einnig er spurt:

Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild?

Ástæða fyrirspurnanna.

Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort fjölga eigi metanstöðvum í Reykjavík

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort fjölga eigi metanstöðvum í Reykjavík. Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10.

Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar

 

Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti.

Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.

Frestað.